Morgunblaðið - 02.06.1971, Blaðsíða 12
r-
r.
12
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 2. JÖNÍ 1971
JL
Hvítasunnuhátiðinni Saitvík ’71
tlauk á mánudag eftir þrjá daga
„ölvunar, rigningar og roks“. Há
tiðina sóttu um 10 þús. manns,
flestir á aidrinum 15—20 ára.
Var þetta fyrsta tilraun, sem
gerð hefur verið, til að leysa
hvítasunnuvandamálið svo-
nefnda, en það voru drykkju-
ferðir ungs fólks um hvítasunnu
helgina, sem oft enduðu illa. Var
það mat þeirra, sem áttu mestan
þátt í undirbúningi og fram-
kvæmd hátíðarinnar, að þessi
tilraun hafi fvllilega átt rétt á
sér, en hins vegar hafi ýmislegt
farið verr en vonazt hafi verið
til.
Hlustað á tónlist . . .
SALTVÍK '71
margt fólk og mikil ölvun
sjálfstjórn unga fólksins lítil
Hátiðin hófst á föstudags-
kvöldið og komu þá um fimm
þúsund gestir. Veðrið var þá
ágætt og útlitið gott. Unga fólk-
ið sló upp tjöldum sínum og hóf
síðan skemmtunina. Dansleikur
var um kvöldið og léku fyrir
dansi hljómsveitirnar Trúbrot
og Mánar. Fylgdist margt fólk
með leik hljómsveitanna en ekki
var mikið dansað. Töluverð ölv-
un var á föstudagskvöldið, en
allt fór þó friðsamlega fram.
Á laugardag kólnaði í veðri
og rigningarskúr bleytti svæðið
nokkuð. Þennan dag fjölgaði
gestum enn og var talið að
þann dag hafi um átta þúsund
gestir verið á hátíðinni. Tónlist-
arflutningur hófst klukkan 10
um morguninn og stóð látlaust
til klukkan tvö um nóttina
Þrjár lítt þekktar hljómsveitir
komu fram um hádegi, Arkímed
es, Dýpt og Tiktúra, um miðjan
daginn léku hljómsveitirnar Æv
intýri og Tilvera, en um kvöld
ið komu svo fram hljómsveitirn
ar Jeremías, Akropolis, Júmbó,
Torrek, Mánar og Trin, og einn
ig Ingvi Steinn. Áfengisneyzla
var mun meiri en fyrri daginn
og má segja að að ölvun hafi
verið mjög almenn um kvöldið.
Allt fór þó friðsamlega fram
lengi vel, en um kvöldið tók
leikurinn þó heldur að æsast.
Kom þá mikið af eldra fólki,
frá tvítugu og þaðan af eldra,
og var áfengisneyzla þessa fólks
og ölvun mun meiri en yngra
fólksins. Sköpuðust nokkur vand
ræði af þessu eldra fólki, enda
kom margt af því einungis til
að drekka og koma af stað ólát-
um. Eftir að skemmtistöðum í
Reykjavík var lokað klukkan
hálf tólf um kvöldið var einnig
straumur fólks úr borginni i
Saltvík í leigubílum. Var því
hliðum öllum lokað kl. eitt um
nóttina og gafst sú ráðstöfun
vel, enda þótt ónæðissamt hafi
verið hjá hliðvörðum um nólt-
ina.
Á sunnudag fjölgaði gestum
enn og komst tala seldra miða
upp i átta þúsund þann dag. —
Telja forráðamenn að um tiu
þúsund manns hafi verið í Salt-
vík þann dag, þegar mest var.
Starfsfólk, hijómlistarmenn og
ýmsir boðsgestir voru nokkur
hundruð, en talið var að um
þúsund manns hafi komizt á há
tíðarsvæðið án aðgöngumiða. —
Töluverður fjöldi fullorðins fólks
kom á hátíðina þennan dag til
að skoða og kynna sér hátíðar
haldið og ástand unga fóíksins.
Ölvun var minni á sunnudag
og sunnudagskvöld en hina dag
ana og voru vínbirgðir flestra
sennilega þrotnar. Þennan dag
stóð tónlistarflutningur frá kl.
tíu um morguninn til kl. fjögur
um nóttina. Um morguninn var
helgistund. Þar talaði séra Bern
harður Guðmundsson til unga
fólksins og ræddi um lífið og
gildi trúarinnar. Hljómsveitin
Trúbrot lék kafla úr verkinu —
„ . . . lifun“ og ræddi séra Bern
harður um efni þessara kafla á
eftir. Tveir ungir menn léku á
trompeta og Kristín Ólafsdóttir
las úrdrátt úr textum verksins.
Á eftir sungu Kristín og Helgi
R. Einarsson sálm og Faðirvorið
við ný lög.
Um daginn voru síðan hljóm-
leikar og þjóðlagahátíð og komu
fram Ævintýri, Trúbrot, Náttúra
Tíó tríó, Þrjú á palli, Kristín og
Helgi, Árni Johnsen, Lítið eitt
og Bill og Gerry. Um miðnætti
hófst dansleikur og léku þar
hljómsveitirnar Tilvera, Roof
Tops og Náttúra, og einnig komu
liðsmenn nokkurra hljómsveita
saman á sviðinu og fluttu stemn
ingarverk.
Veðrið var breytilegt á sunnu
dag. Um morguninn rigndi mik-
ið og fram til kl. þrjú, en þá
var tilkynnt að von væri á
ennþá meiri rigningu og roki,
og var hátíðargestum ráðlagt að
fara að hugsa til heimferðar. —
Brá þá svo við, að upp stytti,
sólin brauzt fram úr skýjum og
innan stundar var komið hið
fegursta veður. Um kvöldið gust
aði dálítið. en lygndi fljótlega
. . . og hafzt við í tjöldum (Ljósm. Mbl. Kr. Ben.)
aftur og hélzt veður sæmilegt
það sem eftir var hátíðarinnar.
Á mánudag lauk hátíðinni og
tóku unglingarnir upp tjöld sín
og héldu heim. Dagskráin var
stutt þennan dag, hljómsveitirn-
ar Haukur og Plantan léku um
stund og nokkrir hljómlistar-
menn stilltu saman strengi sína.
Kalt var í veðri og skúrir af og
til. Mikill straumur fólks var af
svæðinu og höfðu hópferðabif-
reiðar ekið fóiki stanzlaust í bæ
inn alla aðfaranótt mánudagsins
og allan mánudaginn. Fóru síð-
ustu gestirnir heim um kvöld-
matarleytið.
Hjálparsveit skáta og tveir
læknanemar sáu um slysahjálp.
Um 500 manns komu í sjúkra-
skýlið og fengu einhverja að-
stoð, en engin stórslys urðu á
mönnum. Rúmlega tuttugu
manns voru sendir í bæinn til
frekari aðgerða á slysavarðstofu
og aðrir tuttugu fóru heim til
hvíldar eftir að gert hafði ver-
ið að sárum þeirra í Saltvík.
Langstærstur hluti þeirra, sem
komu í sjúkraskýlið vegna
meiðsla, var undir áhrifum á-
fengis.
Löggæzlu vai' haldið i lág-
marki. Engin leit var gerð á fólk
inu, sem kom á hátíðina, en
hins vegar gengu óeinkennis-
klæddir lögreglumenn um svæð
ið og tóku áfengi af unglingun
um og helltu niður. Þeir ungl-
ingar, sem vandræði stöfuðu af,
voru teknir til geymslu una
stundarsakir í hópferðabifreið
lögreglunnar.
Nokkuð var um það að ungl
ingarnir týndu eígum sínum eða
að þeim væri stolið. Brugðust
þannig ýmsir unglingar því
trausti, sem til þeirra var borið.
Nokkur fjöldi bandarískra her
manna af Keflavíkurflugvelli
sótti hátíðina. Virtist framkoma
þeirra með ágætum og ekki
stafa af þeim vandræði, en hins
vegar var áberandi ölvun
franskra sjóliða, sem þarna
voru allnokkrir.
Margt unga fólksins fylgdist
með hljómlistarflutningi, en þó
kom greiniiega í ljós, að sú til-
gáta, að ofneyzla unglinganna á
áfengi stafaði af því, að þeir
hefðu ekkert við að vera, hafði
ekki við mikil rök að styðjast.
Ölvunin var engu minni meðan
hljómlistaflutningurinn stóð yf-
ir, en þó var hún áberandi mest
á kvöldin og fram eftir nóttu.
Skiptar skoðanir voru um há
tíðarhaldið. Töldu ýmsir ölvun-
ina geigvænlega mikla og fram
komu unglinganna hneyksli, en
aðrir voru tiltöiulega ánægðir
með þess tilraun. Þó voru menn
yfirleitt sammála um, að meiri
gæzla og leit á fólki hefðu getað
dregið til muna úr ölvun ungl-
inganna.