Bændablaðið - 15.08.2024, Blaðsíða 26
26 Viðtal Bændablaðið | Fimmtudagur 15. ágúst 2024
Á ysta bænum á Skaga, Hrauni 1,
bjó Guðlaug Jóhannsdóttir. Hraun,
sem áður tilheyrði Skefilsstaða-
hreppi er nú í Sveitarfélaginu
Skagafirði eftir sameiningu 1998.
Guðlaug fæddist árið 1936
í Saurbæ í Lýtingsstaðahreppi
hinum forna, eins og hún segir
sjálf, sá hreppur er ekki lengur
til því hann tilheyrir nú líka
Sveitarfélaginu Skagafirði, rétt
eins og Skefilsstaðahreppur.
Foreldrar Guðlaugar voru Jóhann
Ingiberg Jóhannesson og Helga
Lilja Gottskálksdóttir og var Gilla,
eins og hún er alltaf kölluð, fyrsta
barn þeirra hjóna saman. Fyrir var ein
hálfsystir og í kjölfarið fæddust þeim
hjónum fimm börn sem öll komust til
fullorðinsára en tvær systur Guðlaugar
eru nú látnar. Þegar Guðlaug er þriggja
ára flyst fjölskyldan að Sólheimum
í Sæmundarhlíð og þar elst
barnahópurinn upp. Í Sæmundarhlíð
var torfbær sem Guðlaug segir hafa
verið ljómandi húsakynni, þiljaður að
innan og snyrtilegur.
„Mig rámar þó í að það hafi
stundum verið kalt á morgnana,“ segir
hún. Í torfbænum á Sólheimum bjó
hún þar til hún flutti tvítug að Hrauni.
Skólaganga Guðlaugar var í anda
þeirrar tíðar. „Það var barnakennsla
á Hóli og þar mættum við tvær vikur
á hvorri önn, eins og tíðkaðist í
sveitum á þeim tíma, en svo fór ég í
Húsmæðraskóla á Löngumýri.“
Guðlaug segir að í Sæmundarhlíð
hafi þeim liðið vel, nóg að bíta og
brenna og vinnuálag ekki úr hófi, þó
auðvitað hafi börnin þurft að vinna.
„Ég átti orf sem var sérstaklega
smíðað handa mér og það þótti
mér gaman.“
Lífið á Hrauni
Um tvítugt liggja svo leiðir Guðlaugar
og Rögnvaldar Steinssonar saman.
Hann var fæddur og uppalinn á
Hrauni sem þá þótti mikil og góð
hlunnindajörð og taka þau þar við
búi af foreldrum Rögnvaldar.
Á þeim tíma var vegasamband
lítið sem ekkert og rafmagn kom ekki
í sveitina fyrr en árið 1975, fram að
því var notast við ljósavél sem kom
á bæinn árið 1967. Synir Guðlaugar
og Rögnvaldar eru Steinn Leo,
Jón, Jóhann Eymundur og Gunnar.
Steinn Leo hefur ásamt konu sinni,
Merete, tekið við búrekstri á Hrauni
en auk hans og Guðlaugar býr
Jóhann Eymundur á Hrauni með sína
fjölskyldu og á landinu standa nú þrjú
myndarleg íbúðarhús. Barnabörnin eru
orðin átta og langömmubörnin sex.
Rögnvaldur lést árið 2013 og býr
því Guðlaug ein í elsta íbúðarhúsinu á
Hrauni. „Ég er aldrei ein, hér er alltaf
fullt af fólki, þessa heims og annars,“
segir hún kímin. Steinn er fæddur
1957 og Gunnar 1967 svo drengirnir
koma á tíu árum. „Aldrei kom til
greina að fara frá Hrauni, það eru
forréttindi að fá að vera hér á þessum
fallega stað. Við ferðuðumst aðeins
saman hér innanlands en svo hef ég
komið til Danmerkur, Skotlands og
Kanada en við undum okkur vel hér
heima. Ég nota bara símann þegar ég
vil tala við vini og kunningja og svo
erum við með saumaklúbb, konurnar í
sveitinni,“ segir Guðlaug og bætir við
að hún hafi alltaf verið frekar hraust.
„Svo er ég aðeins að prjóna og sauma
í kort.“
Mikill gestagangur var á Hrauni á
árum áður. „Maðurinn minn átti mörg
systkini sem komu mikið en það var
mikil hjálp í tengdamóður minni með
heimilisverkin,“ segir Guðlaug.
Á haustin þurfti kostur til vetrarins
að vera klár, saltaður og reyktur því
ekki var einfalt að sækja til heimilisins
yfir veturinn, samgöngur leyfðu ekki
mikið ráp á milli bæja.
Hlunnindajörð
Hraun hentar vel fyrir sauðfé en eins
og áður sagði fylgja jörðinni allgóð
hlunnindi sem þarf að sinna. Guðlaug
segir að landgæði hafi batnað mikið
þegar gröfur komu til sögunnar og
hægt að þurrka og byggja upp túnin.
Gjöful veiðivötn eru á Hrauni
og einhverjar tekjur hafa verið
af veiðileyfum. Kunnugir segja
Guðlaugu einstaklega gestrisna og
telja að tekjur af veiðileyfum hafi
varla dugað til að kosta vel útilátið
kaffibrauðið og aðrar veitingar sem
hún skenkti veiðimönnunum.
Á Hrauni er líka myndarlegt
æðarvarp sem Guðlaug hefur alltaf
sinnt, mest var framleiðslan 63 kíló
af dúni en eftir að fuglakólera herjaði
á kollustofninn hrundi varpið en er
nú smátt og smátt að byggjast upp.
Þrátt fyrir að vera nær níræð, skottast
Guðlaug í varpið og sinnir því á hverju
vori. „Auðvitað ekki ein, fjölskyldan
hjálpast að,“ segir hún sposk.
Frá árinu 1942 sáu foreldrar
Rögnvaldar um að senda veðurskeyti
frá Hrauni og tóku Rögnvaldur og
Guðlaug við þeim verkefnum árið
1959, á þriggja tíma fresti frá kl. 6
–21. Á tímabili fannst Guðlaugu að
sjómennirnir þyrftu betri þjónustu svo
hún sendi aukaskeyti kl. 3 á nóttunni.
Nú er sjálfvirk veðurstöð í vitanum
hjá Hrauni.
Talsverður reki var alltaf á Hrauni
sem var aðallega nýttur í staura en að
sögn Guðlaugar hefur rekinn mikið
minnkað.
Engin einangrun
Guðlaug er ekki með bílpróf og á ekki
bíl en hún pantar allar nauðsynjar í
Kaupfélaginu á Sauðárkróki og Jóhann
sonur hennar, sem býr líka á Hrauni,
ekur skólabílnum daglega og kippir
pokunum heim fyrir mömmu sína.
„Ég geng alltaf á hverjum degi,
skrepp í hænurnar og svona, halda
mér við,“ segir hún en bætir við að
hænurnar séu nú orðnar svo gamlar
að þær gefi ekki mikið. „Maðurinn
minn var í sér bæði sjómaður og
bóndi og ég fór í húsmæðraskóla til
geta rekið mitt heimili. Við vorum
bæði það sem við vildum vera og þar
sem við vildum vera.“ Það er ekki
hægt að gera grein fyrir 88 ára löngu
lífshlaupi í stuttri grein, það þarf heila
bók til verksins svo vel sé. En Gilla
á Hrauni lítur glöð yfir farinn veg og
það er kannski galdurinn, góða skapið
gæti verið sá lífsins elexír sem hefur
fleytt henni í lífsbaráttu afskekktrar
byggðar.
Lokaorð
Því miður lést Guðlaug þann 22.
júlí, aðeins fimm dögum eftir að
viðtalið var tekið við hana, en
það er hér birt með samþykki og
yfirlestri aðstandenda hennar.
Bændablaðið sendir sínar innilegustu
samúðarkveðjur. /bs
Fyrirferðalítil með 25 ára ábyrgð
Engin rotþró eða hefðbundin siturlögn
Margar stærðir í boði
Tæming seyru á 3 - 5 ára fresti
Hraun á Skaga:
Bein sjónlína að
heimskautsbaug
Það er stolt kona sem tyllir sér hér innan um myndir af
afkomendum sínum. Guðlaug Jóhannsdóttir á Hrauni 1.
Guðlaug og bærinn hennar, þar sem hún bjó í tæp sjötíu ár.
Elsti bærinn á Hrauni á Skaga. Myndir / bs