Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1990, Síða 38
42
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Pearsons (1986) verði sumar greiningar, sem áður voru taldar sýna
aldursgreiningu fyrir hefðbundið landnám, nærri lagi.23 Við aldurs-
greiningu á árhringum með þekktan aldur, úr mjög gömlum trjám í
Kaliforníu og t.d. á eikartrjám á írlandi hefur komið í ljós að magn
geislakols hefur verið mjög breytilegt á mismunandi tímum. Með því
að bera saman aldur árhringa og nákvæmra kolefnisaldursgrcininga
mismunandi rannsóknarstofa á þeim hefur verið búin til leiðréttingar-
kúrfa fyrir kolefnisaldursgreiningar (mynd 1).
VI. Hár kolefnisaldur og fornleifafrceðingar
Umræðan um hugsanlega fyrirvara á notkun íslenskra kolefnisaldurs-
greininga hefur auðsjáanlega haft áhrif á þá meðferð sem niðurstöður
slíkra greininga, tengdar íslenskum fornleifarannsóknum, hafa hlotið.
Margar kolefnisaldursgreiningar hafa verið gerðar á sýnum frá rann-
sóknum í Reykjavík og í Herjólfsdal á Heimaey. Þessar fornleifarann-
sóknir eru notaðar hér til að sýna hvernig tveir fornleifafræðingar tók-
ust á við vandamálið.
Else Nordahl sem stjórnaði fornleifarannsóknum í Reykjavík á átt-
unda áratugnum, kaus að birta einvörðungu beinar mælinganiðurstöð-
ur, eða kolefnisaldur (BP aldur/ 14C ár), í bók sinni um rannsóknirnar.24
Sýni frá þessari rannsókn voru öll greind á kolefnisaldursgreiningarstof-
unni við háskólann í Uppsölum. Leiðréttur aldur á kolefnisaldri sýn-
anna er ekki birtur í útgáfu um rannsóknirnar frá 1988. Kolefnisaldur
(BP aldur) er einvörðungu talningaraldur, sem mældur er á geislakoli
við greiningu. Hann á ekkert skylt við leiðrétta aldursgreiningu, sem er
birt í umreiknuðum ártalsárum (CAL AD.). Kolefnisaldurinn hefur þá
verið leiðréttur eftir alþjóðlegri leiðréttingarkúrfu Stuivers og Pearsons
fyrir kolefnisaldursgreiningar á tímabilinu 500 f. Kr. til 1950 e. Kr.
Venjan er, eins og rétt er, að birta leiðrétta aldursgreiningu, en ekki
kolefnisaldur, sem í raun sýnir ekkert. í stað þess að sýna réttilega aldur
kolefnissýnanna, ákveður höfundurinn að tímasetja rústir með nýrri
aldursgreiningu landnámslagsins í stað kolefnisaldursgreininga, þar sem
sýnt þykir, að ef leiðrétting á greiningunum eigi sér stað muni þær sýna
of háan aldur. Hún skýrir hinar háu niðurstöður greininganna með til-
gátu Ingrid U. Olsson án þess að gera fyllilega grein fyrir henni. Margt
er athyglisvert við niðurstöður kolefnisaldursgreininga frá Reykjavík,
23. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1988; 1990.
24. E. Nordahl 1988, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í prentun (B).