Dagur - 12.02.1986, Blaðsíða 8

Dagur - 12.02.1986, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 12. febrúar 1986 „Ég man eftir því hvað mér þótti leiðinlegt þegar ég var minni, þcgar litlir krakkar horfðu á mig og spurðu af hverju ég hefði svona litlar hendur,“ sagði Sigurrós Karls- dóttir, en Sigurrós hefur verið fötluð frá fæðingu. Handleggir hennar eru ekki lengri en sem svarar upphandlegg frá oln- boga á eðlilega sköpuðum manni. A vinstri hendi er líkt og olnbogaliður og einn fíngur sem er virkur. Auk þess eru tveir fíngur samvaxnir og þá getur hún notað sem grip á móti virka fíngrinum. Hægri hendin kemur Sigurrósu að betra gagni. Þar hefur hún þrjá virka fíngur og liðugan úinlið, en stífan olnboga. Sigurrós er tuttugu og eins árs gömul og vinnur í útibúi Kaupfé- lags Eyfirðinga við Höfðahlíð. Sigurrós hefur tekið mikinn þátt í íþróttum á vegum íþróttafélags fatlaðra og árið 1980 vann hún gullverðlaun á Olympíuleikum fatlaðra sem haldnir voru í Hol- landi. Meira um það síðar. Við byrjum á skólanum. „Strákunum fannnst voðalega gaman að hrekkja mig og ég kom oft grenjandi heim. En þetta var aðallega í barnaskóla, þegar ég var komin í efri bekki grunnskól- ans þá var þetta búið. Ég kláraði níunda bekkinn og fór árið á eftir í fornám. Ég hef hug á að fara í frekara nám síðar. Á sumrin meðan ég var í skóla hafði ég unnið í Brauðgerð KEA, en spurði hvort ég gæti fengið vinnu í kjörbúð. Ég fékk alltaf neikvæð svör, var sagt að bíða og sjá til og einu sinni var fullyrt að ég gæti ekki unnið í kjörbúð. Ég veit ekki hvers vegna. Þegar ég hafði beðið eftir svari ansi lengi þá skarst Valur Arnþórsson í leikinn, en hann hafði verið nágranni minn þegar ég var lítil. Þau hjónin hafa reynst mér afskaplega vel og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að reyna þetta. Það þýðir ekki að útiloka okkur alveg frá vinnumarkaðinum, þó við séum ekki eins og allir aðrir. Við verðum að fá tækifæri til að reyna okkur, það á ekki að dæma okk- ur óhæf fyrirfram. Það kemst enginn neitt áfrarn í lífinu nema hann fái.tækifæri á að reyna sig.“ Eins og áður sagði vann Sigur- rós til gullverðlauna á Olympíu- leikum fatlaðra sem haldnir voru í Hollandi árið 1980. Sigurrós keppti í 50 metra bringusundi og fékk tímann 1:06,99. Við báðum hana að rifja þetta upp. „Þetta var heilmikið ævintýri. Eitthvert það mesta sem ég hef upplifað. Þetta var mjög fallegur staður og ég vildi gjarnan koma þar aftur og skoða mig um, því auðvitað fór mestur tíminn í að keppa og fylgjast með hinum þátttakendunum." - Tilfinningin að standa á verðlaunapallinum með gullverð- laun? „Ég var alveg í skýjunum, leið alveg ofsalega vel. Ég átti alls ekki von á að fá verðlaun á svona stóru móti. Það kom mér á óvart. Hvað éj> var að hugsa þegar ég synti? Uff, ég man það ekki. Jú, ég vildi gera mitt besta og mig langaði að verða fyrst. Ætli ég hafi ekki verið að hugsa um það.“ - Heimkoman? „Hún var eftirminnileg. Mjög eftirminnileg. Það var tekið á móti okkur á Keflavíkurflugvelli og þar var mér færður blómvönd- ur. Síðan var farið niður í Hátún en þar hafa fatlaðir í Reykjavík aðstöðu og þar var haldið hóf. Ég held ég hafi verið hálf utan við mig, þessar hlýju móttökur komu svo á óvart. En ég var mjög ánægð. Þetta var virkilega skemmtilegt allt saman.“ Sigurrós Karlsdóttir ■ Mözdunni sinni: „Það var vafamál hvort ég fengi að taka bílpróf, það vafðist dálítið fyrir mönnum, en gekk að lokum.“ Myndir: - KGA. Þýðir ekki að vera hræddur við allt - segir Sigurrós Karlsdóttir, sem hefur verið fötluð frá fæðingu en lætur það ekki aftra sér að lifa eðlilegu lífi Hjá íþróttafélagi fatlaðra fer fram öflug starfsemi og tekur Sig- urrós virkan þátt í henni. Hún gekk í félagið árið 1979. Fyrst í stað æfði hún aðallega sund, en núorðið er hún mest í borðtennis og boccia, þó svo hún hafi ekki lagt sundið alveg á hilluna. „Það breytti á vissan hátt lífi mínu, þegar ég gekk í félagið. Þetta er mjög jákvæður félags- skapur og þangað er hægt að sækja mikinn styrk. Einu sinni hélt ég að þetta líf gæti aldrei orðið skemmtilegt. Þetta væri heimur fyrir hina, ekki mig. Ég myndi bara vera heima og aldrei gera neitt. En auðvitað gengur það ekki til lengdar, maður verð- ur sjálfur að vera jákvæður og gera eitthvað. Það þýðir ekkert að vera bara heima hjá sér og þora ekki út af því maður er ekki eins og hinir. Mig langar að nota tækifærið og hvetja alla sem þannig er ástatt fyrir að koma upp á Bjarg og taka þátt í félagsstarfi okkar. Það eru margir feimnir við að koma í fyrsta skipti, halda kannski að þeir falli ekki inn í hópin. Ég var þannig sjálf. Hélt ég ætti ekki heima þarna. En það er hugarfarið sem mestu máli skiptir. Þarna er mikið af fólki á öllum aldri, skemmtilegur hópur og allir ungir í anda. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í þessu „Einu sinni hélt ég að þetta líf gæti aldrei orðið skemmtilegt. Þetta væri heimur fyrir hina, ekki mig.“ Sigurrós í vinnunni í kjörbúð KEA við Höfða- hlíð. starfi. Og það hefur hjálpað mér mikið. Við erum með margvís- lega félagsstarfsemi, það eru spilakvöld á hverju fimmtudags- kvöldi og bráðlega verður haldin árshátíð.“ - Taka fatlaðir ekki nógu mik- inn þátt í félagsstarfi ykkar? „Það er eitthvað af fólki sem ekki kemur t.d. á æfingar, af ein- hverjum ástæðum. Hvort sem það er feimni eða annað. En við höfum sýnt að við eigum alla möguleika til að stunda íþróttir eins og aðrir, þó aðferðirnar séu stundum ólíkar og árangurinn ekki sambærilegur.“ - Þú ert með bílpróf, var ekk- ert mál að taka það? „Jú, það var til að byrja með vafamál hvort ég fengi að taka prófið. Ég þurfti að sækja um sérstaklega og þetta vafðist dálít- ið fyrir ráðamönnum, en ég fékk að taka prófið. Ég var búin að safna peningum og var búin að kaupa mér Mözdu 626 þegar ég fór í prófið. Bíllinn er sjálf- skiptur oj> ég tók bílprófið mitt á hann. Eg hef bara próf á sjálf- skiptan bfl,“ - Varstu ekkert hrædd við að taka bílpróf? „Nei. Það þýðir ekkert að vera hræddur við allt. Halda að maður geti ekkert. Það er um að gera að reyna að efla sjálfstraustið, fara út og gera hlutina." - Þú ferð í Sjallann. Er eitt- hvað um að fólk svífi að þér og . vilji ræða við þig um fötlun þína? „Nei, það er ekki mikið um það. Ég verð aldrei fyrir neinu aðkasti. Flestir hafa séð mig áður. Og ég held að fordómar séu á undanhaldi. Ef við erum eðlileg og komum bara til dyr- anna eins og við erum klædd þá minnkar líka feimni fólks gagn- vart okkur. Við þurfum ekki á neinni vorkunn að halda. En það þarf að gefa okkur fleiri tækifæri á að spreyta okkur á margvísleg- um verkefnum. Auðvitað verð ég vör við að fólk horfir dálítið á mig, eða gerði það að minnsta kosti. Fólk hér á Ákureyri er orðið vant mér. Ég get sagt þér litla sögu, það gerðist um daginn að það kom maður að versla í búðinni. Ég var á kassanum og maðurinn var eitt- hvað efins um hvort hann ætti að þora að láta mig afgreiða sig. Hleypti svo í sig kjarki og kom að kassanum. „Heyrðu vinan,“ sagði hann við mig, „fæddistu svona?“ Ég sagði honum það. „Er þetta ekki erfitt?“ Nei, ég sagði þetta væri ekki nokkur vandi, ég lifði fullkomlega eðli- legu lífi, keyrði bíl og gerði yfir- leitt allt sem aðrir gera. Maður- inn var alveg steinhissa." - Hvenær uppgötvaðir þú fötl- un þína, að þú varst ekki eins og allir hinir? „Ætli ég hafi ekki verið svona fimm ára. Annars kom þetta bara smátt og smátt, að ég sá að ég var ekki með alveg eins hendur og hinir krakkarnir sem ég lék mér við. Jú, auðvitað var það dálítið erfitt til að byrja með, en ég er búin að sætta mig alveg full- komlega við þetta. Þessu verður ekkert breytt.og mér hefur lærst að sætta mig við þetta hlutskipti. Það er um að gera að taka þátt í lífinu, reyna að gera sitt besta, vera jákvæður og gera eitthvað skemmtilegt." - Að lokum. Hvað með fram- tíðina? „Mig langar til að ferðast meira, skoða heiminn. Svo ætla ég að fara í skóla og læra, mest langar mig að verða fóstra. Ég vil ekki vinna í kjörbúð alla mína ævi.“ -mþþ

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.