Goðasteinn - 01.09.2008, Page 105
Goðasteinn 2008
Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur
Líkleg útbreiðsla skóga
áíslandi á 12.-15. öld
Erindi flutt á Oddastefnu 2007
Hér verður ijallað um vísbendingar um útbreiðslu skóga sem lesa má úr máldög-
um og öðrum fornbréfum frá 12. - 15. öld. Máldagarnir sýna m.a. að kirkjur áttu
skóga á ákveðnum svæðum, stundum margar saman, á svæðum eins og Þórsmörk,
Þjórsárdal, Skorradal, Norðurárdal og Fnjóskadal. Nokkur dæmi má tína til:
Melstaður í Miðfírði átti skóg í Norðurárdal í Borgarfirði skv. Auðunnarmáldög-
um.1 Höfðakirkja í Höfðahverfi við austanverðan Eyjafjörð átti „skógarfleka
hálfan“ í Fnjóskadal.2 Glæsibæjarkirkja í Eyjafirði átti einnig skógastöðu í
Fnjóskadal.3 Brautarholtskirkja á Kjalamesi, Heyneskirkja á Akranesi, Leirár-
kirkja í Leirársveit og Hvanneyrarkirkja áttu að því er virðist allar skóg í Skorra-
dal, í skógum sem hétu nöfnum eins og Festarskógur og Margrétarskriður.4
Máldagar eru lítt rannsakaður flokkur heimilda um íslenska miðaldasögu og ná
raunar allt fram á 17. öld og jafnvel lengra. Máldagar em skjöl um eignir kirkna,
skrifaðir á íslensku, og eru hinir elstu þeirra frá 12. öld. Þeir eru prentaðir í Hinu
íslenska fornbréfasafni. Mikil þörf er á að kanna þessar heimildir skipulega og
mun betur en gert hefur verið og jafnvel gefa þá aftur út með skýringum, eins og
gert er við íslendingasögur með reglulegu millibili. 1 máldögunum eru miklar
heimildir um allt milli himins og jarðar sem viðkemur íslenska samfélaginu á
þessum tíma, byggð, landbúnað, landnýtingu, átrúnað, bókmenntir, kirkjugripi og
margt fleira. Þessar upplýsingar er hvergi annars staðar að fínna.
Frá Oddastefnu 2007
103