Dagur - 07.10.1989, Blaðsíða 9

Dagur - 07.10.1989, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - Laugardagur 7. október 1989 Laugardagur 7. október 1989 - DAGUR - 9 „Jakob afi keypti Samvinnuna og Þjóðviljann og á þeim bæ fékk maður pólitík- ina í æð. Það má segja að ég hafi verið alin upp af stórfjölskyldu þar sem alltaf var mikil þjóðmálaumræða og í minni fjölskyldu hafa menn alltaf kveðið fast að. Sjálfsagt hef ég orðið fyrir áhrifum af skrifum Magnúsar Kjartanssonar í Þjóð- viljann á þessum árum. Þá höfðu pólitískar hræringar upp úr 1970 sitt að segja í að móta lífsviðhorfið. Mér fannst því rökrétt að ganga til liðs við Alþýðu- bandalagið þegar ég fluttist norður á Dalvík árið 1974. Eg held að fram að því hafi ég ekki haft óvenju mikinn áhuga á pólitík. Að vísu hafði ég mikinn áhuga á einstaka málum á þessum árum og nefni ég hermálið í því sambandi. Hér í Kópavogi hafði ég tækifæri til að fylgjast með fyrstu Keflavíkurgöngunum og maður slóst fljótlega með í för og labbaði niður í bæ.“ Með þessum orðum lýsir Svanfríður Inga Jónasdóttir, varaformaður Alþýðubandalagsins og aðstoðar- maður fjármálaráðherra, pólitískum uppvexti. s I vanfríður er af þeirri margfrægu ’68 kynslóð, fædd 1951, og er elst fimm systkina. í móðurætt er hún Eyfirðingur en föðurættin er úr Keflavík. Móðir Svan- fríðar er Elín Jakobsdóttir en faðir hennar, Jónas Sig- urbjörnsson, lést þegar hún var fjögurra ára gömul. Elín giftist aftur og fluttist að Borgarholtsbraut 30 í Kópavogi. Sá ágæti bær, sem margir nefna félags- I hyggjubæinn, fóstraði Svanfríði og hún segir það eink- ar skemmtilegt að mörgum árum síðar flytji hún aftur í Kópavoginn og það sem meira er inn á æskuheimilið. Hún býr sem sagt um þessar mundir á Borgarholtsbraut 30 með eiginmanni, Jóhanni Antonssyni, starfsmanni Atvinnutryggingasjóðs, og þrem sonum. Til stendur reyndar að fjölskyld- an flytji sig um set í Kópavoginum. Á sumrum dvaldi Svanfríður mikið hjá ömmu sinni og afa á Dalvík og kynntist því snemma heilnæmu sjávarloftinu nyrðra. „Ég hef oft velt því fyrir mér hvort öðrum Dalvíkingum finnst ég vera Dalvíkingur. Jú ég held að ég sé talinn Dalvíkingur," segir Svanfríður þegar hún er innt eftir því hvort hún telji sig vera Dalvíking þrátt fyrir að vera „aðskotadýr" að sunnan. Þess vegna kennari Skólagangan var í hefðbundnum farvegi í Kópavogi allt fram á lands- prófsárið. Þá tóku hlutirnir að gerast. „Við vorum tvær vinkonur sem ákváðum að gera uppreisn og neituðum að fara í landspróf. Við sáum engan tilgang í menntaskólanámi enda væri líklegt að við myndum fljót- lega gifta okkur. Metnaðurinn var nú ekki meiri í þá daga. Foreldrar okkar lögðust ekki gegn þessu en það var mikil fýla í skólanum því okkar bekk- ur hafði alltaf verið alinn upp sem landsprófsbekkur. Við völdum að fara í 3. og 4. bekk og ætluðum að ljúka gagnfræðaprófi. En við vorum varla búnar með 3. bekk þegar við sáum að við höfðum gert afdrifarík mistök. Gagnfræðaprófið gaf okkur ekki færi á að ljúka stúdentsprófi úr mennta- skóla og því höfðum við tvær leiðir, annars vegar að fara í Verslunarskól- ann og hins vegar Kennaraskólann. Það varð úr að ég fór í Kennó en vin- kona mín í Verslunarskólann og lukum við stúdentsprófi á sama tíma, en tveim árum á eftir jafnöldrum okkar. Þess vegna er ég með kennara- próf.“ Á útskriftardegi til Lux Á útskriftardeginum, 17. júní 1973, fluttist Svanfríður til Lúxemborgar með eiginmanni og barni. Hún segist ekki hafa fyrir nokkurn mun getað fest rætur ytra og hafi engan tilgang séð í því „að hanga þar“. „Ég féll aldrei inn í íslendingasamfélagið ytra.“ Að hausti 1974 hafði Svanfríður fengið sig fullsadda af „borgaralegu" líferni í Lúxemborg og skildi við manninn og fluttist ásamt barni upp á Frón. Hún segir að í sínum huga hafi ekki komið annað til greina en að flytjast norður á Dalvík. „Einstæð móðir leitar auðvitað eftir öryggi og ég vissi það frá því ég var barn á Dalvík að þar gat ég gengið að ákveðnu öryggi. Samfélagið á Dalvík tekur þig og fóstrar býsna vel,“ segir Svan- fríður og leggur áherslu á orð sín. Bætir síðan við: „Að vissu leyti var það sjokk eftir umrót undangenginna ára að koma til Dalvíkur sem fullorðin manneskja. Þar kom maður inn í fastmótað samfélag sem byggði að mörgu leyti á gömlum og góðum hefðum.“ Sögur reglulega rifjaðar upp „Ein af þessum hefðum er að því er ég held sérstök fyrir Dalvík. Þar hafa varðveist margar sögur af atburðum og fólki sem í raun eru bara til í munnlegri geymd. Þessar sögur eru reglulega rifjaðar upp. Til dæmis eru sömu sögurnar rifjaðar upp fyrir jólin í tengslum við fastmótaða jólasiði. Sama gildir um páska, sjómannadaginn, sláturtíðina eða hvaða merkis- daga sem er. Synir mínir hafa þegar heyrt margar af þessum sögum og þeir eiga eftir að heyra þær oft. Börn þeirra fá einnig að heyra sögurnar og svo koll af kolli. Bara þessi hefð gefur ákveðna festu í samfélagið og líka skilning og dýpt á mannlegum breyskleika. Þetta spinnur mikilvægan þráð milli kyn- slóða á smærri stöðum þrátt fyrir allar breytingar á samfélaginu." Söguleg nauðsyn að hnekkja framsóknarmeirihluta Kennsla barna í neðri bekkjum grunnskólans kom í hlut Svanfríðar og segist hún hafa haft mikla ánægju af henni. Auk kennslunnar fékk pólitíkin æ meira rúm á stundatöflu Svanfríðar, einkum hefur hún gerst áleitin hin síðari ár. Landsmálapólitíkin tekur nú stærstan toll en bæjarmálum hefur einnig verið gefinn gaumur. Svanfríður skipaði efsta sæti á lista Alþýðubanda- lagsins á Dalvík í síðustu kosningum og undir hennar forystu fór það í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og óháðum. Þetta þótti mörg- um stór tíðindi en Svanfríður segir samstarfið hafa grundvallast á því að hún og Trausti Þorsteinsson, núverandi fræðslustjóri, oddviti Sjálfstæðis- manna og óháðra, hafi hvorugt verið merkt fyrri pólitískum átökum. „Það voru einungis þrír listar í framboði á Dalvík og framsóknarmenn höfðu meirihluta áður. Ég held að menn hafi litið á það sem sögulega nauðsyn að hnekkja þessu meirihlutavaldi Framsóknar." Vörn snúiö í sókn Svanfríður er fljót til svars þegar hún er spurð hvernig henni hafi fundist takast til í meirihlutasamstarfi flokkanna. „Vel. Það hefur tekist að snúa vörn í sókn með fjölgun íbúa á Dalvík og við höfum getað haldið í unga fólkið. Það hefur séð einhverja framtíð í að búa á Dalvík. Ég er mjög ánægð með sterka' stöðu bæjarfélagsins. Á sama tíma og mörg sveitarfélög berjast í bökkum fjárhagslega er verið að borga niður skuldir á Dalvík. Ég er sömuleiðis ánægð með mikinn kraft í atvinnulífi á staðnum. Þar er sem betur fer flest í góðu lagi. Mér finnst afar mikilvægt að halda fram kostum þess að búa á stað eins og Dalvík. Hin neikvæða umræða síðustu ára um landsbyggðina hefur dregið úr trú fólks á að þar sé nokkur framtíð. Dalvíkingar hafa hins vegar sýnt það með uppbyggingu síðustu ár að þeir kunna vel að meta þá kosti sem eru því samfara að búa út á landi.“ Áframhaldandi meirihlutasamstarf? Svanfríður segist ekki vera farin að hugsa um möguleika á áframhaldandi meirihlutasamstarfi núverandi meirihlutaflokka á Dalvík eftir kosningar næsta vor. Hún segist þó vita að margir vænti þess að ekki verði miklar breytingar. „Ekki er hægt að útiloka að fram komi fleiri framboð. Enn sem komið er er ekki ljóst hverjir muni leiða framboðslista í sveitastjórn- arkosningunum," segir Svanfríður og er ófáanleg til þess að kveða upp úr um hvort hún hyggist leggja „bæjarmálaskóna" á hilluna eftir þetta kjör- tímabil. Nokkuð hefðbundin leið Að margra mati hefur frami Svanfríðar verið skjótur innan Alþýðu- bandalagsins. Á síðasta landsfundi flokksins bauð hún sig fram til embættis varaformanns og náði kjöri. Svanfríður telur hins vegar að frami hennar innan flokksins hafi ekki verið svo skjótur. Hún bendir á að hún hafi starfað í flokknum í fimmtán ár og verið varaþingmaður á Norðurlandi eystra í hartnær tvö kjörtímabil. „Ég held að þetta sé nokk- uð hefðbundin leið,“ segir Svanfríður, „að minnsta kosti af konu að vera,“ bætir hún við. „Varaformennska í Alþýðubandalaginu hafði stuttan aðdraganda. Menn höfðu orðað það við mig hvort ég væri fús til að gefa kost á mér til varaformanns ef Ólafur Ragnar yrði formaður. Lengst af vísaði ég þessu frá mér. Ég var fyrir það fyrsta í fullri vinnu og auk þess í bæjarmálunum. Mér fannst því að ég hefði nóg á minni könnu. Þegar til landsfundar kom lét maður hins vegar slag standa.“ Staða Ólafs Ragnars er sterk Með dúettinum Ólafi Ragnari og Svanfríði tóku að margra mati við full- trúar lýðræðiskynslóðar eða krata í flokknum. Margir voru á því að for- manninum myndi ekki takast að ávinna sér nauðsynlegt traust ólíkra Texti: Óskar Þór Halldórsson Mynd: Kristján Logason Ég hafna öðru sæti ínæstu þingkosningum hópa flokksmanna. Ólafur Ragnar hefur hins vegar blásið á allar slíkar fullyrðingar og bent á að undir hans forystu njóti Alþýðubandalagið meira fylgis en í langan tíma. „Ég held að staða Ölafs Ragnars sem for- manns Alþýðubandalagsins sé mjög sterk,“ segir Svanfríður, „og hún hefur verið að styrkjast eftir að flokkurinn fór í rfkisstjórn. Ástæðan fyrir því er að mínu mati að hluta til sú að Ólafur er ekki þingmaður og þess vegna hafði hann ákaflega fá tækifæri til að sýna hvað í honum býr. Eftir að hann varð fjármálaráðherra stendur hann öðrum pólitíkusum jafnfætis hvað það varðar að koma skoðunum sínum á framfæri og að- staða hans til að sanna sig er því mun betri. Ég hef enga trú á öðru en hann fái góða endurkosningu á landsfundin- um í haust.“ Gagnrýnin á samstarf við Framsókn Vart þarf að rifja upp dramatískan aðdraganda að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fyrir rúmu ári síðan. Innan Alþýðubandalagsins voru skiptar skoðanir um hvort flokkurinn ætti að fara í stjórn með Krötum og Framsókn. Svanfríður lagðist í fyrstu gegn því en þegar hjólin fóru að snúast flutti hún sig úr Grunnskólanum á Dalvík suður yfir heiðar og tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum. „Ég hafði allan vara á með sam- starf við Framsóknarflokkinn. Mitt mat var það að ef Alþýðubandalagið ætti að fara í ríkisstjórn væri það að sjálfsögðu til að breyta hér ýmsum hlutum. Ég vissi að það væri hægt með Alþýðuflokknum en ég setti spurningamerki við Framsóknarflokkinn því það er nú einu sinni svo að í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hefur sá flokkur staðið að kerfinu eins og það birtist í dag. Þessir flokkar hafa lengst af verið við völd og eru alls staðar með sína menn í áhrifastöðum. Það sem réði úrslitum um mína afstöðu til stjórnarþátttöku var sú staðreynd að ekki var unnt að mynda hér ríkisstjórn nema með þátttöku annars þessara flokka. Ástandið var þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði hvorki hugmyndafræðilega né pólitíska getu til að stjórna og því var ekki annar fýsilegur valkostur í stöðunni.“ Að koma kerfínu á dansandi ferð Fljótlega eftir að Ólafur Ragnar settist í stól fjármálaráðherra réði hann Svanfríði sem aðstoðarmann sinn í ráðuneytinu. Hún orðar það svo að þetta rúma ár hafi verið mikill skóli fyrir sig. „Ég er t.d. búinn að átta mig á því að hlutirnir ganga mun hægar fyrir sig en ég hafði gert mér í hugar- lund. Það hefur líka gerst, sem ég bjóst við, að það er mikil andstaða í kerfinu gegn öllum breytingum. Hluti af skýringunni á þessu er samofið valdakerfi og hagsmunagæsla. Ég vildi gjarna sjá kerfið á dansandi ferð í uppstokkun hvort sem um væri að ræða banka- eða sjóðakerfið eða yfir- leitt það sem snýr að atvinnu- og efnahagsmálum. Mér er engin eftirsjá í því sem er, öfugt við því miður of marga.“ Strætó-leiðabók um kerfíö „Það þarf umfram allt að gera kerfið aðgengilegra fyrir almenning. Ég hef orðað það svo að nauðsyn væri á að gefa út leiðabók um kerfið ekki ólíka leiðabók strætisvagnanna. Það fer ótrúlega mikill tími í að leiða fólk um kerfisfrumskóginn vegna þess einfaldlega að fólk veit ekki hvert það á að leita.“ Svanfríður telur ekki hættu á að hún verði kerfinu að bráð. „Ég held að það sé minni hætta með konur en karla. Karlarnir ganga inn í þessa ver- öld og samsama sig henni mun auðveldar en konur,“ segir Svanfríður. Annað sjónarhorn en úr Grunnskólanum á Dalvík Starf aðstoðarmanns fjármálaráðherrá er mjög víðfeðmt því inn á borð fjármálaráðuneytis koma öll hugsanleg mál. Svanfríður segir vera gífur- lega erfitt að setja sig stöðugt inn í ólík mál. „Ég fylgi mörgum málum eftir eins og ráðherra vill og því verð ég að hafa gott samband við alla embættismenn ráðuneytisins sem og annarra ráðuneyta." Svanfríður hefur sem aðstoðarmaður Ólafs Ragnars verið einskonar tengiliður ráðherra og samninganefndar ríkisins í kjarasamningum. Sem fyrrverandi kennari á Dalvík er hún félagi í KÍ en var í þeirri stöðu að fylgjast með síðustu kjarasamningum „hinum megin við borðið". „Mér fannst þetta mjög fróðlegt. Sjónarhornið úr fjármálaráðuneytinu er auð- vitað allt annað en úr Grunnskólanum á Dalvík." Verð hér eitthvaö áfram Af orðum Svanfríðar má ráða að hún hefur lítt ígrunduð framtíðarplön í pólitíkinni. Hún spáir þó vitaskuld í spilin og hefur mótaða afstöðu um ýmislegt ókomið. Annað er á reiki. Hún vill t.d. engu um það spá hvort hún verði aðstoðarmaður Ólafs Ragnars út kjörtímabilið fari svo að ríkisstjórnin sitji til loka þess. „Það lýsir kannski ekki mikilli staðfestu en ég hef ekki planað næstu tvö árin. Við tökum ákvarðanir til árs í senn í fjölskyldunni. Ég verð alla vega syðra í vetur. Hins vegar er víst að ég kem áfram til með að eiga lög- heimili á Dalvík.“ Uppgjöf að draga sig í hlé Landsfundur Alþýðubandalagsins verður í haust og því vaknar sú spurn- ing hvort varaformaður flokksins muni þar sækjast eftir endurkjöri. „Næstar á undan mér voru tvær konur í embætti varaformanns Alþýðu- bandalagsins, Vilborg Harðardóttir og Kristín Á. Ólafsdóttir, og þær voru báðar einungis eitt kjörtímabil. Ég hef ekki ákveðið hvort ég sækist eftir endurkjöri en mér finnst slæmt ef konur sem gefa sig í pólitískt starf nýta ekki reynslu sína lengur en um tveggja ára skeið. Konur hafa ekki sýnt sama metnað og þrautseigju og karlar. Það er að mínu viti miður ef kon- ur hætta of snemma, áður en þekking þeirra og reynsla hefur komið að fullum notum. Mér finnst það uppgjöf að draga sig í hlé kannski einmitt þegar maður er að ná valdi á hlutunum,“ segir Svanfríður. - Þú ert að gefa það til kynna að þú ætlir að gefa kost á þér áfram í embætti varaformanns Alþýðubandalagsins? „Ég held því að minnsta kosti opnu,“ svarar Svanfríður. „Satt að segja finndist mér sem ég væri að bregðast ef ég drægi mig út úr pólitík núna. Ekki af því að ég sé svo merkileg, heldur vegna þess að ég er ein af þeim konum sem eru í pólitík í fullu starfi. Þær eru ekki svo margar að það er skarð fyrir skildi þegar ein hættir.“ Held áfram í pólitík Spurningunni um hvort Svanfríður stefni hærra í pólitíkinni í framtíðinni svaraði hún með annarri spurningu: „Hvað er hærra?“ - Það getur t.d. verið formannssæti í Alþýðubandalaginu? „Ég gæti líka orðið þingmaður." - Ertu að segja að þú munir bjóða þig í þriðja sinn fram til þings á Norðurlandi eystra? „Ekki í öðru sæti. í sveitarstjórnarkosningum á Dalvík árið 1982 og 1986 skipaði ég fyrsta sæti á lista Alþýðubandalagsins. í alþingiskosning- um 1983 og 1987 skipaði ég annað sæti á lista flokksins í kjördæminu. Eg fer ekki oftar í annað sætið. Ég er ákveðin í því.“ - Þú ert með öðrum orðum að leita eftir fyrsta sæti á lista Alþýðu- bandalagsins? „Ég er ekki beint að því,“ segir Svanfríður og svarar síðan þeirri spurn- ingu hvort hún sé afhuga þingmennsku. „Mig langar ekki beinlínis til að setjast á þing en ég geri ráð fyrir að ég haldi áfram að taka þátt í pólitík. Það er hægt á marga vegu.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.