Bautasteinn - 01.05.2005, Side 15

Bautasteinn - 01.05.2005, Side 15
15 Það er fátt skemmtilegra en að rýna í gamlar ljósmyndir af stöðum sem mað- ur er kunnugur á og bera myndefnið saman við það sem við sjáum á sama stað í dag. Hér að ofan eru tvær gamlar myndir úr Þjóðminjasafni og ein ný til samanburðar. Mynd Árna Thorsteinssonar hefur áður birst, í ritverki síra Þóris Stephensen Dómkirkjan í Reykjavík1 en ljósmynd Sigfúsar Eymunds- sonar af Schau og legsteini Sigurðar Melsteð birtist í Múraratali og steinsmiða sem út kom árið 1993.2 Ekki var það þó sama mynd og hér er sýnd en myndefnið það sama og hún greinilega tekin við sama tækifæri. En snúum okkur að ljósmynd Sigfúsar og efni hennar. Árið 1880 komu hingað til lands nokkrir ungir steinsmiðir frá Danmörku til að vinna við byggingu Al- þingishússins sem hafist var handa við að reisa það ár. Einn þeirra var Julius Andreas Schau frá Borgundarhólmi en þar var hann fæddur árið 1856. Að lokinni byggingu Alþingishússins ílentist Schau hér og átti eftir að stunda hér iðn sína í áratugi. Hann tók í læri marga steinsmiði sem áttu eftir að láta að sér kveða við gerð legsteina svo sem Runólf Einarsson (1859-1941) og Guðna Hreiðar Þorkelsson (1873-1953). Julius Schau og lærlingar hans gerðu mikinn fjölda legsteina sem sjá má víða um land en flestir eru þeir á einum stað í Hólavallagarði við Suðurgötu. Nýklassíski stíllinn kom fyrst fram í íslenskum legsteinum með verkum Sverris Runólfssonar eins og sjá má af legsteini Gísla læknis Hjálmarssonar á reit O 510. Nýklassíski stíllinn í legsteinasmíði þróaðist áfram hjá Schau og nemendum hans. Segja má að stíllinn rísi hæst í elstu flötu óbeliskunum með lágmyndum Thorvaldsens Nótt og Degi. Á myndinni má sjá Julius Schau við eitt slíkt verka sinna en það er legsteinn Sigurðar Melsteð forstöðumanns Prestaskólans, á reit T 105. Myndina tók Sigfús árið 1896. Til samanburðar er svo ljósmynd Magnúsar Reynis Jónssonar tekin frá sama sjónarhorni árið 2005. Julius Schau kvæntist árið 1880 Kristínu Magnúsdóttur frá Melkoti og áttu þau einn son en þau mæðgin missti Schau með stuttu millibili, 1893 og 1895. Hann kvæntist aftur Sigríði V. Á. Jónsdóttur og eignuðust þau einn son. Eftir að hafa stundað iðn sína hér á landi í fjörutíu ár fluttist Julius Schau með fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 1920. Þar lést hann árið 1938.3 Þriðja myndin er svo hluti ljósmyndar Árna Thorsteinssonar af svæðinu vest- an Reykjavíkurtjarnar. Myndin var tekin rétt um aldamótin 1900. Vinstra megin á myndinni er gamla líkhúsið og hægra megin eru Melshúsabæirnir þrír. Gamla líkhúsið mun hafa verið reist síðla árs 1838 eða stuttu þar eftir. Á meðan stækkun Dómkirkjunnar stóð 1847-8 var líkhúsið notað sem kirkja Reykvíkinga.4 Veturinn 1950-1951 var líkhúsið tekið ofan og það flutt á svæði Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis í Fossvogi þar sem það var reist að nýju og gegndi næstu árin ýmsum hlutverkum. Þar mun það hafa staðið fram á sjöunda áratuginn að það var talið ónýtt með öllu og rifið. Melshús stóðu í þeim hluta garðsins sem farið var að grafa í 1903. Mels- húsabæirnir sjálfir voru þrír og sjást þeir greinilega á myndinni. Tveir voru sambyggðir og vissi framhlið þeirra í austur eins og sjá má. Hafa þeir að lík- indum staðið að stærstum hluta þar sem nú eru skikarnir V2 og V3. Þriðji bærinn var ögn vestar og sneri framhlið til vesturs. Líklegt er að hann hafi staðið u.þ.b. á mörkum skikanna V1 og V2. Árni prófastur Þórarinsson bjó á námsárum sínum hjá móður sinni í Melshúsum og er allgóð lýsing á stað- háttum þar í ævisögu hans. Hann getur um hjall vestan við Melshúsabæina og lítils timburhúss.5 Kemur lýsing hans heim og saman við myndina þó svo að síra Árni virðist þar snúa við áttum. Timburhúsið sést greinilega með skorsteini upp úr mæni en lengst til hægri grillir í byggingu sem líklega er hjallurinn. Melshús voru rifin árið 1905. Tilvísanir 1. Þórir Stephensen: Dómkirkjan í Reykjavík I. Byggingarsagan, Hið íslenska bók menntafélag Dómkirkjan í Reykjavík, Reykjavík, 1996, bls. 113. 2. Múraratal og steinsmiða, 1. bindi, Þorsteinn Jónsson ritstj., Þjóðsaga hf, [Reykjavík], 1993, bls. 67. 3. Björn Th. Björnsson: Minningarmörk í Hólavallagarði, ljósmyndun Pjetur Þ. Maack, Mál og menning, Reykjavík, 1998, bls. 125 og 130. 4. Sama heimild, bls. 175. 5. Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar, 1. bindi, Mál og menn- ing, Reykjavík, 1999, bls. 157. Höfundur er verkefnisstjóri kirkjuminja hjá Fornleifavernd ríkisins Texti: Gunnar Bollason Gamlar myndir Horft í átt að Hólavallagarði um aldamótin 1900. Ljósmynd: Þjms. Þ&ÞTh-577. Ljósmyndari: Árni Thorsteinsson. Julius Andreas Schau steinsmiður við legstein Sigurðar Melsteð for- stöðumanns Prestaskólans árið 1896. Ljósmynd: Þjms. SEy-1335. Ljósmyndari: Sigfús Eymundsson. Horft á grafreit Sigurðar Melsteð T 105 frá sama sjónarhorni árið 2005. Ljósmynd: Magnús Reynir Jónsson.

x

Bautasteinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bautasteinn
https://timarit.is/publication/2037

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.