Bændablaðið - 15.08.2024, Qupperneq 21
21FréttaskýringBændablaðið | Fimmtudagur 15. ágúst 2024
Milljarða arðgreiðslur
Linde Gas á lóð á jörð Hæðarenda
þar sem koltvísýringsverksmiðja
fyrirtækisins er. Fyrirtækið vinnur
koltvísýring úr borholu í jörðinni
og hefur framleiðsla þar verið á
bilinu um 3.800–4.900 tonn á ári
á sl. tíu árum. Á sama tíma hefur
innflutningur verið á bilinu um
1.000–1.800 tonn á ári, en á fyrstu
sex mánuðum ársins 2024 voru flutt
inn tæplega 1.700 tonn samkvæmt
tölum Hagstofunnar. Innflutningur á
koltvísýringi er því að aukast.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins árið
2017 sagði Þorlákur Kristjánsson,
þáverandi verksmiðjustjóri ÍSAGA,
að á Hæðarenda væru framleidd um
4.000 tonn af koltvísýringi á ári.
Landsþörfin væri þá um 6.000 tonn
og það sem upp á vantaði væri því
flutt inn með tilheyrandi kostnaði.
Linde Gas er stöndugt fyrirtæki.
Hagnaður fyrirtækisins var
rúmlega milljarður króna árið
2022 og reyndist það besta afkoma
félagsins. Rekstrartekjur félagsins
voru tæpir 3,5 milljarðar króna en
kostnaðarverð seldra vara um 840
milljónir króna. Framlegðin er því
afar góð. Rekstrarhagnaður ársins
2022 fyrir afskriftir (EBITA) nam
rúmlega 1,5 milljörðum króna.
Eignir félagsins voru bókfærðar á
5,2 milljarða króna árið 2022 og
greiddi félagið eigendum sínum
milljarð króna í arð fyrir rekstrarárið.
Í reynd hefur félagið þrisvar
sinnum á síðustu fimm árum greitt
eigendum sínum milljarð króna í arð.
Ársreikningur fyrir rekstrarárið 2023
hefur ekki verið birtur.
Forsvarsmönnum Linde Gas
á Íslandi gafst kostur á að svara
spurningum Bændablaðsins um
rekstur og starfshætti fyrirtækisins
og bregðast við gagnrýni bænda á
skorti og afhendingu koltvísýrings,
en kusu að tjá sig ekki þegar eftir
því var leitað.
Grænmetisframleiðsla minnkar
vegna koltvísýringsskorts
Viðskiptasamband Linde Gas við
garðyrkjubændur felst að sögn þeirra
í því að bændur gera samning við
fyrirtækið um að leigja af þeim
tanka fyrir ákveðið mánaðargjald
og skuldbinda sig um leið að kaupa
af þeim áætlað magn af koltvísýringi.
Fyrirtækið á að sjá um að fylla
koltvísýring á tankana þegar þeir
tæmast. „Bændur þurfa ákveðið
afhendingaröryggi svo framleiðslan
detti ekki niður. Fyrirtækið vill
líka öryggi á notkun tanka sem
þeir útvega. Bændur skuldbinda
sig fyrirtækinu alveg með því að
leigja tank frá þeim, því þeir mega
eingöngu kaupa koltvísýring frá
Linde Gas,“ segir Axel Sæland.
Hins vegar hafi margir bændur
orðið fyrir framleiðslubresti vegna
þess að fyrirtækið afhendir ekki
koltvísýring á réttum tíma. „Það er
bagalegt fyrir bændur að vera að
leigja tank sem ekki er fyllt á. Það
virðist vera undir hverjum bónda
fyrir sig komið, eins og staðan er í
dag, að fá leigu á tanki niðurfellda
ef tankur er tómur eða ef þeir geta
ekki afhent koltvísýring.“
Dæmi séu um að úr sér gengnir
tankar hafi verði í notkun á
garðyrkjustöðvum og fyrirtækið
dregið lappirnar við að útvega nýjan
tank en krefji þó um leigu á tanki.
Bændur hafi skoðað þann
möguleika að fjárfesta sjálfir í tanki
en forsvarsmenn Linde Gas þá sett
þeim stólinn fyrir dyrnar með því
að skerða þjónustu við þá og hækka
verð.
Refskák Höllu
Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir,
garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins
grænmetis, tók þá ákvörðun að hætta
viðskiptum við Linde Gas.
„Í fyrsta lagi voru úreltir tankar á
báðum garðyrkjustöðvunum hjá mér
þegar ég tók við og leiga hafði verið
greidd af þeim mánaðarlega svo
líklega er ansi langt síðan þeir hafa
verið greiddir upp að fullu. Með réttu
eftirliti og viðhaldi hefði ég haldið að
þeim báðum hefði átt að vera skipt
út einhverjum árum áður. Ég varð
mjög ósátt við þau kjör sem mér
voru boðin til að leigja nýja tanka
því við áttuðum okkur á að það tæki
bara nokkur ár að greiða upp tanka
á láni ef við myndum kaupa þá. Við
fórum því í þá vegferð að kaupa sjálf
tanka erlendis frá, sem varð til þess
að Linde Gas, eini aðilinn á landinu
sem selur koltvísýring, hótaði því að
þau myndu ekki afgreiða okkur nema
á hærra verði, því viðskiptakjörin
byggðu á að við værum að leigja
tanka af þeim.“
Þau rufu því viðskiptasambandið
við Linde Gas og frá síðustu
áramótum voru garðyrkjustöðvar
Sólskins koltvísýringslausar um
nokkurra mánaða skeið sem leiddi
til minni framleiðslu en ella. Í vor
bárust Höllu svo leigutankar frá
erlendu fyrirtæki sem leigir Sólskins
grænmeti einnig þriðja tankinn
sem þau flytja inn koltvísýring í til
reglulegrar áfyllingar á tankana.
Undirbúningsferlið, grunn-
kostnaður og uppsetning nýrra tanka
voru flókin og kostnaðarsöm að
sögn Höllu, en í dag þurfi hún ekki
að hafa áhyggjur af því að fá ekki
þann koltvísýring sem framleiðslan
krefst.
„Ef fleiri bændur væru líka með
okkur í liði þá væri hægt að gera
þetta með enn hagkvæmari hætti.
En ég trúi því vel að aðrir hafi verið
smeykir hvort þetta myndi ganga upp
hjá okkur eða ekki og held að enginn
vilji taka áhættuna að vera í sömu
stöðu og sama uppskerutapi og í vetur
þegar við vorum koltvísýringslaus.
Draumurinn er auðvitað að
geta fengið koltvísýringinn hér
heima. Við erum líka í þeirri stöðu
þá núna að geta keypt af hverjum
sem er þegar tankarnir eru ekki
skuldbundnir neinum aðila. Ég tel
nokkuð öruggt að það muni verða
breytingar á framboðinu á næstu
árum og þá mun skipta miklu að hafa
frjálsar hendur um hvaðan maður
getur keypt áfyllingar,“ segir Halla.
Breytingar með örum
tækniframförum
Örar tækniframfarir gætu gjörbreytt
umhverfi og aðstöðu garðyrkjubænda
á allra næstu árum. Axel Sæland
bendir á að stórfyrirtækjum í iðnaði
verði gert skylt að fanga þann
koltvísýring sem þau losi og munu
þurfa að finna honum farveg.
„Vonandi munu stór
iðnaðarfyrirtæki hér á Íslandi
sjá einhvern hag í að hreinsa
koltvísýringinn á þann hátt að hann
megi nota í gróðurhúsin. Það væri
náttúrlega biluð auglýsing fyrir
eitthvert álverið að geta sagt að
það taki koltvísýring og setji hann
í matvælaframleiðslu.“
Einmitt vegna þessa ætti bændum
að vera í sjálfsvald sett hvaðan þeir
fá koltvísýring í framtíðinni, með
þeim fyrirvara að hann sé vottaður
og hafi öll tilskilin leyfi fyrir
matvælaframleiðslu.
„Koltvísýringur er allt í kringum
okkur og menn eru jafnvel að binda
vonir við að geta keypt búnað sem
settur verði á gróðurhúsin sem
beinlínis hreinsar koltvísýring
úr andrúmsloftinu og dælir inn í
gróðurhúsin. Það er verið að þróa
slíkan búnað, þetta er allt bara
spurning um kostnað,“ segir Axel.
Fríform ehf.
Askalind 3,
201 Kópavogur.
562–1500
Friform.is.
Sumaropnun:
Mán. – Föst. 10–17
Laugardaga LOKAÐ
Hjarta heimilisins
Við hönnum innréttingar að þínum þörfum
Koltvísýringur er lífsnauðsynlegur plöntum og mikilvægt hráefni í ylræktarframleiðslu. Notkun hans stuðlar að
heilbrigðri starfsemi plantna sem skilar sér í meiri og betri afurðum. Teikning / Hlynur Gauti.
Ríkar skyldur fyrirtækja með
markaðsráðandi stöðu
Eftirspurn eftir koltvísýringi hefur aukist jafnt og þétt hér á landi en fyrir utan
garðyrkjuframleiðslu er hún meðal annars notuð í fiskeldi og þörungavinnslu,
drykkjarframleiðslu og matvælapökkun. Stærstu einstöku kaupendur þess hér
á landi eru gosdrykkjaframleiðendur og fiskeldisfyrirtæki. Þá eru kjötvinnslur
einnig viðskiptavinir Linde Gas.
„Við erum að nota kolsýru og köfnunarefni til pökkunar á kjúklingi. Það sama
má segja um flestar ef ekki allar kjötvinnslur landsins,“ segir Guðmundur
Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs hf.
„Mér sýnist að frá því í árslok 2022 hafi verð á kolsýru hækkað um þrjátíu
prósent. Köfnunarefni eitthvað minna. Ég hef í gegnum árin þurft að eiga
mikil samskipti við Linde Gas og forvera þess, ÍSAGA. Á sínum tíma kom nýtt
fyrirtæki hér inn á markaðinn, Strandmöllen ehf., sem bauð umtalsvert lægra
verð. Þá skyndilega hafði ÍSAGA samband að fyrra bragði og var tilbúið að
veita tugprósenta afslætti. Strandmöllen varð ekki langlíft.“
Árið 2013 birti Samkeppniseftirlitið ákvörðum vegna samruna ÍSAGA ehf.,
nú Linde Gas, og félagsins Strandmöllen ehf. sem starfaði á sama markaði á
árunum 2009–2012. Þá var það mat Samkeppniseftirlitsins að með samruna
fyrirtækjanna myndaðist einokunarstaða á þeim markaði en taldi þá ekki unnt
að grípa til íhlutunar í samrunann. Hins vegar lagði það upplýsingaskyldu á
ÍSAGA í tvö ár, þar sem fyrirtækinu var gert að greina frá verðbreytingum og
breytingum á viðskiptaskilmálum og samningum. Þeirri upplýsingaskyldu lauk
í febrúar árið 2015.
„Samkeppniseftirlitið hefur á fyrri tíð fjallað um og haft áhyggjur af samþjöppun
á markaði fyrir innflutning, framleiðslu, sölu, leigu og dreifingu á gashylkjum og
gasi. Hafa fyrri athuganir gefið til kynna að Linde Gas eða forverar þeirra hafi
verið í markaðsráðandi stöðu. Hins vegar hafa þessir markaðir ekki komið til
athugunar nýlega,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Á fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu hvíli ríkar skyldur samkvæmt
samkeppnislögum, m.a. gagnvart viðskiptavinum. „Þannig getur það
verið brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu að setja
ósanngjarna viðskiptaskilmála, setja takmarkanir á framleiðslu eða mismuna
viðskiptaaðilum. Þessar skyldur eru ekki síst ríkar ef um einokunarstöðu er að
ræða,“ segir Páll Gunnar
Hins vegar áréttar hann að Samkeppniseftirlitið hafi ekki tekið þau álitaefni til
formlegrar rannsóknar og því sé ekki hægt að slá neinu föstu um niðurstöður
slíkrar athugunar á Linde Gas. „Telji bændur að brotið hafi verið á sér stendur
þeim til boða að hafa samband við Samkeppniseftirlitið.“