Dagur - 23.12.1970, Page 13

Dagur - 23.12.1970, Page 13
JOLABLAÐ DAGS 13 komum þeim þar í land. Þeir áttu að koma prammanum fram svo við gætum tekið hann á slef á ný. Þetta gekk nú sæmilega til að byrja með, en þó var ókyrrð við sandinn og þetta endaði með því, í fyrstu tilraun, að prammanum hvolfdi, léttbátnum líka. Við urðum frá að hverfa að sinni, en hermennirnir fengu lánaða hesta, komust til Patreks- fjarðar, án slysa, og það var ekki fyrr en daginn eftir, að við gátum bjargað bátunum. En ferðirnar til Jan Mayen? Já, við þurftum líka að færa setu- liðinu þar, bæði vistir og margan ann- an varning. Vopnaður hvalveiðibátur varð okkur samferða þangað. Ég man einkum eftir því, að í Reykjavík var rauður eða jarpur hestur, íslenzkur, fluttur um borð í hvalveiðibátinn. Hann átti að nota til dráttar þarna norður frá og taka við starfi annars íslenzks hests, sem þar hafði verið. En jafnframt voru hestar þessir gæludýr og munu hafa átt góða daga. En það var heldur erfitt að koma öllum þess- um vörum, lifandi og dauðum, í land norðurfrá. Olíutunnur og annað, sem sjóinn þoldi, var auðvitað látið falla fyrir borð, eins nærri landi og unnt var, því bryggjuna vantaði. En ekki máttu allar vörur vökna, og var þá smíðaður fleki einn mikill og hafður til flutninga milli lands og skips. Og hest- urinn var fluttur á flekanum. Þetta gekk raunar allt vel, og allur komst farmurinn í land að lokum. Þú skiptir um skip, en hélzt áfram á sjónum? Já, haustið 1943 réði ég mig á olíu- flutningaskipið Orwell, norskt, 12.000 tonna skip er flutti olíu frá Kanada til Bretlands á stríðsárunum og allt til stríðsloka. Skipstjórinn var frá Kongs- bergi í Noregi, Nikolaysen að nafni, ágætis karl. Við tókum olíuna skammt frá Halifax og vorum 14—28 daga á leiðinni til Englands, allt eftir ástæð- um. Einu sinni, um jólaleytið 1944, vor- um við skammt sunnan við ísland á leiðinni með fullfermi af olíu. Mig hálf- langaði þá heim, líklega vegna jólanna. Það var hið versta veður, norðan stór- hríð. En vont sjóveður var nú ekki það versta á þessum ferðum yfir hafið, því að þá var minni hætta á árásum kaf- bátanna, sem allir óttuðust og ekki að ástæðulausu. Þegar veður var verst, vorum við rólegastir. En í þetta sinn mun þó eitthvað hafa orðið vart við óvinina, því að skipalestin, sem við vorum í, var látin breyta um stefnu, allt í einu, og taka strikið beint suður. Við sigldum úr stórhríðinni suður í sól- skinið, allt suður undir Asoreyjar. Það var nú dálítill krókur! Fórum þið alltaf í skipalestum? Alltaf, hverja einustu ferð. Við fór- um ekki úr fötum á leiðinni yfir hafið og sváfum meira að segja einnig með lífbeltin spennt á okkur. Hver maður þurfti að vera við því búinn, að árás yrði gerð, skip hans skotið niður — og þá varð hver að bjarga sér eins og bezt gekk —. Skipalestirnar voru einskonar breiðfylkingar en ekki löng halarófa af skipum, eins og sumir halda. Hliðar- árásir kafbátanna voru algengastar, og þær voru oftast gerðar í ljósaskiptun- um. Allmörg herskip voru með skipa- lestunum, korvettur og tundurspillar, og svo voru jafnan einhver skip, sem gátu haft tvíþekjuflugvélar á dekki. Og öll hafa skipin þó verið vopnuð? Já, einkum með loftvarnarbyssum. Við höfðum sex 20 millimetra byssur á dekki og eina fjögurra þumlunga fall- byssu. Allar voru byssur þessar þannig niður settar, að miðast við vörn en ekki árás. Ur fallbyssunni, sem var aftur á, var t. d. ekki hægt að skjóta nema aftur fyrir skipið og loftvarnarbyssurnar voru að því leyti eins, að það var ekki hægt að skjóta úr þeim nema upp í loftið og aftur. Allt var þetta miðað við varnir. Voru menn þjálfaðir við byssurnar? í hverri einustu ferð voru hafðar skotæfingar um borð og allar byssur notaðar og skotið í mark. Loftvarnar- byssurnar voru erfiðar og við þær þurfti oft að skipta um menn. Skytt- urnar stóðu við byssurnai', bundnir eða studdir sterkri leðuról. En þrettán manns voru við fallbyssuna. Fimmta hver kúla í loftvarnarbyssunum var ljóskúla, sem auðvelt var að fylgjast með og kom það sér vel til að finna skotmarkið. Þegar allur flotinn í hverri skipalest æfði, varð loftið að einu ljós- hafi. Það var svo sem ekki árennilegt fyrir óvinaflugvélar að steypa sér inn í þetta kúlnahaf, enda óttuðumst við þær ekki í líkingu við kafbátana, sem við vorum varnarlausari fyrir. Voru mörg skip skotin niður í þess- um fcrðum? Já, eitthvað af skipum var skotið niður í hverri einustu ferð. Sum skipin sukku strax, ef tundurskeyti hitti þau miðskips eða í vélarrúm. Þannig fór um mörg hergagnaflutningaskip. En sum skipin flulu, jafnvel nokkuð lengi. Herskipin hófu djúpsprengjuárásir um leið og kafbáta varð vart og öll skipin nötruðu stafna á milli. Þetta var ógur- legur gauragangur stundum, og við gátum átt von á því á hverri stundu, að okkar skip yrði næsta fórnarlambið. Ekkert skip mátti nema staðar til að bjarga mönnum, nema það aftasta í lestinni, sem var ætlað það hlutverk. Þegar árás hófst öslaði korvetta milli skipanna, og skip yfirmanns skipalestar innar sigldi þá með svartan oddfána. Þá vissum við hvað til stóð. Sjálfir settum við á fulla ferð, en sigldum í ótal krákustigum, til að erfiðara væri að miða okkur inn. En maður vandist þessu öllu, en þó misjafnlega. Ég hafði alltaf þá trú, að ekki yrði feigum forð- að eða ófeigum í hel komið og þess vegna var ég alltaf nokkuð rólegur. En auðvitað ekki óttalaus með öllu.

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.