Morgunblaðið - 22.07.1990, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 22.07.1990, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. JÚLÍ C 11 Bettína Alberts er gagnmenntuð í nokkrum tungu- málum og kann að hraðrita þau. Hún starfar við fyrir- tæki í Fellbach, sem er í nágrenni við Stuttgart í Þýskalandi. Fyrir- tækið framleiðir margskonar vara- hluti og annað sem tengist bilum. Bettína starfar í útflutningsdeild fyritækisins. Starf hennar felst í samskiptum við viðskiptavini fyr- irtækisins í hinum ýmsu löndum og þarf hún starfs síns vegna að ferðast mikið og oft fyrirvaralítið. „Þegar ég hóf störf var mér stund- um sagt að fara af stað síðari hluta dags í ferðalag til annarra landa. Ég útskýrði fyrir vinnuveit- endum mínum að ég þyrfti að fá fyrirmæli um slík ferðalög með svolitlum fyrirvara svo mér gæfist tími til að biðja einhvern fyrir hestana mína tvo. Vinnuveitendur mínir sýna mér þessa tillitssemi í dag,“ segir Bettína. Hún á tvo íslenska hesta. Sá yngri er 13 ára og þann hest notar hún að stað- aldri. Dýralæknir hefur ráðið henni frá að nota hinn hestinn, sem hún hefur átt mun lengur. Sá hestur er orðinn rösklega tví- tugur og er fjarskalega heilsulítill. Hann þjáist af astma og er stund- um kaunum sleginn vegna sólar- exems. Bettína segir hann lítið geta hlaupið vegna mæði. Hann var upphaflega seldur til Þýska- lands frá Hafnarfirði. „Hann er góður hestur og mér þykir mjög vænt um hann. En hann er oft skelfing óhamingjusamur,“ segir hún. „Mér finnst að það eigi ekki að flytja uppkomna hesta til út- landa. Þeir verða svo óhamingju- samir og eiga svo bágt með að þola hitann og aðstæðumar í nýja landinu og verða oft veikir.' Eg kom til Islands til þess að sjá umhverfið þar sem þessir vinir mínir fæddust og ólust upp. Ég var að koma frá sex mánaða starfi á Manhattan í New York og það voru mikil umskipti að koma hingað. Ég vann þá hjá fyr- irtæki sem framleiðir litlar plastf- ígúrur og hafði unnið afar mikið þar vestra. Ég átti þess kost að stansa hér í tíu daga á leið minni til Þýskalands og ég notfærði mér það. Ég bað íslenskan viðskiptavin fyrirtækisins sem ég vann hjá að benda mér á stað þar sem ég gæti séð íslenska hesta í sínu eig- inlega umhverfi og hann benti mér á Brattholt í Biskupstungum. Ég var þar í tíu daga og kom svo aftur í fyrra og var aðra tíu daga. í sumar hef ég hins vegar unnið hér allt sumarleyfi mitt og gert það sem til fellur á bænum. Þar er ferðaþjónusta og því mikið um að vera á sumrin. Húsráðendur í Brattholti, Njörður Jónsson og Lára Ágústsdóttir, eru einnig með hestaleigu og ég hef farið margar ferðirnar hér um nágrennið sem fýlgdarmanneskja þeirra sem leigja sér hesta hér.“ Bettína segir að hestamir hér hafi „hamingjusamara andlit“, en hestarnir í Þýskalandi. „Ég hef mikla samúð með íslenskum hest- um sem seldir hafa verið upp- komnir til útlanda. Þeir eru bijóst- umkennanlegir útlagar. Þó ég vildi leyfa hestunum mínum að koma aftur heim til íslands þá er það ekki hægt. Mér skilst að reglur banni að þeir fái að koma aftur inn í landið. Hestar sem seldir eru frá íslandi til útlanda eru því dæmdir til ævilangrar útlegðar. Og það er engu líkara en þeir líti á sig sem útlaga, í það minnsta virðast þeir oft óskaplega óham- ingjusamir. í Þýskalandi eru hest- ar lokaðir mun meira inni en ger- ist hér, þar sem þeir fá oftast að vera úti nema þegar mjög illa viðr- ar. Hins vegar eru flestallir þeir hestar, sem eru af íslenskum ætt- um en fæddir í Þýskalandi, við bestu heilsu og una hlutskipti sínu vel.“ íslenskir hestar eru eftirsóttir í Þýskalandi og því mjög dýrir að sögn Bettínu. Fyrir venjulegan ís- lenskan hest borga menn í Þýska- landi röskar þijú hundruð þúsund íslenskar krónur. Auk þess er dýrt að hafa þar hesta í húsi og á fóðr- um. Bettína segist hafa haft áhuga fýrir hestum svo lengi sem hún man eftir sér. „Mamma segir að ég líkist afa mínum sem átti bú- garð og hafði mörg hross. Mamma vandist snemma hestamennsku og skilur mig því vel. Pabbi og systk- ini mín þijú eru hins vegar ekki áhugasöm um hesta,“ segir Bett- ína. „Búgarðuriiín sem afi minn átti var á svæði sem nú tilheyrir Póllandi og fjölskylda móður minnar varð að flýja þaðan undan Rússum árið 1944.“ Kærastanum ofbauð áhuginn á hestamennskunni Bettína er fædd fyrir 30 árum í Ravensburg í Suður-Þýskalandi nálægt Sviss og þar ólst hún upp. Sem barn las hún bókina um Nonna og Manna og það hafði mikil áhrif á hana þegar Nonni segir í bókinni: „Ég fór út og náði mér í hest.“ Og svo gekk hann út og sótti sér hest. „Þetta var algerlega óhugsandi fyrir barn að gera í Þýskalandi. Þessi bók hafði mikil áhrif á mig. Fyrir þau áhrif keypti ég mér íslenskan hest strax og ég hafði lokið námi í háskóla. Með tilliti til hestamennskunnar lagði ég leið mína að námi loknu til Stuttgart þar sem atvinnumöguleikar voru betri en á heimaslóðum mínum og betri aðstæður til þess að hafa hesta. Ég hef frá barnsaldri elskað hesta og þá tilfinningu á sumt fólk erfitt með að skilja. Ég bjó um tíma með manni frá Suður-Ameríku. Hann var arkitekt og málaði myndir í frístundum sínum. Honum ofbauð áhugi minn á hestamennsku. Á þeim tíma átti ég ekki hesta sjálf og varð að leigja mér hesta og það kostaði mikla peninga því ég fór oft á hestbak. Fyrir orð kærastans hætti ég um tíma í hestamennskunni. En ég gat ekki hætt til lengdar. Ég leið fyrir það. Endirinn varð sá að ég og kærastinn minn slitum samvistum. Sambúðarfólk verður að geta liðið áhugamál hvors annars. Skömmu síðar keypti ég mér íslenskan hest. Ég hef góð laun og get leyft mér að hafa hesta með því að hirða þá sjálf,“ segir hún. „Ég er í félagi við þijá aðra hestaeigendur um hesthús og við hjálpumst oft að við að hirða hestana. Við förum líka saman í útreiðartúra. í Þýskalandi eru hestarnir sjaldnast látnir hlaupa mikið. Við ríðum langar vegalengdir en förum hægt yfir. Vinir mínir sjá um hestana mína meðan ég er á íslandi. Því er ekki að neita að mörgum heima finnst ég í meira lagi skrítin að eyða sumarfríinu mínu í að vinna í sveit á íslandi. Þeir álíta að það hljóti að vera mjög nöturlega tilvera hér. Mikill kuldi og varla stingandi strá. Þegar ég fór á Landsmót hestamanna. á Vindheimamelum fyrir skömmu fann ég ýmis blóm sem eru til í Þýskalandi, þau eru bara stærri þar. Ég tók þessi blóm og er að þurrka þau. Ég ætla að sýna þau fólki úti til þess að sannfæra það um að á íslandi vaxi líka blóm. Ég veit að það á bágt með að trúa mér þegar ég segi því að hér hafi næstum verið miðjarðar- hafsloftslag þann tíma sem ég var hér.“ Meðan á þessu samtali stóð höfðum við Bettína riðið yfír heiði í átt að Gullfossi. Henni verður tíðrætt um þá dæmalausu gæfu íslendinga að eiga sér svo víð- áttumikið og fagurt land og segir mér dapurlegar sögur um þrengslin í stórborgum Þýskalands og víðar þar sem hún hefur verið. Eg hlusta og reyni að leggja á minnið. En þegar við fjarlægjumst um tíma nota ég tækifærið til þess að freista þess að koma upplýsingunum inná lítið segulband sem ég gríp uppúr vasa mínum til þess að tala inná. En þetta tiltæki kemur Urriða, hestinum sem ég sit, í opna skjöldu. Þegar hann heyrir smellina í tækinu tekur hann á rás og hleypur með mig á eldingarhraða um grónar valllendisgrundir. Ég hafði áður setið þennan hest og gengið það vel. Ég hafði dáðst að vilja hans og þýðum gangi og gjarnan viljað fá hann léðan aftur. En ég vissi hins vegar ekki að hestur þessi hafði unnið mörg verðlaun á kappleikjum en er afar viðkvæmur fyrir öllum óvæntum hljóðum. Þegar hann þenur sig um grund- irnar verður mér þó ljóst að þetta er ekki neinn venjulegur klár. Eftir glæsilegan endasprett lætur hann þó til leiðast að nema staðar og bíða samfylgdarmannanna sem undir forystu Bettinu höfðu gætt iess að fylgja okkur ekki eftir á hestum sínum. Við Urriði erum bæði nokkuð þrekuð eftir hlaupin svo við förum okkur hægt þar til við æjum á heiðarbrún í nánd við Gullfoss. Þar ræðum við Bettína horfurnar í Þýskalandi. Hún segir mér áhyggjur sínar vegna sam- einingar þýsku ríkjanna. „Þeir fyrir austan halda að þeir geti gripið gull uppúr götu sinni fyrir vestan. En það er alger misskilningur. I Vestur-Þýskalandi hefur fólk haft góð laun en það hefur líka þurft að vinna mikið. Við vinnum 8 til 10 tíma á dag og tökum varla matarhlé. Það eru gerðar miklar kröfur til starfsfólks í Þýskalandi. Þessu hefur verið öðruvísi farið í Austur-Þýskalandi. Ég óttast að sameining þýsku ríkjanna hafí í för með sér hækkun á sköttum þó yfírvöld láti annað í veðri vaka nú. Einnig óttast ég að þýska markið falli verulega í verði. En vissulega verður sameinað Þýskaland sterkt ríki og það er mikið gefandi fyrir að sú sameining er orðin að veruleika. í öðrum Evrópuríkjum horfa menn með nokkurri tortryggni á sameinað Þýskaland en ég held að sú tortryggni sé algerlega óþörf.“ Þegar við höldum af stað aftur býður Bettína mér hestaskipti og ég þigg það. Ég fæ Mósa, sem er góður og þýður hestur, en ekki nærri því eins viljugur og Urriði. En Bettína situr Urriða og heldur þétt við hann og veitir ekki af því nú erum við á heimleið og hann hefur mikinn hug á að hlaupa. Hún segir mér að Urriði sé óvenjulegur hestur á hestaleigu. „Hann á ennþá til þann vilja og sjálfstæða hugsun sem er aðalsmerki góðs hests. Hinir hestarnir eru af öðru tagi. Þeir eru hlýðnir og þægilegir en búnir að glata hinni fælnu tign sem einkennir gæðinginn, hafí þeir einhvern tímann átt hana.“ Hún segir mér á leiðinni að hún hafí notið þess mjög að vinna þessar vikur í Brattholti. Þar hefur hún gengið til allra verka og Lára húsmóðir hennar gefur henni þann vitnisburð að hún sé mjög laghent og ósérhlífín til vinnu. En mesta unun hefur Bettína þó haft af að sinna hestunum og fara í útreiðar- túra með ferðafólk sem leigt hefur hesta í Brattholti. „Mér hefur fundist mjög gaman að þessum ferðum. Én þær hafa þó ekki verið eintóm ánægja," segir Bettína. „Stundum kemur fólk sem kann ekki að sitja hest og vill ekki læra það. Sumt fólk hefur enga tilfínningu fyrir hestinum sem það situr. Getur jafnvel ekki skilið að hestar eru lifandi og finna til. Stundum hefur mig mest af öllu langað til að taka slíkt fólk af hestunum og skipa því að ganga.“ Við nálgumst nú Brattholt og ég dáist að því í huganum hve vel Bettínu ferst að halda aftur _af mínum óstýriláta vini, Urriða. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að viss líkindi séu þar með knapa og hesti. Bæði eru þau fremur smávaxin en þrótturinn og viljinn lýsir af þeim. Mynd þeirra fellur inn í sumarljósa náttúruna og fylgir mér þegar ég ek úr hlaði í Brattholti eftir að hafa kvatt þar heimafólk og þýsku stúlkuna Bettínu Alberts, sem gefíð hefur íslandi þann hluta sálu sinnar sem ann frelsinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.