Óðinn - 01.07.1923, Page 9
ÓÐINN
57
amtmanninum í Suðuramtinu 6 mánuðum fyrir far-
daga, og með sama fyrirvara skal segja honum lausri
íbúð hússins, ef ástæða þykir til að fá annan mann
til að búa þar. En ef hann í nokkru breytir móti
ofannefndum ákvörðunum, hefur hann fyrirgert rjetti
sínum til íbúðar í húsinu, og öllum þeim rjettindum
öðium, er þetta leyfisbrjef veitir honum, og skal þegar
víkja burt úr húsinu, án þess að eiga heimtingu á
nokkrum uppsagnarfresti.
Reykjavík 22. d. júlímánuðar 1878.
Til staðfestu nafn mitt og innsigli Suðuramtsins.
Bergur Thorberg. (L. S.)
Leyfisbrjef handa Ebeneser gullsmið Guðmundssyni
til að hafa gestaveitingar í sæluhúsinu á Kolviðarhóli.
Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á
Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er
gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frum-
býliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkur-
inn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur,
erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og
það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sum-
part sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að
kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt
leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis
í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður
að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í
gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin
alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á
hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin
tafði húsbóndan frá handverkinu. Um styrk af opin-
beru fje var ekki að tala, þó þess væri leitað, jafnvel
samkvæmt gefnu velyrði, raunar mun Ebeneser hafa
fengið örfáa dali fyrir að grafa brunn fyrir neðan hól-
inn, til að bæta úr vatnsleysinu, en bæði var sú upp-
hæð örlítill hluti þess tilkostnaðar er hann hafði við
brunngröftinn, eins og jarðlagi er þar háttað, og svo
voru þessir fáu dalir veittir með svo miklum umtölum
og ónotum að Ebeneser sveið það alla æfi að verða
að neyðast til að þiggja þá. Loks þreyttist Ebeneser á
öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem
heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti
hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að
á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags;
hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921.
Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á
Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi
við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta mynt-
ust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega ]óns land-
læknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum öl-
kelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði all-
mikið.
Eftir að Ebeneser settist að á Eyrarbakka, tók
hann sjer venjulega sumarfrí um mánaðartíma og fór
þá austur um sveitir og heimsótti kunningjana, og
seldi smíðar sínar, var honum alstaðar vel fagnað og
þótti ávalt aufúsugestur, hvar sem hann kom.
Eberneser var þjóðhagi, hagvirkur og hugvitssamur,
síglaður í viðmóti, en nokkuð skapbráður að eðlisfari;
hann var mesti iðjumaður, frábærlega ljettur á fæti
og sást aldrei með höndur í vösum, sagði sjer þætti
það svo ófagurt. Söngelskur var hann mjög, smíðaði
sjálfur langspil og þótti leika vel á það, bæði ný og
gömul lög, sem hann kunni mörg. Hann skrifað all-
fallega rithönd — með fjaðrapenna. — Þau hjón
eignuðust mörg börn, sem þau ólu prýðilega upp,
enda var Sesselja kona hans — sem enn lifir — vel
fallin til að kenna þeim sparnað og iðjusemi, sem
hún er orðlögð fyrir. Börn þeirra hjóna, sem nú lifa,
eru þessi: Guðmundur skósmíðameistari á Eyrarbakka,
Ebeneser vjelstjóri í Reykjavík, ]óhanna gift Páli
múrara Magnússyni frá Vatnsdal, nú í Reykjavík,
Ágústa, gift Sigurði gullsmið Daníelssyni á Eyrarbakka,
og Olafía, Sigríður og Gróa, ógiftar heima.
O. Oddsson.
\L
Strigabátsferö.
Nú gefst mönnum sjaldnar tækifæri, til að sýna
þrautseigju eða karlmensku, en fyr á tímum. Það
hefur auðvitað altaf verið talin karlmennska, að brytja
náunga sinn niður á vígvelli, og þá tryltustu kalla
menn ekki »dýr« heldur »hetjur«. Það þykir líka karl-
menska, að læðast að dauðhræddum hjerum eða
meinlausum fuglum, og skjóta þá. Áður fyr þurfti
karlmensku og hugrekki til að komast yfir hafið; —
nú ferðast menn yfir það á margfalt stærri og traust-
ari skipum, sem þola margfalt meiri sjó og eru fljótari
í ferðum. Nú ferðast menn um bygðir og eyðimerkur
í eimlestum, öll fljót eru brúuð, upp fjöllin og í gegn
um þau ganga sporbrautir, sem borga fyllilega reksturs-
kostnað sinn. Flestar uppfyndingar miða að því að
gera mennina að vöðvalausum óánægðum verum, í
staðinn fyrir að þeim er ætlað, að ljetta þeim lífsbyrð-
ina og útrýma hættunum. Hver verður þá útkoman?
I staðinn fyrir hrausta, frjálsa og vakandi þjóð, kemur