Dagur - 08.10.1987, Blaðsíða 7

Dagur - 08.10.1987, Blaðsíða 7
8. október 1987 - DAGUR - 7 Halldór Ásgrímsson sj ávarútvegsráðherra íviðtalium mótun nýrrar fiskveiðistefnu rækjuveiðarnar eru áhættusamari en aðrar veiðar og þar getur hrun orðið nokkuð fyrirvaralítið.“ Akvarðanir til of skamms tíma „Þetta er því allt annað en einfalt en í þessu eins og svo mörgu öðru gildir að vita eitthvað um framtíðina. Núna eru menn í óvissu og vita ekkert hvað á að taka við. Þeir hafa verið að fjárfesta án þess að fiskveiðastefna hafi ver- ið mörkuð nema til eins eða tveggja ára í senn. Þessi óvissa hefur kostað of mikið og þess vegna viljum við stefna að því að ákvarðanir verði teknar til lengri tíma.“ - Til hversu langs tíma? „Ákvarðanir í þessum málum hafa alltaf verið teknar til of skamms tíma. Pað hefur verið eitt aðalvandamálið að við höfum ekki getað svarað spurningum fólks um það hvað koma skuli. Þetta hefur orðið til þess að mönnum hefur fundist ákvarðanir koma í bakið á þeim. Fjögur ár eru talin heppilegur líftími ríkisstjórna og þingmeirihluta og því skyldi það ekki vera heppilegur líftími skipulags þess sem við byggjum okkar þjóðfélag á. Ég er þeirrar skoðunar að stefnan eigi að vera mörkuð til að minnsta kosti fjögurra ára og að nokkru áður en sá tími sé liðinn verði næsta skref ákveðið. Það kerfi sem nú festist í sessi mun að mínu mati gilda til frambúðar í öllum meginatriðum. Ég tel þetta því vera tímamótastefnumörkun sem nú er unnið að.“ Veiðiheimildir áfram hjá skipunum - Nú hefur mikið verið rætt um þann möguleika að út- hluta veiðiheimildum að einhverju leyti til vinnslustöðva í landi. Mest hefur þetta verið rætt með rækjuveiðarnar vegna þess að þar eru minni tengsl milli veiða og vinnslu en í botnfiskveiðum. Hver er þín skoðun á þessu? „Það er út af fyrir sig margt sem mælir með því að vinnsluaðilar hafi þarna hönd í bagga. Ég tel hins vegar að þarna eigum við að halda okkur við skipin. Þau eru veiðitækin og ég held að það yrði mun flóknara að út- hluta veiðiheimildum til vinnslustöðva. Þetta myndi ef til vill leysa einhver vandamál en ég held að það myndi skapa fleiri vandamál. í fyrsta lagi yrði mikill ófriður hjá útgerðarmönnum og sjómönnum." Ef við fáum að bora í Norðursjónum - Tengsl milli fiskveiðistefnu og utanríkisstefnu hafa nokkuð komið til umræðu að undanförnu. Tvö atriði hafa þar einkum verið nefnd, annars vegar skipti á fisk- veiðiheimildum við önnur lönd og hins vegar það hvort við eigum að láta ríkjum Efnahagsbandalagsins eftir slík- ar heimildir gegn því að þau aflétti þeim tollareglum sem gilda um innflutning á unnum fiski. Hver er þín skoðun á þessum málum? „Við höfum átt í mikum erfiðleikum í samskiptum okkar við Efnahagsbandalagið vegna þess að það hefur haft þá stefnu að blanda eigi saman markaðsmálum og fiskveiðiheimildum. Það hafa ýmsar aðrar þjóðir rekið svipaða stefnu og má nefna Bandaríkjamenn og Kanada- menn sem nú hafa breytt um stefnu. Við höfum lagt á það áherslu í viðræðum okkar við þessi lönd að þessi stefna muni aldrei ganga á íslandi og það sé ekki um neina samkomulagsleið að ræða. Viðræður um fiskveiðar verða að vera úr öllum tengslum við viðskipti íslands og EBE. Það má vera að þjóðir þar sem fiskveiðar eru einhver lítill hluti af þjóðarbúskapnum geti leyft sér svona stefnu en ekki land eins og ísland. Ég hef stundum nefnt það þegar ég hef rætt við for- ráðamenn EBE að okkur detti það ekki í hug þegar við erum að ræða olíuviðskipti við Breta að segja: „Við skul- um kaupa af ykkur olíu ef við fáum að bora svolítið í Norðursjónum." Þeir segja að þetta sé ekki sambærilegt en hver er munurinn á auðlind sem er undir hafsbotni eða sem syndir í sjónum. Ég held að mönnum sé farið að skiljast þetta sjónarmið." Nágrannaþjóðirnar eiga að hafa forgang „Ég tel skynsamlegt af okkar hálfu að hafa aðgang að fiskistofnum þjóða beggja vegna við okkur og þá séum við til viðræðu um það þegar vel stendur á hjá okkur að láta eitthvað í staðinn." - Hvað getum við látið í staðinn? „Við getum ekkert látið í staðinn eins og er því við fullnýtum alla okkar fiskistofna. Hins vegar binda menn við það vonir að hér komi upp miklar síldveiðar, sterkur kolmunnastofn og fleira. Þetta eru afar viðkvæm mál. En maður spyr sjálfan sig að því hvar við myndum standa ef það kæmi upp hér sem Grænlendingar stóðu frammi fyrir, að þorskstofninn hrundi. Mér finnst sjálfsagt að hugsa til þess hvernig við getum byggt upp samstarf um nýtingu þeirra stofna sem sterkastir eru hverju sinni hjá viðkomandi löndum." - En nú hefur samstarf okkar, til að mynda við Græn- lendinga um nýtingu á sameiginlegum loðnustofni gengið illa. „Ég vil alls ekki að við séum að sækja á Grænlendinga á nokkurn hátt. Þeir eiga í erfiðleikum í uppbyggingu á sínu efnahagslífi. Ég tel hins vegar að þar séu mjög slæm- ir hlutir að gerast sem hægt væri að koma í veg fyrir með nánara samstarfi. Mér finnst til að mynda afar slæmt að vita til þess að japönsk fiskiskip séu farin að nýta karfa- stofninn við Grænland. Það er mín skoðun að þegar ein þessara þjóða sem hér eru ræður ekki við að nýta ein- hvern stofn þá eigi nágrannaþjóðirnar að hafa forgang. Það er hins vegar erfitt að búa við það þegar menn eru að reyna að opna nýja umræðu um nánara samstarf milli þjóða um fiskveiðimál og nýtingu hafsins, að þá skuli menn spretta upp og tala um þjóðhættulega umræðu. Við verðum að vera menn til að skoða þétta í réttu ljósi.“ Fjárfestingar erlendis - Finnst þér koma til greina að íslendingar reyni í aukn- um mæli að fjárfesta í fiskveiðum og vinnslu í öðrum löndum? „Við erum fiskveiðiþjóð og við getum eins og frændur okkar Færeyingar stundað veiðar annars staðar í heimin- um. Við heyrum iðulega af erlendum fyrirtækjum sem vilja fjárfesta í íslenskum iðnaði og því skyldum við ekki gera hið sama á okkar sérsviði. Það eru hér í gangi fjár- festingar í skipum sem ég tel að væri betur varið annars staðar að ekki sé talað um fjárfestingu í verslunarhús- næði. Ég er ekki að tala um að við getum endilega gert ein- hverja stórkostlega hluti á erlendri grund heldur að við höfum augun opin. Þegar menn hófu hér umræðu um sjávarútvegssýningu á Islandi þá var kreppa ríkjandi í íslenskum sjávarútvegi. Menn höfðu mismikla trú á því sem reynt var að gera til að fá hjólin til að snúast en það starf er nú að skila árangri.“ Menn skyldu varast að gera slíka samninga - „Smábátasprengingin" svokallaða hefur mjög verið til umræðu og sá dans sem farinn er kringum mælingarregl- ur smábáta. Á hvern hátt mun ný fiskveiðistefna taka á þessu máli að þínu mati? „Ég hef alltaf verið þeirra skoðunar að það þurfi að vera sambærilegt aðhald hjá smábátum og öðrum fiskiskipum sem rekin eru í atvinnuskyni. Um þetta fór fram mjög erfið umræða á sínum tíma og ég var talinn mjög íhaldssamur í þeim efnum og sú skoðun mín að vilja ákveðnari stjórnun á smábátana var talin of harka- leg. Það má segja að sú stjórnun hafi að nokkru ieyti ver- ið brotin niður með því að hafa endurnýjun þessara báta frjálsa og „frjálslegar" reglur um mælingar. Það er ekki hægt að stjórna veiðum ellefu tonna báts nákvæmlega en hafa níu tonna bát á einhverju allt öðru róli. Það verður erfitt að vinda ofan af þessu vandamáli en hjá því verður ekki komist. Þeir sem hafa verið að fjár- festa í skipum sem eiga að heita 9,9 tonn en eru eitthvað allt annað, hafa tekið mikla áhættu. Þeir gátu aldrei reiknað með því að fá að vera óáreittir. Menn skyldu varast að gera samninga um slíka báta núna.“ - Hvað er til ráða? „Einhvers staðar verður að draga mörkin um það hvaða báta skuli taka inn í stjórnunina og eftir því sem þau verða neðar þeim mun líklegra er að við ráðist. Ég hef viðrað það að bátar undir ákveðnum mörkum fái ekki að stunda netaveiðar en séu frjálsir í veiðum á línu og færi. Þessum bátum á þó að mínu mati að gefast kost- ur á að hefja netaveiðar en lúta þá sömu reglum og stærri bátar.“ Fólkið þarf að hafa tryggingu - Eru einhverjar breytingar væntanlegar á svæðaskipt- ingu þeirri sem gilt hefur við stjórnun fiskveiðanna? „Fyrst og fremst hefur verið rætt um það að taka fleiri fisktegundir inn í þetta og þá fyrst og fremst karfann. Uppistaðan í afla sunnanskipanna hefur verið karfi í stað þorsks og £að hefur verið komið til móts við þeirra skoðanir. Ég er því þeirrar skoðunar að við eigum að halda þessu kerfi en setja hámark á veiðar karfa og hefta sókn norðanskipanna í hann.“ - Hvað um reglur um framsalsrétt á aflakvótum? „Við höfum leitað umsagna sjómannafélaga og sveit- arstjórna og ég tel að það hafi gefist vel. Fólkið í byggð- arlögunum þarf að hafa tryggingu fyrir því að vinna flytj- ist ekki í burtu svona umyrðalaust. Fólk er að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og þá má ekki vera tilviljunum háð hve- nær einhverjum dettur í hug að flytja lífsbjörg þessa fólks í burtu. Ég er ekki að segja að það megi ekki koma fyrir að kvótar flytjist á milli byggðárlaga enda gengur slíkt í báð- ar áttir. Það þarf hins vegar að eiga sér stað umræða og við þurfum að hugsa sem ein þjóð í einu landi.“ - Hvernig telur þú að muni ganga að ná samkomulagi innan stjórnarinar um þær hugmyndir sem þú hefur um stjórnun fiskveiðanna? „Þetta eru mínar persónulegu hugmyndir og hugsanir án þess að ég telji að þær eigi að vera hin endanlega niðurstaða. Það er hins vegar mín ábyrgð innan ríkis- stjórnarinnar að hafa forystu um það að koma á skynsamlejgri stjórnun fiskveiða og það gerist að sjálf- sögðu ekki á annan hátt en þann að við hér í ráðuneytinu viðrum einhverjar huemvndir sem síðan eru ræddar fram og aftur. Það mun fyrst og fremst reyna á það hvort við náum samstöðu milli aðila í sjávarútvegi og innan þings og ég sé ekki að menn eigi annarra kosta völ en að komast áð samkomulagi." ET i

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.