Morgunblaðið - 03.12.1980, Page 23

Morgunblaðið - 03.12.1980, Page 23
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 3. DESEMBER 1980 23 Gunnar Schram fyrrv. ritsímastjóri — Minning Miðvikudaginn 26. nóvember sl. andaðist föðurbróðir minn Gunn- ar Schram fyrrum ritsímastjóri, 83 ára að aldri. Gunnar var faeddur í Reykjavík 22. júní 1897, sonur hjónanna Ellerts Schram skipstjóra og Magdalenu Árnadóttur. Hann ólst upp í fæðingarbæ sínum, hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík en hætti þar námi þegar honum gafst kostur á starfi hjá Ritsímanum. Árið 1924 var Gunnar skipaður stöðvarstjóri Landsímans á Akur- eyri og því starfi gegndi hann í 40 ár. 1964 varð hann ritsímastjóri í Reykjavík. Síðan hefur Gunnar búið á æskuslóðum sínum, í for- eldrahúsum sem áður voru, við Stýrimannastíginn. Gunnar kvæntist Jónínu Jóns- dóttur frá Arnarnesi við Eyjafjörð árið 1930. Þau áttu tvö börn, Margréti, sem er gift Helga Hall- grímssyni verkfræðingi hjá Vega- gerð ríkisins og Gunnar laga- prófessor sem er kvæntur Elísu Jónsdóttur. Jónína andaðist árið 1974 og bjó Gunnar einn síðustu árin í gamla húsinu í Vesturbæn- um. Eins og fyrr segir bjó Gunnar lengst af í höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Þar vann hann sín brautryðjendastörf í símamálum af elju og samviskusemi og setti svip sinn á Akureyrarbæ með virðulegri framkomu og háttvísi. Margar sögur sagði Gunnar mér af þeim árum, þegar síminn lagði línur sínar inn til dala og út til nesja, oft við erfiðustu aðstæður. Það er merkur kafli í sögu þjóðar- innar, sem ekki má gleymast, þótt hann verði ekki rakinn hér. Þau Gunnar og Jonna bjuggu á efstu hæð símstöðvarhússins við Hafnarstræti, aðalgötu Akureyr- ar. Mér er það í barns minni, hvað mér þótti ávallt mikið til þess koma að heimsækja þetta glæsi- lega heimili. Heimsóknir voru ekki tíðar í samgönguleysi þeirra daga, en það var mikill viðburður og ævintýri að halda norður til Gunnars frænda. Þau hjónin voru gestrisin og glæsileg, Gunnar spaugsamur og rismikill — Jonna falleg og gustaði af henni. Á því heimili var ekki lognmolla. Gunnar var hár og grannur, beinn í baki, hnarreistur og aristokratiskur í framgöngu og hann líktist föður sínum, afa Ellert, æ meir sem árin liðu. Þar var ekki leiðum að líkjast. Gunnar var skrafhreyfinn, glaður á góðri stund og léttur í lund. Hann var afdráttarlaus í skoðunum sínum um menn og málefni. Vegna nábýlis hin síðari ár bar fundum okkar oft saman. Hann spurði frétta en vissi þó flest, fylgdist með öllu af athygli. Hann var mikill fjölskyldumaður og naut samvista við eigin börn og barnabörn jafnt og við alla aðra í stórri fjölskyldu. A fjölskyldumót- um var hann virtur vegna mann- kosta og framkomu, hinn sanni sjentilmaður til orðs og æðis. Gunnar naut dvalar sinnar á Akureyri. Þar fann hann lífsföru- naut sinn, glæsilega norðlenska konu og þar fæddust börnin. Samt var hann í útlegð fyrir norðan, rætur Gunnars voru í Vesturbæn- um í Reykjavík og þangað fluttist hann strax og tækifæri gafst. Við hentum oft gaman að því, frænd- urnir, í gamla daga, þegar KR kom til að keppa á Akureyri, með hverjum hann ætti að halda á vellinum. Gunnar var nógu mikill diplomat til að segja fátt, en svarthvíti trefillinn sagði því meir; honum var ætíð lætt um hálsinn þegar haldið var á völlinn. Gunnar Schram er nú allur. Hann gegndi skyldustörfum fyrir land og þjóð í kyrrþey, án hávaða eða hamagangs. Hann reyndist nýtur þegn og glæsilegur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem ruddi okkur brautina til lífsþæginda og tæknivæðingar. Hafi hann þökk fyrir. Guð blessi minningu hans. Ellert B. Schram. Fyrir tæpum 20 árum, er ég réðist til starfa hjá Pósti og síma, lágu fyrst saman starfsleiðir okkar Gunnars Schram. Hann var þá umdæmisstjóri Akureyrar- umdæmis og stöðvarstjóri Lands- símastöðvarinnar á Akureyri. Strax og ég heyrði Gunnars getið var mér ljóst að hann var mikils metinn starfsmaður og virtur vel. Hann þótti góður stjórnandi, sem íhugaði hvert mál vandlega og kappkostaði að leysa þau á sann- gjarnan hátt. Var hann jafnan úrræðagóður í þeim efnum. Sam- starf okkar varð eins og best varð kosið og átti hann af miklu að miðla mér og öðrum til gagns. Gunnar Schram var fæddur í Reykjavík 22. júní 1897, sonur hjónanna Magdalenu Árnadóttur og Ellerts Schram skipstjóra. Gunnar lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1914, lærði símritun hjá Lands- síma Islands og var skipaður símritari árið 1915 við Ritsímann í Reykjavík. Hann varð varðstjóri við Ritsímann 1918 og gegndi því starfi til 1924, er hann var ráðinn símstjóri Landssímastöðvarinnar á Akureyri og umdæmisstjóri Ak- ureyrarumdæmis. Því starfi gegndi Gunnar þar til í ársbyrjun 1966 að hann var skipaður rit- símastjóri og umdæmisstjóri Reykjavíkurumdæmis. í þeirri stöðu var hann til ársloka 1967 er hann lét af starfi vegna aldurs. Var hann þannig hjá Pósti og síma í nær 53 ár. Er hér um óvenju langan og jafnframt far- sælan starfsaldur að ræða. Gunn- ar lagði áherslu á að fylgjast sem best með því sem var að gerast í símritun og fór tvívegis erlendis til þess að bæta þekkingu sína í þeim efnum. Gunnar Schram lét sig félags- mál nokkru skipta og var formað- ur Félags íslenskra símamanna 1918—1924 og ritstjóri Símablaðs- ins sömu ár. Hann var mikill íþróttaunnandi og var m.a. for- maður KR 1921—1924, í íþrótta- ráði Akureyrar 1930—1940 og formaður þess 1934—1940 og formaður Golfklúbbs Akureyrar langa tíð. Gunnar Schram kvæntist 28. maí 1929 Jónínu Jónsdóttur, út- vegsbónda í Arnarnesi við Eyja- fjörð, hinni mætustu konu. Áttu þau tvö börn, Margréti og Gunnar, sem bæði eru búsett í Reykjavík. Konu sína missti Gunnar árið 1974. Gunnar Schram var fróður og vel gefinn maður. Var gaman við hann að ræða. Hann sagði vel frá og tókst að gera atburði bæði ljósa og lifandi. Hann var léttur og gamansamur og því gott að véra í návist hans. Hann var vinfastur, ráðhollur og góðviljaður. Hann var einn þeirra manna, sem setti svip á umhverfi sitt. Gunnar var traustur og trúr í starfi og það var engin tilviljun að honum var sýndur vaxandi trúnaður og falin æ viðameiri störf. Eins og áður var sagt hóf hann ungur störf hjá Pósti og síma og má segja að hann hafi vaxið með ört vaxandi stofnun og tekið þátt í að móta og efla þá þjónustu, sem hún átti að veita. Mörg vandasöm mál þurfti hann að leysa og varð ég ekki var við annað en að honum tækist það svo vel að ekki væri um deilt. Hann vildi ógjarnan láta það bíða morg- uns, sem hægt var að gera sam- dægurs. Óleyst mál hlóðust því ekki upp í kringum hann. Eftir að Gunnar missti konu sína kom hann alla jafna um hádegið í mötuneyti Pósts og síma við Áusturvöll. Sýndi það vel þá tryggð, sem hann batt við Póst og síma og starfsfólk Stofnunarinn- ar. Hann hafði af þessu mikla ánægju bæði að ræða við fyrri starfsfélaga svo og að fylgjast með starfsemi stofnunarinnar frá degi til dags. Við, sem þekktum og störfuðum með Gunnari Schram minnumst ánægjulegra samverustunda. Góð- ur drengur og vinur er kvaddur. Blessuð sé minning hans. Að- standendum flytjum við innilegar samúðarkveðj ur. Páll V. Danielsson þegar ég fékk fregnina um andlát míns kæra föðurbróður, Gunnars, þá fór hugurinn ósjálf- rátt aftur í tímann, fyrst þegar ég var barn í föðurhúsum á Vestur- götu og von var á Gunnari og konu hans elskulegri, henni Jonnu. Það varð alltaf einhver eftirvænting á heimilinu og tilhlökkun og hátíð- arblær komst á. Síðar er ég hafði lokið skóla- námi mínu og átti að fara að vinna fyrir mér, var ákveðið að ég skyldi eiga nokkurt frí, þá var hringt til Akureyrar og spurt hvort ég mætti vera hjá þeim hjónum í nokkrar vikur, sem strax var auðsótt, eins og við var að búast af þessum sérlega gestrisnu og góðu hjónum. Á þessum tíma kynntist ég Gunnari frænda mínum á annan hátt en sem barn í heima- húsum. Þau kynni eru mér ógleymanleg. Ég var stolt af frænda mínum, sem hinum virta og virðulega borgara Akureyrar og svo þótti mér svo vænt um hvað hann gaf sér mikinn tíma til að tala við mig, unglinginn, um áhugamál mín t.d. hvernig ég hefði nú eytt deginum. Þessi eiginleiki Gunnars að hafa áhuga á ungu fólki í námi og starfi hélst fram á síðasta dag. Aldrei hitti ég hann án þess að hann spyrði hvað væri að frétta af börnum mínum og sagði hann þá fréttir af sinni fjölskyldu og öðr- , um ættingjum. Minnti hann mig á afa minn, Ellert föður hans, sem hafði ætíð vakandi áhuga á fjöl- skyldunni — og báðir sérstaklega á börnunum og unglingunum. Hittumst við Gunnar oft, tvisvar til þrisvar í viku á heimili foreldra minna, sem nú sakna návistar bróður og mágs. Gunnar auðgaði sannarlega um- hverfi sitt með kærleika og mannkostum. Reisn hans og glæsileiki settu svip á umhverfið þar sem hann var. Við hjónin, börnin okkar og foreldrar mínir kveðjum Gunnar og þökkum honum fyrir allt. Minningarnar lifa og gleymast ekki. Jónina Vigdís Schram Um kvöldmatarleytið birtist hann í dyrunum. Snyrtilega klæddur veifar hann hatti og staf, klappar saman lófum, heilsar öll- um og spyr frétta. En séu fréttirn- ar byrjaðar leggur hann hlustir við heimsmálunum. Yfirleitt er hann léttur í bragði, en ákveðinn í skoðunum, snýr stundum útúr orði og er ávallt tilbúinn með sögu, þó e.t.v. hafi hún áður heyrst. Eftir matinn reykir hann sígarettu og svo keyri ég hann kannski heim. I Vesturbæinn, þar sem sólin sest. Á leiðinni rifjar hann upp liðinn tíma. Afmælisdagur á Halanum, fríspark fyrir KR, Einar Ben. -á Melunum, göngutúr að Geysi, þjóðhátíð í Kristjaníu, herbergi við Hálmtorg. En þegar sólin kemur undan húsgafli og skín framan í okkur inn Skúlagötu, set ég skyggnið niður, en hann segir hlæjandi sem fyrr: „Sko, alltaf sól í Vesturbænum." Stuttu síðar stendur hann á tröppunum, sem hann sópaði strákur og mokar núorðið ef snjóar. Hann veifar og ég keyri heim með sólina í speglin- um og eplapoka í framsætinu. Aftur kemur hann í kvöldmat, aftur keyri ég hann heim, aftur veifar hann á tröppunum, og alltaf er sólin í Vesturbænum. En leið hennar þangað lengist, því úthverfin byggjast í austur. Dagurinn styttist og dæmið snýst við. Um kvöldmatarleytið birtumst við á stofu 721. Hann lítur upp úr blaði, en gleymir ekki að veifa, spyrja frétta og glettast inn á milli. Allt er eins, þó við aðrar aðstæður sé. Honum virðist líða vel, fylgist með og kvartar lítið. E.t.v. vakinn heldur snemma. Út um stofugaflinn sjást ljósin við Fossvog og suður á nes. Morgun- inn eftir vaknar hann ekki. „Afi þinn er dáinn.“ I dag sest sólin fyrir austan læk, hún nær ekki lengur vestur í bæ. Á tröppurnar er komið svell. \ Kveðjur — Hallgrímur GOLFDUKA-OG TEPPALÍM Laybond 1371 Viö tilraunir okkar til framleiöslu á alhliða gólfdúka- og teppalími höfum viö haft sam- vinnu viö framleiðendur gólfdúka- og teppa. Árangurinn er Laybond 1371, sem hefurþegar getið sér gott orð og staðist þær kröfur sem gerðar eru i dag. . 1371 'dhesi'1’ Olíufélagið Skeljungur hf Verslunin Suðurlandsbraut 4, Simi 38100 og 38125. Birgðastöð við Skerjafjörð, Simi 11425.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.