Goðasteinn - 01.09.2023, Blaðsíða 254
252
Goðasteinn 2023
Í Stálvík eignaðist hún góðan vin, Benedikt Egilsson, og hófu þau sambúð í
húsi Siggu í Garðabænum þar sem þau áttu heimili í 15 ár saman. Sigga keypti
sumarhús sem sett var niður á sælureit í landi Mið-Grundar. Samvinnan var
góð, Sigga hannaði en Benedikt smíðaði. Þar áttu þau margar ánægjustundir
með fjölskyldu sinni og vinum. Um árabil sungu þau saman í kór eldri borgara
og höfðu af því mikla ánægju.
Benedikt andaðist 17. janúar 2010.
Sigga var mikil kjarnakona, lífsreynd og dugleg með afbrigðum. Hún var
glaðsinna að eðlisfari og skemmtilega hláturmild sem án efa hjálpaði henni alla
tíð. En hún var líka afar ákveðin og stóð föst á sínu ef því var að skipta. Hún var
hugmikil þegar kom að daglegum störfum, en ekki síður ef eitthvað óvenjulegra
stóð til. Var dugmikill bóndi og nærgætin húsmóðir. Hún var fyrirhyggjusöm
matmóðir, sem sá ávallt til þess að nægur matur væri á heimilinu. Tók t.d. slátur
með börnum sínum og hjálpaði til við að búa heimili þeirra til vetrarins, eins og
hún hafði lært í sínum eigin búskap að reyndist hverju heimili best.
Hún dreif sig í bílpróf 1971 á sama tíma og Bára dóttir hennar og eignaðist
svo bíl sem jók sjálfstæði hennar til mikilla muna. Eftir það átti hún alltaf ágæta
bíla og var með smá bíladellu. Hún ætlaði sér nú raunar að sleppa alveg við að
aka um höfuðborgina og var búin að gera Stínu dóttur sína að bílstjóra þar. Eitt
sinn þegar átti að skreppa niður í Efstasund til Jóns Guðmanns bróður hennar,
neitaði Stína að keyra og afhenti móður sinni lyklana. Hún hélt nú ekki, sú
gamla, og þrefið endaði með því að þær stormuðu báðar aftur inn. Eftir smá
tíma hrifsaði svo Sigga lyklana af dóttur sinni með þessum orðum: „Jæja þá,
frekjan þín.“ Svo ók hún niður í Efstasund eins og ekkert væri og aldrei var
talað um að hún þyrfti bílstjóra í borginni eftir þetta.
Ömmubörnin og fjölskyldur þeirra minnast þess hve innilega gaman var að
spila við hana, t.d. á jólum. Á slíkum samkomum á Ásólfsskála var Mummi
venjulega spilafélaginn og ekki víst að þau hafi alltaf farið að öllum reglum
en öruggt að hávaðinn var ekki lítill. Þegar hún vildi fá rétt spil hjá Mumma,
sagði hún kannski um leið og hún leit út um gluggann: „Laufin eru að detta af
trjánum,“ og svo var hlegið.
Þegar hún heimsótti Stínu og Didda meðan þau bjuggu í Svíþjóð var erfitt
að hemja hana í biðröðinni í eina ferjuna og hún tróð sér fram fyrir, Svíunum
á svæðinu til mikillar gremju. Svo skildi hún ekkert í hvað fólkinu fannst erfitt
að drösla áfram stóru töskunum hennar.
Það var líka í þessari ferð sem hún hugðist taka sér far heim til Íslands frá
baðströnd við Århus í Danmörku, á risastórri dekkjaslöngu sem börnin höfðu