Helgarpósturinn - 01.08.1985, Síða 11
Hann heilsar mér á hlaðinu eins og sönnum
bónda sæmir; handtakid er þéttingsfast, lófinn
samt mjúkur og hlýr. „Eigum við ekki að skoða
okkur um fyrst,“ spyr hann svo. Þrátt fyrir
göngustafinn er hann sporléttur niður hallann
að fiskeldishúsunum, þar sem regnbogasilung-
urinn á sitt heima. Aldrei áður hef ég séð seiði
í kerjum, en þarna hrökkva þau til og frá í vatns-
bununni rétt eins og þau séu að leika sér. „Við
tvínýtum vatnið, sjáðu," og hann sýnir mér
nokkurs konar gosbrunn fyrir dyrum hússins,
„þetta er til þess að bæta í það súrefninu og geta
nýtt það betur.“
— Veistu það Skúli,“ segi ég alveg hreinskilin,
„ef ég á að segja þér eins og er, þá þekki ég þig
ekki öðru vísi en sem manninn með veiku fisk-
ana!“ Skúli brosir við þessu en sárnar um leið:
„Hér hefur aldrei verið fiskur með smitsjúk-
dóma, aldrei" og þá sveiflar hann stafnum til að
benda mér á húsin og tjarnirnar, þar sem fiskur-
inn iðar í torfum. Inni í fiskeldishúsinu eru kerin
í röðum og sjálfvirkur fæðu-útbúnaður til fóðr-
unar. „Líttu á, eru þau ekki heilbrigðið uppmál-
að!“ Þetta er ekki spurning, heldur staðreynd,
sem hann segir upphátt eins og stolt foreldri.
Það er með okkur sonarsonur hans, sporléttur
unglingspiltur og hagvanur hjá afa sínum. „Nú
skulum við nafni minn sýna henni Magdalenu
hvernig fiskarnir taka til matar síns — komdu
með fötuna, nafni." Og saman ausa þeir mat út
í tjörnina, svo fiskarnir skvetta sér í yfirborðinu,
glitrandi í sumarsólinni. „Nú skulum við leyfa
henni að reyna, nafni." Og ég fæ að reyna en
fiskurinn stekkur ekki hjá mér. „Nei, þú þarft að
sveifla ausunni betur og dreifa almennilega úr
þessu, sjáðu,“ segir Skúli og ég finn að það er
ekki sama hvernig neitt er gert á þessum bæ.
Úr aurholti
í unaðsreit
Lcixalón er við Grafarvoginn. Heimahúsið er
umlukt trjágróðri fjærst, nær er sléttur grasbali
og litrík blóm og á palli undir suðurveggnum
segir Skúli; „Þetta var eitt aurholt þegar við
komum hingað fyrir þrjátíu árum. Ekki sting-
andi strá neins staðar. Það er nú hún Svava,
konan mín, sem á heiðurinn af þessu öllu sam-
an.“
Ég heilsa Svövu Skaftadóttur. Ég heilsa líka
frænku í heimsókn og tengdadóttur og syni,
seinna fæ ég kaffi með þeim öllum og kökur við
borðstofuborðið. En fyrst sitjum við Skúli ein í
stofunni og tölum um fiskeldi — mér gengur illa
að fá hann til að tala um annað.
„Sjáðu til, ég var alltaf að gramsa i þessu. Vest-
ur í Onundarfirði — þar er ég fæddur árið 1906,
þar hef ég eflaust byrjað; maður var alltaf í lækj-
unum hjá silungnum og sko, ég var alltaf — það
er kannski það sem ekki nógu margir gera — að
leita mér að verkefni. Það þarf að finna sér verk-
efni. Það er ekki hægt að ganga endalaust í
kröfugöngu og vilja fá allt hjá ríkinu. Það er allt
í lagi að ganga í kröfugöngu ef það er réttlætis-
mál, jú jú. En árið 1939, þá fór ég til Danmerkur
til að kynna mér fiskirækt. Ég var búinn að lesa
mér eitthvað til, og fiskeldi hafði verið stundað
í Danmörku í u.þ.b. 60 ár með mjög góðum ár-
angri. Ég hugsaði með mér, þetta hlýtur að vera
hægt hér heima, hér er vatnið svo gott. í Dan-
mörku var ég svo heppinn að komast til mjög
góðrar fjölskyldu, Jöker. Jöker er þekkt nafn í
þessari atvinnugrein í Danmörku. Ég var þarna
aðeins í nokkra mánuði. Þegar stríðið braust út
var ekki annað að gera en láta fiskeldið bíða og
láta hendur standa fram úr ermum í einhverri
vinnu.
í stríðinu átti ég og rak frystihús hér í bænum,
og seldi bæði Bretum og Amerikönum fisk. Fyr-
irtækið hét og heitir Laxinn h/f.
— Gafstu þá fiskeldið alueg upp á bátinn?"
„Neeei— Ég var nú með tilraunir með uppeldi
á laxi, var með það í kjallara frystihússins við
Klapparstíg, já, blessuð vertu, auðvitað hélt fólk
ég væri skrýtinn, ha, rækta fisk uppi á landi! Ég
hélt áfram með frystihúsið meðan á stríðinu
stóð. Árið 1951 úthlutaði borgin mér þessu landi,
þá var þetta aurholt, allt var aurholt. Já, já það
er bærinn sem á landið, þeir hafa nú alltaf verið
mér vinsamlegir, hann Gunnar var borgarstjóri
þegar við komum hingað, hann reyndist mér
vel. Sjáðu til Magdalena, maður skal aldrei velta
sér upp úr óförum annarra, en ef ég á að skoða
þetta mál — hvar standa þeir nú sem voru gegn
þessu, ha? Þessu var öllu logið með smitsjúk-
dómana. Þeir stofnuðu einhverja fisksjúkdóma-
nefnd og formaðurinn Páll A. Pálsson, sem kall-
aður er yfirdýralæknir, sagðist ekkert vit hafa á
fisksjúkdómum. Heldurðu að það sé nú! Aðrir í
nefndinni eru Þór Guðjónsson, kallaður veiði-
málastjóri, og Guðmundur Pétursson, yfirlæknir
á Keldum. Þessi nefnd hefur aldrei komið í fisk-
ræktarstöðina á Laxalóni til að fylgjast með hin-
um syndandi sjúklingum sínum. Er þetta skyldu-
rækni hjá lögskipuðum embættismönnum? Það
er verið að útbýta milljónum til þessarar starf-
semi, en þekking er mjög af skornum skammti
í þessari atvinnugrein. Þekkingin átti að koma
frá Kollafirði, undir umsjón Þórs Guðjónssonar.
Þú sérð nú hvernig ástandið er þar! Þegar veikin
kom upp var mest öllu sleppt beint í sjóinn, þótt
fiskurinn væri sjúkur. Mér var hins vegar gert að
slátra öllu. Og svo kom hingað danskur sérfræð-
ingur. Hann fann enga sjúkdóma hjá mér. Þessi
sérfræðingur sem heitir Frank Bregneballe hef-
ur starfað við fisksjúkdómarannsóknir fyrir
danska ríkið í rúm 30 ár og er m.a. prófdómari
við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn
varðandi fisksjúkdóma. Á síðustu átta árum hef-
ur hann ferðast víða um lönd í Evrópu, Suður-
Ameríku og Kína á vegum matvælastofnunar
Sameinuðu þjóðanna. Yfirdýralæknir íslands
hefur látið þess getið í blöðum að þessi danski
maður hafi enga þekkingu á fisksjúkdómum.
Álitsgerð hans varðandi heilbrigði fisks í Laxa-
lóni er til reiðu fyrir hvern sem kærir sig um að
athuga hana. Myndi matvælastofnun Samein-
uðu þjóðanna hafa ráðið þennan mann til starfa
eftir tillögum dönsku ríkisstjórnarinnar ef ekk-
ert mark væri á honum takandi?
Nei, maður skyldi aldrei gefast upp fyrir því,
sem er ljótleiki. Þeir hafa rógborið mig og starf-
semi mína um allt land. Hann séra Björn í Sauð-
lauksdal hóf kartöflurækt; það ætlaði nú allt vit-
laust að verða þegar hann byrjaði. Hvað, á nú að
láta fólkið eta þennan andskota sem kemur upp
úr moldinni þar sem ekkert er nema ána-
maðkar! Þetta var sagt. Það átti að drepa hann.
Þetta var nú ekki nema rúmum hundrað árum
áður en ég fæddist og það var frægt að séra
Björn var álitinn skrýtinn. Eða þegar bíllinn
kom fyrst til landsins og þeir gerðu út nefnd til
að athuga hvort skepnurnar þyldu að sjá hann!
Já, það var gert, menn sendir á bílum austur
fyrir fjall til að kanna viðbrögð kúnna þegar þær
heyrðu og sáu bifreiðar. Og fólk hélt að skepn-
urnar myndu drepast — það var þegar rafmagn-
ið kom — að þær myndu bara drepast við að
ganga undir allar línurnar. Hugsaðu þér annað
eins. Þeir halda alltaf að nú eigi að ganga af
landbúnaðinum dauðum."
Allt í gúanó
Já, ég ætlaði bara í stórútflutning hérna, selja
regnbogasilung út í stórum stíl. Þetta er mjög
eftirsóttur matfiskur. Hrognin voru flutt til lands-
ins frá Danmörku 1951. Það var sett sem skilyrði
að ég hefði heilbrigðisvottorð og fylgdi það með
frá dönskum yfirvöldum. Það voru tveir menn
frá landbúnaðarráðuneytinu sem skoðuðu
hrognin, Árni Friðriksson og Hermann Einars-
son. Svo sögðu þeir allt í lagi, þú mátt taka
hrognin. En nei, svo áttu seiðin og fiskarnir að
vera veikir. Veiðimálastjóri, Þór Guðjónsson, og
hann þarna Einar Hannesson,- það var hann sem
sagði fiskinn hafa „minkaskott", og þar af leið-
andi hættulegan íslenska lífríkinu.
Nei, það er búið að valda stórkostlegum skaða
fyrir þjóðina. Þeir hafa valdið þeim skaða að við
urðum 30 árum á eftir Norðmönnum í þessari
atvinnugrein. Hugsaðu þér, ég lét reikna það út
og kannaði það auðvitað vel áður en ég lét það
frá mér fara, að Danir flyttu út regnbogasilung,
jafnvirði allrar mjólkurframleiðslu frá Höfn í
Hornafirði og vestur á Snæfellsnes, árlega.
Norðmenn fljúga með eldisfisk yfir höfðum okk-
ar, fyrir um á annan milljarð, á bandarískan
markað.
Síðastliðin 30 ár hef ég af og til ekið regnboga-
silungi til bræðslu í fiskimélsverksmiðjunni að
Kletti og grafið í jörð niður milljarða hrogna
vegna þess að ég hef ekki fengið að framleiða
fiskinn vegna sjúkdómalyga. Hugsaðu þér! En
þeir héldu víst að ég ætlaði að eyðileggja ís-
íenskan landbúnað, bara af því að ég ætlaði að
rækta fisk í kvíum.
Samanber samþykkt á stéttarfundi bænda þ.
8. september 1980 þar sem skorað er á landbún-
aðarráðherra að beita sér fyrir lagasetningu
sem stemmi stigu við verksmiðjubúskap, þar á
meðal fiskirækt.
Eins og það hefði áhrif á lífríkið þótt ég væri
með fiska í keri hérna. Hann er ekki grimmari,
regnbogasilungurinn, en t.d. urriðinn í Þing-
vallavatni, eða heldur þú að í öllum iöndum ver-
aldar væri verið að dreifa seiðum í milljarðatali
yfir veiðivötn ef menn væru svona hræddir við
hann?
Regnbogasilungur hefur verið sendur til
þekktustu stofnana erlendis til veirurannsókna
en veira hefur aldrei fundist í fiski frá Laxalóni.
Og núna, núna þarf ég umsögn Náttúruvernd-
arráðs til að rækta lax í sjó í Hvalfirði. Náttúru-
verndarráðs! Ég sagðist nú bara fara og fá
Greenpeace-úrskurð í málinu. Náttúruvernd!
Nei, ég ætla ekki að hafa þau orð sem hafa
þyrfti yfir svona lagað. Þessi fiskur hérna er
frægur fyrir heilbrigði.
Beint úr klóakinu
í fiskinn!
Já, ég skrifaði grein um stöðina í Kollafirði áð-
ur en hún tók til starfa og benti á að það væri
beinlínis hættulegt að byggja þessa stöð þarna.
Sjáðu nú til Magdalena, það er til fugl sem kall-
ast veiðibjalla og hún verpir í vatnið í Esjunni
sem rennur inn í stöðina. Það vita allir. Hún
syndir í klóökunum allt í kringum Reykjavíkur-
borg, menguðum af salmónellu og öðrum
hættulegum bakteríum. Þú manst hvað gerðist
á Akranesi, þar er þetta líka svona og drykkjar-
vatnið varð eitrað. Hvað heldurðu; fuglinn sækir
bakteríuna beint í klóökin og hún situr í fiðrinu,
það er ekki hægt að komast hjá því að þetta ber-
ist á milli. Alls staðar nema hér eru gerðar ráð-
stafanir gegn þessu, auðvitað. Vatnið er varið.
Já, ég varaði við því að byggja stöðina þarna. Ég
veit þetta bara miklu betur en þeir. Það verður
aldrei, að mínu viti, hægt að rækta fisk í ríkis-
stöðinni í Kollafirði, vegna hættu á fisksjúkdóm-
um.
Hann Vilmundur heitinn og Árni Gunnarsson
gerðu fyrirspurn á Alþingi 1977. Þeir vildu láta
gera úttekt á því, hvort þessi sjúkdóma-deila um
fiskinn minn á Laxalóni hefði átt við rök að
styðjast, rannsaka Laxalónsmálið, sjáðu. Allir
framsóknarmenn greiddu atkvæði á móti, nema
Einar Ágústsson, og Alþýðubandalagsmenn all-
ir á móti því að málið væri rannsakað. En það fór
nú samt í gegn; það var skipuð nefnd. Hún skil-
aði áliti og komst að þeirri niðurstöðu að ég
hefði orðið fyrir milljónatjóni. Jú, ég fékk greitt
eitthvað, en ekki nærri allt.
Gert að slátra öllu
Ég er mikið til hættur að skipta mér af þessu.
Sonur minn, já og yngra fólkið, það þarf að taka
við. Sonur minn var á fimmta ár í námi í fiski-
rækt erlendis svo hann veit hvað hann er að
gera. Ég bara fylgist með og gef góð ráð ef ég er
um þau beðinn. Við erum að flytja út, regnboga-
silung og laxaseiði. Þrír skipsfarmar þegar farn-
ir til Noregs. „Smolt“, það er það sem við köllum
þau, þegar seiðin fara að taka mat. Fyrst eru þau
með kviðpoka, sem þau fá næringuna úr, svo
verða þau „smolt", sjáðu. Nú erum við búin að
koma okkur upp stöð fyrir austan, Fiskalóni í
Ölfusi, og einnig í Hvammsvík í Hvalfirði. En að
rækta þetta upp í matfiskastærð, nei, það getum
við ekki, það vantar peninga til þess og fáum við
þá? Nei, við fáum ekki peninga til þess.
Ég var búinn að fara um allt að leita að hentug-
um stað, um allt Reykjanesið. Hvammsvíkin er
alveg kjörin. Þar er hafbáran létt og sjórinn ekki
of kaldur og ómengaður og straumur fullur af
æti beint utan úr firðinum. Og skipin bara leggj-
ast upp að og ferma. Við vorum að selja regn-
bogasilungs- og laxaseiði fyrir u.þ.b. 15 milljónir.
Jahá, ef við hefðum haft peninga og selt þau sem
matfisk, þá hefði þetta verið drjúg sala, get ég
sagt þér. Já, Hvammsvík er aiveg kjörinn staður.
En Framsókn — elskan mín, minnstu ekki á
það. Auðvitað er ég pólitískur, það eru allir ís-
lendingar. En þetta er ekki pólitik hjá þeim. Ég
vil ekki nota þau orð, sem hafa mætti. Og eins
og ég sagði, maður á ekki að gera sér gott úr
óförum annarra — veistu það að þeir ætluðu
ekki að leyfa mér að rækta lax í Hvammsvík.
Nei nei, bara regnbogasilung! Já, þetta er sami
stofninn. Sjáðu til, þeir gerðu mér að slátra öllu,
já, það var árið 1977 held ég, bara slátra öllu og
hreinsa út. Kvöldið áður en átti að slátra, kom
hingað hann Pálmi frá Akri, hann var þá land-
búnaðarráðherra, sjáðu, og hann segir við mig:
„Heyrðu, Skúli minn, þú mátt til með að bjarga
stofninum, þú heldur hrognunum og lætur sótt-
hreinsa þau.“ Það var það sem ég gerði.
Ég átti ekki að fá að rækta lax núna. Ég hef
bréf upp á það. En svo skiptu þeir um skoðun. Ég
get sagt þér, Magdalena, að þær eru orðnar
margar næturnar, sem ég hef ekki sofið. Ekki
vegna peninganna, nei, maður á að sofa fyrir
þeim, en vegna lyganna og rógsins. Auðvitað er
maður sár, hvernig á annað að vera, ég er búinn
að standa í þessu í 30 ár. En ekki gefast upp, það
er lagið. Þrjóskan líklega, já, ætli það sé ekki
þrjóskan vestfirska, nei, ekki þrjóska; heldur
vestfirskt úthald. En að lokum vil ég segja þetta:
Það er engin þörf fyrir embættismenn sem ekki
gera skyldu sína gagnvart iandi og þjóð, og
þeirra er ekki þörf til starfa fyrir þjóðina. Það er
háttur siðaðra manna sem gera öðrum rangt til
að biðja afsökunar á gerðum sínum. Ég bíð eftir
yfirlýsingum frá starfsmönnum sjúkdómanefnd-
ar og landbúnaðariáðuneytisins þar sem þeir af-
saka framkomu sína gagnvart landi og þjóð í
þessu máli.
Þegar ég er búin að þiggja kaffið og kökurnar
hjá Svövu, er aðeins eftir að kveðja og þakka
fyrir sig. Enn er nýtt andlit komið í húsið, lítið
barnabarn að leika sér á grasbalanum úti fyrir.
Stórfjölskyldufaðirinn fylgir mér út á hlað, og
hann kveður eins og höfðingi. „Hingað myndi
ég vilja koma aftur," segi ég og hann segir það
nú vera í lagi og ég veit hann á eftir að sýna mér
fiskana sína aftur einhvern tímann.
Ég er strax farin að hlakka til.