Morgunblaðið - 04.01.1980, Blaðsíða 16
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 4. JANÚAR 1980
16
JMtoigtiiiltfjiMfe
Útgefandi
Framkvæmdastjóri
Ritstjórar
Ritstjórnarfulltrúi
Fréttastjóri
Auglýsingastjóri
hf. Árvakur, Reykjavík.
Haraldur Sveinsson.
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson:
Þorbjörn Guðmundsson.
Björn Jóhannsson.
Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar:
Aðalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033.
Áskriftargjald 4.500,00 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 230
kr. eintakið.
Málamiðlun
Þeir, sem væntu þess, að alþingiskosningarnar yrðu
afgerandi um stjórn landsins, hafa orðið fyrir
miklum vonbrigðum. Þvert á móti eru niðurstöðurnar
torráðnar um raunverulegan vilja kjósenda og hafa þær
ýmist verið túlkaðar sem krafa um nýja vinstri stjórn
eða að henni hafi verið hafnað, sem er sönnu nær. Hversu
svo sem það nú er, liggur hitt fyrir, að þrátt fyrir
yfirlýsingar um hið gagnstæða er svo mikil togstreita og
tortryggni milli vinstri flokkanna, að þess er naumast að
vænta, að þeir geti unnið saman af heilindum allir þrír í
náinni framtíð.
I áramótagrein sinni í Morgunblaðinu gerir Geir
Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þessi mál
að umræðuefni, um leið og hann leggur áherzlu á, að við
blasi stöðvun atvinnuveganna og þar með atvinnuleysi,
nema efnahagsvandinn verði leystur. Við þvílíkar
kringumstæður beri að stefna að sem víðtækastri
samvinnu um stjórn landsins og kanna m.a. möguleika á
myndun þjóðstjórnar. Hann nefnir þrennt til sem
markmið slíkrar málamiðlunar:
1. Rjúfa verður vítahring verðbólgunnar, þar sem
verðbreytingar eru framreiknaðar með sjálfvirkum hætti
frá einu sviði til annars og síðan koll af kolli með einni
kollsteypunni af annarri. Semja verður um, hvar
vítahringinn skuli rjúfa og hvernig vernda skuli hag
þeirra, sem einskis mega í missa.
2. Sameiginleg útgjöld verður að miða við, að svigrúm
sé til að tryggja kaupmátt þeirra, er lægri hafa launin, og
beina sameiginlegum útgjöldum í arðvænlegustu farvegi
fyrir þjóðarheildina. Blandast víst fáum hugur um, að
þar hlýtur áherzlan að verða lögð á orku- og vegafram-
kvæmdir, sem eru ekki síður félagslega mikilvægar en
fjárhagslega arðbærar, þegar byggðamál eru höfð í huga.
3. Móta verður nýja atvinnustefnu, auka framleiðslu og
skapa framtaki landsmanna og atvinnufyrirtækjum
skilyrði til þess að greiða launþegum kaup og tryggja
þeim sambærileg lífskjör og eru bezt í öðrum löndum.
Með þeim hætti er unnt að koma í veg fyrir atvinnuleysi
og þann landflótta, sem á hefur borið, þegar fleiri fara af
landi brott en hingað sækja. Markið á að setja svo, að
menn undrist ekki yfir því, hvers vegna launakjör hér séu
lakari en annars staðar, heldur hitt, hvernig okkur hefur
tekizt að skapa hér betri kjör en víðast annars staðar.
Geir Hallgrímsson bendir réttilega á, að þjóðstjórn
yrði ekki mynduð til langlífis, — „m.a. þar sem
skipulagsbundin stjórnarandstaða er nauðsynleg innan
þings þegar til lengdar lætur, en hugsa má sér slíka
stjórn fram á árið 1981, enda næðist málefnalega
samstaða um afmörkuð verkefni og lausn brýnustu
vandamála til að brjótast út úr þeirri sjálfheldu, sem við
íslendingar erum nú í.“
Vitaskuld má hugsa sér aðrar gerðir meirihluta-
stjórna, eins og Geir Hallgrímsson rekur í grein sinni. í
því efni skiptir mestu, að þjóðkjörnir fulltrúar reynist
vanda sínum vaxnir og ráðist í það verkefni, sem þeir
buðu sig fram til að leysa og þeir hafa verið kjörnir til að
leysa. Öll undanbrögð nú eru sviksemi við þjóðina.
Enginn einn flokkur hefur nægilegan þingstyrk til þess
að ná öllu sínu fram. Þess vegna verður að ná
málamiðlun, — og ráðast gegn verðbólgunni eftir þeirri
leið, af því að aðrar leiðir eru ekki færar.
Svipmyndir frá París
Ekki var mikið um jólaskreytingar í Parísarborg í ár — má nefna
sem dæmi að Eiffelturninn sem alltaf hefur verið upplýstur með
jólaljósum var grár og gugginn í vetrarmyrkrinu. An efa kemur
þar sparnaðaráætlun borgaryfirvalda við sögu. Fréttaritari Mbl. í
París, Anna ,Nissels, sendi þessar svipmyndir frá jólaviku í
Parísarborg. Á franska vísu eru jólin haldin hátíðleg 25. desember
og að sjálfsögðu kemur jólasveinninn þar við sögu sem í öðrum
vestrænum löndum.