Dagur - 26.05.1990, Blaðsíða 7
Laugardagur 26. maí 1990 - DAGUR - 7
matarkrókur
Flóttí frá kosnmgabröltínu
Hallfreður
Örgumleiðason:
Agætu lesendur. Eg ætla ekki
að segja stakt orð um kosning-
arnar, nóg er á ykkur lagt í
fjölmiðlum þessa dagana. Við
skulum flýja úr skarkalanum
og gráum veruleika fullgildra
atkvæða og auðra seðla um
stundarsakir og skyggnast inn í
skúmaskot sálar minnar. Þar
eru engar skoðanakannanir
eða tölvuspár heldur sjálfstæð-
ur kynjaheimur sem klækir
pólitíkusa fá ekki aðgang að.
A sekúndubroti get ég ferðast
til fyrstu bernskuminninga,
fram í tímann, upp í víðáttur
himinhvolfsins og niður í set-
lögin á Tjörnesi. Já, ég læt mig
dreyma. Hóflegir dagdraumar
eru bráðhollir, að sögn sál-
fræðinga.
Skreppum til sovésku geim-
faranna sem komust upp í
geimstöð í bilaðri Sojus-dós.
Hvernig skyldi þeim líða í ein-
angrun á þessum uggvænlega
stað? Munu þeir komast til
baka, heim í faðm fjölskyld-
unnar? Næst liggur leiðin til
Laos í kofa í skóginum.
Áhyggj ulítið líf, engar gervi-
þarfir, ekkert rafmagnstækja-
kapphlaup, nægur tími fyrir
mann sjálfan og sína nánustu.
Nú er ég kominn í búnings-
klefa þokkafullra meyja sem
brátt stíga á svið til að sýna
nýjustu nærfatatískuna. Mér
gefst ekki tími til að roðna,
hvað þá meira, því skerandi
garg eiginkonu minnar kallar
mig aftur til raunveruleikans.
Það er eins og hún hafi fundið
á sér að ég var kominn út á hál-
an ís.
- Ætlarðu að liggja þarna í
allan dag, karlpungur, og
hugsa um einhverjar ungar
merar, hneggjaði þessi elska
sem átti erfitt með að sætta sig
við að vera komin af léttasta
skeiði.
- Hvað er þetta, kona,
sagði ég hvasst. - Ég var að
skipuleggja sumarfríið okkar
með tilliti til innstreymis og
útstreymis í fjárhagsbókhald-
inu. Auk þess er ég að bera
saman veðurfar á hinum ýmsu
stöðum undanfarin 50 ár,
ástand vega, flugsamgöngur,
verðlag á gistiheimilum og sal-
ernisaðstöðu. Þetta er gríðar-
leg vinna og ég þarf að fá frið
til að hugsa.
- Jæja, ertu að skipuleggja
fríið, sagði konan eilítið blíð-
ari á manninn. - Og að hvaða
niðurstöðu hefurðu komist?
- Jú, það bendir allt til þess
að þú verðir að vinna í þínu
sumarfríi. Útstreymið er nefni-
lega meira en innstreymið.
Hana nú! Þar með varð allt
vitlaust í tiltekinni íbúð í Gler-
árhverfi og nágrannarnir fengu
að heyra söng sem þeir seint
munu gleyma. Textinn fjallaði
um ónytjung sem skaffaði ekki
nóg og lét eiginkonu sína þræla
dag og nótt. Sárþjáð konan átti
svo ekki einu sinni að fá nokk-
urra vikna sumarfrí því karlinn
þurfti að kvelja hana meira og
liggja sjálfur í leti. Þessi texti
var sunginn í ótal tóntegund-
um, aðallega þó þeim hæstu.
Þegar síðustu tónarnir dóu
út áttaði konan sig loks á því
að ég var farinn og einu áheyr-
endurnir voru nágrannar sem
gægðust á bak við hvert
gluggatjald í næstu húsum. Ég
sit nefnilega ekki undir svona
ómálefnalegu skítkasti. Frekar
skrepp ég og fæ mér kaffi með
rígfullorðnum framsóknar-
mönnum eða sötra bjór sem
barnungir hægrimenn selja,
ekki á Fógetanum heldur bak
við fógetann. En ég ætlaði ekki
að tala um pólitík.
Það flokkast varla undir
pólitík að tala um kaffi. Ég
notfæri mér yfirleitt boð fram-
boðsflokkanna og drekk
óhemju mikið kaffi á hverjum
stað oj> raða í mig hnallþórun-
um. A þessu lifi ég í kringum
kosningar og fæ auk þess að
rúnta ókeypis um bæinn því
allir vilja ólmir keyra mig á
kjörstað. Til að vera nú ekki
algjörlega forhertur og sam-
viskulaus þá drekk ég alltaf
langminnst af kaffi hjá þeim
flokki sem ég ætla að kjósa.
Maður verður að kunna sig og
styðja sína menn.
Svínin eru á uppleið en kart-
öflurnar á niðurleið, sögðu
þeir í Degi fyrir skömmu.
Skrítin árátta að þurfa alltaf að
uppnefna stjórnmálaflokka.
Hvar skyldu rollurnar standa?
Jæja, ætli það sé ekki best að
drífa sig á kjörstað. Ég má
ekki svíkja Svavar, það er víst
nógu erfitt að vera sannfærður
um gildi þess að vera sann-
færður án þess að glata sann-
færingu sinni.
Ég kveð í von um góða
kosningu.
Frambjóðendur reyna nú allt hvað þeir geta til að draga kjósendur á kjörstað og næla í atkvæði þeirra. Hallfreður
skiptir sér ekki af þessu brölti og fer sínar eigin leiðir.
Anný Halldórsson er búin að setja lærið í saltpækil. Mynd: kl
Suinarréttir með
norsku ívafi
- frá Anný í Sveinbjarnargerði
Við höldum okkur á
skandinavískum slóðum í
matarkróknum. Anný Hall-
dórsson (Larsdóttir) í
Sveinbjarnargerði kom frá
Noregi og hafði ýmsar
uppskriftir í farteskinu frá
heimalandinu. Hún blandar
saman norskum og íslensk-
um hugmyndum með góð-
um árangri og í dag œtlar
hún að bjóða okkur upp á
frískandi sumarrétti.
Léttsaltað lambalœri
Pækill:
3 I vatn
1 kg salt
200 g sykur
2 laukar (skornir í fernt)
20 einiber
1 gulrót í sneiðum
20 svört piparkorn
Sjóðið vatnið og látið salt,
sykur og krydd sjóða með síð-
ustu 4-5 mínúturnar. Látið
pækilinn kólna.
Látið síðan lærið liggja í salt-
pæklinum í tvo sólarhringa.
Sjóðið lærið við vægan hita í
steikingarpoka eða á pönnu
með loki í ca. 2xh tíma. Lærið er
borið fram heitt með kartöflum,
spergilkáli, gulrótum og heitum
jafningi með múskati. Anný
segir að múskatið sé alveg
ómissandi.
Áður en lærið er soðið er best
að taka mjaðmagrindarbeinið
úr. Þá er auðveldara að skera
það. Berið lærið fram í heilu
lagi og skerið við borðið.
„Þetta er ættað frá Noregi og
allt of lítið notað á íslandi.
Svona læri er afskaplega frísk-
legur og góður sumarréttur,"
segir Anný, en þá er komið að
eftirrétti dagsins.
Bökuð epli
Á eftir er gott að fá bökuð epli
með týtuberjasultu og sýrðum
rjóma. Það er mjög auðvelt að
búa þennan rétt til.
Flysjið eplin og penslið með
bræddu smjöri. Takið kjarnann
úr eplunum, raðið þeim í eld-
fast mót og fyllið götin eftir
kjarnana með týtuberjasultu.
Bakið eplin í ofni við 200 gráð-
ur á celsíus þangað til þau eru
orðin meyr. Berið kaldan, sýrð-
an rjóma með sér í skál.
Anný segir að það sé passlegt
að láta eplin í ofninn þegar lær-
ið er tilbúið og fólk er sest að
snæðingi. Eplin verða þá tilbúin
strax og lærið hefur verið
innbyrt.
„Týtuberjasultan er mikið
notuð í Noregi og líka í Dan-
mörku og Svíþjóð. Hún fæst
líka í verslunum hér. Það er
afskaplega gott að hafa sýrðan
rjóma með bökuðum eplum og
reyndar mörgum réttum. Ég
held að margir geri sér ekki grein
fyrir því hvað sýrður rjómi er
góður og sérstaklega frískandi,“
sagði Anný.
Aðspurð kvaðst hún hafa
gaman af eldamennsku og hún
sagði að íslenska lambakjötið
væri fyrsta flokks. Verkaskipt-
ingin í eldhúsinu í Sveinbjarn-
argerði er líka skýr, eða eins og
letrað er á platta uppi á vegg:
„Hér kokkar Anný - og Jón-
as vaskar upp!!“
Við þökkum Anný kærlega
fyrir þessar sumaruppskriftir.
Hún skorar á Konný K. Krist-
jánsdóttur, hjúkrunarfærðing á
Heilsugæslustöðinni, í næsta
matarkrók. SS