Helgarpósturinn - 05.03.1987, Page 38

Helgarpósturinn - 05.03.1987, Page 38
ERLEND YFIRSYN Þegar Tower-nefndin hafði útlistað í skýrslu sinni á 304 síðum afglöp Ronalds Reagans og manna hans, sem höfðu í för með sér Írans-Contra hneykslið, varð ljóst að Donald Regan starfsmannastjóra yrði ekki lengur vært við hægri hönd Bandaríkjafor- seta í Hvíta húsinu. Hátturinn sem hafður var á þeim mannaskiptum segir litlu minna en skýrslan sjálf um ástandið við forseta- embætti Bandaríkjanna. Fyrst leitaði Reagan til tveggja gamalla vina sinna og samherja í stjórnmálabarátt- unni, þeirra Pauls Laxalts, öldungadeildar- manns frá Nevada fram að því nýtt þing kom saman eftir áramótin, og Drews Lewis, áður samgönguráðherra og nú forstjóra Union Pacific járnbrautarfélagsins. Báðir synjuðu boðinu. Vísaði Laxalt til, að hann hefði fullan hug á að leita eftir útnefningu í forsetafram- boð fyrir repúblikana. Lewis kvað hafa ósk- að eftir víðtækara umboði til mannabreyt- inga en forsetinn vildi veita. Eftir afsvar þessara tveggja, sem Reagan hefði helst kosið sér við hlið í mestu þreng- ingum sem yfir hann hafa dunið á stjórn- málaferlinum, hófst leit vítt og breitt að nýj- um starfsmannastjóra, og herma fregnir að til greina hafi komið Price, sendiherra í London, Harrington, áður orkumálaráð- herra, og Duberstein, fyrrverandi yfirmaður löggjafarmálefna í starfsliði Hvíta hússins. Nýr starfsmannastjóri var svo að lokum ráðinn Howard Baker, öldungadeildarmaður frá Tennessee þrjú kjörtímabil og foringi repúblíkana í þeirri deild þingsins fyrra kjör- tímabil Reagans. En skiptin á starfsmanna- stjórum fóru ekki fram með skaplegum og eðlilegum hætti, þannig að forsetinn byði þann nýja velkominn og kveddi hinn sem fór. Nancy Reagan forsetafrú var orðið svo brátt að koma því á framfæri, að bóndi hennar væri laus við óhappamanninn Donald Regan, að hún lét ráðningu Bakers berast til fréttamanna. Regan fékk því fyrstu vitneskju um að starfsferli sínum í Hvíta húsinu væri lokið, þegar hann sá eftirmann sinn kynntan í sjónvarpsfréttum. Skrifaði hann þá sam- stundis einnar setningar afsagnarbréf og skundaði úr forsetasetrinu í bíl sinn án þess að kveðja kóng né prest. Andhælishátturinn á þessum gangi mála var svo undirstrikaður, þegar í sjónvarpi voru endursýndar myndir frá síðustu skipt- um á starfsmannastjórum, þegar Regan tók við af James Baker, en þeir skiptu á embætt- um og sá síðarnefndi varð fjármálaráðherra. þar kynnti forsetinn nýju starfsskiptinguna Howard Baker er frjáls- lyndur, og nú fær Nancy bágt hjá íhaldinu fyrir að hafa valið hann. eftir Magnús Torfa Ólafsson Reaganisminn úr sögunni meö komu Bakers í Hvíta húsið með viðhöfn, hafði þá Baker og Regan sér sinn til hvorrar handar við ræðupúltið í Hvíta húsinu. Val Howards Bakers til að koma lagi á óreiðuna, sem dafnað hefur við forseta- embætti Bandaríkjanna á valdatíma Ronalds Reagans, hefur stórpólitíska þýðingu. Koma Bakers í valdamesta starf stjórnkerfisins næst forseta þýðir í stuttu máli, að reagan- isminn hefur runnið sitt skeið á enda. I stað hugmyndafræðilegra beinserkja úr hægra armi Repúblíkanaflokksins, sem verið hafa að yfirgefa Hvíta húsið frá því sálufélagar þeirra í Þjóðaröryggisráðinu gerðu reagan- ismann að hneykslunarhellu og aðhláturs- efni með ævintýramennsku sinni, er kominn t lykilstöðu fremsti merkisberi frjálslyndra og hófsamra repúblíkana, maður sem nýtur trausts og virðingar allra stjórnmálaafla, sem máli skipta, nema harða íhaldsins, þeirra sem hingað til hafa átt sérstakan að- gang að forsetaembættinu á valdaskeiði Reagans. Howard Baker vann sér það til sérstakrar óhelgi í augum heimsveldissinna á hægri væng bandarískra stjórnmála, að hann studdi stjórn Jimmy Carters til að fá fullgiltan í Öldungadeildinni samninginn við Panama um að Bandaríkin skili því ríki Panama- skurðinum og skurðsvæðinu, sem Bginda- ríkjamenn sölsuðu undir sig með ofríki snemma á öldinni. I kosningabaráttunni 1980 var þessi samningsgerð eitt helsta ádeiluefni Reagans á keppinaut sinn í for- setakosningunum. í lok kjörtímabils 1984 hafði Baker fengið nóg af að þurfa að fylgja fram í Öldunga- deildinni frumvörpum stjórnar Reagans, sem sum voru honum lítt að skapi. Lét hann því af þingmennsku til að helga sig undir- búningi að baráttu fyrir útnefningu repúblík- ana til forsetaefnis að ári. Með því að gerast starfsmannastjóri hjá Reagan, hefur Baker lagt vonir um forseta- tign á hilluna. Enginn efast um að honum gengur einkum til að leggja sitt af mörkum til að lyfta forsetaembætti Bandaríkjanna úr öngþveiti og niðurlægingu, sem Tower- skýrslan tíundar skilmerkilega. Þar er sýnt fram á, þótt með vægilegum orðum sé, að Ronald Reagan hefur í raun brugðist embættisskyldu sinni. Hann hefur heimilað athæfi, sem vafi er á að standist að lögum. Hann hefur látið viðgangast, að bandarísk utanríkisstefna í hinum afdrifarík- ustu málum komst í mótsögn við sjálfa sig, með herfilegum afleiðingum fyrir hagsmuni Bandaríkjanna og ríkja á þeirra bandi víða um heim. Þetta gerðist sökum þess, að for- setinn hafði ekki fyrir því að gera sér grein fyrir þýðingu þess sem hann var að heimila, og lét síðan undir höfuð leggjast að láta fylgj- ast með framkvæmd mála og afleiðingum athafna, sem unnar voru í hans nafni. Nú er forsetinn 76 ára, og verður væntan- lega manna elstur á forsetastóli Bandaríkj- anna. Hann er enn í afturbata eftir samtímis ristilskurð og aðgerð á blöðruhálskirtli. Tower-nefndin komst að raun um, að honum er um megn að rifja upp þýðingarmestu ákvarðanir um vopnasöluna til írans. Forð- ast var að skjalfesta það efni. Ekki er að vænta að Ronald Reagan kasti úr þessu makræðisvenjum og skeytingar- leysi um staðreyndir mála og meðferð þeirra, sem fylgt hafa honum á löngum ferli. Eftir er að fá niðurstöður frá aðilum, sem ætla má að verði stórum harðleiknari en Tower-nefndin, sem forsetinn skipaði að eigin vali. Rann- sóknarnefndir beggja þingdeilda hafa úr að moða miklu efni, sem Tower og hans menn komust ekki yfir að nýta til neinnar hlítar vegna tímamarka. Sérstakur rannsóknar- stjóri, Lawrence Walsh, rekur sakamálsrann- sókn á hendur fyrrverandi starfsmönnum Þjóðaröryggisráðs og forsetaskrifstofu, og gefur eindregið til kynna, að hann telji sig kominn á slóð ákæruefna. Því er síður en svo fullreynt, að Ronald Reagan auðnist að enda síðara kjörtímabil sitt, þótt honum endist líf og heilsa. Nú er hafin hríð að nýju skotmarki í Hvíta húsinu og úr óvæntri átt. Talsmenn harða íhaldsins í bandarískum fjölmiðlum ráðast skyndilega og ákaft á Nancy forsetafrú fyrir ótilhlýðileg afskipti af málum á starfssviði manns síns, sér í lagi brottför Donalds Regans og ráðn- ingu Howards Bakers í hans stað. Hugsi Nancy sér að leika sama leik og Edith Wilson hélst uppi fyrir hartnær sjötíu árum, verður það ekki auðvelt. Eftir að Woodrow Wilson forseti fékk heilablóðfall haustið 1919, fram til þess að hann lét af embætti þrem misserum síðar 1921, fór for- setafrúin að verulegu leyti með stjórn ríkis- ins og kom í veg fyrir að úrskurðað væri um starfshæfni manns síns. Þetta tókst Edith í skjóli áhrifamikilla bandamanna og meiri hlédrægni fjölmiðla en nú tíðkast. Nú er líka stjórnkerfið sjálft sýkt. William Casey, fornvinur Reagans, reynist í forstjóra- tíð sinni hafa leikið leyniþjónustuna CIA þannig, að fyrirhugaður eftirmaður varð að draga sig í hlé, ella hefði þingheimur hafnað honum. Ástæðan er að böndin berast að Casey og Gates, aðstoðarmanni hans, að þeir hafi Iátið búa til rök fyrir íransflaninu og brugðist lögboðnum skyldum við eftirlits- nefndir þingsins. Spillingin hefur síast út um stjórnkerfið frá Hvíta húsinu. Beinserkjahugmyndafræðin hefur borið skynsemi og þekkingu ofurliði. Nú er að sjá hvort Howard Baker kemst fyrir rætur meinsins. Öðrum er ekki betur til þess treystandi. MAL OG MENNING Bölv og ragn (1) Sextíu ár eru nú liðin, síðan Guðmundur Finnbogason lands- bókavörður birti greinina Bölv og ragn (í Skírni 1927). í næstu þátt- um mínum, sem munu fjalla um blótsyrði, mun ég eðlilega styðjast nokkuð við þessa ritgerð Guð- mundar, þó að ég af ýmsum sök- um líti á málíð frá nokkuð öðru sjónarmiði. Ég veit ekki til, að nokkur annar Islendingur en Guð- mundur hafi gefið sér tíma til að rannsaka þetta efni og skrifa um það. Það ásamt mörgu fleira sýnir áhuga hans á íslenzku máli. Einhvern veginn leggst það í hömina á mér, að meira hafi verið bölvað og ragnað á Islandi árið 1927 en nú á dögum. Ekki heyri ég unglinga bölva og ragna nokkuð í líkingu við það, sem ég og jafn- *aldrar mínir gerðu á unglingsár- jum og raunar fram á fullorðinsár. Vera má, að Guðmundi Finnboga- syni hafi verið málið hugstætt, vegna þess að blótsyrðin hafi ver- ið veigamikill þáttur í daglegu málfari og honum þótt það miður. Áhugi minn á blótsyrðum stafar sennilega af öðrum sökum en hans. Blótsyrðin eru að minni hyggju skemmtilegur og sérstæð- ur þáttur orðaforðans, sem á ræt- ur í „menningu" þjóðarinnar, aðallega í þeim trúarbrögðum eða hjátrú, sem hún hefir aðhyllzt. Flestir landnámsmanna voru ásatrúar eða trúðu á „mátt sinn og rnegin". í þeirra hugarheimi var ekki til neinn djöfull né helvíti. Hel var allt annars eðlis en helvíti. Heiðnir landnámsmenn þekktu ekki nöfn á þessum fyrirbærum, djöfli og helvíti, orðin voru ekki til í þeirra orðaforða. Þeir kynntust þeim fyrst með kristinni trú. Þessir frumbyggjar landsins bölvuðu því ekki í nútímaskilningi þess orðs. Þeir höfðu ekki „menningarleg- ar“ forsendur til þess. Þó eiga sum blótsyrði rætur í heiðni, eins og rakið verður í síðari þáttum. Enda þótt óvinurinn og kvala- staðurinn væru utan við hug- myndaheim landnámsmanna, trúðu þeir þó á illar vættir. Virðast tröllin vera þar fremst í flokki. í leit að einhverju, sem líkist blótsyrð- um, er helzt að vænta þess í orða- samböndum, sem orðið tröll eða önnur samræð koma fyrir í. í Orðabók Menningarsjóðs er til- greint orðasambandið tröll taki hann og það þýtt „fari hann til fjandans". Ég efa, að þetta orða- samband sé notað í nútímamáli nema sem einhvers konar tilvitn- un til fornmáls. Bölbænir af því tæi, sem orðasambandið í OM felur í sér, eru alltíðar í fornritum og eiga vafalaust rætur í heiðni. Trú á tröll og illar vættir, þeim svipaðar, eru að vísu ekki hluti ásatrúar, en lifði samhliða henni og raunar einnig síðar samhliða kristninni. Það má vel vera, að enn sé til fólk, sem trú- ir á tilvist trölla, þó að ég þekki það ekki. Nú væri ekki úr vegi að styðja framan greindar fullyrðingar dæmum. Við skulum fyrst taka til athugunar orðið tröll, sem í fornu máli var troll. Orðsifjafræðingar eru ekki á eitt sáttir um uppruna orðsins, og skal því ekki farið út í þá sálma. En benda má á, að af orðinu troll er mynduð sögnin trylla, sem í rauninni merkir „breyta í tröll". Af þessari sögn er lýsingarháttur þátíðar í fornu máli trylldr, en það orð var haft um menn, sem orðið höfðu fyrir ein- hvers konar galdrabrögðum, sbr. Dufþakr var mikill ok mjök trylldr, svá at hann var eigi ein- hamr (Flateyjarbók II, Rvk. 1945, bls. 3). Orðið trylldr er í nútíma- máli trylltur (lýsingarorð) og merkir „óður“. En athugum nú fornar bölbænir. í upphafi Grettlu segir allnokkuð frá Önundi tréfæti. Víkingar, sem hann átti í höggi við hlógu að hon- um og mæltu: Troll hafi Tréfót all- an,/trollin steypi þeim öllum. ÍF VII, 11, þ.e. tröllin hirði Önund tré- fót og felli hann og alla félaga hans. Þá minnast sennilega margir þess, að eftir veizlu á Bergþórs- hvoli, þegar Bergþóra lítilsvirti Hallgerði, sagði Hallgerður við Gunnar: Trollhafiþína vini. ÍF XII, 92, þ.e. tröll hirði vini þína. Nú er Njála ekki skrifuð fyrr en tæpum þrjú hundruð árum eftir að kristni var lögtekin á íslandi. Samt er þetta „heiðna" orðasamband not- að. Gæti verið, að Njáluhöfundur hafi haft tilfinningu fyrir, að heiðið orðasamband ætti hér við? í Skírnismálum (30. vísu) stend- ur: Tramar gneypa þik/skulu gerstan dag, sem virðist merkja „óvættirnar skulu kvelja (gneypa) þig á hinum bitra (gerstan) degi". Sumir Eddufræðingar hafa viljað breyta vísunni vegna stuðlasetn- ingar. Ég er vantrúaður á slíkt. Ógerningur er að fullyrða, hvort tramar er fleirtala af trami eða tramr. En þess ber að geta, að trami kemur fyrir í síðari alda ís- lenzku í merkingunni „illur andi, óvættur". Sama orð eða náskylt kemur fyrir í Norðurlandamálum, sbr. færeysku tramin, nmáll. tram, sæmáll. tráma, eldri dönsku tremmen. Öll þessi orð tákna djöf- ulinn. I óbundnu máli framan við Grímnismál segir svo: Faröu nú, þar er smyl hafi þik (Sæm. Edda, Kria 1867, bls. 75). Orðið smyl kemur ekki annars staðar fyrir, en sambandið sýnir, að það táknar einhvers konar óvættir, t.d. tröll. Orðið flagd merkti „tröll, óvætt- ur“ í fornu máli og kemur fyrir í eins konar formælingu í Austur- fararvísum Sighvats Þórðarsonar: flögð baðk... við þau deila. ÍF XXVII, 137, þ.e. ég bað tröllin um að berjast við þau. Loks kemur lýsingarorðið gram- ur fyrir í bölbænum af fyrr greindu tæi. í eftirfarandi dæmi virðist orðið vera í hvorugkyni fleirtölu: deili gröm við þik (Helga kviða Hundingsbana I, 44). Hér er goð undanskilið, þ.e. berjist hin reiðu goð við þig. Orðið gramur kemur einnig fyrir í karlkyni fleir- tölu: Farðu nú þars/þik hafi allan gramir (Hárbarðsljóð 60. vísa). Hér gæti orðið œsir verið undanskilið. 38 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.