Lögberg-Heimskringla - 27.10.1966, Page 2
2
LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 27. OKTÓBER 1966
Höfðinginn
Þættir úr bókinni Snorri Sturluson eftir Sigurð Nordal. —
Dr. Nordal er einn af þekktustu núlifandi íslendingum og
braulryðjandi í íslenzkum fræðum, svo vart hefur annar
maður haft meiri áhrif á þróun þeirra vísinda en hann, enda
fara saman í skrifum hans hugmyndaauðgi skgldsins og
óvenjuleg ritsnilld.— Hér fara á eflir þrír kaflar úr öðrum
þætti Snorra Sturlusonar, upphafið, áitundi kaflinn og niður-
lagið. — Þátturinn í heild heitir „Höfðinginn".
Snorri Sturluson var ekki
einn af þeim mönnum, sem
þurfa að beina öllum kröftum
sínum að einu marki til þess
að geta komið nokkru í verk,
því að trauðla hefur nokkur
Islendingur lifað svo fjöl-
breyttu lífi sem hann. Hann
var lögsögumaður, eigandi
margra goðorða, átti í sífelld-
um deilum, bæði á alþingi og
í héraði, og reisti rönd við
mestu höfðingjum, sem hon-
um voru samlendir. Hann fór
tvívegis utan, sótti heim stór-
höfðingja bæði í Noregi og
Svíþjóð, og þá þar nafnbætur,
gjafir miklar og marga sæmd
aðra. Hann átti ekki einungis
hlut í, hver afskipti þeirra Há-
konar konungs og Skúla her-
toga urðu af íslandi, heldur
virðist hann hafa verið ráðinn
í að taka sinn þátt í deilum
þeirra konungs og hertoga, eft-
ir að sundur var dregið um
samþykki þeirra. Hann lagði
mikla stund á að safna auði,
átti bú á mörgum höfuðbólum,
var hinn „mesíti fjárgæzlu-
maður (Sturl. II, 31), „hagur á
allt það, er hann tók höndum
til, og hafði inar beztu for-
sagnir á öllu því, er gera
skyldi“ (Sturl. II, 73). Að því
skapi var hann heimsmaður.
Hann var skartsmaður í klæða
burði, hélt miklar veizlur og
glæsilegar og hefur unað sér
vel við góðan drykk í dýrum
kerum. Og hann var eins og
Jón Loftsson fósturfaðir hans
„mjög fenginn fyrir kvenna-
ást“, og átti börn með mörg-
um konum.
Þó er sagan enn ekki nema
hálfsögð. Snorri var helzta
skáld Islands á sinni tíð, og
hefur varla nokkur maður
annar haft slíkt vald á tung-
unni til bragþrauta. Hann
samdi Eddu, Ólafs sögu helga,
Heimskringlu, og ef til vill
fleiri sögur. I ritum hans hald-
ast frásagnarlist og vísindaleg
dómgreind fastar í hendur en
í nokkrum öðrum íslenzkum
fornritum, og þau bera þess
óræk vitni, að Snorri hefur
haft djúptæka þekkingu á öll-
um sviðum þjóðlegra fræða
íslenzkra. Má því vel kalla
hann andlegan brennidepil
aldar sinnar.
Nútíminn metur ekki öll
störf Snorra jafnmikils. Auð-
vitað hefur hann komið nógu
mikið við sögu landsins til
þess að nafns hans yrði getið
þar, líkt og t. d. Kolbeins unga,
en lítt mundi hann þekktur
utan íslands fyrir þau afrek
sín. Og enginn mundi halda á
lofti veizlum hans og búsýslu,
ef ekki væri ritfrægðinni til
að dreifa. Það eru ritstörf
Snorra, sem gert hafa nafn
hans frægara en annarra Is-
lendinga. Og þó eru þau líka
misjafnt metin. Háttatal þykir
nú lítill skáldskapur, og er
varla lesið nema af fornfræð-
ingum og afvegaleiddum skóla
sveinum. En goðasögurnar í
Eddu og sagnarit Snorra eru
þýdd á margar tungur, og
taldar til dýrgripa hins ger-
manska þjóðflokks.
Ef Snorri mætti líta upp úr
gröf sinni, mundi honum koma
dómur nútímans um störf sín
mjög á óvart. Hann mundi
furða sig á, að nafn hans hef-
ur borizt svo langt, sem raun
hefur á orðið, því að þótt hann
hafi vafalaust, líkt og Harald
harðráða, dreymt um það í
æsku að verða „víða frægur
um síðir“, þá hefur hann
skammt hugsað út yfir þau
lönd, sem byggð voru Norð-
mönnum. Og sízt hefur hann
við því búizt, að Konungasög-
ur sínar mundu halda hróðri
hans mest á lofti. Sumir menn
trúa því, að sagnaritarar vorir
hinir fornu hafi verið svo for-
dildarlausir, að þeir hafi ekki
hirt um að láta nöfn sín geym-
ast. En það er mikill misskiln-
ingur. Fornmönnum var ekki
síður annt um að bjarga nöfn-
um sínum frá gleymsku en
oss, sem nú lifum, en þeim
hefur varla til hugar komið,
að þau gætu gert það með því
að setja nöfn sín á sögurit
þau, er þeir færðu í letur.
Enda hefur nöfnunum oft ver-
ið sleppt í eftirritum, þótt þau
stæðu í frumritinu. Var það
hvorttveggja, að menn litu þá
og lengi síðan allt öðruvísi á
eignarrétt höfunda en nú, enda
skoðaði maður sig varla rit-
höfund, þó að hann setti sam-
an í heild sögusagnir, sem
hann hafði heyrt úr ýmsum
áttum, eða tæki eldra sögurit
og yki það og lagfærði. Eða
ætli menn líti ekki líkt á þetta
enn í dag, þegar þeir skrifa
upp þjóðsögu, sem þeim hef-
ur verið kennd? Gera menn
sér nokkra grein fyrir, hve
mjög gildi sögunnar er undir
skrifaranum komið? Ætli síra
Skúla Gíslason hafi nokkurn
tíma grunað, meðan hann var
að skrifa þjóðsögur handa Jóni
Árnasyni, að hann var um leið
að gera nafn sitt ódauðlegt í
sögu íslenzkra bókmennta?
Sjálfur nefnir Snorri aðeins
tvo af sagnaritum þeim, sem
hann styðst við, — Ara fróða,
af því að hann var höfundur
sagnaritunarinnar og „frásögn
hans öll merkilegust“, — og
Eirík Oddsson, sem talar svo
mikið í fyrstu persónu, að ekki
varð komizt hjá að geta þess,
hvaða „ég“ þetta væri. En
hann getur hvorki Odds
Snorrasonar né Styrmis Kára-
sonar, og vitum vér þó, að
hann hefur notað bækur
þeirra, né heldur höfundar
(eða höfunda) Morkinskinnu,
sem nú er gleymdur, en
Snorra hlýtur að hafa verið
kunnugt um. Líklega hefur
hann samt sett nafn sitt á rit
sín, og þó má það heita til-
viljun, að menn vita nú, að
hann hefur skrifað Heims-
kringlu, enda ekki með öllu
órengt. Annar eins fræðimað-
ur og Sturla Þórðarson var,
þá getur hann aðeins einu
sinni sagnaritunar föðurbróð-
ur síns, og ekki af því að hon-
um þyki hún sjálf tíðindum
sæta, heldur vegna þess, að
það var merki þess að batna
tók með Snorra og Sturlu Sig-
hvatssyni, að Sturla dvaldi í
Reykholti.
Meiri frægðar hefur Snorri
vænt sér af kvæðum sínum,
einkum Háttatali. Sturlunga
saga getur víða um skáldskap
hans, og þær sæmdir, sem
hann hlaut að launum, og
Snorri undi því sjálfur stór-
illa, en Sunnlendingar höfðu
gert spott að kvæðum hans
(Sturl. II, 96). Hann var og
mjög barn síns tíma til þess
að geta skilið, að dróttkxæðin
voru deyjandi list og hann
sjálfur meiri bragsnillingur
en skáld.
í 100. v. Háttatals segir hann,
að sá maður eigi þó nokkurt
hrós skilið, er svo fái ort alla
háttu, og í 96. vísunni segist
hann blátt áfram hafa ort á-
dauðlegt kvæði:
Þat mun æ lifa,
nema öld farisk,
bragninga lof,
eða bili heimar.
Nöfn hirðskáldanna voru
miklu fastar tengd við verk
þeirra, en nöfn sagnaritaranna.
Þær eru teljandi drápurnar,
sem geymdar eru án höfund-
arnafns, og í Skáldatali er
margra skálda getið, þó að
hver vísa þeirra nú sé týnd.
Líklega hefur enginn maður
fyrr né síðar þekkti fleiri ís-
lenzk dróttkvæði en Snorri.
Honum var manna kunnugast,
hvernig þau gengu mann frá
manni og héldu nöfnum skáld-
anna á lofti.
En meira en að lofa var að
vera lofaður, meira en að vera
skáld var að verða skáldum að
yrkisefni. Snorri á nútíma-
frægð sína ritum sínum að
þakka. Þess vegna hættir
mönnum við að gleyma því,
að hann var ekki fyrst og
fremst skáld og fræðaþulur,
heldur höfðingi. Hversu mikið
yndi sem hann hefur haft af
ritstörfum sínum, og hversu
mikils sem hann hefur metið
þau, þá er hitt áreiðanlegt, að
hann hefur ávallt látið baráttu
sína fyrir auði og völdum sitja
í fyrirrúmi fyrir þeim. Nafnið
„fróði“ (Sturl. III, 146) festist
aldrei við hann. Fyrir Styrmi
var það nafnbót. Snorri var
annað og meira, hann var goð-
inn og höfðinginn, lendur
maður og skutilsveinn, — átti
ef til vill eftir að verða Snorri
jarl.
Ef Snorri framar öllu öðru
hefði kosið sér næði til rit-
starfa sinna, gat ævi hans orð-
ið öll önnur. Hann fékk með
kvonfangi sínu óðal og auð
fjár rúmlega tvítugur, og þrátt
fyrir róstur Sturlunga-aldar-
innar, hefði hann getað setið
nokkurn veginn óáreittur á
Borg, ef hann hefði kosið að
leiða hjá sér deilur manna, og
unað því að halda hlut sínum
óskerðum, eins og sagt er um
Orm Svínfelling (Sturl. III,
146). Arfur Herdísar konu hans
var ótvíræð eign hans, og
hefði hann ekkert gert til þess
að brjóta af sér hylli Odda-
verja og frænda sinna, átti
hann þar mikinn styrk og at-
hvarf gegn ásælni manna.
En því fór fjarri, að Snorri
léti sér lynda þau mannafor-
ráð og átta hundruð hundraða,
sem kvonfangið lagði upp í
hendurnar á honum. Viðleitni
hans að auka auð sinn og ríki
er aðalefni alls þess, sem frá
honum er sagt. Hann nær
smátt og smátt undir sig öll-
um mannaforráðum í Borgar-
firði og á Suðurnesjum, hálfu
Ásvellingagoðorði í Húnaþingi
og að nafninu til hálfum öll-
um goðorðum Ásbirninga.
Hann auðgar sig á samningum
sínum við Magnús prest í
Reykholti, og þá einkum á
helmingafélaginu við Hall-
veigu Ormsdóttur. Hafði
Snorri þá miklu meira fé en
nokkur annar maður á íslandi.
Og þó að hann reyndi eftir
megni að koma málum sínum
fram á friðsamlegan hátt, þá
skirðist hann heldur ekki við,
iMIIIIIIIIIIIIIII
ef því var að skipta, að hefja
langar deilur og harðar. Enda
voru sumir samningar hans
ekki hættulausir, og svo kvað
Þórður bróðir hans að orði um
félagið við Hallveigu, „að
hann lézt ugga, að hér af
mundi honum leiða aldurtila,
hvort er honum yrði að skaða
vötn eða menn“. (Sturl. II,
127).
Síðari alda menn hafa löng-
um legið Snorra á hálsi fyrir
ásælni hans, einkum fégirni.
Veldur það eigi litlu um, að
þeir hafa einblínt á, hvernig
verk hans eru nú metin, og
gleymt, hvað var aðalmark
sjálfs hans í lífinu. Það var
ekki sagnaritarinn Snorri, sem
var fégjarn, heldur höfðing-
inn Snorri. Og þetta er sitt
hvað. Ágirndin er blettur á
manni, sem stendur í þjónustu
ríkisins eða almennra hug-
sjóna, því að þá sundrar hún
persónunni og skekkir við-
leitni hennar. En enginn sakar
bónda eða kaupmann, þó að
þeir vilji græða fé, því að það
er skilyrðið fyrir viðgangi
búsins og verzlunarinnar. Og
á líkan hátt var mikið af
þrifnaði íslenzks höfðingja á
13. öld undir auði hans kom-
ið. Hitt er annað mál, að Sturl-
unga er Snorra svo hliðholl,
að líklegt er, að hún láti ýmis-
legs þess ógetið í frásögnun-
um um fjárafla hans, sem
mundi honum til lítils sóma,
ef kunnugt væri. Það er af til-
viljun einni, og ekki sagt
Snorra til ámælis, að Þorláks
saga hin yngri getur þess,
hvernig hann eignaðist höfuð-
bólið Stafholt. Eyjólfur bóndi
þar, sem deilt hafði við Þor-
lák biskup um staðinn, átti tvö
börn, Ara og Ólöfu. Ari var
lostinn líkþrá, og seldi Eyjólf-
ur Snorra staðarforráð, en
hann skyldi gifta Ólöfu og fá
Framhald á bls. 3.
1111111111111111'.
LÆGSTU
FLUGFARGJÖLD TIL
ISLANDS
OG TIL ALLRA SKANDINAVÍULANDA g
Ráðgerið þér ferð til fslands? Fljúgið þá með LO'FTLEIÐUM -
og sparið nóg til að dvelja lengur, sja fleira, og njóta þess betur. ^
LOFTLEIÐIR bjóða lægstu flugfargjöld til af öllum flugfelog- =
um á öllum árstímum — aðra leiðina eða fram og aftur. Þer =
greiðið miklu minna en þotu Economy fargjöld. Fljúgið í rúm- n
góðu og þægilegu farrými í hraðfara, nýjum Rolls-Royce 400 =
Jet Props beint til fslands, og þaðan með langferða DC-6Bs =
til annara áfangastaða I SKANDINAVÍU. Ókeypis heitar =
máltíðir, drykkir og snacks til boða á hverju flugi.
FRA NEW YORK TIL: ÍSLANDS - ENGLANDS - |
SKOTLANDS - HOLLANDS - NOREGS - SVÍÞJÓÐAR =
- DANMERKUR - FINNLANDS - LUXEMBOURG.
Fljúgið með Loftleiðum—og sparið—til allra landa Evrópu =
og lengra =
BRAUTRYÐJANDI lágra fargjalda til Evrópu
IEELANDICairunes
mŒMÍMWH} 1
610 Fifth Avenue (Rockefeller Center) New York, N.Y. 10020. =
PL 7-8585. 1
NEW YORK - CfflCAGO - SAN FRANCISCO
Fáið upplýsingabækling. farmiða og fl. hjá ferðaskrifstofu yðar. ^
Í