Dagur - 06.02.1992, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - Fimmtudagur 6. febrúar 1992
ROdsútvarpið og fólkið
Ef við spyrjum spurninga eins og:
„Hvaða hlutverki á ríkisútvarpið
að gegna gagnvart landsbyggð-
inni?“ Pá sjáum við strax að í
spurningunni felst aðskilnaðar-
hugsunarháttur. Landsbyggðin er
álitin vera öðru vísi og af því leið-
ir að hún er talin þurfa eitthvað
annað.
Ég lít svo á að - að sumu leyti
séum við landsbyggðarfólk öðru
vísi, en að flestu leyti séum við
íslendingar allir sem einn undir
sama hatt settir. Ég tel að
fámenni og dreifð búseta geri það
að verkum að ríkisútvarpið hafi
meira vægi í lífi fólksins sem
þannig býr, en í ys og þys borgar-
innar, þar sem keppt er um
athygli og tíma manna af svo
mörgum mismunandi aðilum.
Þess vegna m.a. er mikilvægt að
Ríkisútvarpið standi undir nafni
og flytji vandaða dagskrá og yfir-
leitt finnst mér svo vera.
Meiri fræðslu um
innlend málefni
Það sem ég vildi þó sjá meira af
er fræðsla og þá einkum og sér í
Iagi fræðsla um innlend málefni
og ég vildi gjarnan sjá og heyra
þáttaraðir um viðkomandi efni,
þannig að viðfangsefninu séu
gerð sæmilega góð skil.
Mér finnst það vera mikilvægt
að uppfræða fólkið í landinu um
hvernig það lifir og leysir hin
ýmsu samfélagsmál mismunandi
eftir stöðum. Tökum sem dæmi:
sorphirðu, flugsamgöngur og
hafnarframkvæmdir. Fróðlegt
væri að fá samantekt á því hvern-
ig kvótasölumálin standa og er ég
þá ekki síst að hugsa um smá-
bátaútgerðina. Verslunarmálin
eru eitt málið. Það væri gaman að
fá að vita hver staða verslunar-
innar er vítt og breitt um landið
eftir samdrátt eða hrun margra
kaupfélaga. Við fengum þó
nokkra úttekt á verslunarleið-
öngrum fólks til útianda nú fyrir
jólin en hvernig væri að líta sér
nær?
Tónlistarskólarnir, framhalds-
skólarnir og fullorðinsfræðslan
eru líka áhugaverð viðfangsefni.
íþróttum eru gerð góð skil og
sama má yfirleitt segja um
atvinnumálin a.m.k. úti á landi,
en e.t.v. síður á höfuðborgar-
svæðinu.
Þá væri gaman að fá úttekt á
öldrunarþjónustunni - eldra fólki
er oft lítill gaumur gefinn og virð-
ing fyrir lífsreynslu þess og við-
horfum má aldrei þverra að mínu
mati og þar getur Ríkisútvarpið
komið sterkar inn.
Hvernig aðstaða er til list-
sköpunar vítt og breitt um
landið? Fræðimannasetur, refa-
og minkaeyðing, tölvuþjónusta
og tölvutenging innanlands sem
og til annarra landa - allt eru
þetta viðfangsefni í fræðandi og
skemmtilega þætti.
Loks vil ég svo minnast á kjör-
dæmin sem kjörið viðfangsefni til
að gera góða þætti um á breiðum
grunni. Vísir að slíkum þáttum
voru kynningarnar á kjördæmun-
um fyrir síðustu alþingiskosning-
ar, en betur má ef duga skal.
Fræðsla dregur úr
fordómum
Ég er sannfærð um að umfjöllun
um innlend málefni sem þessi
yrði vinsæl og gerði mikið í að
tengja okkur saman, þjóðina í
heild. Það eru orðin of skörp skil
milli höfuðborgarbúa og lands-
byggðarfólks, sem má draga
verulega úr með fræðslu á báða
bóga, þannig að fordómar og
skilningsleysi verði ekki alls ráð-
andi hjá okkar annars upplýstu
þjóð.
En eflaust yrðu slíkir þættir
dýrir þættir, allt innlent efni er
dýrt, að því er mér skilst. Ekki
veit ég hvernig best er að spara
hjá Ríkisútvarpinu, til að hafa
ráð á meiri fræðslu á innlendum
vettvangi, en mér dettur í hug að
skera mætti niður ferðir frétta-
manna út um heim, því frétta-
myndir fást yfirleitt góðar frá
erlendum fréttastofum.
Eins dettur mér í hug stytting
útsendingartíma, að hafa frekar
minna efni, en vandaðra, því
magn er ekki sama og gæði,
fækka fréttatímum og spara
stjórnendur þátta, sem nær ein-
ungis eru flutningur á tónlist
hvort eð er. Eflaust má tína fleira
til.
Til starfsins veljist hæft fólk
Við vitum öll að sjónvarp jafnt
sem hljóðvarp skapar ímyndir
með umfjöllun sinni, því er
mikilvægt að til starfsins veljist
hæft fólk og helst heilsteypt fólk
með jákvæða sjálfsímynd og já-
kvæða manneskjusýn á breiðum
grundvelli.
Fréttamaður sem fer út á land,
að því er virðist, til að fá útrás
fyrir vanþóknun sína á fólkinu,
sem þar býr, oft við meira
atvinnuóöryggi, óöryggi í heilsu-
gæslu, óöryggi í fræðslumálum og
samgöngum - hann segir meira
um sjálfan sig og sína persónu,
en nokkuð annað, þegar hann
með niðurlægjandi umfjöllun lýs-
ir því sem fyrir augum ber. Ríkis-
útvarpið ætti að kappkosta að
hafa sem fæsta slíka nienn í sinni
þjónustu.
RÚYAK 10 ára
í ár eru 10 ár liðin frá því fyrsta
svæðisútvarpið var sett á stofn:
RÚVAK á Akureyri. Fjórð-
ungsþing Norðlendinga hefur
ályktað um Ríkisútvarpið allar
götur frá 1954 og minnst á mikil-
vægi þess að kynna norðlenska
menningu og mannltf.
í ályktun þingsins frá 1984 er
lögð áhersla á tengsl landshluta-
útvarpsins við heimaaðila og tel-
ur þingið að í útvarpslögum þurfi
að vera ákvæði um samstarfs-
nefndir, sem kosnar séu af lands-
hlutasamtökum og séu til ráðu-
neytis útvarpsráði og starfsliði
um efnisval og stjórnun svæðis-
útvarpanna.
Ingunn St. Svavarsdóttir.
í síðustu ályktun Fjórðungs-
þings Norðlendinga um Ríkis-
útvarpið frá 1987 er svo lögð
áhersla á möguleika til fjar-
kennslu. Hvorugt þetta virðist
mér hafa náð fram að ganga -
hvað sem síðar verður.
Þarfir fólks
Þá erum við komin að því sem
við eigum sammerkt öll þjóðin -
við íslendingar. Þegar um er að
ræða grundvallarhlutverk Ríkis-
útvarpsins, hlýtur það að vera
hið sama gagnvart heildinni, jafn-
vel þótt umhverfi fólksins, sem á
það hlustar sé ólíkt. Með tilliti til
þessa er því enginn munur á því,
hvort þú býrð á Kópaskeri eða í
Reykjavík. En hvert er þá þetta
grundvallarhlutverk?
Ef við lítum á þarfir fólks, en
öll þjónusta snýst um að koma til
móts við þarfir fólks, þá eru þær
skv. kenningu Maslows:
1) Líffræðilegar þarfir.
2) Öryggisþarfir.
3) Félagslegar þarfir.
4) Sjálfsvirðingarþörfin.
Við getum hugsað okkur að
þessar þarfir okkar staflist hver
upp af annarri eins og í lög í
kassa.
Umgjörð um líf okkar
Hvernig getur Ríkisútvarpið
komið til móts við þessar þarfir
fólks? Sneiðum við hjá líffræði-
legu þörfunum sem eru frumþarf-
ir eins og þörfin fyrir mat, drykk,
kynlíf og svefn - og snúum okkur
beint að öryggisþörfinni, þörfinni
fyrir að hafa fastan ramma að lifa
í, þá er Ríkisútvarpið vissulega
umgjörð um líf okkar, hvort sem
við erum við leik eða störf.
Ríkisútvarpið sendir út til allra
landsmanna hvar sem þeir búa á
landinu og sinnir upplýsinga-
skyldu sinni gagnvart þjóðinni í
heild, hvort sem vá er fyrir dyr-
um eða ekki.
Öryggissjónarmið
Með starfrækslu rásar 1 og rásar
2 og samtengingu rásanna er m.a.
komið til móts við öryggissjónar-
miðin - hægt er að ná til stærri
hlustendahóps í einu, ef mikið
liggur við. Ég tel því ekki ráðlegt
að selja rás 2 til annarra aðila og
þrengja þannig svið Ríkis-
útvarpsins og möguleika.
Þetta sjónarmið að ná til allrar
þjóðarinnar verður ekki sagt að
aðrar útvarpsstöðvar eða sjón-
varpsstöðvar hafi haft enn sem
komið er. Við sem búum á Kópa-
skeri sjáum t.d. ekki Stöð 2 og
heyrum ekki í neinu nema Ríkis-
útvarpinu. Á þessu bláhorni
landsins eru fáir notendur og
dreifingin borgar sig áreiðanlega
ekki, ef krónur og aurar eru eina
mælistikan, sem notuð er.
Sameiningartákn
En borgar sig að vera þjóð?
Borgar það sig að vera með ríkis-
rekstur stofnana á borð við
útvarpið? Svar mitt er hiklaust
já, þótt mér finnist sjálfsagt að
gæta aðhalds í rekstri þeirrar
stofnunar eins og allra annarra. í
mínum huga þarf hver þjóð að
eiga sameiningartákn eins og
forseta, þjóðleikhús, þjóðminja-
safn og Ríkisútvarp. Auðvitað
höfum við önnur leikhús, söfn
ýmiss konar og aðrar útvarps-
stöðvar og sjónvarpsstöðvar, sem
reknar eru af öðrum en ríkinu og
það er ekki nema sjálfsagt og gott
mótvægi við ríkisreknu stofnan-
irnar.
Mér hefur ætíð verið það ógeð-
fellt að hugsa í annað hvort eða-
hugtökum, bæði og-hugtökin eru
mér mun hugleiknari. Það er svo
miklu fjölbreyttara og ríkara líf
sem við fáum með því, í stað þess
að steypa alla í sama mót t.d. það
mót að allar útvarpsstöðvar og
sjónvarpsstöðvar eigi að vera
einkavæddar - það yrði dapurt,
ef svo færi.
Félagslegar þarfír
Félagslegar þarfir fólks eru ofar
öryggisþörfinni og felast m.a. í
því að fá athygli og veita öðrum
athygli. Hér kemur útvarpið
sterklega inn, hvort heldur um er
að ræða hljóðvarp eða sjónvarp.
Ég tel okkur landsbyggðarfólki
hafi verið mikill greiði gerður
með stofnun svæðisútvarpanna
og tilkomu landsbyggðarsjón-
varpsmanna, þótt fáir séu. Þær
raddir hafa þó heyrst að best væri
að vera einungis með vel mennt-
aða fréttamenn í Reykjavík og
senda þá bara annað veifið út um
land, eða þegar eitthvað mark-
vert á sér þar stað.
Mér líst illa á þá hugmynd -
mér finnst við eigum að draga úr
miðstýringu hjá Ríkisútvarpinu
eins og annars staðar hjá hinu
opinbera og koma frekar á dreif-
stýringu. Vísir að slíku eru
útvarpsstöðvarnar á ísafirði,
Akureyri og á Egilsstöðum, en
það er ekki nóg að koma upp
útstöðvum um landið, þar þarf að
tryggja þeim raunverulegt vald
og mannafla til að geta gert vel
og jafnframt að draga úr mann-
afla í höfuðstöðvunum á móti.
Vel mætti hugsa sér að frétta-
menn skiptust á að vera á hinum
ýmsu stöðum á landinu annað
veifið til að falla nú ekki í þá
gryfju að finnast ekkert markvert
vera að gerast í kringum þá, því
glöggt er gests augað eins og þar
stendur.
Æðsta þörfín
Mig langar til að ljúka þessum
hugleiðingum mínum með því að
drepa örlítið á æðstu þörf okkar
mannfólksins, sjálfsvirðingar-
þörfina, en hún felst í því að
finna viðurkenningu annarra og
leyfa sér að vera ánægð með
sjálfa sig og sín verk. Að sjá hið
jákvæða í eigin fari og verkum á
jákvæðan hátt, í stað þess að gera
lítið úr því sem vel er gert.
Ég held við ættum öll að leyfa
okkur að gleðjast yfir því sem vel
hefur verið gert í útvarpinu
okkar, því það gefur starfsfólki
Ríkisútvarpsins styrk til að takast
á við ný og erfiðari verkefni í
framtíðinni.
Höfuðhlutverk
Ríkisútvarpsins
Niðurstaða mín eftir þessar
vangaveltur er því sú að hlutverk
Ríkisútvarpsins eigi fyrst og
fremst að vera að vekja sam-
kennd meðal landsmanna allra -
halda þjóðinni saman sem einni
heild með upplýsingum og vand-
aðri dagskrá og koma þannig í
veg fyrir fordóma og skilnings-
leysi á högum annarra. Við þurf-
um á því að halda, íslendingar,
að standa saman, ef við eigum að
geta kallast þjóð eitthvað lengur.
Ríkisútvarpið hefur þar stóru
hlutverki að gegna.
Ingunn St. Svavarsdóttir.
Höfundur er sálfræðingur að mennt, en
starfar nú sem sveitarstjóri Öxarfjarðar-
hrepps og er jafnframt formaður Fjórð-
ungssambands Norðlendinga.