Dagur - 25.06.1982, Blaðsíða 7
býli og aldrei komið nálægt
búskap, að flytja út í sveit og
gerast bóndi?
- Ég hef ekki haft tíma til að
hugleiða það, það hefur verið
svo mikið að gera hjá okkur síð-
an við byrjuðum. Það ætti nú að
fara að hægjast um hjá okkur,
eftir þrjú ár jafn annasöm til við-
bótar. Þá getur maður e.t.v. sest
niður og hugleitt þetta. Búskap-
ur er náttúrulega ekki eitthvað,
sem maður lærir af sjálfum sér
eða tileinkar sér áreynslulaust.
Ég hef reynt að afla mér þekk-
ingar á margvíslegan hátt. Ég
gerðist strax áskrifandi að bún-
aðarblaðinu Frey, Hestinum
okkar og Eiðfaxa og les þau
samviskusamlega. Þá las ég
Búfjárfræði Gunnars Bjarna-
sonar mér til mikils gagns, auk
þess sem ég leita á náðir ná-
granna minna, þegar einhver
vandamál koma upp í búskapn-
um. Ég á hér ágætis nágranna,
sem hafa hjálpað mér mikið.
Það varð náttúrulega óskap-
leg breyting á lífsháttum okkar,
þegar við fluttumst hingað. Hér
velur maður sér ekki vini úr stór-
um hópi og er ekki umkringdur
fjölskyldunni eins og í Reykja-
vík. Náttúrulega saknar maður
vina sinna þaðan og þá sérstak-
lega fjölskyldunnar. Það getur
verið einmanalegt hér á veturna,
þó svo að þjóðvegur númer 1
liggi um hlaðið þá er umferðin
sáralítil á vetrum. En á sumrin
er afar gestkvæmt hjá okkur og
nær daglega heimsóknir. Hér er
líka ágætt félagslíf og í Varma-
hlíð eru oft mannfagnaðir á
vetrum. Svo gæti ég best trúað,
að við sæktum betur leikhúsin í
Reykjavík nú, en þegar við
bjuggum þar. Manni finnst
maður endilega þurfa að not-
færa sér tækifærið, þegar maður
fer til Reykjavíkur og innbyrða
eins mikið menningarefni og
maður getur. Bíóferða sakna ég
ekki enda þær bíómyndir, sem
sýndar eru í Reykjavík, fæstar
merkilegar. Ég neita því ekki,
að það togast á í manni söknuð-
ur og feginleiki yfir því að vera
laus úr borginni. Maður saknar
samfélags við ákveðinn hóp af
fólki en í staðinn hefur manni
hlotnast ómetanleg hlunnindi
eins og t.d. það að geta gengið
hérna niður á grundina og unnið
að hugðarefnum sínum í róleg-
heitum. Það eru sárafáir jarðar-
búar, sem ráða yfir öðru eins
konungsríki og íslenskri meðal-
jörð. Það eru gríðarleg forrétt-
indi. En því miður skyggir það á
gleði manns við það að kappala
sauðféð að vita að með því er
maður að skapa vandamál vegna
offramleiðslu.
Draugar
- Þú hefur ekki orðið var við
Miklabæjar-Solveigu eða séra
Odd hér afturgenginn?
m
U%JL
- Nei,þaðhefégekki,enþað
er klárt, að þessi gamla harm-
saga um.Solveigu, sem fyrirfór
sér og átti síðan að hafa dregið
séra Odd með sér í dysina utan
kirkjugarðs, hefur haft mikil
áhrif á þá, sem búið hafa á staðn-
um næstu kynslóðir. Jarðneskar
leifar Solveigar hafa nú fengið
leg í vígðri mold í Glaum-
bæjarkirkjugarði og það kom í
ljós, þegar þær voru grafnar
upp, að hún lá þar ein.
Yfir 100% kirkjusókn
- Kirkjusókn manna hér í
prestakallinu er mjög góð. í
Silfrastaðakirkju er hún t.d. 80-
90% og fer stundum yfir 100%.
Ætli ég messi ekki svona 30-40
sinnum á ári bæði í kirkjum og á
samkomum. Ég hef reynt að
koma upp þeim sið að halda
reglulega sameiginlegar messur
fyrir allar sóknirnar hér í Mikla-
bæjarkirkju jafnhliða því sem ég
messa á annexíum, en fólk er
tregt að fara út úr sínum sóknum
til messu, sem kannski er eðli-
legt. Það gefur auga leið, að
prestur í svona fámennu presta-
kalli eins og þessu nær mun bet-
ur til sinna sóknarbarna en þar
sem sóknarbörnin eru fleiri eins
og í Reykjavík. Áður en ég
messa, sendi ég út fjölritað
messuboð, þar sem dagskrá
messunnar er kynnt eins og
venjulegt fundarboð. Stundum
eru dreifibréfin myndskreytt.
Það er mikið starf að vera
prestur.
- Finnst þér að breyta mætti
messuforminu eða starfsemi
kirkjunnar á annan hátt, þannig
að hún höfði frekar til fólks?
- Að mínu áliti má bjóða upp
á fleiri messuform. Mér finnst
þó eðlilegra, að slík tilrauna-
starfsemi fari fram í kaupstöð-
.unum. Það er e.t.v. allt of lítið
gert af því að leita nýrra leiða og
sjálfur er ég ekki með neina pat-
ent lausn á reiðum höndum. Hér
fyrir nokkrum árum var bryddað
upp á poppmessuforminu, en ég
held, að það hafi verið of stórt
stökk og hafi því ekki haft tilætl-
uð áhrif. Það er náttúrulega vís-
bending um tengslaleysi kirkj-
unnar við fólkið, þegar ástandið
er eins og sums staðar á SV-
horninu, að með naumindum er
hægt að reyta 100 manns til
messu á sunnudögum úr tugþús-
und manna sóknum.
Tæknivæðingin er langt
á eftir siðvæðingunni
- Getur ekki verið, að kirkjan
hafi einangrast og þurfi að taka
meiri þátt í þjóðmálaumræðu og
taka afstöðu betur en hún gerir,
t.d. með friðarhreyfingum
o.þ.h.?
- Kirkjan er mjög virk í bar-
áttunni fyrir friði og er t.d. leið-
andi afl í friðarhreyfingunum.
Innan kirkjunnar hafa alla tíð
verið góðir menn, sem mikið
hafa látið til sín taka í friðarbar-
áttu. Ég er mjög hrifinn af þeirri
viðleitni, sem fram kemur í
starfi íslensku kirkjunnar upp á
síðkastið, og sést t.a.m. í kirkju-
ritinu, þar sem leitast er við að
virkja hinn almenna borgara í
baráttunni fyrir friði. í stríðum
eins og á Falklandseyjum, E1
Salvador eða Afganistan getur
kirkjan ekki tekið afstöðu með
öðrum aðilanum, heldur aðeins
fordæmt ástandið í landinu. Við
getum ekki treyst þeim upplýs-
ingum, sem við fáum í gegn um
fjölmiðla og myndað okkur
skoðanir eftir þeim. Kirkjunnar
menn í Bandaríkjunum voru
t.d. í fremstu víglínu í andstöð-
unni við þátttöku Bandaríkja-
manna í Víetnam-stríðinu.
Þannig að kirkjan getur tekið af-
stöðu.
Einangrun kirkjunnar hefur
verið rædd af kirkjunnar mönn-
um og hvað það sé, sem valdi
henni. Nú á tímum ríkir mikil
and-kristin veraldarhyggja og
það þjóðfélag, sem við búum f,
er byggt upp af óskaplegri efnis-
hyggju, þannig að það er orðið
óeðlilegt að huga að kristindóm-
inum. Burtséð frá guðdóminum
þá vitum við hve tæknin er orðin
skelfilega and-manneskjuleg og
ógnar lífríki jarðarinnar. Þessi
síaukna neysla og áframhald-
andi stöðugur hagvöxtur og
krafa um sífellt betri og betri
lífsskilyrði (eða kannski verri og
verri), gerir það að verkum, að
boðskapurinn um frið á jörðu,
kærleika og eðlilegt samhengi
náttúrunnar hefur ekki
hljómgrunn. Mannskepnan hef-
ur til skamms tíma haft svo
mikla tröllatrú á eigin getu til að
leysa öll sín vandamál, en er nú
að sjá það, að tæknivæðingin er
svo langt á eftir siðvæðingu
hennar, tilliti til umhverfisins og
náttúrunnar.
Uppeldi er innræting
- Þeir sem leitt hafa almenning
inn í þessar ógöngur neyslu og
lífsgæðakapphlaups hafa notað
til þess ákveðnar aðferðir, þ.e.
áróður og innrætingu. Verður
ekki sá, sem vill berjast gegn
þessu t.d. kirkjan að beita sömu
aðferðum?
- Jú, það hefur lengi verið
feimnismál hjá kirkjunnar
mönnum, að trú og trúarinnræt-
ing sé áróður. Allt uppeldi er
innræting. Hlutleysi er ekki til í
uppeldi. Þegar menn láta ekki
skíra börnin sín undir því yfir-
skyni, að þeir vilji ekki innræta
þeim trú, þá eru menn samt sem
áður að innræta, bara það gagn-
stæða. Það hefur aldrei verið
hægt og mun aldrei verða hægt
að beita hlutleysi í uppeldi.
Kirkjan verður að vera á verði
og koma inn sinni skoðun á sem
fljótvirkastan hátt og beita til
þess öllum heiðarlegum ráðum.
Hún verður að nota þær leiðir,
sem ná til fólks, s.s. blöð og
kvikmyndir. Það veitir t.d. ekk-
ert af einhverju kristilegu efni í
sjónvarp. Sýna þyrfti kvikmynd-
ir með kristilegri innrætingu.
Þær þurfa ekki að enda í þessu
klassíska bandaríska „Happy
ending", það er ekki raunveru-
leikinn. Það þarf að búa til kvik-
myndir, þar sem ekki er verið að
hossa ljótleikanum og drepa
menn með stuttu millibili. Það
þýðir ekkert að bjóða fólki upp á
fræðslumyndir um trúarleg efni.
Innrætinguna verður að flétta
inn í afþreyingarefnið. Ein slík
kvikmynd held ég að hefði meiri
áhrif en einn sunnudagsmorg-
unn í kirkju.
mmmKmmmnmmmmmmmmmmmmm
25. júní 1982 - DAGUR - 7