Dagur - 03.06.1982, Blaðsíða 4

Dagur - 03.06.1982, Blaðsíða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI RITSTJÓRNARSlMAR: 24166 OG 24167 SlMI AUGLÝSINGADEILDAR OG AFGREIÐSLU: 24222 RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM.: HERMANN SVEINBJÖRNSSON BLAÐAMENN: ÁSKELL ÞÓRISSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: JÓHANNES MIKAELSSON FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT H.F. Nýr bæjarstjórnar- meirihluti á Akureyri Nýr bæjarstjórnarmeirihluti hefur verið mynd- aður á Akureyri. Auk þriggja framsóknar- manna eru í umræddu samstarfi einn fulltrúi Alþýðubandalagsins og tveir fulltrúar Kvennaframboðsins. Þessir aðilar hafa gert með sér málefnasamning, sem birtur er í blað- inu í dag. Þeir hafa einnig kosið Valgerði Bjarnadóttur fyrsta forseta nýrrar bæjar- stjórnar og endurráðið Helga M. Bergs bæjar- stjóra á Akureyri. Vissulega eru það merk tímamót, þegar ný bæjarstjórn tekur við stjórnartaumunum og það er von Dags, að þessi bæjarstjórn megi verða farsæl í starfi, framundan eru erfið verkefni, sem þarf að leysa og til þess þarf samstilltan meirihluta og málefnalegan minnihluta. Það hefur orðið mörgum Akureyringum undrunarefni, að Alþýðuflokkurinn skuli ekki vera í núverandi meirihluta, eftir að hafa tekið þátt í viðræðum um hann og átt þátt í að móta málefnasamninginn. Ástæðan er síður en svo augljós, en það er helst á forystumönnum flokksins að skilja að stóriðjumálin, eða öllu heldur málefni orkufreks iðnaðar, hafi komið í veg fyrir að flokkurinn hafi getað séð sér fært að taka þátt í samstarfinu. En sú skýring er aumt yfirklór. Forystu Alþýðuflokksins var frá upphafi ljóst, raunar áður en viðræður hófust, að um ágreining var að ræða, en samt sem áður tók Freyr Ófeigsson, bæjarfulltrúi Al- þýðuflokksins þátt í viðræðunum. í því tilfelli að stóriðjumálin hefðu verið sá ásteytingar- steinn, sem nú er látið í veðri vaka, hefði Freyr Ófeigsson aldrei ljáð máls á því í upphafi að koma til viðræðna við Framsóknarflokkinn, Kvennaframboðið og Alþýðubandalagið. Þótt Sjálfstæðisflokknum hafi verið í mun að komast í meirihluta, virðist áhugi þeirra og að- gerðir ekki hafa snúist um bæjarmálefni held- ur fyrst og fremst að því að útiloka framsókn- armenn úr væntanlegum meirihluta. Stór hluti af forystuliði Alþýðuflokksins reyndi að hlaupa undir bagga með honum í þeirri til- raun. Framsóknarmenn gátu hins vegar ekki setið aðgerðalausir, né höfðu þeir á því áhuga. Það samrýmist ekki stefnu framsóknarmanna að láta reka á reiðanum. Framtíð nýrrar bæjarstjórnar verður ekki dans á rósum, sífellt verra efnahagsástand helstu viðskiptalanda okkar og blikur á lofti í eigin atvinnumálum gerir það að verkum að gæta verður festu og jafnframt ýtrustu var- kárni við stjórn bæjarfélagsins. Það verður einnig að leggja þunga áherslu á farsæla stjórn atvinnumála, að laða til bæjarins nýjar atvinnugreinar um leið og stutt er við bakið á því sem fyrir er á staðnum. Dagur býður nýja bæjarfulltrúa velkomna til starfa. Áskell Þórisson. 4 -r, DAGUR - 3. jún( 1982 Eitt námskeið ýtir fólki yfir erfiðasta hjallann Á seinni árum hafa verkalýðsfélög lagt æ ríkari áherslu á fræðslustarfsemi af ýmsu tagi. Menningar- og fræðslusamband Alþýðu, MFA, hefur unnið mikinn akur á þeim vettvangi og má í því sambandi minnast félagsmálaskólans í Ölfusborgum. Yerkalýðsfélagið Eining hefur sent fjölda manns á námskeið í Ölfusborgum, en einnig hefur félagið hafið fræðslustarfsemi heima í héraði og ætlar að vinna mikið og vel að þeim málum í framtíðinni. Félagið hefur góða aðstöðu í nýja kjarnahúsinu á Illugastöðum í Fnjóskadal, auk þess sem félagið á hús við Þing- vallastræti á Akureyri. í Einingu eru nú um 3.400 félagsmenn. Fæstir þeirra taka þátt í störfum félagsins, en að sögn Sævars Frímannssonar, sem sæti á í stjóm Einingar, hefur ýmislegt verið reynt til að örfa félagsmenn til starfa, án þess þó að það hafí borið þann árangur er menn óskuðu eftir. „En við ætlum ekki að láta staðar numið,“ sagði Sævar er Dagur ræddi við hann um fræðslumálin og Einingu fyrir skömmu. Ýtir fólki yfir erfiðasta hjallann „Fyrir tveimur vetrum stóð Eining fyrir „Opnu húsi“ þar sem tekin voru fyrir ákveðin málefni hverju sinni, en þetta „Opna hús“ var tvisvar í mán- uði. Stjórnarmenn sátu einnig fyrir svörum. Því miður varð að hætt þessu vegna þess að þátt- taka var ónóg, ástæðan er eflaust of langur vinnutími fé- lagsmanna Einingar. En við höf- um ástæðu til að ætla að þetta breytist smám saman. Eftir ára- mót héldum við félagsmálanám- skeið á Illugastöðum og sóttu það 17 manns, leiðbeinandi var Steinþór Jóhannsson, frá MFA. Viðfangsefni námskeiðsins, sem stóð í þrjá daga, var undirstöð- ustriði í ræðumennsku, félags- og fundarsköp og framsögn. Þetta var fyrsta námskeiðið sem við héldum á Illugastöðum og fyrirhugað er að halda fram- haldsnámskeið í sömu hlutum næsta haust, auk þess sem ætlun- in er að halda nýtt byrjendanám- skeið. Umrætt námskeið gafst mjög vel og það eru engar ýkjur að þátttakendur voru mjög ánægðir með það. Ég var líka var við það á síð- asta félagsfundi í Borgarbíói að það var einmitt þetta fólk sem lét mest á sér kveða í umræðun- um. Eitt svona námskeið ýtir fólki greinilega yfir erfiðasta hjallann." Kjarnahúsið býður upp á marga möguleika „Það er margt á dagskrá hjá Einingu í fræðslumálunum. Næsta haust er ætlunin að halda námskeið fyrir trúnaðarmenn, þar sem rifjað verður upp hver eru þeirra réttindi og skyldur. Við ætluðum reyndar að halda svona námskeið í vor, en það varð að fella það niður. Auk þess sem Eining verður með um- rætt félagsmálanámskeið er ætlunin að halda námskeið með fólki í stjórnum deilda og starfs- Sævar Frímannsson. fólki félagsins. Þar verður tekin fyrir stjórnun stéttarfélagá, sem er námskeið sem MFA hefur undirbúið. Já, kjarnahúsið á Illugastöð- um býður upp á marga mögu- leika. Það er ákaflega hentugt til að halda í því alls konar nám- skeið, fundi o.þ.h. auk þess sem það mun þjóna orlofshúsunum vel í náinni framtíð. Það verður vel af tækjum búið þegar fram líða Stundir, en á aðalfundi rekstrarrélags orlofsbúðanna kom fram einiægur vilji fundar- manna að félögin gæfu ýmsa hluti í húsið. Þar á meðal var rætt um hljómflutningstæki, há- talarakerfi, videótæki og ýmis- legt fleira. Það er búið að kjósa nýja fræðslunefnd sem hefur á borð- inu áætlun sem hún mun vinna eftir, og hún hefur í hyggju að auka til muna nýtinguna á kjarnahúsinu á Illugastöðum og fá fleiri félagsmenn til starfa. Það er erfitt fyrir Einingu að fara út á vinnustaðina með fræðsluefni, vegna þess að það er takmarkað í samningum hve miklu af vinnutímanum starfs- fólk má verja til starfa á vegum Einingar. Við verðum því að treysta á hinn almenna félags- mann, að hann sýni fræðslustarf- inu áhuga, að hann komi á fundi, að hann komi á nám- skeiðin og að hann yfirleitt styðji við bakið á félaginu sínu á einn eða annan hátt. Aðeins með því móti getur verkalýðsfélag staðið undir nafni að félagsmennirnir hafi áhuga á því og komi til starfa.“ Jóhann Þorvaldsson fyrrverandi skólastjóri: Skarðsdalsland, unaðs- reitur Slglfirðinga Um 30 ára skeið hefur Skógrækt- arfélag Siglufjarðar unnið að því að koma upp trjáreit í hluta af Skarðsdalslandi. Þetta á að verða, og verður, unaðsreitur Siglfirð- inga um ókomin ár. Einn merkasti þáttur í þessu starfi er unglingavinnan. Þessi unglingavinna á vegum félagsins hefur nú farið fram um 25-30 ára skeið, meira og minna á hverju sumri. Fyrst sem sjálfboðavinna, með lítilli greiðslu til ungmenn- anna frá félaginu sjálfu, en síð- ustu árin sem unglingavinna á vegum bæjarins. Á þessum árum hafa hátt á annað hundrað sigl- firsk ungmenni, aðallega á aldrin- um 11-15 ára, tekið þátt í þessu starfi, allt frá fáum dögum til margra vikna. Þessi vinna hefur aðallega verið gróðursetning trjáplantna og umhirða auk grisj- unar og viðhalds girðingar. T.d. hafa ungmennin gróðursett mest- an hluta trjáplantna í Skarðdals- girðingu, um 80000 trjáplöntur. Þarna hafa uppvaxandi Siglfirð- ingar lagt fram nytsama, fegrandi, mannbætandi vinnu um leið og þeir hafa lært að gróðursetja trjá- plöntur og hlú að gróðri og um leið átt hlut að því sjálf að skapa unaðsreit og fegurð fyrir Siglfirð- inga. Þetta er því unglingavinna sem ekki má falla niður. Auk þessa hefur sú staðreynd, að siglfirsk æska á stóran hlut að gróðursetn- ingu trjáplantna í skógræktar- landið á Siglufirði, vakið verð- skuldaða athygli utan Siglufjarð- ar. Á starfsskýrslu Skógræktarfé- lags Siglufjarðar fyrir 1981 kemur fram að af 88 dagsverkum er ung- lingavinnan 55 dagsverk. Víst eru erfiðleikar framundan, en þeir mega ekki smækka okkur. Þeir mega ekki fækka plöntunum. Þeir mega ekki bitna á vinnu æsk- unnar, gróðursetningu og um- hirðu um allan lifandi gróður. Slíkt eru mannbætandi störf og fegrandi fyrir Siglufjörð.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.