Dagur - 04.01.1992, Blaðsíða 4

Dagur - 04.01.1992, Blaðsíða 4
'4 - DAGUR - Laugardagur 4. janúar 1992 ÚTGEFANDI: DAGSPRENT HF. SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 96-24222 • SÍMFAX: 96-27639 ÁSKRIFT KR. 1200 Á MÁNUÐI • LAUSASÖLUVERÐ KR. 110 GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMNETRA 765 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: EGILL H. BRAGASON UMSJÓNARMAUR HELGARBLAÐS: STEFÁN SÆMUNDSSON BLAÐAMENN: INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 96-41585), JOHANN OLAFUR HALLDÓRSSON, JÓN HAUKUR BRYNJÓLFSSON (íþróttir), ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, SKÚLI BJÖRN GUNNARS- SON (Sauðárkróki vs. 95-35960), STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON, LJÓSMYNDARI: KJARTAN ÞORBJÖRNSSON PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON, ÞRÖSTUR HARALDSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTVINNSLA: DAGSPRENT HF. Vitfirrt vaxtastig Samkvæmt áætlun Seðlabanka íslands í Hagtölum mánaðarins í desember voru raunvextir skuldabréfalána banka og spari- sjóða umfram hækkun lánskjara- vísitölu að meðaltali 18.6% á síð- asta ársfjórðungi nýliðins árs. Samsvarandi vextir voru 5,9% á fyrsta ársfjórðungi, 4,9% á öðrum ársfjórðungi og 11 % á þriðja árs- fjórðungi. Að meðaltali voru raunvextir 9,9% umfram hækkun lánskjaravísitölu á árinu 1991, heldur hærri en vextir verð- tryggðra lána sem voru 9,1% að meðaltali á árinu 1991. Tölurnar hér að ofan tala sínu máli um vaxtabrjálæðið hér á landi. Raunvextir hafa hækkað jafnt og þétt allt árið og voru gersamlega komnir úr öllum böndum í lok nýliðins árs. Raun- vextir upp á tæp 19% flokkast undir algera vitfirringu. Hafa ber í huga að raunvextir eru hin raunverulega breyting á kaup- mætti fjár sem ber tiltekna ávöxtun, þ.e. nafnvextir að frá- dregnu því verðbólgustigi sem ríkir í hagkerfinu. Enginn atvinnu- rekstur stendur undir svo háum raunvöxtum, slíkri ofurbyrði vaxta, þaðan af síður einstakl- ingar. Það er hryggilegt til þess að hugsa að það var ríkisstjórnin sjálf sem hafði forgöngu um þá vaxtahækkun sem átt hefur sér stað á árinu. Hún ákvað í vor „að fara vaxtaleiðina", eins og Davíð Oddsson forsætisráðherra orðaði það þegar ríkisstjórn hans hækk- aði vexti á ríkisvíxlum og spari- skírteinum um tvo af hundraði. Ríkisstjórnin ber þar af leiðandi höfuðábyrgð á þeim okurvöxtum sem nú eru við lýði. í ljósi þess er umhugsunarvert að forsætisráð- herrann minntist ekki á það einu orði í áramótahugleiðingum sín- um í Morgunblaðinu á gamlárs- dag að hann hygðist beita sér fyrir vaxtalækkun á nýja árinu. Forsætisráðherra sagði við það tækifæri að hinn mikli halli á utanríkisviðskiptum væri „stærsta vandamálið sem við væri að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar". í annan stað sagði forsætisráðherra að erfiðleikar í sjávarútvegi ættu öðru fremur rætur sínar að rekja til tveggja ástæðna. „Annars vegar er um að ræða tekjuskiptingarvanda- mál milli útgerðar og fiskvinnslu í landi. Hins vegar fjárfestingu í sjávarútvegi, fjölda veiðiskipa og vinnslustöðva, sem miðast við miklu meiri afla en nemur af- kastagetu íslenskra fiskimiða nú og í næstu framtíð," voru óbreytt orð forsætisráðherrans. Sú staðreynd að Davíð Odds- son forsætisráðherra nefnir vext- ina ekki á nafn í ávarpi sínu, hvorki í sambandi við efnahags- vanda þjóðarinnar né heldur hina miklu erfiðleika í sjávar- útveginum, er til marks um það að forsætisráðherra og ríkisstjórn telja það ekkert tiltökumál þótt raunvextir hér á landi séu nálægt 20 af hundraði, þ.e. fimmfalt hærri en eðlilegt getur talist! Þótt mikill meirihluti þjóðarinnar sé þeim örugglega ósammála hvað þetta varðar, er raunvaxta- lækkun ekki í sjónmáli. Eina vonin til þess að vextir hér á landi lækki á næstunni er fólgin í því að samtök atvinnu- rekenda og launþega sameinist um að knýja fram vaxtalækkun. Gífurlegir hagsmunir beggja af slíkri lækkun eru augljósir. Til að íslenskt atvinnulíf megi rísa úr öskustónni er fátt nauðsynlegra en að lækka raunvexti eins mikið og frekast er unnt. Þegar sú staðreynd verður ríkisstjórninni loksins ljós munu margir fagna. BB. Öðruvísi mér áður brá Stefón Sæmundsson Kjaftæðið um kolómögulega æsku er hryggilegt dæmi um uppgjöf Allt finna menn blessuðum börnunum og unglingun- um til foráttu. Myndin sem þeir fullorðnu draga upp af æsku landsins, og þá miða þeir auðvitað við eigin guðdómlegu æsku, er sótsvört. Yngsta kynslóðin er sökuð um að kunna ekki að Ieika sér, nenna ekki að lesa, sjást ekki úti nema undir áhrifum vímuefna, hafa ekki dug í sér til að safna í áramótabrennu, eyði- leggja tungumálið, tileinka sér ofbeldi og munnsöfn- uð og taka ekki til hendinni heima hjá sér svo fátt eitt sé nefnt. Gott ef æskan er ekki líka talin bera ábyrgð á hruni fiskistofna og álversklúðrinu, a.m.k. er henni rækilega refsað, eða öllu heldur foreldrunum, með því að hækka verð á lyfjum og læknisþjónustu og skerða barnabæturnar. Hingað til hef ég staðið í þeirri trú að ég hafi verið frakkur og uppivöðslusamur í æsku, en miðað við þau gildi sem fullorðna fólkið er að sífra um í dag hlýt ég að hafa verið til fyrirmyndar í hvívetna. Öðruvísi mér áður brá. Ég þarf greinilega að endurskoða sjálfsmynd bernskuáranna. Stálum grænmeti og gerðum at Vissulega kunnum við félagarnir að leika Okkur. Við sáumst ekki heima fyrr en seint á kvöldin nema rétt á matmálstímum, ef við mundum eftir þeim. Hvað voru svo krakkarnir að gera úti allan þennan tíma? Jú, við stálum grænmeti úr görðum nágrannanna, gerðum dyrabjölluat, hentum steinum, vatnsbomb- um, snjóboltum og öðru lauslegu í glugga nærliggj- andi húsa, bjuggum okkur til sverð og önnur vopn og börðumst til blóðs, stríddum stelpum og minni máttar, rifumst við argar mæður, kveiktum í sinu, stálum þvotti af snúrum, reyktum njóla, lokuðum umferðargötum og létum lögguna elta okkur, slökkt- um á ljósastaurum með því að sparka í þá og stútuð- um perunum með steinkasti, gerðum eigin foreldra brjálaða með óhlýðni og vorum sendir svangir i rúmið. Þannig var nú fyrirmyndaræskan sem kunni að vera úti og leika sér. En leikirnir voru þó ekki allir í þessum dúr. Við spiluðum knattspyrnu, fórum í „fall- in spýta“, „yfir“ og hvað þessir leikir voru kallaðir, eltingaleiki ýmsa, feluleiki og býsna friðsamlegan bófahasar. Éinnig gönguferðir, t.d. upp á Súlur, langa hjólreiðatúra, renndum okkur á skíðum og sleðum og bjuggum til gríðarleg mannvirki úr snjó. Og við söfnuðum í brennu, sjálfsagt hafa verið 5-7 brennur á Akureyri þá. Ég man sérstaklega eftir myndarlegum bálköstum sem við gerðum á túninu sem Vottar og Oddfellowar hafa nú reist musteri á, gegnt lögreglustöðinni. Þetta voru alvöru mannvirki, byggð á grunni úr gömlum tunnum. Harðsnúinn heimur með kristilegu ívafi Svo kom sjónvarpið. Dýrlingurinn, FFH, Á flótta, Belfigor, Harðjaxlinn og aðrir spennandi þættir í bland við Stundina okkar. Nýr heimur opnaðist og ekki skipti máli þótt hann væri stundum bannaður börnum, hann varð bara enn meira spennandi fyrir vikið. Framboðið á sjónvarpsefni var ekki mikið og útsendingartími stuttur. Við lékum okkur að bílum og tindátum og lásum. Já, maður las óskaplega mikið og var fljótur að afgreiða hefðbundnar barnabækur, renna í gegnum matarvcislurnar í Fimm-bókunum og demba sér í harðsnúnari strákabækur, s.s. Frank og Jóa, Bob Moran, og Tom Swift og síðan beint yfir í Alistair heitinn MacLcan, Hammond Innes og Dcs- mond Bagley. Skólinn var auðvitað kapítuli út af fyrir sig með óhemjugangi og skepnuskap. Og þegar stund gafst milli stríða fengum við kristilegt uppeldi í KFUM og í sumarbúðum á Hólavatni eða í Sjónarhæð og á Ástjörn. Og unglingsárin komu áður en maður vissi af með viðeigandi fikti og harðneskjulegri átökum. Leggir og skeljar betri en tölvuspil? Þetta er afar gróf lýsing á uppvexti minnar kynslóðar, a.m.k. hvað snertir mig og félaga mína. Við þóttum æði baldnir á köflum en þó ekkert frábrugðnir jafn- öldrum okkar, bara týpískir krakkaormar. Ég er að rifja þetta upp til að reyna að átta mig á því hvort mín kynslóð hafi verið eitthvað öðruvísi í æsku en börnin nú á dögum. Flestir í kringum mann eru að hneykslast á því að nú hafi bara verið ein ára- mótabrenna á Akureyri og svipaðir kveinstafir berast að sunnan. Mætir menn jarma yfir því að börn séu hætt að lesa og glápi á myndbönd allan daginn og læri með því ofbeldi og aðra lesti. Þessir sömu menn fórna höndum yfir áfengisneyslu og tóbaksfikti ung- linga, þjófnaði og skemmdarverkum. En er æskan nokkuð frekar að fara í hundana í dag en fyrir 20, 30 eða 40 árum? Erum við ekki óþarflega dómhörð og tljót að gleyma? Það má vel vera að leggir og skeljar, sem maður dundaði við í æsku, séu heppilegri leikföng en tölvuspil og vélbyssur. Eflaust er hollara að ærslast úti í stað þess að hanga inni yfir sjónvarpinu og sjálfsagt mætti halda lengi áfram í slíkum samanburði. En við verðurn að átta okkur á því að þjóðfélagið hefur breyst og þar með tómstund- ir og lífshættir jafnt barna sem fullorðinna. Það þýðir ekkert að loka augunum og skipa barninu að fara út og finna sér sauðarleggi og horn. Við verðum að læra að lifa í þjóðfélagi nútímans og leiðbcina börnunum gegnum frumskóginn svo þau villist ekki. Ég get ekki séð að ungdómurinn í dag sé neitt verri en við ormarnir vorum á sjöunda áratugnum og vælið í fullorðna fólkinu er bara hryggilegt dæmi um uppgjöf. Lítið í eigin barm.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.