Tölvumál - 01.01.1988, Qupperneq 6
FRÉTTAPISTILL
Námskeið: gervigreind, þekkingarkerfi og rökforritun.
Dagana 15.-19. febrúar n.k. mun Endurmenntunarnefnd Háskólans
standa fyrir námskeiði um gervigreind, þekkingarkerfi og rökforritun.
Efni: Gervigreind, þekkingarkerfi, ályktunaraðferðir, framsetning
þekkingar, rökforritun og Prolog, óvissuþættir, verkfæri til að hanna
þekkingarkerfi, innsýn í þekkingarkerfið og forritun með því,
verkefni.
Námskeiðið er ætlað forriturum, kerfis- og tölvunarfræðingum.
Markmið þess er að þátttakendur verði að námskeiði loknu færir um að
taka þátt í hönnun þekkingarkerfa og velja til þess verkfæri. Leið-
beinendur eru dr. Oddur Benediktsson, prófessor og Páll Jensson,
forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans. Námskeiðið er alls 20 klst.
og þátttökugjald er kr. 14.000,- auk kennslubókar. - Allar nánari
upplýsingar veitir skrifstofa endurmenntunarstjóra, í síma 23712 og
687664.
íslenska gagnanetið.
Notendur sem tengdir eru gagnaneti Póst- og símamálastofnunar með
upphringisambandi eru nú orðnir 600 talsins. Úthlutað hefur verið 190
númerum til fasttengdra notenda. Þar sem hver notandi getur haft
mörg númer á sömu tengingunni er ekki hægt að segja til um fjölda
fyrirtækja sem fasttengd eru.
Ný sprengja frá IBM
Innan þriggja mánaða verður kynnt ný tölvulína frá IBM. Sagt er að
hún muni spanna sviðið frá 2 notendum til 600 notenda og að sú
minnsta verði álíka og PS/2 tölva að afköstum, en sú stærsta muni
nálgast afköst IBM 3090. Þessari tölvulínu er ætlað að koma í stað
S/36 og S/38 tölvanna og nota samskonar reikniverk og S/38. Nýju
tölvurnar eru sagðar ætlaðar jafnt fyrir viðskipti sem vísindi og
verður forritunarumhverfið það sama frá þeirri smæstu til þeirrar
stærstu. Hvað heitir fyrirbrigðið - IBM 9380 að sjálfsögðu! Fyrir
skömmu sögðum við frá svari Digital við IBM 9370 línunni. - Hvert
verður svar Digital við þessari sprengju?
- 6 -