Helgarpósturinn - 10.12.1987, Blaðsíða 3

Helgarpósturinn - 10.12.1987, Blaðsíða 3
Þetta þýðir auðvitað ekki að ungl- ingabækur megi ekki vera skemmtilegar, þeir sem skrifa fyrir unglinga hafa til þess fulla heimild að segja brandara og vera fyndnir í hverri setningu ef þeir telja sig geta það. En það er alltaf þannig að ef brandari er sagður brandarans vegna þá er hann ekki sérstaklega fyndinn, hann verður ekki fyndinn fyrr en lesandinn sér að undir hon- um býr eitthvað annað en bara yfir- borðsfyndni. Að auki er það eigin- lega grátbroslegt þegar fullorðið fólk er að gera grín að unglingum í bókum sem þeim eru ætlaðar, vegna þess að húmorinn er yfirleitt húmor fullorðins sem lítur til baka og sér eitthvað í spaugilegu ljósi sem gerir að verkum að það verður eins og hann sé að reyna að gera grín að því að vera unglingur, ástar- flækjum, bólum, stórum rössum, litlum brjóstum og skökku nefi. Auðvitað ættu allir fullorðnir að vita að slík vandamál eru ekki endalok heimsins en kannski þeir ættu að rifja upp hvort þeir hafi ekki taiið svo vera áður fyrr og fundist lítið sniðugt að verið væri að hæðast að því sem þeim var heilagt. Svo má kannski líka segja að þessir klisju- brandarar séu orðnir syfjaðir og ekki mikill kraftur í þeim og þeir bera höfundum sínum ekki gott vitni. Það er eitt af meginmálum hverr- ar skáldsögu, sérstaklega þeirrar sem ætluð er til annars en vera stundarafþreying, að í henni verða að felast einhvers konar upphaf, ris og endir. A.m.k. er það svo í hinni raunsæu frásagnarhefð sem ein- kennir íslenska sagnaritun fyrr og síðar. Það er heldur ekki verra að í bókum séu átök, persónur takist á við sjálfar sig, aðra, aðstæður, um- hverfi. Hver nennir að lesa átaka- lausa sögu og hver man í raun eftir bók sem hann hefur hrifist af þar sem ekki hafa verið einhver átök, þrá eftir einhverju, ferli sem per- sóna gengur í gegnum og kemur út breytt á einhvern hátt, eitthvað sem sóst hefur verið eftir eða leitað að? Þegar þessar þrjár unglingabækur eru skoðaðar, annars vegar með þetta í huga og hins vegar með hlið- sjón af bók eins og Vini mínum Lúka eftir Christine Nöstlinger, sem Mál og menning gefur út, sést glögglega að íslensku höfundarnir eiga langt í land með að skapa sögu sem stend- ur undir nafni. Maður hefur til- hneigingu til að halda að þeir þekki ekki einföld lögmál sögu og haldi að lífið sé eitt samfellt sólarsumar, Ijós- hærðar stelpur og sólbrúnir strákar sem komi hvergi frá né séu á leið- inni eitt eða neitt. Hafi ekkert við að glíma nema það hvort stelpan eða strákurinn sem viðkomandi er svo skotinn í sé skotinn á móti. Satt að segja er þetta eitt allsherjar strand- partí í kuldanum á íslandi. Fyrst að hér var minnst á bókina Vin minn Lúka og hún höfð til hlið- sjónar þeim íslensku bókum sem fjallað er um er rétt að gera örlitla grein fyrir henni. Þar er á ferðinni bók um unglinga, bók fyrir unglinga og bók sem ætla má að ungiingar, jafngamlir söguhetjunum, hafi gam- an af að lesa og finnist hún eitthvað hafa að segja og eiga erindi til sín. Lúki, aðalsöguhetjan, hefur verið burtu eitt sumar og þegar hann kemur til baka er hann gjörbreyttur. Hann hefur skipt um karakter, sem reyndar kemur í ljós að gengur ekki upp hjá honum, vegna þess að það þarf meira til en að breyta klæða- burði og fara að prjóna í skólanum svo að persónuleikinn breytist. Góð grein er gerð fyrir bakgrunni per- sónanna, ekki bara sagt: Pabbinn vinnur á sjónvarpinu og hann er aldrei heima, þess vegna finnst x hann þekkja pabba of lítið. Persónur efast, velkjast í vafa um sjálfar sig og það sem þær gera, tak- ast á við eitthvað og reyna að gera upp við sig hvernig þær eiga að bregðast við því sem upp kemur hverju sinni. Með öðrum orðum þá kemur sagan af Lúka inn á svo margt sem skiptir alla máli, jafnt unglinga sem aðra, og lætur sér ekki nægja að velta sér upp úr því hvort einhver er skotinn í einhverj- um sem er kannski ekki skotinn í honum. Hún tekur á snjallan hátt á því eilífðarvandamáli sem það er að vera hvorki barn né fullorðinn og hafa þroska en mega bara ekki nota hann nema þegar öðrum hentar. Alvaran er greinileg en alls ekki á kostnað gamansemi og spaugilegra atvika, enda er önnur hlið á öllum trúðum en sú sem snýr út. Bók Helgu Ágústsdóttur, Og hvaö meö þaö, hefur óneitanlega sérstöðu innan þessarar umræðu því hún fjallar um eldri krakka, krakka í menntaskóla, tæplega tvítuga. Engu að síður verður hún að flokk- ast undir það að vera unglingabók og kannski er hún ekki alveg óskyld bók Gillian Cross, Á toppinn, að því leyti að þar er fullorðinsheimurinn miklu nær en í þeim fjórum bókum sem þegar hefur verið lítillega vikið að. Bók Helgu tekst á við öll hugsan- leg vandamál, sjúklega feimni, ást- leysi, erfið samskipti og að lokum dauða. Það er næstum eins og höf- undurinn hafi farið í skýrslur félags- málastofnunar um hugsanleg vandamál unglinga í menntó og siengt þeim öllum saman í eina persónu. Mamma fær hjartaáfall, pabbinn er sambandslaus, bróðir- inn í rugli og þegar hann hættir því fer hann að umgangast homma óeðlilega mikið, vinkonurnar skilja ekki, sambandið við besta vininn brestur, ömurlega tískugellan stelur stráknum, aðalpersónan, sem reyndar heitir Sigrún, verður ást- fangin af manngufu sem er 35 ára og það er auðvitað fyrirfram von- laust, vinir frá Spáni koma í heim- sókn en það verður ekki eins og Sig- rún hafði búist við, það gengur illa í skólanum. Þegar hér er komið sögu hafa höfundi greinilega fallist hend- ur yfir þessu öllu og leyst úr flækj- unni með því að láta Sigrúnu lenda fyrir bíl! Þessi endir er auðvitað full- komlega réttmætur, því það hefði tekið mörg bindi að leysa úr þessu öllu. Hins vegar er hann ákaflega billegur af hálfu höfundarins en vissulega er hægt að taka undir með bókarkápunni, hann er óvæntur, eiginlega eins og skrattinn úr sauð- arleggnum. Þetta er semsé alger andstæða við bækur Andrésar og Hrafnhildar, þar sem öll vandamál eru af öðrum heimi og ekki til umræðu og manni verður til þess hugsað hvort minna hefði ekki mátt gagn gera; Ef saga Helgu er borin saman við Á toppinn verður ljóst að enn er það sögubygg- ingin sem er íslendingum mjög í óhag. Á meðan sagan A toppinn, sem fjallar um unglinga í rokk- hljómsveit, er vendilega byggð upp í dramatískan hápunkt undir lokin verður ekkert ris í bók Helgu, frekar en hjá Andrési, Hrafnhildi eða Eð- varð. Það má heita undarlegur and- skoti ef fólk sem alið er upp við hina raunsæju íslensku frásagnarhefð hefur ekki gert sér neina grein fyrir svo veigamiklum þætti skáldsögu sem bygging hennar er. Nú má ekki taka það þannig að hér sé verið að segja mönnum hvernig eigi að skrifa unglingabæk- ur og hvað eigi að fást við í slíkum bókum. Það væri vond latína að ætla sér slíkt. Hins vegar hljóta les- endur unglingabóka, þar með þeir sem ekki eru unglingar en lesa þær samt, að gera kröfu til þess að þegar verið er að gefa út unglingabækur, kannski hjá virtum forlögum sem hafa gefið út heimsbókmenntir í hálfa öld, vandi þau valið og geri sömu kröfur til þeirra sem skrifa unglingabækur og annarra höfunda sem eru á þeirra snærum. Mér er svo til alveg sama um þetta útburð- arvæl um að bækur þurfi ekki endi- lega að vera svo listrænar, megi al- veg hafa einvörðungu skemmti- gildi. Það eru allir orðnir þreyttir á þessu létta og hressa kjaftæði og það sem ekki fellur í þann flokk sé óalandi og óferjandi, sérstaklega fyrir unglinga, sem samkvæmt ís- lenskum unglingabókum virðast ekki vera hæfir til að lesa annað en endalausar og græskulausar kímni- sögur af ástarkomplexum jafnaldra sinna. Lífið er ekki endalausar sam- búðarstælur. Hvað þá heldur tára- dalur. Svo virðist sem íslenskir ungl- ingabókahöfundar séu þeirrar skoð- unar að annaðhvort sé lífið eitt stórt ha ha ha eða endalaus grátur og gnístran tanna. AÐ BREYTA FJALLI Hér á eftir fer kafli úr bókinni AÐ BREYTA FJALLI eftir Stefán Jónsson. Svart á hvítu gefur bókina út og er kaflinn birtur með góðfúslegu leyfi útgefenda. Helgar- pósturinn þakkar birtingarleyfið. Stefán er löngu lands- þekktur maður, bæði sem útvarpsmaður og síðar sem alþingismaður. Aldrei heyrði ég foreldra mína ræða landsmálapólitík fyrir utan þessar þriggja orða yfirlýsingar mömmu stöku sinnum, um að hún væri jafnaðarmaður. Þær notaði hún held ég eingöngu til þess að komast hjá því að taka þátt í stjórn- málaþvargi. Ég heyrði pabba aldrei kalla sig framsóknarmann, en hann fór ekki dult með aðdáun sína á Jón- asi Jónssyni, sem hann kynntist í Kennaraskólanum. Hún fór heldur ekki dult með skömm sína á Jónasi Jónssyni, sem hún kynntist líka í skólanum nokkrum árum á undan föður mínum. Ég held, að minningin um afstöðu mömmu til Jónasar standi í ein- hverju sambandi við heimsókn hans til okkar í Rjóðri að sumri til. Hana man ég óljóst og gæti alls ekki lýst ráðherranum á þá lund, að sú mynd yrði ekki búin til úr lýsingum ann- arra og ljósmyndum úr blöðum og þó kannski helst teikningum Tryggva Magnússonar í Speglinum, sem var heimilisblað okkar. Ég man bara eftir máltíð, sem varð mjög löng vegna þess, hvað gesturinn þurfti að tala mikið milli bitanna og lauk með rjómaskyri, sem hann hrósaði fjálglega og sagði að væri virkilegt ráðherraskyr, en mamma, sem hafði hleypt þetta skyr sjálf, sagði þurrlega að væri því miður misheppnað og væri þess háttar sem hún tengdamóðir hennar kall- aði graðhestaskyr. Svo sagði hún á eftir um skyrlof gestsins, að hann væri óhreinlyndur ofan á allt annað. Hún sat í Kennaraskóla íslands fyrsta veturinn sem hann starfaði 1909 og hafði lesið undir skólann norður á Húsavík, þannig að hún lauk brottfararprófi með kennara- réttindum strax vorið á eftir. Hún sagði að Jónas hefði ekki verið fræðari, heldur hefði hann kennt skoðanir sínar og ekki þolað neinar spurningar, sem gátu gert þær tor- tryggilegar. Auk þess hefði hann verið illkvittinn í orði og langræk- inn. Að loknu prófi um vorið fóru nemendurnir gangandi á Þingvöll. Uppi á miðri heiði kom svo Jónas Jónsson til þeirra á reiðhjóli og gekk með þeim, það sem eftir var ieiðar- innar austur yfir. Strax og hann bættist í hópinn, brá hann á það ráð að fara að erta yngsta manninn í hópnum og þann glaðværasta, sem hét Helgi Salómonsson. Helgi þessi var hvers manns hugljúfi í skólan- um. Hún átti mynd af honum frá þessum tíma með mikið liðað og ljóst hár og þess háttar bros, sem hann týndi víst einhvern tíma síðar. Ekki mun hann hafa verið hærri í loftinu þá en síðar meir, og Jónas lagðist nú á það lagið að stríða hon- um á smæðinni og gekk svo fram af öllum bekkjarsystkinunum, að einn úr hópnum fékk að lokum ekki orða bundist. Það var Magnús Stefánsson, sem þá var byrjaður að yrkja en ekki búinn að taka sér skáldanafnið Örn Arnarson. Hann sagði við Jónas að svo góður maður sem Helgi hefði vei mátt vera stærri, en engum skólafélaganna fyndist hann vera of lítill, enda þrengdi hann ekki að neinum með nærveru sinni, en það yrði ekki sagt um alla. Henni var alltaf jafn hlýtt til Helga, jafnvel eftir að hann kom heim úr framhaldsnáminu í Svíþjóð og búinn að taka upp þéringar og véringar og ættarnafnið Hjörvar. Þau Magnús Stefánsson héldu vin- áttu meðan bæði lifðu og skiptust á bréfum einu sinni á ári. Þannig fylgdist hún meðal annars með því, hvernig Jónas hélt áfram að muna tilsvar Magnúsar á heiðinni forðum. Sjálfsagt hefði hún getað fært fram einhverjar fleiri og hlutlægari ástæður fyrir ímugusti sínum á Jón- asi, en hún notaði bara þessa og klykkti svo oftast út með því að lof- Stefán Jónsson syngja séra Magnús Helgason skóla- stjóra. Einu sinni eða tvisvar, þegar henni þótti víst mikils við þurfa, heyrði ég hana taka það sérstaklega fram í lokin, að Jón Baldvinsson væri sinn maður. Ekki veit ég hvernig hún kaus í Alþingiskosningum, og ég er viss um að faðir minn spurði hana þess aldrei. En ég hef hana grunaða um að hafa í aðra röndina verið að svara kurteisri þögn hans með því að gera skop að Jónasi Guðmundssyni, fram- bjóðanda Alþýðuflokksins í Suður- Múlasýslu, og þá sjaldan við bar að hún vildi gera einhvern hlægilegan, þá lét henni það framúrskarandi vel. Að visu man ég eftir einum ræðu- stúf að auki sem hún flutti örsjaldan, ef svo bar við að einhver leyfði sér að lofa framsóknarráðherra í návist hennar fyrir umhyggju fyrir verka- mönnum. Þá hermdi hún eftir Ingvari Pálmasyni, þingmanni Framsóknarflokksins, þegar hann var að hrósa flokkum fyrir að hafa beitt sér fyrir lækkuðum tollum á lampaglösum. Það var líka ákaflega skemmtilegur ræðustúfur, sem pabbi sagði að væri óþarflega orð- réttur og hló aldrei mjög lengi að. Einn var sá pólitíkus fyrir utan Ey- stein Jónsson, sem þau dáðu bæði, en það var Páll Zóphóníasson. Þau hlökkuðu bæði til komu hans á Djúpavogi, og það var hátíð í Rjóðri, þá sjaldan hann leit þar við. Ekki man ég neitt úr samræðum þeirra annað en að þeir töluðu um málefni ungmennafélagshreyfingarinnar og svo um landbúnað og um búfé. Pál man ég vel sjálfan þarna að austan, hávaxinn, dökkleitan, stórskorinn, hýrlegan með rólegt fas, sem var einhvern veginn þess konar, að hann gat samt flýtt sér. Pabbi hafði óbifandi trú á búfjárþekkingu Páls og fór þó ekki betur en svo, að hann slátraði verðlaunakvígunni, sem Páll keypti fyrir hann uppi á Héraði, af því að hún beiddi svo seint að al- þýðudómstóll úrskurðaði hana við- rini. Og þá reyndist hún kálffull. í þeim héruðum hygg ég reyndar, að fólkið hafi ekki hugsað til Páls Zóphóníassonar fyrst og fremst sem stjórnmálamanns. Hann var lifandi þjóðsagnapersóna, og sögurnar, sem um hann gengu, voru sumar hverjar ekki með öllu af þesum heimi. En hvað um það, um raunveru- lega pólitík voru þau foreldrar mínir sammála. Þau ræddu um efnahags- mál og atvinnumál Djúpavogs og skóla- og menningarmálin og brutu heilann um leiðir til úrbóta. Og nú sem ég sit svona óralöngu seinna og rifja upp þessi samtöl þeirra, lágvær, orðfá, án tillits til nærveru minnar, sem þau tóku kannski ekki eftir í rökkrinu frá tíu-línu-lampanum, stundum langar umhugsunarþagnir á milli, sem aldrei þörfnuðust út- skýringa — þá minnist ég þess nú ekki að hafa heyrt þau tala um aga- vandamál barna á Djúpavogi. Kannski hafa þau ekki verið önnur né meiri en þau sem óhjákvæmileg gátu talist að þeirra dómi. Sennilega hef ég verið níu ára vet- urinn sem faðir minn gældi við hug- mynd sína um uppreisn alþýðu á Djúpavogi með stofnun samvinnu- útgerðar, sem engin varð. Þetta var um þær mundir sem þýsku jafnaðar- mennirnir máttu bíta í gras fyrir samtíma aðsókn nasista og komm- únista, og Hitler tók að sér að leysa efnahagsvandamálin í Þýskalandi í eitt skipti fyrir öll. Sennilega sama árið, sem Himmler setti Ingimundi Stefánssyni kaupmanni í Hamborg þá kosti að skilja við konu sína, sem var Gyðingur, en láta eignir sínar ella. Ingimundur fluttist náttúrlega heim til Islands með konuna og skrifaði Heinrich Himmler bréf, sem sennilega hefur ekki verið póst- lagt öllu merkilegra frá Djúpavogi. Þar nafngreindi Ingimundur það meltingarop Adólfs Hitlers, sem þeir nasistar gætu stungið fyrrnefndum eignum upp í. Það var líka á þeim misserum sem þýski kommúnista- leiðtoginn Jan Valtin skipulagði starfsemi kommúnista á íslensku farskipunum. Eitthvað rámar mig í umræður um klofning Alþýðu- flokksins, þar sem einhver gaf þá skýringu, að kommúnistar væru ekki annað en róttækir jafnaðar- menn. Ég man líka eftir bréfi sem móðir mín las upphátt frá fyrr- nefndu skólabarni sínu, Stefáni Pjet- urssyni, ásamt úrklippu á grein úr Alþýðublaðinu, þar sem hann sakar Kómintern um svik við byltinguna. Hvað svo sem ég hélt að það væri nú, þá heyrði ég menn tala um það, að hún yrði sennilega gerð milli jóla og nýárs byltingin. Og lái svo hver sem vill örbirgðarmönnunum á Djúpavogi, þótt þeir væru tregir til að fara að hlaða íshúsveggi upp á von og óvon, þegar þeir höfðu fyrirheit um þess háttar aðgerðir milli jóla og nýárs, sem myndu afmá óréttlætið í heiminum í eitt skipti fyrir öll og tryggja mannkyninu paradísarsælu á jörð frá eilífð til eilífðar. HELGARPÓSTURINN B-3

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.