Dagur - 18.04.1988, Side 15
18. apríl 1988 - DAGUR - 15
n Minning:
TPálína Jónasdóttir
fædd 10. október 1891 - dáin 8. apríl 1988
Deyr fé deyja frændur
deyr sjálfur hið sama
en orðstír deyr aldregi
hveim er sérgóðan getur.
Mig langar í örfáum orðum að
minnast frænku minnar, Pálu, er
nú er til' hinstu hvílu borin.
Fyrstu mánuði lífs míns annaðist
Pála mig og bar mig á höndum
sér. Mamma hefur sagt mér, að
Pála hafi boðið fram krafta sína
strax og ég fæddist og aldeilis
reynst sér vel. Hún vaknaði eld-
snemma á morgnana til að
strauja bleiur og barnaföt og
tímunum saman sat hún með mig
og söng hverja vögguvísuna eftir
aðra. Alltaf bar hún sérstaka
umhyggju fyrir mér og eru ófáir
sokkarnir og vettlingarnir sem
hún prjónaði fyrir mig er ég var
lítil. Eftir að ég eltist hafði hún
ánægju af að fylgjast með mér og
vita hvernig mér gengi í skólan-
um. Ég veit að hún hafði gaman
af, er ég skrifaði henni bréf og
sagði henni frá einkunnum
mínum. Ég hef ekki kynnst konu
sem oröin var þetta gömul, sem
fylgdist eins vel með og lét sér
meira annt um hagi annarra. Pála
var yndisleg kona lítil og nett og
frá henni geislaði, hún hafði
fallega húð og sást varla hrukka á
andlití hennar, enda var henni
gefið í vöggugjöf alveg einstak-
lega gott skap og jákvæðni. Hún
vildi hverjum manni vel og alltaf
var hún tilbúin að rétta öðrum
hjálparhönd. Hún hafði í einu
orði sagt stórt hjarta. Ég vildi
óska að við hefðum búið nær
hvor annarri þannig að við hefð-
um hist oftar.
Ég bið góðan Guð að eitthvað
af kostum Pálu minnar eigi eftir
að prýða mig á mínum lífsferli og
þá veit ég, að mér á eftir að farn-
ast vel í þessu lífi.
Ég þakka Pálu frænku minni
fyrir allt gott í minn garð og
mamma mín og Árni þakka einnig
fyrir ánægjulegar stundir.
Pála var einlæg í trú sinni á
Guð og trúði á sæla endurfundi
við sína nánustu. Ég veit að hin
milda hönd Guðs mun leiða hana
á sinn dvalarstað og þangað mun
fylgja henni innilegt þakklæti og
fallegar hugsanir þeirra sem
þekktu hana. Minningin um Pálu
frænku mína verður mér ávallt
kær.
Erla Sigríður Grétarsdóttir.
Hún fer að engu óð
er öllum mönnum góð
og vinnur verk sín hljóð.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)
Sumir ganga í gegnum lífið með
fyrirgangi og hávaða, þó það
tryggi engan veginn að orðstírinn
lifi. Svo eru það aðrir sem ávaxta
sitt pund með öðrum hætti og
alveg án háreysti eða skarkala.
Pannig er þetta og verður, enda
„svo misjafnt sem mennirnir leita
að / og misjafn tilgangurinn sem
fyrir þeim vakir".
Ömmusystir mín Pálína Jónas-
dóttir sem í dag er lögð til hinstu
hvílu fyllti síðarnefnda hópinn.
Það var ekki hennar háttur að
vekja athygli á sér með hávaða
eða tilburðum. Engu að síður
veit ég að hún skipar í hjörtum
margra stórt rúm, sakir einstakra
mannkosta og fágæts hjartalags.
Pálína fæddist þann 10. októ-
ber árið 1891 að Heiðarhúsum á
Laugalandsheiði í Eyjafirði. Pað
var þá lítið býli, en er nú fyrir
löngu komið í eyði. Foreldrar
hennar voru Jónas Ólafsson
bóndi og sjómaður og kona hans
Guðrún Árnadóttir. I Heiðarhús-
um dvaldist Pála, en svo var hún
jafnan kölluð, til eins og hálfs árs
aldurs, en fluttist þá ásamt for-
eldrum og systkinum að bænum
Steinkoti í Eyjafirði. Par var
heimili hennar fram á sextugs
aldur.
Pálína er af þeirri kynslóð sem
séð hefur byltingu verða á
íslensku þjóðfélagi. Pegar hún
fæddist á litlu heiðarkoti í Eyja-
firði, ríkti sannarlega önnur öld í
fleiri en einum skilningi. Tækni-
framfarir höfðu nær algjörlega
farið hjá garði íslendiriga. Vinnu-
brögð og verkkunnátta svipaði til
þess sem ríkt hafði um aldur. Það
hafði rétt aðeins byrjað að örla á
þeirri öldu upplýsinga sem síðar
átti eftir að gera íslenska þjóð-
félagið að velmegunarþjóðfélagi,
eins og það þekkist best í heimin-
um.
Þjóðin hafði á þessum tíma
enn ekki sigrast á skortinum og
því svarf fátækt að fölmörgum
heimilum á íslandi.
Steinkot var og er ekki stór
jörð, hvernig sem það er skoðað,
ekki einu sinni á rriælikvarða
fólks á fyrri hluta þessarar
aldar. Og þó að börnunum fjölg-
aði leið öllum alltaf vel, var Pála
vön að segja mér. Par réði mestu
nægjusemin og samheldnin sem
jafnan var aðalsmerki þessa
fólks. Börnin í Steinkoti urðu
fimm og voru í aldursröð: Árni,
Jófríður, Helga, Pálína og Sigur-
björg. Sigurbjörg lést á öðru
aldursári, en hin systkinin lifðu
öll og náðu háum aidri. Með frá-
falli Pálu nú, eru þau öll látin.
Fyrir okkur nútímafólkið sætir
það undrun hvernig fólk fyrri tíð-
ar megnaði að draga fram lífið á
hinum fjölmörgu kostarýru jörð-
um sem að þá voru setnar. Ekki
síst vegna þess að ekki voru þá til
þess aðstæður sem nú, að brjóta
landið og vinna tún. Pví varð
bústofninn oft rýr og gat ekki gef-
ið mikið af sér.
Það gilti því miklu að allir sem
vettlingi gátu valdið tækju til
hendinni við bústörfin og leituðu
eftir bjargræði væri þess nokkur
kostur. Hjá heimilisfólkinu í
Steinkoti giltu auðvitað sömu
lögmál.
Börnin tóku til hendinni eftir
því sem kraftar og aldur leyfðu
og þótti sjálfsagt. Gamla fólkið
var vant að segja að vinnan göfg-
aði manninn og er það svo sann-
arlega sannmæli.
í Steinkoti munaði auðvitað
mestu um það, að Jónas heimilis-
faðirinn var ötull og eftirsóttur
sjómaður og réri eftir því sem
kostur var. Yfir vetrarmánuðina
var hann á hákarlaveiðum. Þess á
milli fór hann á síld eða á aðrar
veiðar eftir aðstæðum hverju
sinni.
Eins og nærri má geta var
sjómennska þeirra tíma erfið og
kalsasöm á tíðum. Bátarnir voru
opnir, hjálpartæki engin og ekki
nokkur leið að láta af sér vita, ef
eitthvað fór úrskeiðis.
Árið 1881 um vetur fór Jónas
faðir Pálu sem oftar á hákarla-
veiðar. Þetta var annálað ísaár.
Veður hefur því verið kalt en
sennilega sjólítið. Svo gerðist
það eitt sinn um hávetur að allir
bátarnir nema einn skiluðu sér í
land. Á bátnum sem var saknað,
var Jónas í skiprúmi. Það þótti
fljótlega sýnt að báturinn hefði
farist. Vikurnar liðu og ekki var
mikil von um mannbjörg á þess-
um árstíma, þegar í hlut átti lítill
opinn bátur úti á reginhafi yfir
hávetrartímann. Það má því
nærri geta að sorg hefur ríkt hjá
fjölskyldunni ungu. En þá gerðist
kraftaverkið. Tólf vikum eftir að
báturinn fór af stað í hákarlaleg-
una kom hann fram. Allir voru
heilir á húfi. í tólf heilar vikur,
þrjá mánuði um hávetur hafði
báturinn setið fastur í ís.
Mennirnir höfðu með sér nesti
sem duga átti í venjulega legu, en
ekkert umfram það. Skipverjarn-
ir héldu hins vegar í sér líftórunni
með því að veiða sér til matar og
drýgja það síðan með skrínukost-
inum, sem þeir höfðu haft með
sér aö heiman.
Þetta er ótrúleg saga, en sönn
og sögð hér sem næst því er Pála
nam hana af vörum móður
sinnar. Þetta er lærdómsrík saga
og segir okkur mikið af þeirri
breytingu sem orðið hefur á
röskri öld.
Pálína var komin á sextugs aid-
ur er hún flutti frá Steinkoti og
inn í Glerárþorp, þar sem kallað
var Árgerði. Gerðist hún þá ráðs-
kona hjá bræðrum tveim, Hall-
grími og Guðmundi. Er Pála
kom að Árgerði var þar og hjá
þeim móðir þeirra bræðra Stein-
unn. Seinna flutti Árni bróðir
Pálu til þeirra að Árgerði og bjó
hjá þeim uns hann lést árið 1969,
þá níræður að aldri. Frá Árgerði
fluttust þau að Svalbarða í Gler-
árhverfi og þaðan í Lyngholt þar
sem þau bjuggu í ellefu ár. Pálína
lét af ráðskonustörfum er hún
varð 84 ára og fluttu þeir bræður
að Dvalarheimilinu í Skaldarvík.
Pálína fluttist þá til Hrefnu
Svanlaugsdóttur og leigði hjá
henni í tvö ár, uns hún fór á
Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri
87 ára að aldri.
Mér og systkinum mínum eru
sérstaklega minnisstæð árin í
Svalbarða og Lyngholti. Því
fylgdi sérstök tilhlökkun að koma
norður og heiinsækja þau syst-
kinin Pálu og Árna (Árna afa
eins og við vorum vön að kalla
þennan ömmubróður okkar).
Bræðurnir Mundi og Halli voru
okkur svo sannarlega líka góðir.
Andrúmsloftið á heimilinu var
gott. Heimilisfólkið var afar sam-
rýmt og sainskipti þess snurðu-
laus. Þangað sótti maður því
hlýju og væntumþykju.
Stundirnar sem ég átti með
Pálu frænku minni eru mér gjör-
samlega ógleymanlegar. Hún
hafði einstakt lag á því að miðla
af sinni reynslu með öllu sínu fasi
og frásögnum. Hún var öllum
þeim sem kynntust henni holl
fyrirmynd. Hún talaði af æðru-
leysi um lífið og tilveruna, sorgir
og gleði. Þetta skynjaði maður
betur á fullorðinsárum, en sem
barn og því varð það mér jafnan
tilhlökkun að eiga stund með
þessari frænku minni.
Þegar ég nú lít til baka finn ég
að hún var raunverulegur per-
sónugervingur hins kristilega sið-
gæðis, að sælla sé að gefa en
þiggja, enda nam hún þá reglu
strax við móðurkné, eins og lítil
saga frá bernskuárunum lýsir vel.
Fátæk nágrannakona kom í
heimsókn að Steinkoti og kvaðst
ekki eiga neitt til að seðja svöng
börn sín nema mjólk. Móðir Pálu
fór þá inn í fátæklegar hirslur sín-
ar og sótti eitthvað matarkyns og
færði nágrannakonunni. Pála
kvaðst þá hafa sagt við móður
sína, hvort þau mættu við þessu.
En móðir mín svaraði, sagði hún
mér: „Þú skalt gefa af þinni
fátækt, það margaldast aftur hjá
þér.“
Það dylst auðvitað engum sem
þekkir til að Pála hefur numið vel
þessa lífsskoðun móður sinnar.
A.m.k. veit smáfólkið þetta. Að
því hefur Pála oft vikið smáu og
stóru. Og litlu börnin sem
kannski skilja best allra hjartalag
fólks, sóttust alltaf eftir því að
vera návistum við þessa góðu
konu.
Auk ráðskonustarfa sinna
hafði Pála með höndum margs
konar önnur störf. Hún var eftir-
sótt til að sinna konum að loknum
barnsburði. Þarf það engan að
undra, að nærgætni hennar og
alúðleg framkoma hefur verið
öllum konum styrkur. Þá lærði
Pála fatasaum og stundaði hann
eftir föngum svo sem heilsa og
kraftar leyfðu.
Framan af ævi sinni var Pála
fremur heilsuveil. Kirtlaveik var
hún og berklar sóttu hana heim.
En henni tókst sem betur fer að
sigrast á þessu böli. Allt fram til
hinstu stundar var síðan heilsa
hennar góö. Hún var létt og kvik
í hreyfingum. Steig dansspor ef
þannig bar undir fram á tíræðis-
aldur og hafði gaman af því að
fara á mannamót. Hún var bein í
baki og tíguleg, fíngerð og kunni
því vel að búa sig upp ef hún
gerði sér dagamun.
Þrátt fyrir að hún giftist ekki
né eignaðist börn, átti hún nafna
og nöfnur. Þeir voru ýmsir sem
vildu láta hana njóta nafns. Ég
hygg að flestum hafi þótt það vita
á gott að börn hétu í höfuðið á
þessari sómakonu.
Pála var enda vinmörg og
vinsæl. Starfsfólkið á Hlíð mat
hans mikils og var það
gagnkvæmt. Ég veit fyrir víst að á
Hlíð undi hún hag sínum vel og
naut þess að eyða þar ævikvöld-
inu.
Það var alltaf uppörvandi að
sækja Pálu frænku heim. Hún var
jákvæð og bjartsýn og í hennar
huga komst aldrei að neinn efi
þegar hún horfði til framtíðarinn-
ar. Hún var ótrúlega ungleg og
bar aldur sinn vel. Það mátti með
sanni segja að árin sem hún hafði
að baki segðu lítið um aldurinn,
svo ung var hún í anda.
Pálína naut góðs atlætis vina
sinna. í því sambandi vil ég sér-
staklega nefna þau Eggert Olafs-
son og konu hans Sigríði sem
ásamt börnum þeirra hjóna
reyndust henni sannir vinir. Veit
ég vel að varla leið.sá dagur að
þau heimsæktu hana ekki og
gleddu hana á alla lund. Þá var
alltaf gott samband hennar við
Hallgrím Stefánsson, sem hún
hélt heimili fyrir eins og ég hefi
rekið.
Nú þegar lokið er ævi merkrar
heiðurskonu hrannast upp endur-
minningar. Frá glöðum dögum
æsku rninnar er ég ásamt systkin-
um mínum heimsótti hana
norður, en einnig frá því að ég
fullorðin manneskja sat og ræddi
við frænku mína. í návistum við
hana hvarf allt kynslóðabil sem
dögg fyrir sólu, þó að hún tengdi
saman með langri reynslu sinni
tvenna tíma í þess orðs fyllstu
merkingu. Fram til hinstu stund-
ar fylgdist hún vel með samtíma-
viðburöum og hafði lifandi
áhuga á öllu því sem að fram fór í
kring um hana. Það má segja að
andlát hennar hafi borið brátt að.
Hún veiktist af heilablæðingu á
páskadag. Og lést af völdum
hennar föstudaginn 8. apríl sl. án
þess að hafa komist til meðvit-
undar. Hún fékk hægt andlát eins
og hún sjálf hafði kosiö sér og fór
héðan úr heimi í sátt við allt og
alla.
Pálína Jónasdóttir var
ógleymanleg kona. Það var
mannbætandi að kynnast henni
og glæddi mneð manni trúna á
lífið og framtíðina.
„Þá blómgast enn og blómgast
ævinlega,
þitt bjarta vor íhugum vinaþinna"
(Tóniiis Ciuómmulsson)
Þó fjarlægðin skildi okkur að í
eiginlegri merkingu naut ég þess
að eiga gott samband við hana.
Lítill sonur okkar Einars naut
þess að ræða um þessa frænku
sína sína og hlakkaði til þess aö
fara norður með lítilli systur sinni
í heimsókn til Pálu frænku, sem
að töfraljómi lék um.
Við frændfólk hennar í Bol-
ungarvík kveðjum hina Iátnu
heiöurskonu með viröingu og
þökk og biðjum henni guös bless-
unar.
„Ó dauði taktu vel þeim vini mínum
sem vitjað hefur þreyttur á þinn fund.
Oft bar hann þrá til þín í huga sínum
og þú gafst honum traust á banastund“.
(Tómas Guömundsson)
Sigrún J. Þórisdóttir.
Öllum þeim sem minntust mín
með blómum, skeytum og öðrum gjöfum,
á áttræðisafmælinu, sendi ég hjartans þakkir.
Sérstaklega þakka ég fjölskyldu minni fyrir
að gera afmælisdaginn ógleymanlegan.
Guð blessi ykkur öll.
AÐALBJÖRG SIGURÐARDÓTTIR.
Þökkum innilega auðsýnda samúð og einlægan vinarhug við
andlát og jarðarför,
MARINOS ZOPHANÍASSONAR,
Lundargötu 5, Akureyri.
María Óskarsdóttir og synir
og systkini hins látna.
Ritstjórn • Afgreiðsla • Auglýsingar
Strandgötu 31 - Sími 24222.