Helgarpósturinn - 09.05.1985, Page 19

Helgarpósturinn - 09.05.1985, Page 19
KVIKMYNDIR eftir Sigmund Erni Rúnarsson % Hrífandi saga svartra Stjörnubíó: Saga hermanns (A Soldiers Story). Bandarísk, árg. 1984. Leikastjórn: Norman Jewison. Handrit: Charles Fuller, gert eftir verd- launaleikriti hans, „A Soldiers Play“. Kvikmyndun: Russel Boyd. Tónlist: Herbie Hancock. Aöalleikarar: Howard E. Rollins jr., Adolph Caesar, Art Evans, David Alan Grier, David Harris, Dennis Lipscomb, Larry Riley, Robert Townsend og fleiri. Framleidendur: Norman Jewison, Ronald L. Schwary og Patrick Palmer. Árið 1944 í herstöðinni Fort Neal í Louisi- ana. Blakkur yfirmaður sveitar sem skipuð er svörtum hermönnum finnst myrtur utan vallar. Krafist er rannsóknar og frá Washing- ton er sendur lögmaður á vegum hersins til að upplýsa málið. Hann er kafteinn, mennt- aður og veraldarvanur svertingi með laga- próf frá virtum skóla. Honum er tekið illa af hvítum yfirmönnum Fort Neal. Þeir telja það ekki sinn hag að morðið verði upplýst og auk þess eru þeir óvanir því að svartur maður segi þeim fyrir verkum. Kafteinninn býst engu að síður til verka og yfirheyrir hvern undirmann téðrar sveitar á fætur öðrum. Saga hermanns er meistaralega gerð kvik- mynd. Það er með ólíkindum hversu vel hef- ur tekist til við að kvikmynda þetta leikrit Fullers, A Soldiers Play, en það er margverð- launað. Þar ræður sjálfsagt mestu að höfund- urinn sjálfur skrifaði handrit myndarinnar. Þetta er margþætt saga um hagi svertingja á þeim tímum þegar svo gott sem sjálfgefið var að þeir væru undirtyllur sem troða mætti á. Sögusviðið og miskunnarlaus agi herbúð- anna undirstrikar það í hverju skoti mynda- vélarinnar. Þegar svo svartur kafteinn lýkur þessum aðstæðum upp, að nafni til vegna morðrannsóknar, vaknar vonin hjá óbreytt- um. Og jafnframt óttinn, því svo virðist sem ekki sé lengur hægt að skýla sér bakvið þá afsökun að hvíti kynstofninn (Ku Klux Klan o.fl.) sé eini óvinurinn. Norman Jewison hefur tekist að setja þessa sögu fram af krafti og sannfæringu. Hann slakar hvergi á í leikstjórn sinni og nautn er að fyigjast með því hvernig hann skipar persónum sögunnar framan við vél- ina þannig að bæði stemmning tíðarandans og innri átök manna, ásamt útrás þeirra við þær breyttu aðstæður sem morðið skapar, ólgar og magnast eftir því sem niðurstaðan nálgast. Þetta kemur kannski hvað skýrast fram í díalógnum (þegar kafteinninn rekur garnirnar úr hverjum og einum hinna óbreyttu og þeir leiða hugann að samskipt- um sínum við þann myrta) en jafnvel hvað áhrifaríkast í mörgum fjöldasenanna (enda „Saga hermanns er meistaralega gerð kvikmynd. Leikstjór- anum hefur tekist að setja þessa sögu fram af krafti og sannfær- ingu," segir Sigmund- ur Ernir m.a. i umsögn sinni um nýjustu mynd Norman Jewi- son. Myndin sýnir leikstjórann á tali við Rollins sem leikur kaf- teininn i myndinni. Jewison æfður í þeim; Jesus Christ Superstar er dæmi). Kvikmyndataka verksins nálgast að vera mjúk, klippingin stundum óvænt en undir- strikar í þau skipti ryþmann í atriðunum. Og svo er það leikurinn; afbragð. Þar er hvergi veikan hlekk að finna. Fremstir meðal jafn- ingja eru Howard Rollins í rullu kafteinsins og Adolph Caesar sem yfirmaðurinn er myrtur var (en hann lék sama hlutverk í sviðsuppfærslunni). Báðir eru þeir næsta ókunnir kvikmyndaleikarar (Rollins lék þó í Ragtime^g Roots) en tekst á svo magnaðan hátt að túlka þessa tvo ólíku svertingja; ann- arsvegar sviplausan, metnaðarfullan og þrautseigan kafteininn með ólgandi tilfinn- ingar innifyrir, og hinsvegar kaldlyndan liðs- foringjann, hrokagikkinn en vesalinginn þegar á reynir. Rollins og Caesar gefa sig alla í þessum persónum, eins og reyndar aðrir leikarar sem tókust á við minni hlutverk í Sögu hermanns. Frábært. -SER POPP The Nails — Mood Swings Sögu hljómsveitarinnar The Nails má rekja aftur til ársins 1976, þegar fundum þeirra Marc Campell, söngvara, og David Kaufman, hljómborðsleikara, bar saman í háskóla í Colorado. Þeir komu saman vegna sameigin- legs áhuga á reggae-tónlist og það var ein- mitt sú tegund tónlistar sem þeir spiluðu fyrstu árin. Tveimur árum eftir að þeir félag- ar hittust fyrst, færðu þeir sig um set, til New York, þar sem hljómsveitin fór að taka á sig þá mynd sem hún hefur í dag. Fyrstur bættist í hópinn George Kaufman, bróðir Davids og saxófónleikarinn Douglas Guthrie og gítar- leikarinn komu einnig fljótlega til sögunnar. Þá var í hljómsveitinni ónefndur trommu- leikari, en þegar þeir sendu frá sér fyrstu plötu sína, notuðu þeir gestaleikara. Raunar kom platan Mood Swings út seint á síðasta ári en hún týndist fljótlega í jóla- plötuflóðinu, en nú eftir áramót hafa þeir verið nokkuð spilaðir í bandarísku útvarpi og þá sérstaklega í hinum svokölluðu há- skólastöðvum. Þeir eru raunar þar í landi taldir í hópi svokallaðra neðanjarðarhljóm- sveita, en allmikið af góðum hljómsveitum hefur verið að hasla sér völl á þeim vettvangi vestanhafs síðustu tvö, þrjú árin og að mínu mati eru Nails ekki í hópi þeirra bestu sem ég hef heyrt til þaðan. Það kemur mér meira að segja á óvart hversu mjög þeim hefur verið hampað í bandarískum tímaritum, því tónlist þeirra er ekki neitt til þess að taka bakföll yf- ir. Sterkasta hlið þeirra er textarnir, sem Campell semur alla, en þeir fjalla um það sem er að gerast í þjóðfélaginu umhverfis þá og þá kannski sér í lagi það sem er að gerast í skuggalífi borgarinnar. Ég hef í sannleika sagt átt frekar erfitt með að hlusta á þessa plötu, vegna þess fyrst og fremst að mér hefur þótt tónlistin heldur inn- antóm og þá sér í lagi útsetningarnar. En þetta á fyrst og fremst við um fyrri hliðina, þar sem lögin eru nokkuð löng og endur- tekningar svo miklar að það setur að manni leiða. Ein undantekning er þó þar á, en það er lagið 88 Lines About 44 Women, sem hef- ur inni að halda skemmtilega kómískan texta og nafnið á laginu segir eiginlega allt um innihald þess, en þó skal hér látin fylgja ein lýsing: „Jackie was a Rich Punk Rocker/Silver Spoon and Paper Plate“. Það er kannski ekki falleg mynd sem ég hef dregið hér upp af skífu þessari, en nú skal það upplýst, að ég var alltaf orðinn svo leiður eftir fyrri hliðina að ég hafði mig ekki í að snúa plötunni við. Það var því ekki nema eitt fyrir mig að gera, að byrja á seinni hiiðinni, og þá kom í ljós að The Nails geta gert alveg ágæta hluti, ef þeir hafa bara lögin í styttra lagi. Let It Áll Hang Out, er t.d. gott og það sama má segja um Mood Swing og Phantom Heart. Tónlistarlega mega The Nails sem sé gera betur en textarnir eru margir góðir, það er bara gallinn að það þarf að liggja svolítið yfir þeim og til þess að svo megi verða, þarf mað- ur víst að hlusta á plötuna. Paul Young — The Secret of Association Það rættist langþráður draumur hjá Paul Young, þegar hann sló í gegn með plötunni No Parlez árið 1983, en þessi draumur sner- ist upp í martröð nokkrum mánuðum síðar, þegar hann missti röddina. Að vísu missti hann aldrei algerlega röddina, heldur voru það efstu tónarnir sem ekki vildu heyrast og án þeirra er Paul Young ekki nema svipur hjá sjón, eða bergmál hjá heyrn eða hvernig á nú að orða það. Young örvænti hins vegar aldrei, því að þetta hafði komið fyrir hann einu sinni áður og eina lækningin sem þörf var á, var langt og gott frí. Þess vegna heyrð- ist ekkert frá honum mestan hluta síðasta árs, en þegar líða tók á haustmánuði sendi hann frá sér smáskífu með laginu l’m Gonna Tear Your Playhouse Down og varð ég sann- ast sagna hissa á því að það varð ekki vin- sælla en raun ber vitni, því um er að ræða þrumugóða útgáfu af þessu góða, gamla lagi. Næst sendi hann frá sér lagið Everything Must Change, sem ekki seldist neitt sérlega vel heldur, að minnsta kosti ekki ef miðað er við lögin af fyrri plötunni. Fyrir svo sem tveimur mánuðum sendi Young svo frá sér Hall & Oates lagið Every Time You Go Away og nú tóku plötukaup- endur við sér svo um munaði, því að smá- skífa þessi fór alla leið í annað sæti breska listans. En nýja breiðskífan hans gerði enn betur, því hún fór beint í fyrsta sæti þegar í útgáfuvikunni. Það er nú ekki ýkja langt síðan ég upp- götvaðj fyrir alvöru hversu góð plata No Par- lez er. Ég hafði að vísu hlustað á hana nokkr- um sinnum og var hún þá að mínu mati ekk- ert annað en þokkaleg poppplata. Paul Young er hins vegar miklu meira en venju- legur poppari, því hann er stólpasöngvari og hann hefur sér jafnan til aðstoðar úrvalslið hljóðfæraleikara og má þar sennilega fremstan í flokki telja bassaleikarann Pino Palldino. The Secret of Association tekur fyrri plöt- eftir Gunnlaug Sigfússon unni fram í flestu og raunar er eina kvörtun- in sem ég hef fram að færa varðandi hana sú, að Young skuli ekki lengur nota þær skemmtilegu kvennaraddir, sem svo mjög skreyttu tónlist hans áður. Þetta kemur að vísu ekki mikið að sök, en þó er ég viss um að t.d. lag eins og Everything Must Change hefði notið sín betur, hefði kvennanna notið við. Fyrri hlið TSOA er að mínu mati nær alveg skotheld. Þar er að finna lögin Everytime You Go Away og I’m Gonna Tear Your Play- house Down en þess utan Bite the Hand that Feeds, sem er hressilegt lag þar sem hljóm- sveitin færi að njóta sín, en það er svo sem víðar á plötunni. Perla plötunnar finnst mér svo vera Tom Waits lagið Soldier’s Thing. Það er ekki öllum fært að flytja lög þess ágæta manns svo aðdáendum hans líki og vafalaust hefur einhverjum mislíkað, en ég tel mig í hópi harðra Tom Waits aðdáenda og mér finnst útgáfa Paul Young undirstrika rækilega hversu góður lagasmiður Waits er. Nokkuð sem gæti farið fram hjá fólki þegar það hlustar á höfundinn sjálfan flytja það með sinni vægast sagt hrjúfu rödd. Á seinni hlið TSOA er að finna frumsamin Young lög ásamt gömlu Sutherland Brothers lagi. Young hefur verið nokkuð umdeildur vegna þess að hann semur minnst af sinni tónlist sjálfur, en hann sannar nú að hann getur auðveldlega samið ágæt lög. En eins og hann segir sjálfur: „Af hverju að vera að senda frá sér misgóð frumsamin lög, þegar svo mikið er til af góðum gömlum lögum sem útsetja má að nýju.“ Þó mér finnist seinni hliðin að vísu ekki al- veg eins góð og sú fyrri, þá er það ekki endi- lega vegna þess að lögin séu verri, heldur miklu fremur vegna þess að mér finnst ekki eins mikið hafa verið lagt í útsetningar þeirra og hefði mátt gera. Paul Young sannar það með þessari skífu sinni að hann er sannarlega einn af bestu hvítu soul-söngvurum sem starfandi eru í dag. Það verður erfitt fyrr hann að fylgja plötu þessari eftir, en ef röddin svíkur hann ekki aftur, er ég viss um að hann er bara rétt að byrja. HELGARPÓSTURINN 19

x

Helgarpósturinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.