Dagur - 14.10.1989, Blaðsíða 9

Dagur - 14.10.1989, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - Laugardagur 14. október 1989 Hann kom norður og fetaði í fótspor afa síns og nafna Þorsteinn Thorlacíus, eigandi bókabúðarinnar Eddu á Akureyri í helgarviðtali Dags þar sem hann ræðir uppvöxtinn, reksturinn og akur- eyrska „Kringlu“ „Við ætlum okkur ekki að græða á byggingunni eins og margir virðast halda. Húsið er dýrt en við sjáum ekki fyrir okkur að með Lindinni sé á ferðinni neitt gróðafyrirtæki.“ n Eg vil að menn versli ' sinni heimabyggð" „Eg eryfirleitt mættur á minn vinnustað milli sex og hálf sjö á morgnana. Mér finnst gott að geta undir- búið sjálfan mig og vinnudaginn á þessum tíma, farið síðan í sund fyrir klukkan átta og verið vel undirbúinn þegar hinn eiginlegi vinnudagur hefst. Maður erþví að sama skapi búinn að fá nóg þegar komið er fram undir kvöldmat enda alltaf nóg að gera. Maður er aldrei búinn. “ Þorsteinn Thorlacíus, eigandi bókabúðarinnar Eddu á Akureyri er sestur á helgarbein Dags, maðurinn sem sneri heim fyrir þremur árum og fetaði í fótspor afa síns og alnafna og hóf að reka bókaverslun á Akureyri. Texti: Jóhann Ólafur Halldórsson Myndir: Kristján Logason „Ég er fæddur hér við Ráð- hústorgið á Akureyri árið 1946, fæddist á hæðinni fyrir ofan bókabúðina hans afa þar sem nú er Ferðaskrifstofa Akureyrar. Uppvöxturinn á Akureyri var hins vegar stuttur því ársgamall fór ég með foreldrum mínum til Reykjavíkur þar sem faðir minn, Þorleifur Thorlacíus, fór að vinna í utanríkisþjónustunni. Árið 1952 fluttumst við til Noregs vegna starfs hans og þar ólst ég því að mestu upp næstu 8 árin. Þarna gekk ég í skóla og kunni vel við mig en sjálfsagt sér maður þetta bara í hillingum eftir á,“ segir Þorsteinn og brosir við. í fóstri hjá Flugleiðum Norskt skólakerfi fékk þó ekki að fóstra snáðann lengi og við tók landspróf í Reykjavík og síðan beinn og breiður vegur inn í Menntaskólann á Akureyri. „Þar tóku við ágæt ár en maður kunni ekki að meta þessi ár fyrr en seinna. Ég var allan tímann í heimavistinni og þótti heldur súrt því reglurnar voru strangar og aginn mikill. Sumir voru ódælir nemendur en ég var alltaf róleg- ur. Áherslan var samt ekki mikil á námið en allir möguleikar not- aðir til skíða- og skautaiðkana enda kjörin aðstaða í bænum og nágrenni." Þorsteinn segir að úr M.A. hafi leiðin legið í Háskóla íslands þar sem drengur settist á skólabekk í tannlæknadeild. Ekki þótti hon- um það álitlegt þegar út í námið var komið þannig að eftir árið var blaðinu snúið við og tekið til við viðskiptafræðina. Því námi segist Þorsteinn hafa lokið með prófi árið 1972 og því næst ráðið sig sem fulltrúi á flutningasviði Flugfélags íslands. Næstu 11 árin var hann við störf hjá félaginu, reyndar fyrst hjá Flugfélagi íslands og síðar hjá Flugleiðum. Starfið var líflegt og skemmtilegt og eins og gengur á 11 ára starfs- ferli skiptast á skin og skúrir. Kröftunum beint í eigin rekstur „Þetta var skemmtilegur tími og maður kynntist ýmsu tengdu fluginu. Fyrir marga var sá tími erfiður þegar Flugfélag íslands og Loftleiðir sameinuðust árið 1974 en ég var heppinn og lenti ekki í óvissu eins og svo margir aðrir. Þó allir hafi fengið vinnu áfram eftir sameininguna þá var ljóst að störfum yrði fækkað. Sennilegast hefur eldri starfs- Laugardagur 14. október 1989 - DAGUR - 9 mönnum fyrirtækjanna reynst þetta erfiðara en okkur nýrri starfsmönnunum enda var maður nýbyrjaður og fullur af eldi brennisteini." Þorsteinn tók við starfi fulltrúa framkvæmdastjóra eftir samein- inguna og fékkst fyrst og fremst við rekstur innanlandsflugsins, jafnt sem fargjaldamál, athuganir og útreikninga. Það var hins veg- ar ekki fyrr en í lok árs 1983 að ég hætti störfum hjá Flugleiðum enda þá kominn á fullt í eigin rekstri þar sem ég, ásamt kunn- ingja mínum, var kominn í inn- flutning á alls kyns tölvubúnaði. Ég sá að mínum kröftum var bet- ur varið í eigin rekstur en hjá þessu fyrirtæki. í árslok 1985 seldi ég hins vegar hlut minn í þessu innflutningsfyrirtæki og keypti þessa verslun hér á Akur- eyri skömmu síðar.“ Blýantur er ekki bara blýantur Þorsteinn tók við rekstri bóka- búðarinnar Eddu vorið 1986 og var þar með kominn heim og í fótspor afa síns. „Okkur var afskaplega vel tekið hér á Akur- eyri og margir buðu okkur vel- komin heim. Fyrir okkur skipti veðurfarið máli, einnig að hér er gott að ala upp börn, fjarlægðir milli staða eru minni en t.d. í Reykjavík og síðan er stutt að fara til að njóta góðrar útivistar. Hvað verslunina varðar þá voru þeir líka til sem spurðu hvort ég ætlaði ekki að breyta nafninu á versluninni og skíra hana upp eftir verslun afa míns sem hét Bókaverslun Þorsteins Thorlacíus en mér finnst Edda ágætt nafn og vildi halda því. Við komum hér á þeim tíma þegar nokkur lægð var á lands- byggðinni og margir kunningj- anna í Reykjavík spáðu því að þetta yrði eintómt volæði. Og hér var jú vissulega lægð sem sést á því að verð fasteigna hafði tvö- faldast í fyrra frá þeim tíma þeg- ar við komurn." Þorsteinn segist ekki hafa verið því alls ókunnugur bókaverslun- um þegar hann tók við rekstri Eddu. Samhliða innflutningnum á tölvunum í Reykjavík fékkst hann við ýmis verkefni fyrir með- eiganda sinn í tölvufyrirtækinu en sá átti jafnframt þrjár bóka- verslanir. „Jú, margt kom manni á óvart og kannski ekki síst hversu mikið vöruval maður verður að hafa. Maður áttaði sig allt í einu á að blýantur er ekki bara blýantur heldur eru til tugir tegunda af blýöntum. Þetta er því ekki eins einfalt eins og það lítur út fyrir að vera.“ Reksturinn víkkaður út Þorsteinn segir að samkeppni bóksala á Akureyri sé nokkur enda eru þrjár bókaverslanir nánast við sömu götuna í mið- bænum. Allir hljóti þessir bóksal- ar að selja sömu vörurnar og þjónusta sama hóp viðskiptavina. Á þeim tíma sem Þorsteinn hefur rekið Eddu hefur har víkkað reksturinn út og er nú kominn með alhliða skrifstofu- búnað ásamt viðeigandi þjón- ustu. Hann segir þróunina hraða í tölvuheiminum og alltaf sé hægt að bæta við kunnáttu sína á því sviði og nýta þá möguleika sem bjóðast. Reksturinn á Eddu var fljótur að vinda upp á sig og fyrir einu ári réðist hún ásamt nokkrum einstaklingum og fyrir- tækjum í stofnun tölvuskóla á Akureyri, Tölvufræðsluna Akur- eyri hf. „Sá rekstur hefur gengið alveg bærilega. Ég held að það sem þarna er boðið nýtist vel þeim sem vilja fræðast um það sem er að ske á vinnumarkaðnum. Markaðurinn krefst á mörgum sviðum tölvukunnáttu og ef t.d. húsmæður sem nú eru heima ætla sér út á vinnumarkaðinn þá standa þær betur að vígi með kunnáttu af þessu tagi. Skólinn býður einnig upp á mun sérhæfð- ara nám þannig að breiddin í honum er nokkur.“ Ég er mikill „lokaImaður“ Þegar talinu er vikið að Akureyri sem slíkri færir Þorsteinn í tal miðbæinn sem hann segir að sé of dapur. Hvað á hann við? „Hann er fyrst og fremst dapur á sviði verslunar. Það er það sem að mér snýr og þetta horfir svona við mér. Menn versla mikið í Reykjavík ennþá og ég álít versl- unarferðir þangað langt í frá aflagðar. Vöruúrvalið er auðvit- að miklu meira í Reykjavík og í sumum tilfellum telja menn sig fá betri þjónustu en það er ég ekki eins sannfærður um. Ég er orðinn mikill „lokalmaður" og vil reka harðan áróður fyrir því að menn versli í sinni heimabyggð.“ Á síðustu árum hafa nokkur ný fyrirtæki sprottið upp á Akureyri og önnur hafa skipt um eigendur og virðast dafna ágætlega. Þar má benda á Skóverksmiðjuna Strikið, Bókval og bókabúðina Eddu o.fl. En hvernig er að taka sér á herðar fyrirtækjarekstur mitt á þeim tíma þegar fyrirtæki eiga víða í erfiðleikum. „Nú, hvað okkur varðar þá er þetta að einhverju leyti heppni, í öðru lagi vinna og í þriðja lagi áhætta. Til að taka áhættu þá verða menn yfirleitt að leggja fram eitthvert fé og að sama skapi vera undir það búnir að geta tapað því. Auðvitað er mikil áhætta samfara því að fara út í verslunarrekstur en heppnin er í því fólgin að reksturinn gangi betur en maður reiknaði með í upphafi. En ég held að það sé lið- in tíð að menn fari út í einhvern rekstur af bjartsýni einni saman. Rekstur í dag er hörð viðskipti og ekkert annað.“ Ekki íburður eins og í Kringlunni Miklar byggingaframkvæmdir eru nú hafnar við göngugötuna á Akureyri og ekki eru þær Þor- steini alls óviðkomandi. Hér er á ferðinni nýbygging Byggingafé- lagsins Lindarinnar en bókabúð- in Edda á 10% hlut í þessu félagi. Þorsteinn rifjar nánar upp stutta sögu þessa félags. „Við erum nokkrir einstakling- ar og fyrirtæki sem í desember sl. stofnuðum þetta félag. Lindin keypti þessa lóð með meðfylgj- andi húsi af Huld sf. og á henni er nú hafin bygging verslunar- og skrifstofuhúss.“ Nú þegar er kominn grunnur að þessu húsi og er ætlunin að í vetur verði steyptar upp þrjár fyrstu hæðirnar sem tilbúnar verði til afhendingar næsta sumar. Hver hæð í húsinu er að meðaltali um 600 fm. en 1. hæð þeirra stærst. Þorsteinn segir að ætlunin sé að hafa í þessu húsi verslanir með „einhvers konar Kringlusniði," eins og Þorsteinn orðar það. „Nei, íburðurinn verður ekki jafn rnikill og er í Kringlunni, svo mikið er víst. Þetta verður nokk- uð opið að innan þannig að á jarðhæðinni verður einhvers kon- ar torg þaðan sem menn geta séð upp á næstu hæð fyrir ofan. Á þessari stundu er ekki ljóst hversu margar verslanir verða í þessu húsi og í raun fer það tals- vert eftir eftirspurn. Byggingafé- lagið sem slíkt ætlar helst ekki að eiga neitt í húsinu þegar það verður komið í fulla notkun.“ Mikil áhætta tekin „Byggingafélagið er í raun stofn- að einungis til að byggja húsið en síðan er það allt til sölu,“ heldur Þorsteinn áfram. Hann staðfestir að eigendur byggingafélagsins viti að áhugi sé hjá mörgum fyrir þessari byggingu og margir hafi augastað á húsinu fyrir verslunar- rekstur. „Jú, við vorum nokkurn veg- inn búnir að tryggja okkur sölu á nægilega miklu plássi til að geta fjármagnað byggingu fyrsta áfanga. Hins vegar er þetta eins og allt annað, áhættan er alltaf mikil samfara slíkri framkvæmd og ekki síst á það við á tímum eins og nú ganga yfir þegar sam- dráttur virðist vera almennur í þjóðfélaginu. Fyrir verslunareig- andann sem er í rekstri er þetta mikil fjárfesting." - Er þessi bygging andsvar við verslunarmiðstöðvum sem þegar eru fyrir hendi á Akureyri, þ.e. Kaupangi og Sunnuhlíð? „Nei, ekkert endilega. í raun eru það eigendur Huldar sf. sem höfðu samband við okkur nokkra aðila innan félagsins og komu þessum málum af stað. Þá var fyrirsjáanlegt að rekstur Huldar yrði aflagður og menn vildu nýta þessa lóð.“ Verslunarmiðstöð í miðbæ Akureyrar. Þá vaknar sú spurn- ing hvernig verslanir verði í þess- ari „miniútgáfu“ Kringlunnar í Reykjavík. Verða þarna t.d. matvöruverslanir? „Nei, þarna verða ekki mat- vöruverslanir einfaldlega vegna þess að plássið er of lítið fyrir slíkar verslanir. Þarna verða t.d. bóka- og tískuverslanir. Menn eru að reyna að velja línuna sem breiðasta þannig að þetta verði aðlaðandi fyrir viðskiptavinina. Jú, það er rétt að til tals hefur komið að setja þarna upp skyndi- bitastað en á þessu stigi getum við lítið sagt hverjir verða og hverjir ekki. Við höfum auglýst og nokkrir aðilar haft samband, bæði aðilar frá Akureyri og úr Reykjavík. Það er því alveg hugsanlegt að í húsinu verði úti- bú verslana úr Reykjavík," segir Þorsteinn. Höfum pláss fyrir sérverslnir á Akureyri „Þessi bygging er áhætta hjá byggingafélaginu Lindinni ef lítil sala verður. Þetta er áhætta sem okkur er öllum ljós og við höfum reiknað hana út og komist að þeirri niðurstöðu að við getum staðið undir henni. Fyrir verslun- areigendur er þetta jú líka áhætta því þeir standa frammi fyrir því hvort fjárfesting í þessu húsi skili sér í aukinni sölu. Staðurinn er góður fyrir rekstraraðila sem núna eru í útjaðri miðbæjarins eða úthverfunum þannig að áhuginn ætti að vera fyrir hendi." Mikil umræða er um offjárfest- ingu í húsnæði hér á landi og því eðlilegt að spurt sé hvort ekki hefði mátt finna húsnæði fyrir þessa starfsemi. Þorsteinn svarar því til að umframhúsnæði í miðbæ Akureyrar sé ekki til. En hvað ber Akureyri af verslunum? Er rúm fyrir aukna verslun? Þorsteinn brosir við og segist ekki hafa lagt beint niður fyrir sér hvort hér sé rými fyrir aukna verslun. „Ég held hins vegar að hér sé pláss fyrir sérverslanir og aukið vöruval. Maður sér hluti í Reykjavík eða erlendis sem ekki eru til hér og ósjálfrátt veltir maður því fyrir sér hvort ekki sé hægt að selja sömu hluti hér. Kringlan í Reykjavík er kannski að vissu leyti fyrirmynd að þessu húsi og lóðin var fyrir hendi í miðbæ Akureyrar. Og ekki er að efa að þessi fjárfesting er góð ef menn eiga fyrir henni.“ Lindin er ekkert gróðafyrirtæki Kvittur var á kreiki lengi vel í Reykjavík að hver fermetri í versl- un í Kringlunni væri óhemju dýr. Slíkar sögur hafa einnig heyrst um hina akureyrsku Kringlu. „Jú, ég hef heyrt þetta. Við ætlum okkur hins vegar ekki að græða á byggingunni eins og margir virðast álíta. Húsið er dýrt en við sjáum ekki fyrir okk- ur að hér sé á ferðinni neitt gróðafyrirtæki." Þorsteinn segir eðlilegt að skoðanir manna á þessu framtaki séu mismunandi og margir hafa látið skoðanir sínar í ljós við hann. „Menn sjá að full alvara er að baki þessu. Skoðanirnar eru margar en ég held að yfirleitt séu menn ánægðir með að sjá nýtt hús í götunni. Hins vegar verður maður líka var við ákveðna svart- sýni hjá Pétri og Páli á götunni og þær skoðanir eiga líka rétt á sér. Byggingin er komin úr starthol- unum og hún fer upp í vetur, það er ljóst á þessri stundu." - Ertu sjálfur hræddur við þessa framkvæmd? „Já, maður er vissulega hrædd- ur við þetta. Maður tekur alltaf áhættuna innan ákveðinna marka, ef þessi framkvæmd skil- ar sér þá er það gott en skili hún sér ekki þá þá verður maður að hafa efni á að taka því. Að öðr- um kosti hefði maður ekki farið út í þetta. Svoleiðis er þetta með allt, maður er alltaf að taka áhættu, er alltaf að vega og meta kosti og galla,“ segir Þorsteinn Thorlacíus. JÓH „Við komum hingað á þeim tíma þegar nokkur lægð var á landsbyggðinni og margir kunningjanna í Reykjvík spáðu því að þetta yrði algert volæði. Fyrir okkur skipti veðrið ekki minnstu máli en einnig fjariægðir milli staða og það að hér er gott að ala upp börn.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.