Bændablaðið - 15.08.2024, Page 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 15. ágúst 2024
Bændablaðið kemur út 23 sinnum á ári.
Upplýsingar um dreifingarstaði er að finna á vef Bændablaðsins: www.bbl.is
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim
í pósti gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (23. tölublöð) kostar kr. 17.500
með vsk. Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar kr. 13.900 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Borgartún 25, 4. hæð - 105 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Kt: 631294-2279
Útgefandi: Bændasamtök Íslands.
Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0300 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is
Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@bondi.is
Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 866 3855
Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: 33.000 – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Slök frammistaða
Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt
ylræktarframleiðenda, koltvísýring, og þá markaðsráðandi stöðu sem
eitt fyrirtæki í aðfangakeðjunni býr að.
Fyrir hefðbundið garðyrkjubú í ylrækt má varlega áætla að 12–15 prósent
af föstum kostnaði fari í þennan þátt framleiðslunnar. Hann er þriðji stærsti
kostnaðarliðurinn á eftir launum starfsmanna og raforku. Koltvísýringur
er grundvallarþáttur þegar rækta á heilbirgða og afkastamikla plöntu.
Framleiðslan stendur og fellur með því að koltvísýringur sé til staðar. Aðeins
eitt fyrirtæki, Linde Gas, útvegar bændum þessi aðföng. Markaðsráðandi
staða þess hér á landi gerir það að verkum að garðyrkjuframleiðsla á Íslandi
er háð því að fyrirtækið standi undir hlutverki sínu og skyldum. Linde Gas
leigir út gastanka með þeim skilyrðum að koltvísýringurinn sé keyptur frá
þeim. Þrátt fyrir að bændur lúti þessum kröfum, og gangist undir sífelldar
verðhækkanir á bæði leigu og listaverði á koltvísýringi, hafa þeir samt
þurft að þola viðvarandi takmarkanir og gloppótta
afhendingu á vörunni. Þetta hefur haft bein áhrif
á afköst og rekstur garðyrkjustöðva og þar með
framboð grænmetis í verslunum.
Þessi einokun nær út fyrir framleiðslu matvæla
hér á landi. Sjúkrahús landsins eru víst einnig háð
fyrirtækinu um súrefni. Þannig hefur ríkið engan
möguleika á að bjóða út innkaup á súrefni því
Linde Gas á tankana og aðrir aðilar eiga því ansi
erfitt um vik að komast inn á markaðinn.
Linde Gas er í markaðsráðandi stöðu hér
á landi, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2013, en
fyrirtæki í slíkri stöðu hafa efnahagslega styrkleika til að geta hindrað virka
samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og getur það starfað án þess
að taka tillit til viðskiptavina og neytenda samkvæmt samkeppnislögum.
Misnotkun á markaðsráðandi stöðu er bönnuð. Orðrétt segir í lögunum
að misnotkun geti falist í því að: a) beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns
kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir, b)
settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum
til tjóns, c) viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams
konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt, d) sett sé
það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig
viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli
sínu né samkvæmt viðskiptavenju.
Linde Gas er í fullri eigu alþjóðlegrar risasamsteypu og hefur fyrirtækið
verið rekið hér á landi með gasalegum hagnaði undanfarin ár. Lætur nærri
að hagnaður sé um þrjátíu prósent af veltu og hafa arðgreiðslur til eigenda
verið afar ríflegar, eða þrír milljarðar króna á síðustu fimm árum.
Fyrirtækið hefur yfir að ráða einu virku kolsýruauðlind landsins. Á
Hæðarenda í Grímsnesi er hægt að vinna nær hreina kolsýru úr heitu vatni
sem nóg er af. Slíkum auðlindum þarf að sinna af myndarskap og heilindum
en einhver hörgull virðist vera á vilja eða getu fyrirtækisins til að halda vel
utan um innviðina. Samkvæmt bóndanum á Hæðarenda gætu náttúrugæðin
með góðu móti framleitt ríflega landsþörf af koltvísýringi. Fyrirtækið hefur
hins vegar réttlætt aukinn innflutning, og tilheyrandi verðhækkanir sem
þeim fylgja, með erfiðleikum við framleiðsluna í Hæðarenda.
Ekki gagnrýndu allir viðmælendur blaðsins verðskrá fyrirtækisins. En
auðheyrt er að garðyrkjubændur eru langþreyttir á gloppóttri afhendingu
vöru, sem þeir eru nú þegar búnir að samþykkja að greiða fyrir og þeirri
staðreynd að hegðun eins fyrirtækis gagnvart þeim geti haft bein áhrif á
framboð og gæði íslenskra garðyrkjuafurða.
Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri.
Þessi
einokun
nær út fyrir
framleiðslu
matvæla...
Landsmeðaltal á reiknuðu
afurðaverði fyrir kíló dilkakjöts
hækkar um 17 prósent á milli ára.
Fyrir komandi sláturtíð standa
sauðfjárbændum í raun tvær
afurðaverðskrár til boða þegar horft
er til hefðbundinna kjötafurðastöðva;
frá Sláturfélagi Suðurlands
(SS) annars vegar og hins vegar
afurðastöðvum í eigu Kaupfélags
Skagfirðinga (KS).
Samkvæmt útreikningum
Bændasamtaka Íslands á reiknuðu
afurðaverði greiðir SS 1.043
krónur á kíló dilkakjöts með
öllum álagsgreiðslum en KS – og
afurðastöðvar í eigu þess – 1.055
krónur á kíló dilkakjöts. Fjallalamb
fylgir verðskrá Norðlenska, sem er
nú í eigu KS.
Reiknað afurðaverð
hækkar talsvert
Unnsteinn Snorri Snorrason,
sem heldur utan um útreikninga
Bændasamtaka Íslands, segir að
reiknað afurðaverð hækki talsvert
á milli ára.
„Fyrir það fyrsta eru afurðastöðvar
að hækka grunnverðskrá um
átta prósent en einnig er verið að
auka vikulegt sláturálag og þá eru
svokallaðar álagsgreiðslur hærri í ár
en í fyrra. Eru átta prósent hjá öllum
aðilum en voru um fimm prósent
í fyrra. Þá hefur flokkun sláturfjár
einnig áhrif á hækkun reiknaðs
afurðaverðs og hún var mun betri
árið 2023 en 2022,“ segir hann.
Fækkun og samþjöppun
á eignarhaldi
Kjötafurðastöðvum hefur fækkað
á síðustu árum, auk þess sem
samþjöppun hefur orðið á eignarhaldi
afurðastöðva sem smám saman hefur
leitt til fækkunar á afurðaverðskrám.
Kaupfélag Skagfirðinga keypti
helmingshluta í Sláturhúsi KVH á
Hvammstanga í byrjun árs 2006 og
síðan hefur verðskrá KS gilt fyrir
bæði sláturhúsin.
Kjarnafæði eignaðist meirihluta
í SAH afurðum á Blönduósi á
árinu 2015, þar sem sláturhús hefur
verið rekið frá 1908. Kjarnafæði og
Norðlenska sameinuðust svo árið
2021, en Norðlenska hefur rekið
sauðfjársláturhús og kjötvinnslu á
Húsavík og stórgripasláturhús og
kjötvinnslu á Akureyri. Sameiginleg
afurðaverðskrá hefur síðan verið í
gildi fyrir Blönduós og Húsavík.
Sláturfélag Vopnfirðinga hætti
starfsemi eftir síðustu sláturtíð og
frá árinu 2021 breyttist starfsemi
Fjallalambs þegar ákveðið var að
hætta á íslenskum markaði með
lambakjöt. Nú selur fyrirtækið
eingöngu svið á innlendum markaði
undir eigin vörumerki. Þar er þó
áfram slátrað að hausti, en Kjarnafæði
Norðlenska hefur keypt allt kjöt.
Utan sláturtíðar hefur Fjallalamb
sinnt kjötsögun fyrir Kjarnafæði
Norðlenska.
KS keypti svo Kjarnafæði
Norðlenska í sumar, en kjötafurða-
stöðvarnar í eigu þess; Norðlenska,
SAH afurðir og Sláturhús KVH halda
áfram starfsemi sinni með svipuðu
sniði og áður.
Gott skref í leiðréttingu
á afurðaverði
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður
deildar sauðfjárbænda hjá
Bændasamtökum Íslands, segir þær
verðskrár sem séu komnar fram vera
gott skref í leiðréttingu á afurðaverði
til bænda. „Að mati okkar hjá deild
sauðfjárbænda þarf afurðaverð að
vera virkur hvati til að viðhalda
framleiðsluvilja stéttarinnar þannig
að þeir sem búgreinina stundi geti
samhliða rekstri búsins greitt sér
viðunandi laun og sinnt viðhaldi
eigna. Framleiðsla dilkakjöts hefur
dregist saman undanfarin ár vegna
afkomubrests og spurning hvort
hækkunin núna nái að snúa þeirri
þróun við þannig að hægt sé að
anna þörfum innanlandsmarkaðar á
komandi árum.“
Raunverð er breytilegt
Útreikningar Bændasamtaka Íslands
á reiknuðu afurðaverði byggja á
landsmeðaltali slátrunar og kjötmats
í vikum 34–44 árið 2023.
Vægi einstakra vikna í verðinu
byggir á sláturmagni á landinu öllu
og sömuleiðis kjötmati á landinu öllu
eftir einstökum vikum haustið 2023.
Vægi afurðastöðva í landsmeðaltali
er síðan eftir hlutdeild þeirra í slátrun
á tímabilinu í heild.
Það raunverð sem einstakar
afurðastöðvar greiða er síðan
breytilegt, enda er niðurstaða
kjötmats hjá hverri fyrir sig ekki sú
sama og landsmeðaltalið, né heldur
sláturmagn í einstökum vikum. Af
sömu ástæðum er meðalverð sem
einstakir bændur fá líka breytilegt.
Hvetja Bændasamtökin alla
bændur til að reikna út afurðaverð
samkvæmt forsendum þeirra bús, en
samtökin telja þessa útreikninga gefa
eins góða mynd og hægt er út frá
forsendum sauðfjárframleiðslunnar
í heild. /smh
Reiknað afurðaverð
hækkar um 17 prósent
Í raun eru nú tvær afurðaverðskrár í boði fyrir sauðfjárbændur; frá Sláturfélagi
Suðurlands og Kaupfélagi Skagfirðinga. Mynd / smh
Reiknað afurðaverð í krónum fyrir hvert kíló
Dilkar Fullorðið
Sláturleyfishafi 2022 2023 Breyting
milli ára* 2024 2022 2023 Breyting
milli ára 2024
Fjallalamb 746 899 +17% 1.0553 127 137 +40% 191
Kaupfélag Skagfirðinga 753 908 +16% 1.0552 158 166 +13% 188
Norðlenska 746 899 +17% 1.0553 127 137 +40% 191
SAH afurðir 746 899 +17% 1.0553 127 137 +40% 191
Sláturfélag Suðurlands 754 901 +16% 1.0431 182 165 +14% 188
Sláturhús KVH 753 908 +16% 1.0552 158 166 +13% 188
Landsmeðaltal 748 899 +17% 1.053 146 151 +25% 189
*) Verðsamanburður milli áranna 2023 og 2024 miðað við afurðaverð fyrra árs með öllum álagsgreiðslum.
1) Reiknað afurðaverð samkvæmt verðskrá með 8% viðbót ofan á allt sauðfjárinnlegg sem greitt verður vikulega við útgáfu innleggsreikninga.
2) Reiknað afurðaverð samkvæmt verðskrá með 8% viðbót á afurðaverð sauðfjár sem verður laust til greiðslu samhliða innleggi.
3) Reiknað afurðaverð samkvæmt verðskrá með 8% viðbót á afurðaverð sauðfjár vegna innleggs á árinu 2024 sem greitt verður á sama tíma og innleggið sjálft.
Heimild: Bændasamtök Íslands
Útreikningar birtir með fyrirvara um villur. Komi í ljós innsláttarvillur, misfellur eða önnur augljós mistök áskilja Bændasamtök Íslands sér rétt til að leiðrétta
og uppfæra útreikninga til samræmis við þær leiðréttingar hverju sinni.