Dagur - 04.05.1991, Side 10

Dagur - 04.05.1991, Side 10
10 - DAGUR - Laugardagur 4. maí 1991 Laugardagur 4. maí 1991 - DAGUR - 11 „ Einu sinni var ég skotin - þegar bóndinn fór á sálfrœðingaveiðar" — helgarviðtal við Guðrúnu Sigurðardóttur, kennara við Hafralækjarskóla „Framan af var ég alltaf að rekast á þetta nafn en það er að verða sjaldgjæft og gott nafn núorðið því þær eru flestallar dánar nöfnur mínar. Eg er að komast á þann aldur að vera af kynslóð sem ein lif- ir eftir,“ sagði Guðrún Sigurðardóttir, kennari við Hafralækjar- skóla í Aðaldal, er haft var orð á að nafnið hennar hefði fyrir fáum áratugum verið eitt hið algengasta á íslandi. Gunna er samt enginn öldungur, kona á besta aldri með brennandi áhuga á því sem er að gerast í kring um hana. Hún er menntuð sérkennari og talmeina- fræðingur, virk í félagsmálum af mörgum toga, bæði þeim sem varða kennara og skólamál, íþróttir og ITC. Dagur er kominn í Hafralækjarskóla til Gunnu og nú hefst hefðbundið helgarviðtal, svona þar sem fyrst er spurt: Hvar ert þú fædd og uppalin, góða mín? „Ég er fædd og uppalin norður á Mel- rakkasléttu, þeirri aldeilis ágætu sveit sem er auðvitað langt fyrir norðan hinn byggi- lega heim. Pað er nú svo skrýtið að þar finnst mér langbesti staður á jarðríki vera. Flestir munu bera þann hug til æskustöðv- anna. Ég er ómöguleg manneskja ef ég kemst ekki á Sléttuna mína á hverju ári, til að anda að mér fersku ómenguðu sjávarlofti með þaralykt.“ Var tiltölulega lygin og ómerkileg „Þegar ég hugsa til baka held ég að Slétt- ungar séu hreint skemmtilegasta fólk sem ég hef kynnst. Þeir voru og eru afskaplega miklir fyrir sér, háværir, fjörugir og kátir. Aldrei hef ég verið innan um fólk sem syng- ur eins mikið, því þarna var sungið af lífi og sál og öllum lífs og sálarkröftum, alltaf hreint og ævinlega þegar fólk kom saman. Og svo sögðu menn lygasögur. Það var ekki svo margt sem gerðist í þá daga og við höfð- um ekki svo mikið af fjölmiðium. Menn hlustuðu á fréttir í útvarpinu og svo kom eitt og eitt dagblað einstöku sinnum. Þau voru orðin það gömul þegar þau loksins komu austur að fréttir bárust aðallega í gegn um sveitasímann, sem ég sakna ákaflega. Mér finnst að við hefðum átt að fá að hafa sveita- símann áfram til að fá fréttir úr sveitinni, þó það sé gott að hafa hinn með. Þegar gestir komu á bæi þótti heilög skylda að segja fréttir, ef menn mundu ekki eftir neinum sérstökum í augnablikinu þá þurfti að búa þær til, og það var enginn vandi. Menn voru margir sérstaklega eftir- sóttir sögumenn. Sögurnar voru sjaldnast alveg lygi en ýmsu var hagrætt og mikið gert úr smáatriðum. Þetta var engin rætni, menn voru yfirleitt með sögusagnir af sjálfum sér. Ég var tiltölulega lygin og ómerkileg fram eftir aldri en er að verða búin að týna þessu niður. Það er svo heiðarlegt fólk hér í Suðursýslunni að ég er eiginlega alveg hætt að geta sagt sögur.“ - Ertu samt ekki til í að reyna að rifja upp eina eða tvær sögur fyrir okkur, svona sem dæmi? „Frændi minn einn var hálfgerður fóstur- sonur heima. Hann var búinn að vera þar í sveit nánast á hverju ári frá því hann var smápatti. Hann var einu sinni vetrarmaður heima fram yfir áramót en fór þá á vertíð suður. Mamma bjó hann út sem best hún kunni, í nýjum heimaprjónuðum ullarnær- fötum, síðbrók og skyrtu með löngum erm- um og svellþykkum sokkum. Svo kom hann um vorið og sagði sínar farir ekki sléttar: „Heyrðu fóstra. Þetta var alveg hræðilegt með ullarfötin frá þér. Ég var svo heppinn að sofa í efri koju, því þegar fór að líða á vertíðina gat ég hoppað upp úr gallanum á kvöldin og á morgnana stóð hann á gólfinu og beið eftir mér svo ég bara stökk ofan í hann. Þetta var mjög þægilegt. Sokkarnir voru orðnir dálítið lélegir, því það var ekk- ert eftir nema snúningarnir þegar kom fram á miðjan vetur. Undir vorið fór ég að verða óskaplega krankur, ganga í hnút og var með verki hér og þar. Það var allt eitthvað svo ömurlegt og mér fannst ég vera að drepast. Ég fór til læknis þegar ég kom í land og hvað heldur þú að hann hafi uppgöggvað? Fína ullarskyrtan frá þér var orðin svo þófin að hún var punghlaupin upp um hálsinn á mér og var að kæfa mig.“ Gulliö í ístrunni „Einn frændi minn hafði sérstakt yndi af því að segja okkur börnunum sögur og við höfðum sérstakt yndi af að hlusta á hann og trúðum hverju orði sem hann sagði. Þegar ég var fjögra eða fimm ára kom ömmubróð- ir minn í heimsókn að vetrarlagi. Hann var ógn og skelfing feitur, tvímælalaust feitasti maður sem ég hef nokkurn tíma séð. Hann var ákaflega góður vinur minn og mikil barnagæla. Frændinn sem sagði okkur sögurnar fór eitt sinn að segja mér það að enginn furða væri þó ömmubróðir minn væri feitur, þannig sé mál með vexti að í ístrunni á honum sé gullkista og þess vegna sé hún svona stór. Það þurfi ekki nema að lag, ýta þéttingsfast á vissan stað þá spretti lokið upp. Það var ekkert með það ég fór inn að bekk þar sem frændi minn svaf og sparkaði þéttingsfast í kviðinn á honum. Hann stökk á fætur með hljóðum, þetta hef- ur verið vont því hann var veill í maga. Ég varð hrædd þegar hann spratt upp svona stór og ógurlegur og ég faldi mig inni í horni á stórum skáp, auðvitað hágrenjandi. Gamli maðurinn kom mér út úr skápnum með loforðum og brjóstsykri. Eftir augna- blik var ég búin að jafna mig og prófaði þá strax aftur að fara í fjársjóðsleit. Allt fór á sömu leið nema að nú fékk frændi mig til að segja af hverju ég gerði þetta þegar ég var komin úr skápnum, og svo hætti ég að leita að gullinu." Verð olíufursti á sléttu „Ég er frá Oddstöðum og þeir teljast í eyði þó mikil byggð sé þar á sumrin. í dag er þetta svokallað hlunnindabú og ákaflega margir úr ættinni koma þarna á sumrin, bæði til að njóta útivistarinnar og til að vinna að hlunnindunum. Þarna er geysileg- ur reki, mikið æðarvarp og mörg vötn með silungi, einnig sellátur svo það er mikil hátíð þegar einhver byssufær kemur á svæðið svo að hægt sé að ná í sel í matinn. Móðurbróðir minn sem kominn er á eftirlaun er farinn að vera allt að átta mánuðum á ári þarna og er búinn að gera upp annað íbúðarhúsanna, en þarna er einnig stór sumarbústaður." - Hverju spáir þú um framtíð þessa land- svæðis? „Sem sannur Sléttungur og sögumaður þá er ég alveg viss um að þarna er ómæld olía í jörðu og eftir nokkur ár verður þú að panta viðtal við mig með margra mánaða fyrirvara því þá verð ég orðin olíufursti á Sléttu. Ég er viss um að við hættum ekki að sækja þarna austur og eigum eftir að fá enn meiri ásókn í þessar jarðir okkar. Margir hafa viljað kaupa jörðina, m.a. vegna sil- ungsveiðinnar, en hún verður áfram í eigu fjölskyldunnar. - Hvernig var háttað skólanámi barn- anna á Sléttunni? „Það var ákaflega góður skóli á Kópa- skeri. Hinsvegar vorum við sveitabörnin ekki skólaskyld fyrr en tíu ára, þurftum bara að koma á vorin og taka próf. Það hitt- ist þannig á að ég var tíu ára árið sem ég fluttist til Raufarhafnar svo ég var aldrei í skóla á Kópaskeri, en ég fór inneftir tvö- þrjú vor og tók próf. Ég kom fyrst sjö ára, alveg þrælmontin og ánægð með mig og Guðni prófdómari spurði hvort ég kynni ekki að skrifa. En ég svaraði því neitandi. Þá bað gamli maðurinn mig að reikna fyrir sig, ég neitaði því en sagðist vera fluglæs. Hann lét mig lofa því að ég yrði búin að læra eitthvað meira næst þegar ég kæmi og ég gerði það með tárum. Ég þjáðist við að þurfa að skrifa og reikna, því ég vildi fá að lesa í friði og fannst það vera nóg. En ég var það heiðarleg, að fyrst ég hafði lofað að vera búin að læra eitthvað meira varð ég að standa við það. Svo fór ég í skólann á Rauf- arhöfn tíu ára.“ Yndislegustu dagar lífsins á Laugum „Síðar lá leiðin í Laugaskóla og það átti að setja skólann á afmælisdaginn minn þegar ég var þrettán ára. Við lögðum af stað, en Brunnáin var ófær eins og oft, áður en á hana kom almennileg brú, við snérum því við og ég gat haldið upp á afmælið mitt heima. Ég var á Laugum í þrjá vetur og það eru hreint yndislegustu dagar lífs míns. Ég vorkenni öllum börnum sem ekki fá að upp- lifa það að vera á heimavistarskóla. Við átt- um í raun engan að nema hvert annað. Við krakkarnir að austan komum á haustin, fór- um heim í jólafrí, og komum svo heim á vorin. Þannig að þetta var okkar fjölskylda og við tengdumst svo nánum böndum að í dag á ég enga nánari vini en þessi skólasyst- kini frá Laugum. Þó við hittumst ekki í tuttugu ár erum við jafn nánir vinir þrátt fyrir það. Þarna var náttúrlega hellingur af Suður-Þingeyingum og þau búa hér allt í kring um mig svo ég er eins og heima hjá mér á þessu svæði. Ég er búin að vera hér í mörg ár og fór í sérkennslunámið eftir að ég kom hingað. En eftir að ég lauk kennaraprófi fór ég að kenna á Ólafsfirði, var þar í tvo vetur, lík- aði ljómandi vel og keyrði Múlann fram og til baka og fannst það bara allt í lagi. Aðstæðurnar sem þú býrð við eru það sem þú sættir þig við og þá er þetta allt í lagi. Ég þurfti að vísu einu sinni að ganga af bíl efst í Múlanum og ganga til Ólafsfjarðar, en það er ekki meira en það sem kemur fyrir þegar maður er á sumardekkjum í snjó og bílinn i kemst ekki lengra. , kí, Næst lá leið mín til Reykjavíkur þar sem ég var eitt ár í Kennaraskólanum við fram- haldsnám og tók stúdentspróf. Ég ætlaði reyndar í Háskólann haustið eftir en lenti í kennslu við Fellaskóla sem þá var að byrja. Þetta var alveg dauðóvart, ég réði mig í 10- 12 tíma íslenskukennslu á viku en þegar skólinn var settur komu allt í einu 600 börn í stað þeirra 300 sem voru skráð og ég fór heim um kvöldið með stundaskrá upp á 48 tíma og eftir það komst ég bara ekkert í Háskólann. Þarna var verið að bjarga fyrir horn. Það fór svo að ég kenndi við Fellaskóla í , fjögur ár.“ Vel sett með kennara Við Hafralækjarskóla nema um 110 börn á aldrinum 6-16 ára. Börnin eru úr Aðaldal, Laxárdal, Reykjahverfi, Tjörnesi, út-Kinn og frá Vaði sem tilheyrir Reykjadal. Guð- rún kom að skólanum 1976, þá voru þar um 150 börn. Á næstu tveimur árum fækkaði þeim mjög en fjöldinn hefur nokkuð staðið í stað síðan og sagðist Guðrún reikna með að áframhald yrði þar á. Fjórtán kennarar starfa við skólann. „Ég veit ekki um nokkurn sveitaskóla sem er svo vel settur sem hér, því það eru menntaðir kennarar til að kenna bókstaf- ' lega allar greinar, meira að segja heimilis- I fræði en þar er aðeins um örfáa tíma á viku að ræða. Sama má segja um myndmennt og við erum með menntaða handavinnu- kennara og tónlistarkennara. Allt eru þetta hálfar stöður svo ef þetta fólk væri ekki búsett hérna væri engin leið að ráða kennara að. Við erum ákaflega vel sett hvað þetta varðar. Að auki má nefna sérkennsl- una og það vill svo heppilega til að ég er ekki aðeins almennur sérkennari heldur einnig talmeinafræðingur. Ég get því gegnt tvöföldu hlutverki ef þörf krefur. Ég veit ekki hvað veldur því að allt þetta kennaramenntaða fólk vill búa hér, en það hefur átt hér heima frá ómunatíð, eða gifst hingað og það hlýtur að vera gott að búa hér því í öllum sveitum sem að skólanum standa býr fólk með kennaramenntun sem vill gjarnan vinna hérna.“ - Þú ert mjög virk í félagsmálum, segðu mér frá þátttöku þinni á þeim vettvangi. „Virk og ekki virk, ég álpast aðallega út í þetta. Mér er meinilla við að segja nei þegar ég er beðin að koma fram eða standa í forsvari fyrir einhverju. Það er alltaf verið að tala um þetta með konur sem eru svo hlédrægar að þær taka ekki að sér ábyrgðar- störf, þó þær kæmust til þess. Ég reyni því að segja já eins oft og ég get, þetta er svona að fólk er bara notað en hæfileikar og for- sendur fara að skipta litlu máli, það er bara hver lætur nota sig.“ - Leiðast þér þá félagsmálastörf? „Nei, auðvitað leiðist mér þetta ekki, þetta er hræðilega gaman. Það er gaman að hitta fólk og vinna með hinum og þessum. Maður neyðist til að fylgjast með hlutum og það er alltaf miklu skemmtilegra að vera með á nótunum. Ég er viss um að ef ég hefði ekki unnið í stjórn Kennarasambandsins hér fyrir nokkrum árum þá hefði ég lítið sem ekkert vitað um kjaramál kennara, aðstöðu á mismunandi stöðum í skólum á landinu og svo framvegis.“ Heyri væl þegar ég hringi - Þú starfar líka að íþróttamálum. „Ég lenti í því alveg dauðóvart. Sonur minn hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og ég hef af fremsta megni reynt að sjá til þess að hann geti stundað þær íþróttir sem hann langar til. Þar sem við búum í sveit er minn skerfur til þess að sjá um að hann komist milli staða. Börn í þétt- býli geta gengið á æfingar en sveitabörn þarf að keyra. Mér finnst þetta þess virði, álít að ég sé að vinna þarna gott starf og hef hvorki séð eftir tíma né bensíni í þetta. Skyndilega stóð ég frammi fyrir því að það var búið að kjósa mig sem foreldri í Frjálsíþróttaráð HSÞ. Þau sögðu að fyrst ég væri hvort sem er alltaf á æfingum gæti ég alveg eins reynt að gera eitthvað. Ég hef því verið á kafi í þessu undanfarin ár og það er hreint meiriháttar starf. Á sumrin er þetta miklu meira en 40 tíma vinnuvika. Það er hreint ótrúlegt hvað mikill tími fer í það að skipuleggja mót, undirbúa þau og ganga frá á eftir. Langur tími fer einnig í að hringja út um allar trissur og reyna að fá fólk til að vinna, því frjálsíþróttamót eru óhemju mannfrek ef þau eiga að fara vel fram. Við Anna Rúna Mikaelsdóttir höfum síðustu árin verið einna helst í þessu, að reyna að útvega starfslið, enda heyrum við orðið væl í símanum þegar við hringjum í fólk. Að standa svona í íþróttamálum fyrir börn og unglinga er afskaplega gefandi. Krakkarnir eru svo frábærir, þau eru svo skemmtileg, falleg og góð að þáð er leitun á öðru eins. Þeir sem taka stundum upp í sig um það hvað ungdómurinn nú til dags sé á hraðri niðurleið og ómögulegur, ættu að prófa að vinna með okkur í íþróttahreyfing- unni um stund, þá komast þeir ábyggilega að einhverju öðru. Því þetta er einstaklega efnilegur ungdómur, í það minnsta þau sem við erum með. Þetta kostar mikla vinnu af hálfu foreldra barnanna, ekki bara okkar sem eru í nefndinni. Foreldrarnir vinna kannski við þetta aðra hverja helgi allt sumarið, frá morgni til kvölds, standandi úti í roki og rigningu við að taka tíma eða mæla vegalengdir. Þetta er ekkert smáræði sem menn leggja á sig. Það er misjafnt hvað for- eldrar eru duglegir, en ótrúlegt að við skul- um geta fengið kannski 50 manns til starfa viku eftir viku. Sérstaklega finnst mér að foreldrar á Húsavík hafi verið duglegir, þaðan koma alltaf flestir starfsmenn en að vísu er þar flest fólkið." Þurfum ekki að baka eða selja neitt í ITC - Ég veit að þú ert virkur félagi í ITC Flugu. „I ITC þjálfum við okkur í samskiptum. Það skyldi nú kannski einhver ætla að ég væri orðin þjálfuð í að umgangast fólk en það er svo ótrúlegt að það er alltaf hægt að læra eitthvað nýtt, og ég komst að því þegar ég gekk í félagið að ég átti margt eftir ólært. Þetta er óskaplega skemmtilegur félags- skapur og ég skal viðurkenna að það sem mér finnst allra mest aðlaðandi við hann er að við erum ekki í neinni fjáröflun. Við þurfum ekki að baka, selja eða gefa á basar eða neitt slíkt. Við erum bara að þessu fyrir sjálfar okkur og höfum ekki nokkrar ein- ustu góðgerðarmálastefnur. Við erum að þroska og þjálfa okkur sjálf. Félagið er nú opið báðum kynjum en við höfum ekki fengið neinn karlmann til að vera með okk- ur þeir eru víst svo þjálfaðir. Það er ótrúlegt hvað oft koma þarna fram duldir hæfileikar sem konurnar vissu ekki einu sinni sjálfar að þær byggju yfir. Til að byrja með fannst mér mikil vinna að vera í þessum félagsskap. Ég var svolítið pirruð og ergileg og fannst aldrei vera friður, um leið og einum fundi væri lokið þyrfti að fara að undirbúa þann næsta. Núna er ég búin að átta mig á því, að það var ekki það að þetta væri mikil vinna heldur var ég að mikla þetta fyrir mér. Ég gerði þær kröf- ur á sjálfa mig að manneskja sem væri svona vön að tala og koma fram, og hefði svo mikið hugmyndaflug að á hverjum degi í tuttugu ár hefði hún fundið upp á einhverju nýju sem kennari, ég var sem sagt að gera þá kröfu á sjálfa mig að ég kæmi með eitthvað sem væri svo fullkomið að engum hefði áður dottið í hug að gera svona. Þetta var bara í byrjun, þar til ég var sjálf orðin örugg með mig í félagsskapnum. Ef þarf að vinna í sambandi við félagið núorðið, er það svo gaman að tími til þess er alltaf fyrir hendi og ég hlakka til næsta fundar.“ Er mikil dreifbýlistútta - Nú ert þú alltaf á fullu, starfandi að einu og öðru, hvað finnst þér um búa úti á landi, úti í sveit, er nokkuð verra að vera hér en fyrir sunnan? „Nei, drottinn minn dýri. Ég er fædd og uppalin í svo fámennri sveit, er svo mikil dreifbýlistútta að mér finnst ég vera komin í töluvert þéttbýli hérna og fullt af fólki hér í kring um mig. í öðru lagi er svo mikið betra fyrir mig sem kennara að vinna hér heldur en í Reykjavík. Ég held að fólk sem ekki hefur upplifað hvorutveggja geri sér enga grein fyrir hvað þetta er óhemjulegt álag að kenna við marga þessa stóru skóla. Mér detta stundum í hug vinnubúðir nasista. Ég upplifði að kenna við Fellaskóla þegar þar voru komnir 1200 nemendur og þeim fjölg- aði upp í 1600 áður en skólinn fór að minnka aftur. Það er óhugnanlegt að nokkrum manni skuli detta í hug að útbúa svona stofnanir fyrir börn. Þau týndust, þau urðu ekki manneskjur, þau urðu dropar í hafið. Kennararnir þekktu nöfn á börnun- um í bekknum sínum og búið, þeir þekktu ekki aðstæður þeirra og kynntust ekki for- eldrunum. Engin stund var aflögu til að tala við foreldra eða börn og kennarar vissu ekki hvað börnunum fannst og varla hvernig þeim gekk í skólanum. Allar stofur voru yfirfullar og það var eins og þarna væri ein bamakássa. Það er því lúxus að kenna við skóla eins og hér, þar sem ég þekki öll börnin og kemst í persónuleg kynni við foreldra þeirra. Hef yfirsýn og sé hvernig hverju og einu barni líður og hvernig því gengur. Starfið er allt annað og léttara.“ Texti og mynd: Ingibjörg Magnúsdóttir Konan sem aldrei er heima - En hvernig líkar þér að búa í þessu sam- félagi? „Þetta vel ég. Ég er mikil dreifbýliskona og svo átti ég fullt af kunningjum og vinum hér út um allar jarðir. Þegar ég kom úr sérnám- inu í Noregi var ég svo stálheppin að fá hálfa stöðu við Fræðsluskrifstofuna á Akur- eyri sem sérkennslufulltrúi í nokkur ár. Þá kynntist ég kennurum og nemendum í öll- um skólunum og mér finnst afskaplega skemmtilegt og gott fólk hér alls staðar í kring um mig. í Reykjavík er ekki svo auð- velt að kynnast nýju fólki. Sveitungar rnínir gætu þó rekið upp stór augu ef þeir heyra að ég hafi gaman af að kynnast því þeir hafa varla séð mig undanfarin ár, konuna sem aldrei er heima. Ég hyggst þó bæta úr þessu og er búin að koma mér upp einu tóm- stundagamni enn, er orðinn umboðsmaður fyrir plastdalla. Ég hef gaman af að kynna þessar vörur og á kynningunum hitti ég fólk. Ég þyrfti að vera betur skipulögð. Tíminn fer ævinlega eitthvað úr böndum hjá mér Einu sinni er móðir mín var stödd hjá mér að sumarlagi og ég þurfti að þeysa til Húsa- víkur spurði hún hvenær ég kæmi til baka. Ég sagðist koma aftur eftir tvo tíma, svona um kaffileytið. Á umræddum tíma kallaði móðir mín í son minn og spurði hvort þau ættu ekki að fara að taka til kaffi handa mömmu hans því nú færi hún alveg að korna. Þá sagði blessað barnið, sem var tíu eða ellefu ára þegar þetta var: „Æi amma mín, þú veist ekki hvað klukkutímarnir eru langir hjá henni mömmu.“ Hann hafði rétt fyrir sér því það voru margir klukkutímar þar til ég kom.“ Með byssu í bílglugga - Nú ert þú mikið á ferðinni í sambandi við þitt starf og félagsmál. Hefur þú ekki lent f ævintýrum og svaðilförum? „Ég er ekki í starfi nema hér við skólann núna, nema að ég sinni hjálparbeiðnum einstaka sinnum. Mér finnst að vísu slæmt að menntun mín sem talkennara nýtist ekki, því margir sem auðvelt er að hjálpa eiga í erfiðleikum. Ég hef aðallega orðið veðurteppt heima hjá mér, en hvað svaðilfarir snertir verð ég að viðurkenna að ég var einu sinni skotin. Það var þegar einn ágætur bóndi á Sléttu fór á sálfræðingaveiðar. Þá fórum við þrjú sam- an til Raufarhafnar, tveir sálfræðingar sem störfuðu við fræðsluskrifstofuna á Akureyri og ég. Segir ekki af ferðum okkar fyrr en á heimleiðinni, að einhversstaðar á miðri Sléttu sjáum við að bíll stendur við vegar- brún og að maður stendur aftan við hann. Bílstjórinn okkar færði sig yfir á hinn kant- inn og við hugðum ekki nánar að þessu en um leið og við þeystum hjá, sáum við að maður situr í bílstjórasætinu og miðar byssu út um gluggann. I því að við keyrðum hjá heyrðum við hvellinn. Við vorum komin langleiðina til Kópaskers þegar við áttuðum okkur á hvað hafði gerst og þegar við kom- um til Húsavíkur skulfum við svo á fótunum að við komumst ekki út úr bílnum til að fara í sjoppu. Byssumaðurinn tók ekki eftir okk- ar bíl, var að miða og skaut svona um leið og við fórum hjá. Þetta er ein versta svaðil- för sem ég hef lent í því þó ég hafi farið að heiman í vondu veðurútliti eða veður versn- að á meðan ég hef verið að heima, hefur þetta ævinlega sloppið til hjá mér og ég komist heim aftur.“ IM

x

Dagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.