Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1990, Page 97
RANNSÓKNIR í VIÐEY
101
sér í grófum dráttum frá miðöldum þótt viðbyggingar hafi bæst við.
Um klausturhúsin sjálf ríkir hins vegar þögn.
Að Munkaþverá hcfur fengist enn gleggri mynd af húsaskipan út frá
skjalagögnum frá árunum 1721 — 1726. Hörður Ágústsson hefur gert
grunnmynd af klausturgarðinum með kirkju, klaustri og klausturbæn-
um. Á bænum eru langhús fremst húsa um 40 m að lengd. Á hlaðinu
gegnt bænum stóðu klausturhúsin í um 15 m fjarlægð og norðan við
þau var kirkja í sporöskjulaga garði.2:i
Af ofansögðu má ráða að húsaskipan klausturgarðsins í Viðey svipar
til þcirrar myndar, sem fengist hefur af Munkaþverárklaustri og er það
vísbending þess að húsaskipan klaustra á fslandi hafi svipað til stórbýla
af gerð gangabæja síðmiðalda á íslandi m.a. að Kúabót í Álftaveri26 og
Gröf í Öræfum.27 Af þessu að dæma hefur því verið höfð hliðsjón af
útliti stórbýla við byggingu klausturbæjarhúsanna.
Niðurstöður uppgraftarins á rústunum í Viðey og rannsóknir á skrif-
legum skoðunargerðum „Viðeyjarklausturs" frá 18. öld benda til þess
að um sömu byggingar sé að ræða. Samanburður rannsóknarinnar í
Viðey við skjalfræðilegar athuganir á húsaskipan Munkaþverár- og
Þingeyraklausturs benda til sömu niðurstaðna. Fornleifarannsóknin í
bæjarhólnum í Viðey bendir til þcss að bærinn hafi verið á borð við
gangabæi á síðmiðöldum. Húsaskipan bæjarins í sjálfu sér er því ekki
eiginleg röksemd fyrir því að um klaustur sé að ræða, en í samhengi við
aðra þætti s.s. staðsetningu rústanna á ákjósanlegasta bæjarstæði Viðeyj-
ar, rúst líklegrar miðaldakirkju og nærliggjandi grafreit frá síðmið-
öldum renna stoðum undir þá skoðun. Sú staðreynd að húsaskipan
klaustranna að Munkaþverá og Þingeyrum sé einnig á borð við verald-
leg stórbýli af gerð gangabæja gefa til kynna að svo hafi verið á
íslenskum klaustrum og því mæli húsaskipanin ekki gegn því að um
klaustur sé að ræða þrátt fyrir ósamræmi við erlend klaustur hvað
varðar ytra útlit mannvirkjanna. Vísbending um eiginleg klausturhús
gegnt klausturbænum í Viðey í samræmi við niðurstöður rannsókna að
Munkaþverá, tímasetning mannvistarleifanna til síðmiðalda og kirkju-
legir gripir frá klausturtíma í Viðey styrkja eindregið þessa skoðun. Því
verður hér eftir gengið út frá því að um rústir Viðeyjarklausturs sé að
ræða í bæjarhólnum norðan Viðeyjarstofu.
25. Hörður Ágústsson: „Húsagerð á miðöldum", bls. 294-295.
26. Gísli Gestsson og LiÍja Árnadóttir: „Kúabót í Álftaveri", bls. 7-101.
27. Gísli Gestsson: „Gröf í Öræfum", bls. 5-87.