Morgunblaðið - 28.09.1979, Qupperneq 22
22
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 28. SEPTEMBER 1979
Sigþór Marinósson
tœknimaður Minning
í dag kveðjum sið starfsfélag-
arnir í Útvarpinu við Skúlagötu
kæran vin og góðan dreng, Sigþór
Marinósson tæknimann, sem um
margra ára skeið starfaði hjá
Ríkisútvarpinu. Síst grunaði mig á
fimmtudaginn í liðinni viku, þegar
við sátum tveir á skrifstofu minni
og ræddum þar um kjara- og
hagsmunamál starfsfélaga okkar,
að þetta yrði okkar síðasti fundur.
Sigþór var þá glaður og reifur eins
og vandi hans var og fullur af
áhuga fyrir að vinna að velferð
félaga sinna í Útvarpinu. Að
kvöldi næsta dags barst mér
andlátsfregn hans. Sannast hér
hið fornkveðna, að fáir vita fyrir
sitt endadægur.
Sigþór Marinósson var mjög
fær maður í sinni starfsgrein og
var sífellt að auka við þekkingu
sína í starfinu. Fróðleiksfýsn hans
var mikil og vel fylgdist hann með
öllum nýjungum í útvarpstækni.
Hann var sérstakt ljúfmenni í
daglegri umgengni og bar jafnan
sáttarorð milli manna, ef smáveg-
. is ágreiningur varð í dagsins önn.
Slíka menn er gott að eiga að
vinnufélögum. Hans er því sárt
saknað af öllum starfsfélögunum í
Útvarpinu.
Sigþór var norðlenskur að ætt-
erni og alinn upp í byggðum
Eyjafjarðar. Hann var kvæntur
Jónínu Hallgrímsdóttur frá Ólafs-
firði og eignuðust þau þrjú mann-
vænleg börn, sem nú eru öll vaxin
úr grasi. Jónína andaðist í júní-
mánuði s.l., og er mér kunnugt um
að það var mjög þungt áfall fyrir
Sigþór, þótt hann flíkaði lítt
tilfinningum sínum. Þau hjón
voru alla tíð mjög samhent.
Sigþór var loftskeytamaður að
mennt og vann í byrjun við út-
varpsstöðina á Vatnsenda og
endurvarpsstöðina í Skjaldarvík.
Hin síðari ár vann hann tækni-
störf fyrir Útvarpið, m.a. við
upptökur á flestum tónleikum
Sinfóníuhljómsveitar íslands.
Ungur að árum mun Sigþór hafa
þráð að leggja stund á langskóla-
nám, en hið venjulega brauðstrit
og aðrar annir urðu þess valdandi
að ekki varð úr því. Fróðleiksfýsn-
in og þráin til æðri mennta fylgdi
honum þó alla ævi. Sást það best á
því þegar hann hóf nám við
Menntaskólann í Hamrahlíð, þá
kominn hátt á fimmtugsaldur, og
lauk þaðan stúdentsprófi fyrir
tæpum tveimur árum rösklega
fimmtugur. En á sama tíma vann
hann við sín daglegu störf í
Útvarpinu. Mér er ennfremur
kunnugt um, að hugur hans stóð
til frekara framhaldsnáms, og
ekki að vita hvað orðið hefði, ef
honum hefði enst líf og heilsa.
Nú er Sigþór Marinósson horf-
inn okkur samstarfsmönnum hans
í Útvarpinu en minningin um
ágætan vinnufélaga og góðan
dreng lifir eftir í vitund okkar.
Fyrir hönd Starfsmannafélags
Ríkisútvarpsins sendi ég börnum
hans, aldraðri móður og öðrum
nánum aðstandendum hugheilar
samúðarkveðjur.
Klemenz Jónsson
Kveðja frá
starfsfélögum í
tæknideild
Ríkisútvarpsins
„Það sem gróðursett er á réttan
hátt, verður ekki rifið upp. Það
verður aldrei á braut borið, sem
vel er varðveitt. Það vekur virð-
ingu niðjanna." Þessi orð úr ræðu
Laotse um vöxt dyggðarinnar úr
Bókinni um veginn hæfa vel minn-
ingunni um Sigþór Marinósson.
Hann sá og skildi gildi þess að
haga störfum sínum og lífi á þann
veg, að það vekti virðingu niðj-
anna. Hann lést hinn 21. septem-
ber s.l.
Sigþór var fæddur á Steðja í
Hörgárdal 29. júní árið 1926.
Foreldrar hans voru hjónin Aðal-
björg Snorradóttir og Jón Marinó
Sigtryggsson, er þar bjuggu þá.
Jón er látinn fyrir mörgum árum,
en Aðalbjörg lifir í hárri elli
norður á Akureyri. Sigþór gekk í
Menntaskólann á Akureyri og
lauk þaðan gagnfræðaprófi. Að
því loknu gerðist hann barnakenn-
ari í tvo vetur, fyrst norður í
Reykjahverfi í Suður-Þingeyjar-
sýslu og síðan í Hörgárdal. Snorri
Sigfússon, sá mæti og merki
skólamaður, hvatti Sigþór til þess
að fara í Kennaraskólann. Snorri
mun hafa séð að Sigþór ætti erindi
þangað, en hugur hans mun ekki
hafa beinst í þá átt að gera
kennarastarfið að ævistarfi sinu,
þó svo að hann væri gæddur
mörgum þeim eiginleikum sem
prýða mega góðan kennara. Sigþór
innritaðist í Loftskeytaskólann í
Reykjavík. Að loknu námi þar
ræðst hann til starfa hjá Ríkisút-
varpinu, bæði við langbylgjustöð-
ina á Vatnsenda og við endur-
varpsstöðina í Skjaldarvík við
Eyjafjörð. Síðustu árin vann Sig-
þór í tæknideild Ríkisútvarpsins
við Skúlagötu 4. Það er til marks
um dugnað hans, að þegar svoköll-
uð öldungadeild tók til starfa á
sínum tíma við Menntaskólann við
Hamrahlíð lét Sigþór innrita sig
til náms þar. Eflaust hefur hann
ætlað að bæta sér upp það, að
hann varð á sínum tíma að hverfa
frá menntaskólanámi. Námið í
öldungadeild MH er mjög tíma-
frekt og tæpast fyrir aðra en
afburðamenn að andlegu atgervi
að stunda það með fullu starfi.
Svo var um Sigþór. Hann var
gæddur miklu andlegu þreki og
lauk hann námi sínu í MH með
miklum sóma. Hann lét erfiðið
ekki aftra sér frá því að svala
þeirri löngun sinni að bæta við
þekkingu sína og lærdóm.
Kona Sigþórs var Jónína Hall-
grímsdóttir, ættuð norðan úr Ól-
afsfirði, og eignuðust þau hjón
þrjú börn. Jónína lést fyrr á þessu
ári langt um aldur fram eins og
Sigþór.
Það eru árstíðaskipti gengin í
garð. Haustið hefur tekið völdin í
ríki náttúrunnar. Það er byrjað að
búa móður náttúru undir vetrar-
dvalann. Við vitum að árstíða-
skipti eru árviss fyrirbæri. Við
vitum líka að „eitt sinn skal hver
deyja", en samt erum við ætíð
óviðbúin því, að taka dauðanum
sem sjálfsögðum hlut og þá síst,
þegar vinur og starfsfélagi er
kvaddur fyrirvaralítið yfir landa-
mærin lífs og dauða. Svo var og
þegar okkur barst til eyrna fregn-
in um að Sigþór væri allur. Skarð
hans í hinum tiltölulega fámenna
hópi, sem vinnur hjá Ríkisútvarp-
inu, er vandfyllt. Það kemur
reyndar maður í manns stað, en
séreinkenni hvers og eins verða
ekki endurlífguð, Þau lifa að vísu í
minningunni um þá sem látnir eru
og það er einmitt minningin um
góðan dreng, sem að síðustu sigrar
sorgina og með það í huga viljum
við votta börnum Sigþórs og
tengdabörnum, barnabörnum,
aldraðri móður hans, systkinum
og öðrum nánum aðstandendum
okkar dýpstu samúð.
Nú að leiðarlokum minnumst
við vinnufélagarnir hans með
söknuði en jafnframt með þakk-
læti fyrir samfylgdina og sam-
starfið. Hann var okkur öllum
fyrirmynd í því að haga starfi sínu
á þann veg, að „það vekti virðingu
niðjanna".
Blessuð sé minning hans.
Mjög á ég örðugt með að sætta
mig við fráfall vinar míns og
starfsfélaga, Sigþórs Marinósson-
ar tæknimanns, sem var kvaddur
burt á miðjum aldri án aðdrag-
anda. Þungbært má það áfall vera
börnum hans og öðrum nákomn-
um, aðeins þremur mánuðum eftir
að Jónína Hallgrímsdóttir, kona
Sigþórs, andaðist, einnig með
snöggum hætti. Okkur útvarps-
fólki fellur það líka afar þungt að
hafa misst jafn góðan félaga og
finnum nú glögglega skarð fyrir
skildi, — slíkt hið sama stofnunin
sjálf. Því að slíkir liðsmenn sem
hann eru hverri stofnun mikils-
verðir og ómetanlegir oft og tíð-
um, sakir trúmennsku sinnar,
vandaðra vinnubragða og ná-
kvæmni. Og í þjónustu útvarpsins
var hann búinn að starfa hátt á
þriðja áratug, framan af í út-
varpsstöðvunum á Vatnsenda og
Skjaldarvík, en síðustu 15 árin í
aðalbækistöðvunum.
Hann vann líka mikið í þágu
okkar samstarfsfólksins, því að
maðurinn var ósérhlífinn. Hann
átti lengi sæti í stjórn Starfs-
mannafélags útvarpsins (oftar en
eitt skeið eða tvö) og var t.d.
varaformaður í núverandi stjórn
félagsins. Hann sat m.a. síðasta
þing BSRB fyrir okkar hönd.
Sigþóri var sýnt um tölur og
reikning, og því var hann öðrum
mönnum í okkar hóp betur að sér
um hvaðeina, er snertir laun
opinberra starfsmanna, launa-
flokkun og annað sem kjörin
áhrærir, en það getur verið býsna
flókið mál.
Á öðru sviði félagsmála okkar
kom Sigþór heitinn mjög við sögu.
Hann hafði áhuga á skáklist og
var í röð hinna beztu hér innan
stofnunar. Til vitnis um það er, að
hann sigraði eitt árið í aðalkeppni
„Riddaraliðsins" okkar, og því er
nafn hans grafið á farandbikar-
inn, sem kenndur er við annan
eldri útvarpsmann, Eggert Gilfer,
þann fræga garp skáklistarinnar.
Sigþór Marinósson var skap-
festumaður mikill, gæddur sér-
stöku jafnaðargeði, hress og hýr í
lund. Var ætíð gott að eiga við
hann orðastað um hvaðeina, því að
hann leit með sanngirni á hvert
mál og var öfgalaus með öllu.
Prúðmennska einkenndi dagfar
hans. Hann var gæddur farsælum
gáfum og þekkti til á mörgum
sviðum öðrum en hinum tækni-
legu, sem hann vann að. Og til
marks um hvað hugur hans var
opinn og leitandi er það ekki hvað
sízt, að hann lagði um nokkur ár
stund á nám í öldungadeild
Menntaskólans við Hamrahlíð,
lauk þar áfanga eftir áfanga, unz
hann tók stúdentspróf vorið 1977,
þegar hann stóð á fimmtugu. Var
það vel af sér vikið, því að hann
vann verk sín ótrauður með nám-
inu.
Sigþór Marinósson verður ávallt
minnisstæður samferðafólki sínu
vegna mannkosta sinna og hæfi-
leika. Við söknum hans mikið.
Baldur Pálmason
Fæddur 29. júní 1926.
Dáinn 21. september 1979.
í dag verður til moldar borinn
Sigþór Marinósson en hann and-
aðist á Borgarspítalanum að
kvöldi 21. þ.m. Andlát hans gerði
ekki boð á undan sér, hann var
hress og hraustlegur nánast til
síðustu stundar og engan grunaði
að endalokin væru svo skammt
undan.
Fjölskyldan er harmi slegin,
Sigþór er horfinn og ekki nema
tæpir þrír mánuðir síðan eigin-
kona hans, Jónína Hallgrímsdótt-
ir, kvaddi þennan heim.
Sigþór Marinósson var fæddur
að Steðja á Þelamörk 29. júní
1926, sonur hjónanna Aðalbjargar
Snorradóttur og Marinós Sig-
tryggssonar. Hann var annað barn
þeirra hjóna, elst er dóttirin
Hulda og yngri en Sigþór eru
synirnir Steinar og Marinó. Aðal-
björg missti mann sinn er Marinó
var aðeins nokkurra mánaða gam-
all. Það var að vonum mikið áfall
að sjá á bak maka sínum i blóma
lífsins og standa allt í einu ein
uppi með fjögur börn. Skömmu
síðar fluttist hún til Akureyrar
með börn sín og þar hefur hún
haft heimili síðan. Nú hófust
erfiðir tímar fyrir Aðalbjörgu og
börnin, hún stundaði þá vinnu, er
til féll, henni tókst að halda
fjölskyldunni saman og dugnaður
hennar og þrautseigja var einstök.
Ekki aðeins tókst henni að sjá
börnum sínum farborða efna-
hagslega, heldur einnig að búa
þeim ánægjulegt og glaðvært
heimilislíf, sem öll börnin minnast
með hlýhug og þakklæti.
Sigþór ólst því upp í glöðum
systkinahópi og í leikjum þeirra
gerðust oft skemmtileg atvik, sem
ávallt seinna í lífinu urðu hláturs-
efni, er þeirra var minnst.
Að loknu barnaskólaprófi hóf
Sigþór nám við Menntaskólann á
Akureyri og lauk þaðan gagn-
fræðaprófi.
Seinna fór hann í loftskeyta-
skólann í Reykjavík og braut-
skráðist þaðan vorið 1948 með
mjög góðri einkunn enda var
Sigþór mikill námsmaður og mjög
góðum gáfum gæddur enda veitt-
ist létt að taka stúdentspróf mörg-
um árum seinna.
Árið 1951 réðst Sigþór, sem
tæknimaður til ríkisútvarpsins,
þar sem hann vann alla tíð síðan,
árin 1952—1958 var hann við
endurvarpsstöðina á Akureyri.
Sigþór kvæntist Jónínu Hall-
grímsdóttur árið 1952 og var það
mikið gæfuspor fyrir þau bæði.
Samhentari hjón í blíðu og stríðu
var vart hægt að hugsa sér, enda
var það mikið áfall fyrir Sigþór er
hann missti Jónínu. Þeim hjónum
varð þriggja barna auðið, en þau
eru: Aðalbjörg fædd 1951, gift
Gunnari Sigurðssyni, María fædd
1952 og Rafn fæddur 1954, kvænt-
ur Guðnýju Albertsdóttur.
Skömmu eftir að ég kvæntist
Huldu systur Sigþórs, kynntist ég
honum vel og sá kunningsskapur
þróaðist brátt í trausta vináttu er
hélst alla tíð síðan og aldrei bar
skugga á. Milli fjölskyldna okkar
var og alltaf mjög náið samband
þótt stundum væri langt á milli,
komið var saman til að fagna
hinum ýmsu áföngum og á gleði-
stundum var Sigþór ávallt hrókur
alls fagnaðar. Á sama hátt var
hann alltaf reiðubúinn að veita
alla þá aðstoð er hann mátti,
þegar erfiðleikar steðjuðu að, og
hans aðstoð var svo hljóðlát og
einlæg að hún var aldrei annað en
kærkomin.
Heiðarleiki og drengskapur, var
Sigþóri í blóð borinn og hann var
frábitinn öllu lífsgæðakapphlaupi,
og ég er þess fullviss að viljandi
gekk hann aldrei á hlut nokkurs
manns.
Nú er leiðir skilja vil ég þakka
Sigþóri samfylgdina, ég vil þakka
honum hin jákvæðu viðhorf til
lífsins er hann miðlaði mér og
öðrum, ég vil þakka honum hina
falslausu, einlægu gleði er hann
bar með sér til sameiginlegra
ánægjustunda.
Börnum Sigþórs, tengdabörnum
og barnabörnum bið ég guð að
gefa styrk í þeira stóru sorg.
Tengdamóður minni votta ég
dýpstu samúð.
Einar Helgason.
Fæddur 29. júní 1926
Dáinn 21. september 1979
í dag kveðjum við móðurbróður
okkar, Sigþór Marinósson, er lést
mjög óvænt hinn 21. september
síðastliðinn aðeins 53 ára að aldri.
Ekki kom okkur til hugar, þegar
við hittum hann nýlega, að hann
yrði svo snögglega kvaddur á
braut. Erfitt er fyrir okkur að
trúa því, að ferðir okkar á Sel-
vogsgötuna verða ekki fleiri, en
gegnum árin hefur samgangur
alltaf verið mikill milli heimila
okkar, enda erum við frændsystk-
inin öll á svipuðum aldri.
Skemmst er að minnast hinna
fjölmörgu ánægjustunda, sem við
áttum þar sem krakkar, þegar við
komum til að vera hjá Sissa og
Jonnu í sumarleyfum okkar á
íslandi og vorum við þá sem ein
fjölskylda. Alla tíð tók hann þátt í
því, sem við höfðum fyrir stafni,
og var alltaf reiðubúinn að bjóða
okkur þá aðstoð er hann mátti.
Þannig munum við ávallt minnast
hans.
Sissi fylgdist jafnan vel með því
sem var ofarlega á baugi og var
gaman að ræða við hann málin, þó
að við værum ekki alltaf sammála.
Það var létt yfir slíkum umræðum
þar sem hann átti auðvelt með að
sjá spaugilegu hliðarnar. En það
sem hlýtur að vera efst í huga
okkar á þessari stundu er hversu
jákvætt hugarfar hann hafði til
lífsins, jafnvel þótt á móti blési.
Þetta sýndi sig ef til vill best er
hann varð fyrir þeirri miklu sorg
að missa Jonnu konu sína svo
skyndilega nú í sumar.
Með þessum fáu orðum viljum
við þakka Sissa fyrir að vera
góður og sannur frændi. Megi guð
styrkja ömmu okkar, frændsystk-
in og fjölskyldur þeirra á þessari
sorgarstundu.
Daddi og Vidda
Sonur minn, faöir okkar, tengdafaöir og afi,
SIGÞÓR MARINÓSSON,
tæknimaöur,
Selvogsgötu 26, Hafnarfiröi,
sem lézt í Borgarspítalanum 21. sept. veröur jarösunginn frá
Þjóökirkjunni í Hafnarfiröl, í dag föstudaginn 28. sept. kl. 2
Fyrir hönd systkina hins látna.
Aöalbjörg Snorradóttir,
Aöalbjörg Sigþórsdóttir, Gunnar Sigurösson,
Rafn Sigþórsson, Guöný Albertsdóttir,
María Sigþórsdóttir og barnabörn.
t
Faöir minn, tengdafaöir og afi
SIGURÞÓR ÞÓRDARSON
fyrrv. brunavöröur
Brekkustíg 14, Reykjavík
lézt aöfaranótt 23. sept.
Elfn Sigurþórsdóttir, Siggeir Sverrisson,
Sigrún E. Siggeirsdóttir, Elínborg A. Síggeirsdóttir.
t
Dótturdóttir okkar og systlr,
SIGRID ELLA CROCKER,
Þingholtsstræti 33, Reykjavík,
andaöist þann 26. september á Gjörgæsludeild Borgarspítalans.
Sigurbjörg S. Þorbergsdóttir, Sigfried B. Sigurösson
og systkini hinnar látnu.