Morgunblaðið - 29.09.2002, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 29.09.2002, Blaðsíða 32
MINNINGAR 32 SUNNUDAGUR 29. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Stefán HörðurGrímsson skáld fæddist í Hafnarfirði 31. mars 1919. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 18. sept- ember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Stefánsdótt- ir og Grímur Gísli Jónasson. Bróðir Stefáns var Borgar, d. 1953. Stefán Hörður var ókvæntur og barn- laus en bjó í allmörg ár með Unni Eiríks- dóttur rithöfundi, d. 1976. Stefán Hörður ólst upp á Álfta- nesi og undir Eyjafjöllum, stund- aði nám við Laugarvatnsskóla 1939–1940 og einnig í ýmsum tungumálaskólum. Auk ritstarfa vann Stefán Hörður margs konar störf um ævina; hann var sjómað- ur framan af ævi á fiskiskipum og farskipum. Fyrsta ljóðabók Stefáns Harð- ar, Glugginn snýr í norður, kom út 1946 en verulega athygli vakti önnur bók hans, Svartálfadans, frá árinu 1951. Hliðin á sléttunni kom út 1970 og Far- vegir 1981. Árið 1987 kom Tengsl sem var tilnefnd til Bókmenntaverð- launa Norðurlanda- ráðs tveimur árum síðar, en fyrir síð- ustu bók sína, Yfir heiðan morgun, 1989, hlaut hann Ís- lensku bókmennta- verðlaunin fyrstur höfunda árið 1990. Heildarsafn með ljóðum Stefáns Harðar kom út árið 2000 og verk hans hafa ennfrem- ur birst á bók í Þýskalandi, Sví- þjóð, Frakklandi og Danmörku. Stefán Hörður hlaut margvísleg- ar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. úr Rithöfundasjóði Íslands og Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og heiðurslaun listamanna frá 1995. Einnig var hann heiðurs- félagi í Rithöfundasambandi Ís- lands. Útför Stefáns Harðar verður gerð frá Dómkirkjunni á morgun, mánudaginn 30. september, og hefst athöfnin klukkan 13.30. Kveðja frá Rithöfunda- sambandi Íslands Sé horft út í geiminn gegnum skýlausa nótt sést að bilin milli stjarna mynda stjörnur og stjörnur bilin Meistari ljóðsins, Stefán Hörður Grímsson, er horfinn á braut. Eftir standa verk hans, fáorð, hnitmiðuð og með sínum sérstaka blæ. Þótt hann væri ekki afkastamikið skáld og langur tími liði jafnan á milli bóka, náði hann tvímælalaust að fullkomna æviverkið og skipa sér á bekk með merkustu skáldum okkar Íslendinga á nýliðinni öld. Áhrifa hans gætir víða í skáldskap yngri höfunda og rista eflaust dýpra en séð verður á líðandi stund. Á seinni árum dró Stefán Hörður sig í hlé frá skarkala heimsins, baðst undan heimsóknum og vildi fyrir enga muni lenda í sviðsljósinu. Er skemmst að minnast þess að rithöf- undar vildu heiðra hann með bók- menntadagskrá á áttræðisafmælinu en hann óskaði eindregið eftir að það yrði látið ógert. Þá var gott til þess að vita að Ágústína Jónsdóttir ljóðskáld bar einstaka umhyggju fyrir honum og reyndist honum stoð og stytta í hvívetna. Stefán Hörður var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambandsins vorið 1989, en á árum áður hafði hann m.a. setið í stjórn Rithöfundafélags Ís- lands og gegnt trúnaðarstörfum í þágu þess. Félagar í Rithöfundasambandi Íslands kveðja Stefán Hörð Gríms- son með virðingu og þökk. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Stefán Hörður Grímsson var enginn unglingur þegar ég sá hann fyrst en þá hafði ég dregið upp í huganum óljósa mynd af hrjúfum öldungi en heilsaði síðan hæversk- um manni, sem hafði traustvekj- andi handtak, glettni í augum og milda rödd. Hann virti mig fyrir sér eins og til að ganga úr skugga um að ég væri sú sem ég sagðist vera, ljóð- unnandi sem óskaði að skyggnast nánar inn í ljóðheima hans. Hann var tortrygginn að eðlisfari, eflaust ekki að ástæðulausu, en féllst þó á að við ræddum saman um líf og list. Segja má að hann hafi stjórnað því, á óbeinan hátt, að viðræðum okkar lauk ekki fyrr en núna á haustdögum, á ári fjallsins, þegar hann kvaddi þennan heim. Eftir andlát hans leit ég til him- ins og sá að tunglið skein glatt, eitt af eftirlætistáknum hans. Stefán Hörður var heiðursskáld sem helgaði ljóðlistinni krafta sína alla tíð. Hann byrjaði að setja sam- an ljóð á barnsaldri og fékk þá for- smekkinn af því sem síðar kom: ávítur eða viðvaranir. Afasystir hans reyndi að koma í veg fyrir að hann setti saman ljótar lausavísur, sem hann hlyti bágt fyrir. Það kom hinsvegar í ljós þegar ungi mað- urinn þroskaðist að ljóð hans voru fjarri öllum ljótleika. Hann orti um mannleg samskipti, ástina, náttúr- una og hið viðkvæma og smáa; fugla, fiðrildi, blóm en honum nægði ekki að gera það með hefð- bundnum aðferðum. Hann varð eitt af formbyltingarskáldunum og þurfti reyndar að heyja baráttu til að losna undan ofurvaldi hefðbund- ins ljóðforms. Stefán Hörður tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum á Kjar- valsstöðum árið 1990 úr hendi for- seta Íslands, Vigdísar Finnboga- dóttur, fyrir síðustu ljóðabók sína: Yfir heiðan morgun. Ég hreifst strax af ljóðunum í þeirri bók og skynjaði eitthvað sterkt og heillandi í þeim sem snart mig djúpt. Síðan hefur bókin fylgt mér heima og að heiman. Það gladdi Stefán áttræðan að sjá heildarsafn ljóða sinna í einni bók sem Mál og menning gaf út. Það skipti hann máli að geta litið æviverk sitt í einni heild og fallegri umgjörð. Hann efaðist aldrei um kynngimátt orðsins og það gladdi hann einnig þegar ljóð hans voru þýdd og hlutu góða dóma erlendis. Að boðskapur hans skyldi ná til annarra þjóða. Það dró hins vegar hvorki úr hógværð hans né lítillæti. Stefán unni tónlist, hlustaði tals- vert á útvarp, var vel lesinn og minnugur á það sem hann kærði sig um að muna. Aðrar minningar gróf hann í glatkistuna. Stundum festi hann sig í eigin fjötri eins og t.d. þegar hann tók að neita sér um að fara út úr húsi en það gerði hann í nokkur ár og bar því við að hann væri sjúkur. Hann hafði gengið í gegnum ýmsa hrakninga heilsufarslega og m.a. fengið kransæðastíflu, sem reyndist vera hans banamein. Hann óttaðist stöð- ugt versnandi heilsufar, hreyfði sig lítið sem ekkert og hrörnaði lík- amlega fyrr en ella þegar hann ein- angraði sig innan veggja. Önnur hönd hans var máttlítil og háði það honum til daglegra verka. Hann hleypti engu öðru að sér en andagiftinni, sem honum kom vel saman við. En sem betur fer breyttist hann nokkuð hin síðari ár og dreif sig m.a. út undir bert loft nokkrum sinnum. Hann fór í ökuferðir, svip- aðist um í höfuðborginni og nálæg- um byggðarlögum. Fór m.a. út á Álftanes, að Bessastöðum, en þar lék hann sér á bernskuárunum, í fæðingarstað sinn Hafnarfjörð, að Vífilsstöðum og á Kjalarnesið. Hann litaðist um í Öskjuhlíðinni og nágrenni og voru þetta eftirminni- legar ferðir að mörgu leyti. Stefáni þóttu litirnir skýrari en áður, borg- in hefði þanist út og vegirnir breyst. Það var ánægjulegt að sjá hve hann naut þess að drekka í sig náttúruna sem fyrir augu bar og fann hjá sér þörf að yrkja en úr því varð aldrei – því miður. Vífilsstaðir voru örlagastaður í lífi hans. Borgar bróðir hans dvald- ist þar en hann dó úr berklum. Stefán dvaldist þar einnig um skeið og kynntist þá Unni Eiríksdóttur, sambýliskonu sinni. Þau bjuggu í Hlíðunum en fluttu svo þaðan að Hátúni í Reykjavík, í hús Öryrkja- bandalagsins. Unnur var ekki hraust kona og andaðist aðeins 55 ára gömul. Eftir sat Stefán, öryrki og einfari með listamannssál, stórt hjarta, harða skel og sterka tján- ingarþörf. Maður sem lét hugverk sín hvísla hrópum til umheimsins, máttugum stefjum sem hljóma bæði sem lágvært fótatak og hávær raust. Nú þegar hann kveður okkur öll, á sinn hljóða hátt, efast ég ekki um að fuglar munu syngja honum sálm eins fallega og hann hafði ort um þá. Síðast var heimili hans á Hrafnistu í Reykjavík. Þar sem hann naut umönnunar hlýrra handa. En mynd hans lifir: hlé- drægur maður, veikur og sterkur í senn og skemmtilega kíminn. Mað- ur sem vakti grun og von, bros og hlýju. Stefán var snyrtimenni og gekk vel um eigur sínar en seint verður um hann sagt að hann hafi sankað að sér veraldlegum gæðum. Hann þurfti ekki á slíku að halda; honum var meira í mun að vinna úr lífinu á ljóðrænan hátt. Ég samhryggist unnendum ljóð- listar sem nú hafa misst ástsælt skáld. Stefáni vil ég þakka gefandi samræður og ég tileinka honum eftirfarandi ljóð úr síðustu ljóðabók minni Vorflautu. Það var ort eftir eina af ferðum okkar á bernsku- slóðir hans, Álftanesið. Megi Stefán Hörður njóta friðar í faðmi ætt- menna sinna í Bessastaðagarði. Sjálfur sagði hann eitt sinn við mig: „Álftanesið á mig allan.“ Skógartjörn Úr dröfnóttum eggjum skríða tveir læsir ungar lesa úr fjöðrum við vatnasöng á Skógtjörn stafa daggarstjörnur friði Ágústína Jónsdóttir. Stefán Hörður kvað ungur um óró hins myrka blóðs, „sem kemur í formleysi / og heldur dyrum ham- ingjunnar / í hálfa gátt“. Þau upp- hafsorð að höfundarverki hans, ljóðið Stef í Glugginn snýr í norð- ur, voru á marga lund forsögn þess sem fram kom svo ríkulega æ síðan í ljóðum hans; hann ávarpar þetta hreyfiafl ástar, lífs og listar, óró- leikann, óvissuna, sem hann kveðst að vísu hata – en „daginn sem ég myrði þig / mun hjarta mitt springa“, yrkir hann. Við hinztu spor Stefáns þakka ég nú af hrærðum huga alla hans fylgd gegnum árin; hún hófst með föðurlegum umvöndunum, um- hyggju og skilningi í minn garð, og eftir því sem tímar liðu markaðist hún af skemmtan, góðvild, trausti og trúnaði. Ég gæti ekki skráð annál þeirra stunda; sagan yrði hvorki sannari né betri við það. Þeir sem nutu samvista við Stefán muna hvílíkt dýrindi þær voru, fá- gætur vitnisburður um einstakan persónuleika, glæstur vottur um listræna trúmennsku; og þeim fylgdi ylríkur andblær, sem af og til var rofinn af heilnæmum þjósti. Hin síðustu ár myndaðist vík milli Stefáns og vina hans flestra; hann gerðist æ varari um sig, hvarf af vettvangi og gaf ekki á sér færi persónulega svo nokkru næmi. Sú ákvörðun var yfirleitt virt og skilin af þeim sem á annað borð gera sér ljósan rétt hvers manns til að fara sinna ferða, sé það öðrum að meinalausu. Svo gat virzt sem hann kysi að lifa sín efstu ár við algjöra kyrrð og þau ein mannleg afskipti sem brýnasta nauður rak til. Vart var að undra þótt fólki þætti slíkir hættir hans jaðra við meinlæti. Enginn les að fullu í annars hug. Við sem þekktum til Stefáns geng- um þess ekki dulin, að fús jafnt sem tregur hafði hann við ærið að etja fyrir. Kvika heitra tilfinninga bærðist hið innra, nákvæmlega þar sem Jónas segir að beztu blómin grói. Þessi hlédrægi maður bjó sjaldnast við skilyrðislausa rósemd – og bað ekki um hana heldur. Í ljóðinu góða, Næturgrið, sem hann orti á síðari árum, væntir hann þess af „skógarhvíldinni“, hinni jarðnesku kyrrð, að hún verði sér „náðug um stund“ en veiti sér áfram „hina friðlausu ró“: útþrána – sem þó er heimþrá. Enn var hún á ferðinni, óró hins myrka blóðs. Eitt sinn þegar Stefán var spurður um hinztu rök, varð hon- um að orði: „Það er einhver óg- urlegur kraftur sem fer af stað þegar maður deyr.“ Nú, þegar hann er horfinn sjónum, virðast þessi orð einkennilega samkvæm hinu sterka tilfinningalífi sem ríkir í verki hans, blandað magnaðri dul. Og línur úr ljóðum Stefáns, al- skírar myndir í innilegum hljóðleik sínum, spretta fram í hugann, ein af annarri, og lyfta því hátt yfir all- an jarðneskan efa, að þau muni lengi lifa. Þorsteinn frá Hamri. Árið 1960 gerðist Ragnar bóka- útgefandi í Smára leiður á því að gefa út eitt af tímaritum sínum – Heimilisritið. Um svipað leyti varð skáld hinna ör-fáu, Stefán Hörður Grímsson, fertugur og Ragnar gaf honum í afmælisgjöf útgáfuréttinn og blaðhausinn og þeirra tíma prentklissjur og réð hann jafn- framt til að safna efni í minninga- bók um Stein Steinarr, sem var nýdáinn. Stefán Hörður tók þetta verkefni mjög alvarlega og safnaði saman handritum yngri og eldri skálda; ekki eingöngu viður- kenndra listamanna, heldur leitaði hann ekki síður til utangarðsskálda og sérvitringa, sem nutu lítillar vildar í bókmenntakreðsum, þá sem nú. Er Stefán Hörður hafði efnt saman í vænt handrit Steins- bókar gekk hann á fund Ragnars og afhenti honum handritið. Skömmu síðar fékk hann orð frá Ragnari; nú hafði útgefandinn misst áhugann að gefa út bókina og Stefán Hörður náði í handritið, mestallt frumhandrit skálda þess tíma. Á þessum tíma var ég undirmað- ur Jóns magisters Böðvarssonar, sem var yfir-siðferðisvörður á næt- urvöktum hjá nokkrum helstu hót- elum í Reykjavík; aðrir kollegar voru m.a. Jón frá Pálmholti, Ari heitinn Jósefsson og Guðbergur Bergsson. Mörg af börnum næturinnar lögðu leið sína í heimsókn á vakt- irnar, þ. á m. ýmis skáld, einnig Stefán Hörður, sem kom alloft, enda var hann næturhrafn og stóð á þessum árum oft dálítið fyrir ut- an sjálfan sig, en var mjög leitandi og vann m.a. að því að þýða heim- spekinginn Sören Kierkegaard og geymdi handritin í pappakassa á háalofti undir vernd Einars Braga skálds. Stefán var einkar ósáttur við endalyktir varðandi Steinsbók, enda hafði hann miklar mætur á Steini og m.a.s. búið hjá honum um hríð í Fossvoginum. Og eina nóttina kom Stefán Hörður í næturkaffi á Hótel Skjaldbreið og hafði meðferðis handrit margnefndrar Steinsbókar og einnig mjög dularfullt fræðirit, sem hann nefndi „bragfræði atóm- skáldskapar“. Skildi hann þessi gögn hvorutveggja eftir í vörslu undirritaðs. Stefán Hörður var maður hinna strjálu kynna. Það var aldrei hægt að ganga að honum vísum, hvorki í lífi né list. Þessvegna hittumst við óreglulega en oftsinnis og með okk- ur varð trúnaður og einlægni. Og stundum fórum við í kirkjugarðinn í heimsókn til náinna ættingja hans. Stefán Hörður virkaði fáskiptinn og feiminn, allt að því inniluktur. En fáir voru jafnskemmtilegir og myndrænir í frásögn og hann. Kon- ur löðuðust að þessum fátæka ein- fara, sem tróð skáldstíginn aleinn. Á miðjum aldrei kynntist hann skáldinu Unni Eiríksdóttur og átti með henni allnokkur falleg og erfið ár. Síðustu árin lét hann hinn ytri heim eiga sig og dró sig til baka frá samskiptum við fólk. Það var hon- um jafneðlilegt og annað í lífi hans. Fræðingarnir munu á komandi árum velta sér óspart uppúr djúp- um skáldheimi Stefáns Harðar. Hann mun fylgjast með þeim úr fjarska, sposkur á svip með bros í augum. Og nú er einfarinn hógværi horf- inn inní rjóðrið. Bragi Kristjónsson. Liðin eru 55 ár síðan ég mætti þeim Ása í Bæ og Stefáni Herði á götu í Vestmannaeyjum og við Stefán vorum kynntir. Ég vissi hver maðurinn var, hafði lesið fyrstu ljóðabók hans Glugginn snýr í norður og skrifað um hana rit- dóm. Mér kom hann svo fyrir sjón- ir sem hann væri feiminn; að minnsta kosti lét hann Ása um að halda uppi samræðum og hélt sig til hlés. Í ritdóminum segir: „Fyrstu verk ýmissa bestu núlif- andi ljóðskálda vorra hafa á engan hátt staðið þessum ljóðum framar, svo að hér getur farið efnilegt skáld þess vegna.“ Síðan liðu sex ár áður en fundum okkar Stefáns Harðar bar saman næst. Snemma vors 1953 bar mig að landi í Reykjavík eftir nokkurra ára menntastúss í útlöndum úttroð- inn af háleitum hugmyndum um út- gáfu tímarits sem gæti blásið burt kæfandi dauðaloftinu yfir íslensku listalífi. Ég mætti alls staðar úr- tölum nema hjá feimna skáldinu úr Eyjum sem var nú gengið í land eftir nokkurra ára slark á sjótrjám, hafði komið sér snoturlega fyrir í skáldakompu á norðurlofti Blöndu á horni Bergstaðastrætis og Spít- alastígs og hafði um sig dálitla hirð sem vel gat veitt sér þann munað að vaka vorbjartar nætur, því hennar biðu engin leiðinda skyldu- störf að morgni. Ég kom þarna nokkrum sinnum í heimsókn og naut góðra veiga. Stefán Hörður var gífurlega bjartsýnn þetta vor og ég er ekki frá því að nafnið Birt- ingur hafi komið mér í hug vegna okkar nýju kynna. Um sumarið var ég í síld fyrir norðan, en þegar ég kom í bæinn um haustið og ætlaði að athuga hvort nokkuð væri afgangs í Blöndukútnum var heldur dauflegt um að litast á loftinu og skáldið á bak og burt. Ég hafði samt fljót- lega uppi á Stefáni og þá sagði hann mér að nágrannar hefðu verið að röfla um óþarflega mikinn gný frá hornhúsinu og húseigendur brugðist svo við að þeir sópuðu út í bræði, fyrst húsráðanda og gestum hans; síðan öllu innanstokks og létu aka því á haugana. Hann taldi hús- gögnin ekki hafa verið óbætanleg en sá dálítið eftir bókum og mynd- um sem hreinsunarmenn höfðu ekki vilja eða vit á að greina frá öðru dóti. En Stefán hafði fljótlega fundið sér annað slot ekki síðra. Það stóð við Bókhlöðustíg þar sem nú er bílastæði beint niður af sýn- ingarsalnum Stöðlakoti, svartmálað hús sem fávísir kölluðu svarta skúrinn. En þeir höfðu aldrei hlust- að á Stefán í stuði lýsa því hvílíka skáldahöll mætti gera úr þessu húsi ef rétt væri að málum staðið, og það sýndi hann manni svart á hvítu, því innrétting var aldrei hin sama í tvö skipti sem mann bar þar að garði, og efalaust hefði hann reist ljóðlistinni þarna veglegan veraldarumbúnað, ef höllin hefði STEFÁN HÖRÐUR GRÍMSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.