Golf á Íslandi - 01.06.2017, Page 16
„Aðstæður voru erfiðar á þessum degi, mikill vindur og smá úrkoma, en völlurinn
og flatirnar eru með því besta sem ég hef kynnst á mínum ferli. Flatirnar voru
leifturhraðar og alveg eins og teppi. LET Evrópumótaröðin er með höfuðstöðvar
sínar á þessum velli og þarna er allt í hæsta gæðaflokki,“ segir Valdís Þóra
Jónsdóttir um þá reynslu sem hún fékk á úrtökumótinu fyrir Opna bandaríska
meistaramótið á Buckinghamshire-vellinum á Englandi.
„Styrkleikinn var mikill á þessu úrtökumóti, margir leikmenn sem
hafa verið lengi á LET Evrópumótaröðinni. Ég fór í gegnum þetta
mót í fyrra og réð ekkert við flatirnar á þeim tíma og ég lék illa.
Á þessu móti var ég að spila vel, slá vel og mér leið vel. Þetta er
nokkuð krefjandi að leika 36 holur á einum degi með hálftíma hléi
á milli hringja - en þetta var eins fyrir okkur allar og bara gaman að
þessu.“
Valdís Þóra fór í þriggja manna bráðabana um
tvö laus sæti á risamótinu á 9. holu vallarins
sem er par 3. Hún lýsir því þannig:
„Ég hafði slegið með 5-járninu á báðum hringjunum fyrr um daginn,
en vindurinn hafði snúið sér og veðrið var mun
verra en fyrr um daginn. Ég var að velta fyrir mér
að slá með 4-járni en hafði á tilfinningunni að ég
myndi slá langt. Ég viðurkenni það alveg að ég var með adrenalínið
í botni áður en ég sló. Í slíkum aðstæðum eru miklar líkur á því að
ég slái lengra en ég er vön að gera. Ég hafði aldrei verið í þessari
stöðu áður á atvinnumóti að leika í bráðabana um sæti á risamóti.
Ég sló því með 5-járninu á pinnann sem var í 165 metra fjarlægð.
Ég ýtti boltanum aðeins til hægri og var 15 metrum of stutt á neðri
pallinum á flötinni. Það var mikið landslag í flötinni og púttið
var erfitt. Ég var með ágætis hraða á púttinu en ég reiknaði ekki
nógu mikið með brotinu. Parpúttið fór rétt fram hjá og ég komst
ekki áfram, vissulega svekkjandi, en ég gerði mitt besta og á enn
möguleika á að komast inn á Opna bandaríska meistaramótið,“ sagði
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Þegar Golf á Íslandi fór í prentun var ekki ljóst hvort Valdís Þóra
komst inn á Opna bandaríska meistaramótið sem fyrsti varamaður
frá Evrópu. Þær upplýsingar má nálgast á golf.is
Betri árangur með
fjölbreyttum greiðslulausnum
„Adrenalínið var í botni“
– „Hef aldrei verið í þessari stöðu áður“
16 GOLF.IS - Golf á Íslandi
Fyrst á biðlista inn á risamót