Tíminn - 16.04.1991, Blaðsíða 9

Tíminn - 16.04.1991, Blaðsíða 9
8 Tíminn Niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla íslands er sú að þjóðhagslega hagkvæmt sé að efla leikskólann og lengja grunnskóladaginn: ÞJÓDARTEKJUR AUKAST UM TVO TIL MILLJARÐA A ARI Það er þjóðhagslega hagkvæmt að efla leik- skólann og lengja grunnskóladaginn. Gera má ráð fyrir að það auki þjóðartekjur um 2 til 4 milljarða á ári. Er þá ekkert tillit tekið til gildis menntunarinnar, sem verður held- ur aldrei metin til fjár. Þetta eru helstu nið- urstöður í bráðabirgðaskýrslu, sem Hag- fræðistofnun Háskóla íslands hefur gert fyr- ir menntamálaráðuneytið um „Þjóðhagslega hagkvæmni eflingar leikskóla og lengri skóladags í grunnskóla". Á undanförnum árum hafa skólayfirvöld kannað ýmsar leiðir til að breyta dagvistun og menntun barna hérlendis. Markmiðið er að uppfýlla óskir foreldra og bæta uppeldi og menntun. Lengst hafa menn leitað eftir lengri skóladegi í grunnskólum og auknu hlutverki leikskóla. Með nýjum leikskóla- og grunnskólalögum er áfanga náð. Þar er ráðgert að 40% foreldra barna á aldrinum 1/2 til 2 ára og 80% for- eldra barna 2 til 5 ára vilji nýta sér leikskóla. Þá er gert ráð fyrir að grunnskólinn verði einsetinn með 25 til 35 kennslutímum á viku fyrir hvern nemanda. Nýju lögin hafa ýmis áhrif. 18 janúar sl. fól menntamálaráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla íslands að gera athugun á þjóðhags- legri hagkvæmni þess að auka hlutverk leik- skólans og lengja grunnskóladaginn. í gær kynnti Hagfræðistofnun bráðabirgðaskýrslu sína. Hana unnu þeir dr. Pétur Orri Jónsson dósent óg dr. Ragnar Árnason prófessor. Hinn síparnefndi heful' jafnframt umsjón með verkefninu. Hagfræðilegur grundvöllur Að efla leikskólann og lengja grunnskóla- daginn hefur ýmis áhrif, krefst útgjalda, sem annars hefðu farið í önnur verkefni. Þá breytast aðstæður foreldra og barna. Það hefur áhrif á velferð þeirra og annarra. Breytingarnar snerta alla þjóðfélagsþegna. Áhrifin eru að verulegu leyti huglæg og þeirra sér iðulega lítil merki í athöfnum fólks. Mörg þeirra er ekki hægt að mæla. Til þess að varpa ljósi á hagræna eiginleika viðfangsefnisins er hins vegar gagnlegt að athuga einfalt líkan af aðalatriðum þess. Segjum að notagildi hvers heimilis ráðist af neyslu, vinnutíma, barnagæslutíma og lengd skóladags. í þeim vef finnast vitaskuld fleiri þræðir. Ætla má að lengri skóladagur hafi lítil áhrif á þá. Því er óhætt að setja þá fasta. Vinnutími takmarkast við barnagæslutíma. Hann styttist hins vegar við lengd skóladags. Vinnutími og barnagæslutími ráðast því af lengd skóladags. Neysla markast auðvitað af ráðstöfunartekj- um, tekjum að frádregnum opinberum gjöldum. Tekjur ákvarðast af margfeldi vinnulauna og vinnutíma. Opinber gjöld verða að duga fyrir kostnaði við að reka skólakerfið. Þau hækka með lengd skóla- dags. Ráðstöfunartekjur markast því einnig af skólatíma. Með einföldun má rekja þjóðhagsleg vel- ferðaráhrif af lengri skóladegi upp í fimm þræði. Þeir eru: breyttar Iaunatekjur for- eldra vegna meiri ráðstöfunartíma, breytt útgjöld samfélagsins, breytt notagildi heim- ilanna vegna breytts vinnutíma, breytt nota- gildi heimilanna vegna breytts gæslutíma, breytt notagildi heimilanna beinlínis vegna lengingar skóladags. Með því að mæla þessa fimm þræði ætti aö vera unnt að meta þjóð- hagsleg velferðaráhrif lengri skóladags. Vandinn er að þeir verða ekki svo auðveld- lega mældir. Þrír þeir síðastnefndu fléttast saman við notagildi. Á þá er enginn einhlít- ur mælikvarði. Til þess að meta með skyn- samlegum hætti hagkvæmni þess að lengja skóladag, verður þó ekki hjá því komist að slá samræmdu hagfræðilegu máli á einstaka þætti. Öflugri leikskóli og grunnskóli lengir ráð- stöfunartíma foreldra. Þeir geta lengt vinnu- tíma sinn. Til að efla leikskólann og lengja skóladag- inn þarf að byggja fleiri skóla og fjölga sér- hæfðum starfsmönnum. Almennur rekstrar- kostnaður mun aukast. Á móti kemur að lengri og samfelldari skóladagur dregur úr snúningum foreldra, notkun farartækja og álagi á samgöngukerfi. Væntanlega fækkar slysum vegna minni umferðar barna. í öðru lagi má ætla, að skipulegt uppeldi á vegum sérhæfðs starfsliðs innan vébanda skólans geri nemendur ratvísari á refilstigum samfé- lagsins. Má minna á þann kostnað sem því lylgir að leiðbeina þeim sem leiðast afvega. Með lengri skóladag gefst færi á lengri vinnutíma. Hugsanleg hækkun tekna af þeim sökum er þó ekki fullnægjandi mæli- kvarði á hagsbót heimilanna. Ganga má að því sem vísu að vinnan göfgi manninn, sé góð í sjálfri sér. Flestir íslendingar telja menntun og skóla- vist m^nnbætandi. Það bendir til að skólinn, sem slíkur, og þar með lengri skóladagur, hafi sjálfstætt þjóðhagslegt gildi. Auðveld- lega má færa rök að því að hér eru mikil þjóðfélagsleg verðmæti. Efling leikskóla í nýjum lögum um leikskóla er gert ráð fyr- ir að hann rúmi allt að 40% barna á aldrin- um 1/2 árs til 2 ára, og allt að 80% barna á aldrinum 2 til 6 ára. Því fýlgir þessi kostnað- ur. Lausleg athugun bendir til að í flestum leikskólum hafi hvert barn 3.5 fermetra. Ætla má að kostnaður á hvern fermetra sé 130.000 kr. Kostnaður við hvert barn er því 455.000. Miðað við 6.8% raunvexti og 2% viðhaldskostnað er fjárfestingin um 40.000 á barn á ári. Þá er miðaö við einsetinn skóla. Gert er ráð fyrir að til aldamóta fjölgi börn- um í leikskóla um 6000. Til koma þeim und- ir þak þarf að festa um 250 milljónir á ári. Dagvistun er margs konar og kostnaður við hana mismikill. Til einföldunar má nota meðalrekstrarkostnað leikskóla á landinu árið 1989. Þá má ráðgera að rekstrarkostn- aður öflugri leikskóla aukist um 2 milljarða á ári. Nú má ætla að heildarkostnaður vegna öflugri leikskóla aukist á ári hverju um 2.2 milljarða. Þar í móti kemur þetta: Augljósasti ávinn- ingur foreldra er lengri ráðstöfunartími. Gera má ráð fyrir að hver klst. barna í leik- skóla lengi ráðstöfnuartíma foreldra um 0.6 klst. Til viðmiðunar má reikna með að hver klst. skili um 515 kr. Ef miðað er við um 6000 heilsdagsvistanir yrði ávinningur for- eldra um 3.4 milljarðar á ári. Ávinningur umfram kostnað er því um 1.2 milljarðar. ÍÁstæðan er sú að gæslukostnaður í leikskól- / um er ekki mikill. Hann er um 244 kr. á klst. [ fyrir börn yngri en 2 ára og 143 kr. á klst. fýrir börn frá 2 til 6 ára. Laun foreldra þurfa því ekki að vera há til að dagvistun borgi sig. Rétt er að ítreka að nú hafa aðeins verið Amar Ámason — mæld þau áhrif öflugri leikskóla, sem auð- sæjust eru. Ljóst má vera að þau er fleiri og fæst þeirra má mæla. Flest bendir til að auk þess að vera mannbætandi, séu þau líka þjóðhagslega hagkvæm. Ávinningurinn er meiri en tölurnar gefa til kynna. Lengri skóladagur Að lengja skóladag í öllum bekkjum í 35 kennslustundir á viku kostar sitt. Kostnaðn- um má skipta í þrennt: Fjárfestingarkostn- aður vegna húsbygginga. Kostnaður vegna kennslu. Annar rekstrarkostnaður. Lengri skóladagur kallar á einsetinn skóla. Til þess þarf stærra kennslurými. Til viðmiðunar má gera ráð fyrir að í einsetinn grunnskóla þurfi 550 nýjar kennslustofur. Ætla má að hver sé um 88 fermetrar, þegar gangar og tilheyr- andi er reiknað með. Miðað við að bygging- arkostnaður sé um 110.000 kr. á fermetra kost^ 550 stofur 5.3 milljarða. Vegið meðal- tal raunvaxta á spariskírteinum ríkissjóðs er um 6.8%. Ætla má að viðhald skólabygginga kosti 2% á ári. Þjóðhagslegur kostnaður vegna fjárfestinga í skólahúsnæði er því um 8.8% af stofnkostnaði á ári. Vegna lengri skóladags þarf að festa um 468 milljónir kr. á ári. Að auki má gera ráð fyrir að kostnaður vegna kennslu aukist um 742 milljónir á ári. Annar kostnaður um 381 milljón. Saman- lagt er aukinn kostnaður um 1.6 milljarðar. Á sömu forsendum og áður má ráðgera að lengri ráðstöfunartími foreldra skili 2.2 milljörðum. Minni snúningar spari 170 milljónir og færri umferðarslys 42 milljónir. Það gerir um 2.5 milljarða á ári. Þegar öllu er til skila haldið má ætla að lengri skóla- dagur auki tekjur þjóðarinnar um tæpan milljarð. Hér er þó heldur varlega áætlað. Ávinningurinn er meiri. Sem fyrr er ekki tekið tillit til þess að mennt er máttur. Að lokum Niðurstöður þeirra dr. Péturs Orra og dr. Ragnars eru að öflugri leikskóli og lengri skóladagur eru þjóðhagslega hægkvæmir. Þeir munu skila frá 2 til 4 milljörðum í bein- hörðum peningum og auka þjóðartekjur um nálega 1%. Á því sem kallast „mælikvarði innri vaxta“ hleypur arðsemi þessara fjár- festinga á tugum prósenta. Hér þykir gott að arðsemi fjárfestinga í iðnaði sé um 10%. Á íslandi er öflugt og dýrt, opinbert menntakerfi. Hingað til hefur það verið rétt- lætt með gildi menntunarinnar. Hún verður vitaskuld aldrei metin til fjár, og þarfnast ekki réttlætingar. Félagshyggjufólki er þó fengur í þessari athugun. Hún færir þeim vopn til að sækja að þeim frjálshyggjumönn- um sem allt vilja meta á mælistiku pening- anna. -aá.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.