Morgunblaðið - 11.03.2013, Side 27

Morgunblaðið - 11.03.2013, Side 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 11. MARS 2013 Óskar og Anna eiginkona hans tóku virkan þátt í félagsstarfinu innan kórsins og létu sig sjaldan vanta á hinar ýmsu samkomur og ferðalög bæði utanlands og innan. Fóstbræður þakka Óskari fyrir nærveruna og samstarf í gegnum tíðina og senda Önnu og fjöl- skyldu samúðarkveðju. Einar Geir Þorsteinsson. Kveðja til vinar. Enn berst andlátsfregn, enn hefur fækkað í góðra vina hópi. Ég spurði andlát söngfélaga míns Óskars Ágústssonar laugardags- morguninn annan þessa mánaðar, er Anna eiginkona hans hafði samband við mig og sagði mér þau döpru tíðindi að Óskar hefði dáið kvöldinu áður á spítala eftir skamma legu. Fréttin kom mér ekki alveg á óvart. Ég hafði hitt Önnu fyrir ekki mjög löngu og þá sagði hún mér af líðan Óskars; að heilsu hans hefði hrakað mikið og von um bata næsta lítil. Fóstbræður – já, enn og aftur Fóstbræður. Það er von að ég taki svo til orða, því af þeim 78 árum sem ég hef lifað hef ég í rúm 60 ár starfað með þeim í leik og söng. Þar hef ég eignast mína bestu vini. Þar bundust þau vina- og tryggðabönd sem aldrei bresta. Þar finnst mér ég aldrei hafa þurft neins að gæta nema vinátt- unnar vináttunnar vegna. Auðvit- að eru ekki allir sama sinnis og misjafnt eftir hverju sóst er – en sækjast sér um líkir. Óskar kom í kórinn 1957, fjór- um árum á eftir mér og áttum við því strax það sameiginlegt að vera nánast nýliðar í kórnum. Við urð- um fljótt góðir vinir og sú vinátta rofnaði aldrei. Strax varð ljóst að við Óskar hugsuðum á svipuðum nótum og ekki bara í söngnum. Við héldum báðir lítið upp á ætt- erni og sjálfumgleði – heldur skyldi manninn reyna. Um Óskar sem söngmann þarf ekki að fjölyrða, sá sem syngur í Fóstbræðrum um áratugaskeið er góður söngmaður. Eftir að við hjónin fluttum í Garðahrepp 1967, en þar áttu þau Óskar og Anna heima um langt árabil, urðum við félagar úr Garðahreppi samferða á söngæf- ingar og var þá margt skrafað, bæði í gamni og alvöru. Okkur Helgu og Óskari og Önnu varð strax vel til vina. Óskar vinur minn var léttur í lund og jafnvel enn léttari þegar sá gállinn var á honum og hafði gaman af að skemmta sér með öðrum og hrók- ur alls fagnaðar, þegar hann var kominn í „stuð“. Óskar hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum, en flíkaði þeim lítt nema í þröngum hópi. Einn kost hafði Óskar sem ég mat mikils. Þegar ég talaði við hann út í eitt gat hann alltaf látið mér finnast ég vera óskaplega gáfaður! Ég er ekki frá því að mörgum öðrum hafi fundist það sama og mér. Alveg er ég viss um að mesta gæfa Óskars í lífinu hafi verið að eignast hana Önnu Sigríði Jóns- dóttur. Anna er ein indælasta kona sem ég hef þekkt um ævina. Hún laðaði fram allt það besta í fari Óskars – sem og annarra – og saman tókst þeim að vera hvort öðru stoð og stytta í smáu sem stóru. Óskar dró sig í hlé frá söng fyr- ir allmörgum árum, en þau Anna létu sjá sig við önnur tækifæri meðan þess var kostur. Vinur minn hóaði í mig á einni af sínum síðustu söngæfingum og sagði við mig: „Garðar, ég held að ég sé hættur þessu – ég get ekkert orð- ið sungið lengur.“ Og trúr sjálfum sér stóð hann við þau orð. Bak við hverja setningu í þess- ari minningu liggja þúsund minn- ingaleiftur, sem var svo dægilegt að rifja upp og sjá í hugskoti sínu. Við Helga þökkum fyrir góða og langa samfylgd og sendum Önnu okkar og hennar fjölskyldu samúðarkveðjur. Megi almættið styrkja ykkur. Helga og Garðar. ✝ Egill ÓlafurStrange fædd- ist í Reykjavík 22. september 1927. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 27. febr- úar 2013. Foreldrar hans voru þau Victor Strange hjólreiða- smiður og Hansína Þorvaldsdóttir hús- móðir. Hann var fimmti í röð átta systkina. Egill kvæntist 9. desember 1950 Önnu Sigurðardóttur, f. 13. nóvember 1931, d. 12. des- ember 2006. Þau hjónin eign- uðust sex börn. Þau eru: 1) Greta, f. 1951, gift George Hun- ter Young. Börn þeirra eru Gunnar Sv., f. 1969, Davíð Kristófer, f. 1980, og George Kristófer, f. 1984. 2) Sæunn, f. 1954, gift Brian Doc- herty, f. 1944. 3) Victor, f. 1956, kvæntur Önnu Berglindi Arnar- dóttur, f. 1964. Börn þeirra eru Anna Sigríður, f. 1985, Erna, f. 1992, og Örn Óli, f. 1995. 4) Egill, f. 1959, kvæntur Sveinbjörgu Bergs- dóttur, f. 1963. Börn þeirra eru Sæunn Hrund, f. 1985, og Atli Þór, f. 1989. 5) Ómar, f. 1960. Börn hans eru Birgitta, f. 1980, Egill Ólafur, f. 1986, og Finn- bogi, f. 1996. 6) María, f. 1967. Útför Egils verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 11. mars 2013, og hefst athöfnin klukkan 13. Í dag kveðjum við Egill Ólaf Strange, móðurbróður minn. Hann var líka „smiðurinn“ minn og „skáafi“ dóttur minnar – ekki það að hann skorti afabörnin því þau eru mörg – bæði stór og smá og stolt afa síns – þó svo að hann væri kannski ekki allaf að hafa orð á því við þau. En hann vissi að barnalán þeirra hjóna var þeirra ríkidæmi. Egill var módelsmiður og ein- staklega laghentur maður, það lék allt í höndum á honum. Það eru margir dýrgripirnir sem hann hefur gert og gestabækur hans hafa farið víða og vekja allt- af jafnmikla athygli og aðdáun. Það eru ófá handtökin sem hann innti af hendi á heimili okkar hjóna í Brekkubænum hér á ár- um áður. Og alltaf unnið með gleði og af mikilli nákvæmni og fagmennsku og fyrir það erum við hjónin svo innilega þakklát. Agli þótti gaman að ferðast og átti Skotland sérstakan stað í hjarta hans. Eðlilega – enda báð- ir tengdasynir hans frá því ágæta landi. Hin síðari ár þótti honum fátt betra en að fara til Sæju sinnar og Brians í Skot- landi og naut dvalarinnar og fé- lagsskapsins. Oftar en ekki voru smíðatólin tekin með því það var alltaf hægt að flikka upp á eitt- hvað eða skapa eitthvað nýtt. Fyrir nokkrum árum ákváðu Egill og Anna heitin kona hans að bregða sér til sólarlanda, lík- lega í fyrsta sinn. Ekki leist Agli sérstaklega vel á þessa hugmynd en lét þó tilleiðast. Það kom síð- an í ljós þegar töskur voru opn- aðar á áfangastað að ekki ætlaði hann að láta sér leiðast – hann hafði stungið niður spýtubút og útskurðarhníf því það var alveg gefið að þá hefði hann eitthvað til að dunda sér við á meðan ferða- félagarnir böðuðu sig í sólinni. Er skemmst frá því að segja að spýtan varð eftir á Spáni í sama ástandi og þegar hún kom þang- að. Og margar urðu ferðirnar í sólina á næstu árum með góðum ferðafélögum. Og það fór ekki á milli mála á hótelinu hvenær Strange var mættur – eins og hótelhaldarinn sagði „Strange! – never a dull moment.“ Á kveðjustundu er gott að eiga góðar minningar og láta hugann reika. Það hefur alltaf verið mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar og ófár eru ferðir mínar á mínum yngri ár- um í Hafnarfjörðinn þar sem dvalið var um helgar og þá sér í lagi á Skerseyrarveginum. Þó að íbúðin væri ekki stór og börnin mörg var alltaf pláss fyrri einn í viðbót. Einnig á ég góðar minn- ingar frá dvöl minni í sumarbú- staðnum við Straumsvíkina, þar urðu mörg ævintýri til og alltaf skemmtilegt að vera hluti af þessari stóru og góðu fjölskyldu. Egill var búinn að vera rúm- liggjandi um nokkurra vikna skeið og það var einfaldlega ekki hans stíll. Hann hafði orð á því að best væri bara að pakka niður og drífa sig til Skotlands og var sannfærður um að það væri allra meina bót. Ég trúi því að hann sé nú búinn að finna Önnu sína á ný og líklega eru þau farin að dansa saman kinn við kinn. Elsku Gréta mín, Sæunn, Vic- tor, Egill, Ómar, María, tengda- börn, og öll börnin ykkar, við hjónin sendum ykkur okkar inni- legustu samúðarkveðjur og biðj- um þess að þið verðið dugleg að halda utan um hvert annað á erf- iðri stundu. Sigríður V. Árnadóttir (Sirrý.) Hann kom akandi á spýtubíln- um. Egill var nokkrum árum eldri en við félagarnir og fékk oft lán- aðan Austin-bíl föður síns. Við, bílprófslausir táningarnir, nut- um stundum góðs af því. Bíllinn var kominn á fermingaraldur, en malaði eins og saumavél og hvergi sá aldur á útliti hans. Þökk sé frábæru viðhaldi þeirra feðga, rennismiðsins og módel- smiðsins. Nafngiftin kom frá út- liti langhliðanna, sem voru klæddar ljósum harðviði. Egill var úr stórri skátafjöl- skyldu og kynntumst við í gegn- um skátastarf og fjallaferðir, að- allega í Hengli og Skarðsmýrarfjalli. Margir félaga okkar og vinir höfðu byggt eða voru að byggja skála á þessu svæði með sínum skátaflokkum. Þar á meðal var Grétar, bróðir Egils. Við vorum fjórir vinir, sem stóðum utan við skálaeigendur, en skálalífið og skíðaiðkun dró okkur upp í fjöllin. Endaði það með því að við létum teikna fyrir okkur skála og fengum úthlutað lóð og byggingarleyfi hjá Ölfus- hreppi, nokkru austan við Þrym- heim. Ekki fjölgaði í hópnum okkar, en í honum voru auk Egils og undirritaðs, Gunnar Einars- son og Bragi Friðþjófsson. Við vorum flestir að stofna fjölskyld- ur á þessum árum og ég á förum í langskólanám. Þetta varð til þess að byggingarmálin sofnuðu og á endanum skiluðum við lóð og byggingarleyfi. Fyrir nokkr- um árum hringdi í mig skjala- vörður á Selfossi, sem hafði rek- ist á þessa skálateikningu og sendi hann mér hana. Rifjaði það upp gamalt sameiginlegt áhuga- mál okkar félaganna. Það var venja okkar að mæla okkur mót þegar í bæinn kom eftir helgarferð. Niðurstaðan var alltaf sú sama; klukkan hálfníu í Gúttó. Þar var besta dansgólfið í bænum. Við mættum þarna á gljáandi, nýburstuðum skóm. Egill Strange kenndi okkur að bursta skóna og datt engum í hug að mæta á illa burstuðum skóm. Egill var glaðvær snyrti- pinni og ekki bara snilldarsmið- ur, hann var líka bestur okkar sem bílstjóri, skíðamaður, dans- ari og yfirleitt hinn besti félagi og fyrirmynd. Á menntaskólaárunum gerði ég mér oft ferð í Landssmiðjuna við Sölvhólsgötu til að heim- sækja Egil og dást að því sem hann var að fást við. Þar sýndi hann mér leyndardóma módel- smíðinnar. Mér varð einhverju sinni að orði að þarna væri þörf á millimetra nákvæmni. „Nei, nei,“ svaraði Egill, „millimetri er allt- of stór mælieining í módelsmíði“. Þannig var nákvæmnisheimur hans. Ég gladdist þegar fjölskylda Egils stóð fyrir sýningu á ýms- um smíðisgripum hans í Hafn- arborg 1997, útskurði, líkönum af húsum, strætisvögnum, leik- föngum og renndum munum; allt listilega vel gert og lýsti vel hug- myndaflugi, vandvirkni og hæfni þessa dverghaga snillings. Egill var hjálpsamur og bón- góður. Naut ég þess, þegar ég byggði mitt hús. Hann smíðaði fyrir mig skápa í svefnherbergi og settum við þá upp saman. Naut ég þeirrar góðu smíði í tuttugu ár. Anna, lífsförunautur Egils í rúm 50 ár, var yndisleg mann- eskja og voru þau Egill mjög samrýmd. Þau byggðu sér fal- legt heimili í Hafnarfirði. Mikil var eftirsjá Egils er hún féll frá. Við hjónin sendum börnum hans og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Gunnar Torfason. Á árunum um og upp úr 1970, þegar Flensborgarskólinn í Hafnarfirði var að taka miklum breytingum og þróast í fram- haldsskóla, starfaði við skólann vösk sveit manna og kvenna. Mikill baráttuandi einkenndi hópinn, menn horfðu bjartsýnir fram á veg en umfram allt réð ríkjum mikil lífsgleði og sú sann- færing að unnið væri að góðu verki. Menn töldu ekkert eftir sér í þeim efnum og þótti jafnvel sjálfsagt að setjast án auka- greiðslu á helgarráðstefnu úti á landi þar sem stefna skyldi mörkuð til framtíðar. Eftir því sem ár hafa liðið hef- ur fækkað í þessari sveit og nú hefur enn einn liðsmaður hennar verið á brott kallaður því fyrir fáum dögum lést góður félagi okkar, Egill Ólafur Strange. Eg- ill réðst fyrst til skólans árið 1961 og starfaði þar tvö fyrstu árin sem stundakennari en sem fastráðinn frá 1963 og allt til starfsloka. Egill var menntaður módelsmiður en kennslugreinar hans við skólann voru handiðnir hvers konar, einkum þær sem piltum voru ætlaðar. Sem verk- greinakennari var Egill eindreg- inn talsmaður þess að verk- og listgreinar yrðu að jöfnu lagðar við bóknámsgreinar en þar var við ramman reip að draga. Egill náði að hrífa samstarfsmenn sína með í þessari baráttu og við minnumst m.a. setuverkfalla á kennarastofunni þegar okkur fannst að ganga ætti á hlut verk- og listgeinakennara, t.d. með meiri kennsluskyldu en bók- námskennarar þurftu að búa við. Hversdags lá Egill ekkert á skoðunum sínum. Honum lá oft hátt rómur á kennarastofunni og sagði sitt umbúðalaust. Hann var mjög hjálpsamur við okkur sam- starfsmenn sína sem margir hverjir stóðu í húsbyggingum eða lagfæringu eldra húsnæðis á þessum árum. Egill var ákaflega handlaginn og úrræðagóður þeg- ar kom að fínlegum frágangi sem menn voru að basla við sjálfir. Hann átti mikið úrval hvers kyns verkfæra og var ekkert spar á að lána þau þegar á þurfti að halda, gegn því að fara vel með! Egill umgekkst nefnilega verkfærin sín af stakri virðingu og sá til þess að þar væri allt í röð og reglu og þau flugbitu. Dygði þetta ekki til var næsta skref að boða menn heim til sín í kjall- arann sinn þar sem hann sneið, sagaði og pússaði svo sem hvert tilefni krafðist. Aldrei fékkst Eg- ill til að taka við greiðslu fyrir slík viðvik. Svo sem fyrr var nefnt var Egill módelsmiður að mennt, mjög virtur á því sviði og þar liggur eftir hann mörg listasmíð- in. Fyrir daga þrívíðra teikninga var varla annar möguleiki til staðar en gera nákvæma eftirlík- ingu að byggingu og umhverfi hennar þegar menn fýsti að sjá hvernig tiltekin bygging félli inn í umhverfi sitt. Þá komu til skjal- anna hagleiksmenn eins og Egill Strange sem byggðu upp í rétt- um hlutföllum hús og umhverfi á lítilli krossviðarplötu þannig að auðvelt var að greina heildar- mynd byggingar og áhrif hennar á nálægt umhverfi. En umfram allt var Egill okk- ur góður félagi og traustur vinur jafnt í starfi sem leik. Við biðjum góðan Guð að blessa minningu hans og sendum fjölskyldu hans allri innilegar samúðarkveðjur. Arnaldur Árnason og Ingvar Viktorsson. Egill Ólafur Strange kom til starfa í Flensborgarskólanum sem stundakennari árið 1961, var fastráðinn 1963 og hafði því kennt við skólann nær óslitið í rúma þrjá áratugi þegar hann lét af störfum vegna aldurs við árs- lok 1995. Egill kenndi fyrst og fremst handavinnu við skólann, var far- sæll og virtur kennari sem ávallt vann starf sitt af alúð og gerði miklar kröfur til sín og annarra. Það eru margir sem búa að því að hafa lært að meðhöndla verk- færi og læra sitt fyrsta hand- bragð í smíðakennslunni hjá honum. Allt sem viðkom smíðum lék í höndunum á Agli enda þekktur sem frábær módelsmið- ur. Á því sviði liggja eftir hann mörg glæsileg verk. Það voru margar minningar um samvistirnar í skólanum sem flugu í gegnum hugann þegar fréttin um andlátið barst. Egill var einn af þeim kennurum sem nýliðar sem komu inn í kennara- hópinn tóku fljótt eftir á kenn- arastofunni. Hann var hrókur alls fagnaðar í samræðum, glett- inn og skemmtilegur og aldrei skortur á umræðuefni þar sem hann var nálægur. Agli var mjög umhugað um smíðakennsluna, velferð nem- enda sinna, samstarfsmanna og skólans. Ég veit að honum þótti erfitt að horfa upp á þegar smíðakennslu var hætt við skól- ann nokkrum árum eftir að hann lét af störfum. Hann ræddi það við mig, sem og stöðu verklegrar kennslu í skólum almennt, eitt sinn þegar við hittumst á förnum vegi og tókum tal saman eftir að sú ákvörðun var tekin. Hann skildi hvers vegna þetta var gert en hafði, eins og svo margir aðr- ir, áhyggjur af því hversu fáir nemendur veldu verknám og hvernig væri hægt að snúa þeirri þróun við. Í kennslunni var Egill fag- maður í öllum sínum verkum, sterkur persónuleiki og skemmtilegur félagi. Minning hans mun lifa innan Flensborg- arskólans. Ég vil fyrir hönd starfsmanna og nemenda Flensborgarskólans senda fjölskyldu Egils okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hans er minnst með söknuði sem kennara, samstarfsmanns og góðs félaga. Einar Birgir Steinþórsson skólameistari. Góður drengur hefur kvatt okkur og horfið yfir móðuna miklu. Kynni okkar Egils hófust þegar við kenndum báðir í Flens- borg á 7. og 8. áratug síðustu ald- ar. Á þeim árum var ýmislegt brallað og oft var kátt á hjalla á kennarastofunni. Með okkur tókst góður vinskapur og ekki skemmdi það vinskapinn hversu mikill KR-ingur Egill var! Hann var yfirleitt í góðu skapi og það var stutt í stríðnina hjá honum. Við Sigrún fáum seint þakkað alla þá hjálp og vinskap sem hann sýndi okkur á erfiðum tím- um og sýndi það betur en nokkuð annað hvern mann Egill Strange hafði að geyma. Hann var mikill snillingur í höndunum og afburðamódel- smiður og gaman var að koma á hans myndarlega heimili og skoða þá dýrgripi sem hann hafði smíðað í gegnum árin. Börnin voru 6, 3 dætur og 3 synir og kenndi ég minnir mig 4 af þeim en þó Sæunni lengst og kynntist henni best. Þeim öllum sendum við Sigrún okkar innilegu sam- úðarkveðjur. Þeirra söknuður er sár en minningin um góðan föður mun lifa um ókomin ár. Vel sé þér, vinur, þótt vikirðu skjótt Frónbúum frá í fegri heima. Ljós var leið þín og lífsfögnuður, æðra, eilífan þú öðlast nú. (Jónas Hallgrímsson.) Einar Gunnar Bollason. Egill Ólafur Strange Eiginmaður minn, faðir okkar og afi, GUÐMUNDUR RAGNAR ÓLAFSSON vélstjóri, Kirkjuteigi 16, er látinn. Útförin fer fram frá Laugarneskirkju föstudaginn 15. mars kl. 11.00. Sigríður Hlöðversdóttir, Unnur Brynja Guðmundsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Edda Rós Guðmundsdóttir, og barnabörn. Okkar ástkæri SVERRIR SIGURÐSSON, fv. bóndi Ásmundarstöðum á Sléttu. Hlíf 2, Ísafirði, lést á öldrunardeild FSÍ hinn 8. mars sl. Sigurður Mar Óskarsson, Guðný Hólmgeirsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Jakobína Sigurðardóttir, Eiríkur Eiríksson, Vilborg G. Sigurðardóttir, Óskar Árni Mar.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.