Óðinn - 01.01.1935, Blaðsíða 34
34
Ó Ð I N N
fyrir 60 — 80 árum. En þó held jeg að ekki hafi orð-
ið svo mikil breyting á neinu hjer um slóðir sem á
lífskjörum og aðbúð kvenfólksins. Fyrir fáum ára-
tugum gekk það dagsdaglega í hin sverustu karl-
mannsverk. Það var í öllum sjóferðum og ekki ó-
sjaldan, að það hafði formenskuna á hendi. Það reri
hvert sjóveður, hverja vertíðina af annari, haust og
vor, í Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri og jafnvel kom
fyrir, að það reri út undir ]ökul. Um breiðfirskar
konur er óskráð mikil saga og merkileg.
Þess hefur orðið vart, að leitir þessar spyrjast illa
fyrir út í frá. Jafnvel er kveðið svo fast að orði, að
leitirnar sjeu miskunnarlausar ránsferðir á hendur fugl
inum, þar sem eigi sjer stað hið mesta rán á dún og
eggjum, og helst ætti að banna þær með lögum.
En þetta er mælt af hinum mesta misskilningi og
þekkingarleysi. í Breiðafjarðareyjum hagar þannig til,
að þessar ferðir í varplöndin eru nauðsynlegar, bæði
vegna varpeigenda og fuglsins sjálfs. Margar mestu
varpeyjarnar eru stórar, lágar og mýrlendar. Æðar-
fuglinn verpur einna þjettast með fram mýrunum —
og jafnvel úti í þeim, sjeu þær ekki alveg sljettar.
Vilji nú til vætur, kemur það ekki ósjaldan fyrir, að
alt fer á flot. Þá er stór hætta á ferðum. Egg og
dúnn verður ónýtt á skömmum tíma sje ekkert að
gert — og það hefur komið fyrir, að æður hefur
sálast á blautu og köldu hreiðrinu. — En þá er nauð-
synlegt að bregða skjótt við og koma til bjargar.
Taka blauta og kalda dúninn úr hreiðrinu, þurka
eggin og hækka hreiðrið upp með þurru, hlýju þangi
eða öðru þess háttar. Það bjargar venjulega. — Þeir
eru ekki fáir æðarungarnir, sem fæðst hafa og kom-
ist á legg fyrir þessa nærgætni breiðfirska kvenfólks-
ins. — í annan stað verpur ákaflega mikið af æðar-
fuglinum í þanghrönnum utan með á eyjum og á smá-
flögum og skerjum, sem sjór gengur yfir, ef stór-
straumur og hroði fara saman. Vfir þeim fugli vofir
stöðug hætta. Við ekkert verður ráðið, ef að ókyrð
hleypur í sjóinn og stórstraumur er á. Þá er venju-
lega ekki um annað gera, en að hirða egg og dún,
ef til þess næst, áður en Ægir gamli gleypir alt
saman. Það hefur þó verið reynt að færa hreiðrin
hærra upp á eyjarnar, svo sjór næði ekki til þeirra,
en oftast kemur það að engum notum. Æðurin virðist
ekki kunna neinum færslum, eftir að hún einu sinni
hefur gert sjer hreiður, og yfirgefur því hreiðrið venju-
lega, hversu lítið sem það er fært úr stað. Þó ber
við, að hægt er að bjarga einstöku hreiðri á þennan
hátt, einkum ef kollan er búin að sitja svo lengi á,
að eggin sjeu orðin unguð að mun. —
Eins og landslagi er háttað í Breiðafjarðareyjum
eru »leitir« alveg nauðsynlegar, og væri mesta heimska
að leggja þær alveg niður. Þær eru engu síður farn-
ar til þess að hlúa að æðarfuglinum og koma hon-
um til hjálpar en að ræna hann eggjum og dún.
All-flestum Breiðfirðingum er og ekki ránskapur
í hug, er þeir umgangast æðarfuglinn. Þess má sjá
glögg merki, ef komið er í eyjarnar um varptímann.
— Meðan tún voru þýfð og lítt ræktuð, var komist
svo að orði, að ekki þætti gott varp í túnum, ef ekki
yrpi kolla í annari hverri laut. Það hefur nú máske
verið orðum aukið. En í húsasundum, í vindaugum,
með fram gangstjettum og í gluggatóftum bæjar og
peningshúsa, var ekki ótítt, að sjá æðarkollur skipa
sjer og sitja prúðar og rólegar á eggjum sínum þrátt
fyrir allan hávaða og umgang. Sumar voru svo spak-
ar, að þeim mátti klappa og jafnvel taka upp í kjöltu
sína án þess, að þeim virtist mislíka það. Aðrar vorn
grimmari í skapi. Þær vörðu hreiður sín af hinu
mesta kappi, bitu frá sjer og jafnvel flugu á fólk, ef
þeim þótti of nærri sjer gengið. Þær urðu að jafnaði
óvinsælli og hjeldust ekki svo lengi við sem hinar
gæflyndari systur þeirra.
Nú fækkar þeim ár frá ári, kollunum, sem verpa
í túnunum. Breyttir tímar og vaxandi menning valda
þar mestu um. Mennirnir virðast nú fjarlægjast hröð-
um skrefum hina frumstæðu náttúru.
Þegar dúnninn er kominn heim, er tekið til við
hreinsunina. Fyrst er hann þurkaður úti við sólar-
hita og þá tínt úr honum stærsta ruslið. Síðan er
hann hitaður í potti yfir eldi og »krafsaður« á grind,
þar til ekkert rusl er eftir í honum. Það þykir hið
versta verk, bæði ervitt og seinlegt. Breiðfirska kven-
fólkið hefur verið þolnast við þá vinnu, sem svo
marga aðra, en nú er svo komið, að vart fæst nokk-
ur maður til að krafsa dún, og síður þó kvenfólk en
karlmenn. — Vjel til dúnhreinsunar hefur enn ekki
tekist að búa til, svo að verulegu gagni komi, og
væri þó hin mesta nauðsyn á slíkri vjel.
Fuglatekja. Lundinn grefur langar og djúpar
holur inn í eyjarnar og verpur þar skömmu eftir far-
daga. Hann á að eins eitt egg, hvítt að lit, og verma
hjónin það til skiftis. Það tekur Iundann langan tíma
og ala upp ungann. Unginn er nefndur kofa. Hann
liggur í holunni þangað til hann er orðinn alfiðraður
og fleygur. Þangað til færa foreldrarnir honum fæð-
una heim. Fæðan er eingöngu síli. Það hlýtur að
vera erfitt og ónæðisamt líf hjá vesalings lundanum,
að þurfa að vera á sífeldu flökti fram og aftur um
heitasta tíma ársins, eins og hann virðist vera latur.