Óðinn - 01.01.1935, Blaðsíða 7
Ó Ð I N N
7
menn í lokin til að »taka lagið«. Hann var glaðlyndur
og hafði hressandi áhrif á menn. Var hann því ávalt
talinn aufúsugestur, hvar sem hann kom, og alstaðar
vel tekið. Enda var hann mörgum kunnugur orðinn.
Munu fáir hafa þekt fleiri menn en hann. Furðaði
jeg mig oft á því, hversu hann bar kensl á marga.
Var ekki laust við að stundum væri þreytandi að
vera honum samferða, ef fjölfarið var um veginn,
því að við næstum hvern mann þurfti hann að tala
og þeir við hann.
Ekki mun sú sveit vera á íslandi, að Sigurður hafi
ekki þar komið einhvern tíma á ferðum sínum og
færri bæirnir, er hann hefur ekki heimsótt. í nýju
Jarðabókinni frá 1861 hefur hann krossað við flesta
þá bæi, er hann hefur komið á. Og eru þeir, laus-
lega talið, um 34 hundruð, en geta þó fleiri verið.
Kunnugur var hann orðinn, mörgum fremur, landi
sínu. í mannsaldur hafði hann ferðast um það fram
og aftur, og margoft um sumar sýslurnar. Ferðalögin
áttu vel við hann. Og hann átti góða og fallega hesta,
sem hann fór og prýðilega með. En það sagði hann
þó, að hið besta við ferðalagið væri heimkoman, því
að aldrei fyndi maður betur, hvað það er að eiga
gott heimili, en þegar maður kæmi heim úr langri
ferð. En margar ferðaminningar átti Sigurður ráðu-
nautur, merkilegar og fróðlegar, og er eftirsjón að
því, að honum skyldi ekki auðnast að rita ítarlega
ferðasögu, en það hafði hann í hyggju. En önnur
verkefni kölluðu altaf að.
Sigurður kunni aldrei við að sitja auðum höndum.
Oft vann hann fram á nótt við að svara þeim urmul
brjefa, er honum bárust sí og æ. Þau snertu kanske
ekki öll beinlínis starf hans sem ráðunautar. Það
vóru beiðnir um alskonar útrjettingar og smágreiða.
Bændur vissu að þeim var óhætt að leita til hans.
Hann var hjálpsamur og ljet menn sjaldnast synjandi
frá sjer fara. Það eru ótalin öll þau spor, sem hann
hefur gengið fyrir bændur þessa lands. Enda vóru
þeir líka margir boðnir og búnir til að gjalda honum
í sömu mynt.
»Það, sem mjer virðist einkenna Sigurð ráðunaut«,
segir Theodór Arnbjarnarson í áðurnefndri grein, —
en hann skrifar af mestum skilningi og viðurkenningu
um hann, þeirra, er eftirmæli rituðu, — »var það,
hvað hann var framsýnn, ráðhollur og varfærinn.
Hans skoðun var að búnaðurinn yrði að þróast stig
af stigi, og honum þótti vænna um bændurna en svo,
að hann vildi leggja þeim þau ráð, er orðið gætu að
fótakefli, enda naut Sigurður almennara trausts og
vinsælda en jeg hef þekt um nokkurn mann«. —
Hann kom ekki með loftkastala til bændanna,
heldur »praktiska« þekkingu. Sagt hefur mjer og
bóndi, að leiðbeiningar hans hafi komið sjer að best-
um notum.
Sigurður ráðunautur var hamingjusamur maður.
Hlutverk hans í lífinu var það, sem hann hafði óskað
sjer og hæfileikar hans stóðu til. í banalegunni sagði
hann við aðstandendur sína: »Það má vera að þið
væruð nú betur stödd, ef jeg hefði valið mjer annað
starf; en þetta var það, sem jeg þráði að starfa*.
Og forsjóninni verður aldrei fullþakkað, að hann fjekk
þá ósk sína uppfylta, að hann var rjettur maður á
rjettum stað. — Aldrei varð hann fjáður; barðist
meira að segja oftast í bökkum efnalega. En hann
var auðugur að áhuga og starfslöngun; hann elskaði
starfið og í því var hann mikill. Og þegar litið er yfir
æfistarf Sigurðar ráðunautar, verður niðurstaðan sú,
eins og einn samstarfsmaður hans (Th. A.) kemst að
orði, að hann hafi verið einn af áhrifamestu búnaðar-
frömuðum er ísland hefur átt.
Sigurður ráðunautur var lengst af heilsuhraustur;
þó var hann hin síðari ár vangæfur í maga. Ágerðist
það fyrir alvöru haustið 1925. Var hann þá staddur
að Rauðalæk í Holtum, nýfarinn að heiman í eina
af sínum mörgu ferðum í þágu bændanna. Lagðist
hann þar veikur og lá nokkra daga. Komst þó á fætur,
en treystist ekki til að halda áfram ferðinni og sneri
heim aftur. Lagðist hann, er heim kom, og komst ekki
á fætur eftir það. Sjúkdómurinn var krabbamein í
maga. Var Sigurður skorinn upp, en það reyndist
árangurslaust. Lá hann svo fram í febrúar. Þótt líðan
hans væri ekki altaf góð, var hann samt oft vinnandi
og altaf hress og glaður, svo sem hans var eðli.
Hann andaðist 14. febrúar 1926.
Jarðarför hans fór fram 26. s. m., að viðstöddu
fjölmenni. Húskveðju flutti sjera Olafur fríkirkjuprestur
Ólafsson, en sjera Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur
talaði í kirkju. — Bændur báru lík þess manns, er
hafði þjónað þeim svo vel og dyggilega, frá kirkju
og til hinnar hinstu hvíldar1).
* *
¥
Þann 1. maí 1897 kvæntist Sigurður eftirlifandi
konu sinni, Björgu Þ. Guðmundsdóttur. Hún er fædd
29. nóv. 1874. Foreldrar hennar eru: Guðmundur
Eggertsson, bóndi í Höll í Haukadal í Dýrafirði
1) Þess skal getið, að skömmu fyrir andlátið var Sigurður
ráðunautur saemdur riddarakrossi Fálkaorðunnar. Hann var þó
ekki gefinn fyrir slíkt tildur. Bar hann aldrei „orðuna“ og var
hún heldur ekki lögð á kistu hans, við jarðarförina, svo sem
sumum þykir hlýða.