Morgunblaðið - 23.09.1982, Blaðsíða 25
24
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 1982
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 1982
25
pínruiu Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson.
Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson.
Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö-
alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift-
argjald 130 kr. á mánuöi innanlands. i lausasölu 10 kr. eintakið.
Kristján Eldjárn
Hluttekninjíin sem þjóðin öll sýndi þegar fréttin barst um
andlát Kristjáns Eldjárns, fyrrum forseta íslands, staðfesti
það sem hann ávann sér í lifanda lífi: að vera ástsæll þjóðhöfðingi.
Hann sinnti fornleifafræðum af mikilli kunnáttu og áhuga, var
afkastamikill rithöfundur í fræðigrein sinni og skáld gott. Krist-
ján Eldjárn var með stuttum aðdraganda kjörinn til æðsta emb-
ættis þjóðarinnar. Hugur hans sjálfs stóð til annars. Hann sóttist
hvorki eftir völdum né frama, heldur varð við óskum annarra
þegar til hans var leitað. Kristján Eldjárn lét og af störfum
forseta til að helga sig fjölskyldu sinni og hugðarefnum óbundinn
af opinberum skyldustörfum áður en elli eða sjúkdómar sviptu
hann lífsþrótti. En enginn má sköpum renna. Nú er Kristján
Eldjárn allur, langt um aldur fram.
Kristján Eldjárn var kjörinn forseti íslands á umbrota- og
erfiðleikatímum. Vorið 1968 var einkennilegt ástand í lýðræðis-
ríkjum Norðurálfu, innviðir Frakklands skulfu, háskólastúdentar
settu fram gagnrýn sjónarmið um stjórn eigin þjóðfélaga. Menn
vildu ekki sætta sig við óbreytt ástand og kröfðust endurmats á
mörgu því sem áður þótti sjálfsagt og eðlilegt. Glæsilegur meiri-
hluti Kristjáns Eldjárns í forsetakosningunum hefur af ýmsum
verið skýrður með vísan til þessa ástands. Sú skýring er ekki
einhlít. Kristján Eldjárn var síður en svo byltingamaður. Hann
stóð föstum fótum í fortíðinni og sótti afl sitt í íslenska sögu og
menningu. Var á sinn hátt dæmigerður oddviti þeirrar kynslóðar á
þessari öld sem sameinar fortíð og nútíð, tengir tæknivætt velferð-
arþjóðfélag nútímans við fábreytta erfiðistíma fyrri alda. Honum
var einstaklega vel lagið að nota áhrifamesta miðil samtímans til
að kynna rótgróna bændamenningu og fornan arf. Fyrir tilstilli
sjónvarpsins hreif hann sem þjóðminjavörður hug og hjörtu
landsmanna, af honum stafaði í senn vinsemd og virðuleiki. Eðlis-
kostir sem auðvelduðu honum að takast á við gjörbreytt við-
fangsefni á forsetastóli.
Þegar Kristján Eldjárn varð forseti hafði ríkt óvenjuleg festa í
íslenskum stjórnmálum síðan viðreisnarstjórnin var mynduð 1959.
Sumarið 1970 urðu þáttaskil við fráfall Bjarna Benediktssonar,
forsætisráðherra, í hinum sviplega eldsvoða á Þingvöllum. 1971
náðu vinstri flokkarnir því langþráða marki að loknum kosningum
að geta myndað ríkisstjórn án samvinnu við Sjálfstæðisflokk og
Alþýðuflokk, viðreisnarflokkanna. Þar með hófst rótleysisskeið í
stjórnmálalífinu sem varir enn. Á forsetaferli Kristjáns Eldjárns
sátu 35 menn í ríkisstjórn og þar af voru 6 forsætisráðherrar, frá
1971 sat aðeins ein ríkisstjórn allt kjörtímabilið, ríkisstjórn Geirs
Hallgrímssonar, 1974—’78. Við stjórnarmyndanir reyndi mikið á
Kristján Eldjárn, ekki síst sumarið 1978, haustið 1979 og um
áramótin 1979/80. Hann fylgdi þeirri meginreglu að gera hvorki
upp á milli flokka né manna, auk þess sem hann lagði á það
höfuðkapp að myndaðar væru ríkisstjórnir er nytu stuðnings
meirihluta á Alþingi. Hlutleysi, hógværð og virðing fyrir
þingræðisreglunni réðu gjörðum hans á þessum úrslitastundum.
Er unnt að krefjast annars af þeim manni sem skipar embætti
forseta íslands?
Sjálfur vék Kristján Eldjárn að því, er hann kvaddi alþingismenn
vorið 1980, að menn ræddu hversu til hefði tekist um aðdraganda
og framvindu þeirra tiltölulega mörgu stjórnarmyndunarvið-
ræðna, sem orðið hefðu í hans tíð og sagði síðan: „Vafasöm hátt-
vísi væri það af minni hálfu að fara mörgum orðum um slíkt. Vel
fer á að forseti sé opinskátt þakklátur fyrir viðurkenningarorð, ef
eitthvað þykir hafa vel tekist, en hins vegar hafi hann sem fæst
orð um ef á kreik kemst einhver slæðingur sem til gagnrýni mætti
meta.“ Og síðar í þingslitaræðunni bætti hann við: „Eg er forsjón-
inni þakklátur fyrir að geta skilist við embætti forseta íslands í
friði við samvisku míns sjálfs.“
Kristján Eldjárn treysti tiltrú þjóðarinnar til forsetaembættis-
ins. Störf þeirra Kristjáns og Halldóru Eldjárns nutu virðingar
þjóðarinnar. Þau féllu ekki í þá freistni að láta stjórnast af siða-
reglunum sem svo háum embættum fylgja, höfðinglegt látleysi
einkenndi 12 ára dvöl þeirra á Bessastöðum og fylgdi þeim á
ferðum jafnt innan lands sem utan. Einlægni Kristjáns Eldjárns
og hlýja braut af sér allar formlegar viðjar, hann var sannur
þjóðhöfðingi. Á stórum stundum í þjóðlífinu jafnt í sorg og gleði
lét Kristján Eldjárn til sín taka með sæmd. Þannig er hans minnst
á hinstu stundu. Morgunblaðið flytur fjölskyldu hins látna forseta
samúðarkveðju. Blessuð sé minning hans.
Frá opinberri
heimsókn Karls Gúsíafs
Svíakonungs
hingað til lands.
gengið þreyttur til hvílu eftir langan og
strangan vinnudag, þar sem þurfti að
sinna embættisskyldum dagsins, undirbúa
verkefni morgundagsins og þar á ofan
finna smástundir inn á milli fyrir hugðar-
efnin. Margir glöddust því er hann ákvað
að taka sér hvíld frá opinberum störfum er
þriðja kjörtímabil hans sem forseti rann
út. Nú vonuðum við, að hann gæti átt i
vændum nokkur góð ár, unnið áhyggju-
laust að því að ganga frá og koma á prent
ýmsum þeim merku rannsóknum, sem
hann hafði verið að vinna að og átti hálf-
karaðar. Má þar nefna Skálholtsrannsókn-
irnar, rannsóknirnar í Papey, bókina um
Arngrím málara og fjöldamargt annað,
sem tíminn hafði ekki leyft að lokið yrði.
Þá bauðst honum persónuleg prófessors-
staða við Háskólann, sem heimilaði honum
að halda fyrirlestra um menningarsögu.
Til þess hugsuðu margir gott, því að
Kristján var snjall kennari og mikill fræð-
ari, og sjálfur mun hann hafa hugsað sér
að sinna þessu verkefni nokkuð eftir því
sem tíminn gæfist. Hann vildi losa sig sem
mest við önnur verkefni en hin fræðilegu,
þannig svipaðist hann um eftir nýjum rit-
stjóra Árbókar fornleifafélagsins, sem
gæti tekið þann launþunga bagga af sér.
Heimilið, sem þau Halldóra höfðu búið
sér á Sóleyjargötunni, var fallegt, smekk-
legt og nú ríkti ró yfir tindum. Þar var
gott og friðsælt fræðaafdrep, hið mikla og
góða bókasafn var við höndina og stutt að
fara upp í Þjóðminjasafn eða hin söfnin til
að kanna aðrar bækur og heimildir.
En skyndilega var ævi Kristjáns öll. Is-
lenzkir safnmenn misstu í þeirri skjótu
svipan ekki aðeins einstæðan samstarfs-
mann heldur og góðan vin, hver og einn.
Þjóðminjasafn íslands sér á bak einum
sinna beztu forvígismanna alla tíð, þeim
manni, sem ég veit að hvað lengst verði
minnzt hér á safninu þá stundir líða fram.
íslenzka þjóðin missti einn sinn bezta son,
sem ævinlega kom fram af virðingu, festu
og drengskap og var fyrirmynd að mann-
legum eiginleikum. En mestur er þó harm-
ur hinna nánustu skyldmenna, Halldóru
konu hans og barna þeirra, og margur hef-
ur hugsað til dótturinnar, Ólafar, sem fór
með föður sínum vestur um haf og var hjá
honum er yfir lauk.
Daginn eftir að lát Kristjáns spurðist
var komið til mín með gamla rúmfjöl með
versi, „tréskáldskap", eins og Kristján
kallaði stundum slíkar útskurðarvísur,
sem frekar voru ortar af vilja en mætti.
Má vera, að þetta vers sé þekkt annars
staðar, en mér fannst það koma eins og
kveðja frá gengnu kynslóðunum í landinu
til þess manns, sem náði kannske betur
sambandi við þær en flestir menn aðrir:
Veittu mér Drottinn vernd og ró,
vek mig í réttan tíma þó,
líkaminn sofi sæll sem hér,
sálin í náðum vaki í þér.
Þór Magnússon
Hér skal þess minnzt, hvert lið dr.
Kristján Eldjárn lagði einum þætti ís-
lenzkra þjóðfræða: örnefnasöfnun og ör-
nefnarannsóknum.
Eftir að dr. Kristján tók við embætti
þjóðminjavarðar 1947, hélt hann áfram
því örnefnasöfnunarstarfi, sem fyrirrenn-
ari hans, Matthías Þórðarson, hafði hafið
á vegum Hins íslenzka fornleifafélags. Á
hverju sumri voru menn styrktir til að
skrá örnefni á tilteknum svæðum, og með
því starfi var lagður grundvöllur að því
íslenzka örnefnasafni, sem nú er til.
Þó að umsjón með örnefnasöfnun væri
að sjálfsögðu lítill hluti hins víða verk-
sviðs þjóðminjavarðar, gaf dr. Kristján
Eldjárn sér sjálfur tíma til að leggja hönd
á plóginn. Hann samdi og gaf út Nokkrar
leiðbeiningar um örnefnasöfnun, skráði
sjálfur örnefni í átthögum sínum í Svarf-
aðardal og víðar og endurskoðaði margar
eldri örnefnaskrár. Meðan hann gegndi
embætti forseta Islands, samdi hann m.a.
ritgerðina Örnefni og minjar í landi
Bessastaða á Álftanesi, sem birtist í Ár-
bók Hins íslenzka fornleifafélags 1981, síð-
asta árgangi Árbókarinnar, sem hann rit-
stýrði. Auk þess samdi dr. Kristján Eld-
járn nokkrar merkar ritgerðir um örnefni
og staðfræði, sem birtar voru í Árbók Hins
íslenzka fornleifafélags og fleiri ritum.
Dr. Kristján Eldjárn var formaður ör-
nefnanefndar 1959—68, en sú nefnd er
ráðgjafarnefnd stjórnvalda um örnefna-
mál, m.a. nýnefni.
Árið 1962 tók dr. Kristján Eldjárn sæti í
Alþjóðlegu nafnfræðinefndinni (ICOS) og
var kjörinn heiðursmeðlimur nefndarinn-
ar árið 1969.
Engan islenzkan fræðimann, sem ég hef
kynnzt, vissi ég hugleiða íslenzk örnefni
jafnopnum huga né skilja eðli þessa sér-
stæða þáttar íslenzks menningararfs jafn-
glöggum skilningi. Að því stuðlaði óvenju-
víðfeðm þekking hans á landi, tungu og
sögu þjóðarinnar, ekki sízt menningar-
sögu, ásamt víðsýni og hleypidómaleysi,
sem var aðalsmerki fræðimannsins dr.
Kristjáns Eldjárn.
Þórhallur Vilmundarson, forstöðumaður
Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns.
Kveðja frá Félagi
íslenskra fræða
I dag kveðjum við einn okkar virtasta og
virkasta félaga. Fyrir okkur var hann ekki
aðeins ástsæll forseti og dyggur embættis-
maður heldur miklu fremur framúrskar;
andi fræðimaður og skemmtilegur félagi. í
félagi okkar eru margar kynslóðir og
Kristján Eldjárn var þeim öllum mikils
virði hverri á sinn hátt. Þeim eldri var
hann skólafélagi og starfsbróðir, hrókur
alls fagnaðar á góðri stund, úrræðagóður
og glöggur fræðimaður sem gott var að
leita til. Hinum yngri var hann leiðarljós í
fræðimennsku og uppspretta fróðleiks og
skemmtunar hvenær sem hann tók til
máls á fundum. Það vakti í raun furðu
margra hve oft honum tókst frá önnum
embættis forseta Islands að sækja sam-
komur félagsins okkar og þegar Kristján
var mættur til leiks þá var víst að ekki
skorti hnyttnar athugasemdir og fjörugar
umræður.
Dr. Kristján Eldjárn lauk magisters-
prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla ís-
lands 1944, var einn af stofnendum Félags
íslenskra fræða árið 1946 og fulltrúi þess í
Vísindasjóði í mörg ár. Hann bar hag fé-
lagsins ávallt fyrir brjósti og sýndi það
eftirminnilega í verki á 25 ára afmæli fé-
lagsins sem félagsmönnum er í fersku
minni. Störf hans í þágu íslenskra fræða
voru umfangsmikil og hugur hans stóð til
að helga sig þeim enn meir þegar erilsöm-
um embættisstörfum var lokið.
Um leið og við kveðjum mætan félaga og
góðan dreng vottum við frú Halldóru og
öðrum aðstandendum innilega samúð
okkar. Þeirra er söknuðurinn mestur. Við
þökkum hins vegar marga góða stund á
liðnum árum.
Það var ekki laust við, að tilfinningar
safnfólksins væru nokkuð á reiki, þegar
Kristján Eldjárn var kjörinn forseti og
hvarf úr embætti þjóðminjavarðar.
Að sjálfsögðu samfögnuðum við þjóðinni
að hafa eignast höfðingja, sem við vissum
af reynslu, að vart gat betri fundist. Á
hinn bóginn þótti okkur skarð fyrir skildi
að sjá á bak yfirmanni, sem með þekkingu
sinni, árvekni, áhuga, lipurð og þægilegu
viðmóti kom öllum samstarfsmönnum sín-
um til nokkurs þroska.
Því fór fjarri, að Kristján gleymdi
okkur, þótt hann héldi hefðar upp á tind.
Honum virtist jafnvel hollt að hafa þar
ból, andstætt orðum skáldsins. Bæði vegna
vísindastarfa sinna og ritstjórnar á Árbók
fornleifaféiagsins, en ekki síst sakir sívak-
andi áhuga á málefnum Þjóðminja-
safnsins, var hann tíður aufúsugestur á
sínum gamla vinnustað. Gerði hann sér þá
jafnan far um að kynnast því, hvernig
hverjum og einum vegnaði á sínu sérsviði
og hvatti menn og örvaði á ýmsa lund. Átti
það jafnt við um nýliða sem gamalgróna
starfsmenn. Einnig tyllti hann sér oft og
drakk kaffisopann með okkur og spjallaði
um dægurmálin ellegar heilsaði upp á
gæslukonurnar til að fylgjast með hag
þeirra og líðan.
Hinn 8. september sendi hann okkur
póstkort frá sjúkrahúsinu vestra. Hann
vonaðist þá til að ná fullri heilsu og bjóst
við að hverfa heim eftir hálfan mánuð. Sex
dögum síðar var hann allur. Með söknuði
kveðjum við Kristján Eldjárn, ágætan
mann og vin. Aðstandendum hans öllum
færum við innilegar samúðarkveðiur.
Starfsfólk Þjóöminjasafns Islands
Árið 1948 gekk Kristján Eldjárn, sem þá
var nýorðinn þjóðminjavörður, í það af
sínum alkunna dugnaði að endurvekja
Árbók hins íslenzka fornleifafélags, sem
þá hafði ekki komið út síðan 1942. Verð-
bólga stríðsáranna og hvers kyns erfiðleik-
ar, sem af henni spruttu, höfðu valdið því,
að menn gáfust upp á útgáfu Árbókar.
Kristján sá, að ekki mætti við annað una
en að Árbókin kæmi út á ný, minjafræðin
yrði að eiga sér málgagn, ef safnstörf og
rannsóknir ættu að bera einhvern árangur
og þeir, sem að menningarsögulegum
rannsóknum ynnu, þyrftu vettvang fyrir
ritsmíðar sínar á því sérsviði.
Árið 1949 kom svo Árbók út að nýju
fyrir sex ára tímabil. Var Kristján þá rit-
stjóri hennar og var það alla tíð síðan.
Skrifaði hann sjálfur mest í ritið upp frá
þessu, birti þar rannsóknarskýrslur sínar,
greinar um athuganir á forngripum og
minjum, fróðleiksgreinar af ýmsu tagi svo
og skrár og skýrslur. Hvatti hann aðra til
að skrifa í Árbók og varð mjög vel ágengt
um greinar til hennar. Varð hún skjótt
undir ritstjórn hans merkilegt rit, sem átti
erindi til innlendra og erlendra fræði-
manna, en þó ekki sízt til almennings hér á
landi, enda var Kristjáni sjálfum létt um
að skrifa þannig, að ljóst væri lærðum og
leikum.
Kristján Eldjárn var skrifari fornleifa-
félagsins frá 1945 og allt til þess að hann
var kjörinn formaður þess árið 1979. Má
segja, að á honum hvíldi tilvera félagsins
og útgáfa Árbókar, en einnig flutti hann
oft erindi á aðalfundum félagsins um
rannsóknir sínar og athuganir.
Að leiðarlokum vill stjórn Hins íslenzka
fornleifafélags færa dr. Kristjáni Eldjárn
þakkir fyrir störf hans í þágu félagsins og
Árbókar þess. Hann hóf merkið á loft er
aðrir höfðu gengið frá, ótrauður að leggja
á sig erfiðleika og fyrirhöfn, sem engin
laun komu þó fyrir nema þau, sem fræði-
manninum verða þó oft drýgst, ánægjan
yfir vel unnu verki og vitundin um að hafa
orðið íslenzkum fræðum að liði.
Stjórn Hins íslenzka fornleifafélags.
AF ERLENDUM VETTVANGI
eftir SVEIN SIGURÐSSON
Þáttaskil í vestur-þýskum stjórnmálum:
Frjálsir demókratar
veðja á nýjan hest
Mikil umskipti eru að verða í vestur-þýskum stjórnmálum. Stjórnars-
amstarfi jafnaðarmanna og frjálsra demókrata, sem staðið hefur í 13 ár,
er lokið og eins og nú horfir er allt útlit fyrir að kristilegir demókratar og
frjálsir demókratar nái höndum saman um myndun nýrrar stjórnar. Þessi
tíðindi koma að vísu ekki alveg á óvart. f heilt ár hefur verið mikill
ágrciningur innan stjórnarinnar og auk þess hefur Helmut Nchmidt
kanslari átt fullt í fangi með að hafa hemil á óánægju og sundurlyndi
innan síns eigin flokks. Það var þó í kjölfar róttækra niðurskurðartil-
lagna frá Otto Lambsdorff, efnahagsmálaráðherra stjórnarinnar úr flokki
frjálsra demókrata, sem stjórnin sprakk enda mun það einmitt hafa verið
tilgangurinn með þeim.
Ikosningum í október 1980
unnu stjórnarflokkarnir góð-
an sigur og höfðu að þeim lokn-
um 45 sæta meirihluta á þingi.
Schmidt gerði það strax lýðum
ljóst, að hann vonaðist til, að
aukin áhrif frjálsra demókrata í
stjórninni gætu orðið mótvægi
við ókyrrð vinstrisinna í hans
eigin flokki, Jafnaðarmanna-
flokknum, en í því efni reyndist
hann ekki sannspár.
Ókyrrðin innan flokks kansl-
arans fór stöðugt vaxandi og
einkum andstaðan við eindreg-
inn stuðning hans við Nato,
markaðshyggjuna og, síðast en
ekki síst, þá stefnu kanslarans
og flokksins að fylgja eftir
ákvörðun Nato um að koma fyrir
nýjum bandarískum flugskeyt-
um í Vestur-Evrópu árið 1983
sem andsvar við SS-20-flug-
skeytum Sovétmanna.
Friðarhreyfingin vestur-
þýska, sem aðallega hefur beint
spjótum sínum að bandarísku
flugskeytunum, hefur einnig
valdið mikilli sundrungu meðal
jafnaðarmanna. í apríl sl. hótaði
Schmidt því t.d. að segja af sér
ef flokkurinn hætti stuðningi
sínum við ákvarðanir Nato en þá
var komist að þeirri málamiðlun
að bíða með endanlegar sam-
þykktir þar til ljóst væri hvernig
afvopnunarviðræðum Banda-
ríkjamanna og Rússa í Genf
reiddi af.
Þessi ágreiningur innan Jafn-
aðarmannaflokksins hefur dreg-
ið mjög úr tiltrú Þjóðverja á
flokknum og ríkisstjórninni en
fall stjórnarinnar nú verður þó
ekki rakið beint til hans. Þar er
fyrst og fremst um að kenna
samdrættinum í efnahagslífinu,
sem hefur skerpt mjög hug-
myndafræðilegar andstæður
milli samstarfsflokkanna.
Þegar Willy Brandt, fyrrum
kanslari, og Walter Scheel, þá-
verandi leiðtogi frjálsra demó-
krata, héldu um stjórnartaum-
ana snemma á síðasta áratug,
bar ekki mikið á sögulegum
skoðanamun milli flokkanna. Þá
nutu Vestur-Þjóðverjar ennþá
ávaxtanna af „efnahagsundrinu"
frá sjötta áratugnum og nægt fé
var til í ríkiskassanum til að
fjármagna aukna velferð og
áætla fyrirtækjunum nokkurn
arð líka. Þegar Bandaríkjamenn
neyddust til að draga úr fram-
lögum sínum til hermála, þá
juku Vestur-Þjóðverjar sín og
þeir öxluðu einnig þyngstu byrð-
arnar af útgjöldum Þeir komu
fram með „austurstefnuna", um
bætt samskipti austurs og vest-
urs, og ruddu brautina fyrir
fulla þátttöku Vestur-Þjóðverja
í Sameinuðu þjóðunum.
Helmut Schmidt tók við af
Brandt 1974, í miðri olíukrepp-
unni, og þótt hún tæki sinn toll
af auðlegðinni tókst Schmidt að
stýra hjá stærstu skerjunum
með bættum samskiptum við
Arabaþjóðirnar og með því að
renna fleiri stoðum undir
orkuöflunina. Sú kreppa, sem nú
herjar, er hins vegar miklu al-
varlegri. Tölur, sem birtar voru í
sl. viku, sýna, að í Vestur-
Þýskalandi hefur enginn hag-
vöxtur verið síðan á síðari helm-
ingi ársins 1980.
Á síðasta ári jókst atvinnu-
leysið í Vestur-Þýskalandi um
Helmut Schmidt kanslari Vestur-
Þýskalands síðustu átta ár.
49% er nú 7,5% eða 1,8 milljónir
manna. Þetta er að vísu minna
en í Bretlandi en Þjóðverjar,
sem enn minnast verðbólgunnar
á dögum Weimar-lýðveldisins og
erfiðleika eftirstríðsáranna, líta
þróunina mjög alvarlegum aug-
um.
Af þessum sökum hefur sam-
búðin milli stjórnarflokkanna
gerst æ erfiðari og í fyrra sló í
mikla brýnu með þeim út af fjár-
lagagerðinni fyrir þetta ár.
Frjálsir demókratar hafa líka
þurft að hafa áhyggjur af fleiru
en efnahagsmálunum. í kosning-
unum 1980 nutu þeir vinsælda
kanslarans og fengu 10,6% at-
kvæða en samkvæmt síðustu
skoðanakönnunum eru þeir nú
alveg við 5%-markið, sem þarf
til að fá fulltrúa á þing. Kristi-
legir demókratar og bræðra-
flokkur þeirra í Bæjaralandi
eiga hins vegar vaxandi vinsæld-
um að fagna og það er á þessari
hægrisveiflu, sem frjálsir demó-
kratar vilja halda sér á floti í
næstu kosningum.
I síðustu viku lagði Otto
Lambsdorff, efnahagsmálaráð-
herra, fram tillögur frjálsra
demókrata til lausnar efna-
hagsvandanum þar sem kveðið
var á um verulegan niðurskurð á
útgjöldum til félagsmála. Á þær
tillögur gátu jafnaðarmenn ekki
fallist og Schmidt sá að frekari
tilraunir til málamiðlunar voru
til einskis. Stjórnarsamstarfinu
var lokið og ráðherrar Frjálsa
demókrataflokksins sögðu sig úr
stjórninni sl. föstudag.
Frjálsir demókratar hafa nú
tekið höndum saman við stjórn-
arandstöðu um myndun nýrrar
stjórnar og stefna að kosningum
á vori komanda. Fátt virðist geta
komið í veg fyrir að Kristilegi
demókrataflokkurinn og flokkur
Strauss, Kristilega sósíalsam-
bandið, myndi nýja stjórn að
þeim loknum, jafnvel einir sér
Helmut Kohl kanslaraefni kristi-
legra demókrata.
en allavega með stuðning hins
nýja bandamanns þeirra,
frjálsra demókrata.
Almennt er búist við veru-
legum breytingum á stjórnar-
stefnunni í kjölfar stjórnar-
skiptanna, jafnt i utanríkismál-
um sem innanríkismálum.
Stuðningur stjórnarinnar við
Nato og Bandaríkin mun aukast
en margir óttast, að afstaða
Helmut Kohl, kanslaraefnis
kristilegra demókrata, muni
ekki verða sú hreinskilna gagn-
rýni, sem Helmut Schmidt hefur
getið sér orð fyrir. í annan stað
verða útgjöld til félagsmála
skorin niður. Um þetta ber flest-
um saman en hitt er líka Ijóst,
að í glímunni við raunveruleg
vandamál eru úrræðin hver öðr-
um lík hvað sem hugsjónunum
líður.
(Heimildir: AP,
Time, Newsweek.)