Dagur - 03.11.1992, Qupperneq 6
6 - DAGUR - Þriðjudagur 3. nóvember 1992
Þannig leit Elliheimili Akureyrar út fyrir réttum 30 árum.
í dag gerir starfsfólk og heim-
ilisfólk á Dvalarheimilinu Hlíð
á Akureyri sér glaðan dag og
er tilefnið 30 ára starfsafmæli
heimilisins. Boðið verður til
kaffidrykkju kl. 15 og verða
konur úr kvenfélaginu Fram-
tíðinni sérstakir gestir, en þær
hafa frá upphafi lagt Hlíð lið
með ýmsum hætti, nú síðast
með tækjagjöfum til sjúkra-
þjálfunar.
Björn Þórleifsson, deildar-
stjóri Öldrunarþjónustu Akur-
eyrarbæjar, hefur tekið saman
ágrip af sögu Hlíðar og er stuðst
við hana í eftirfarandi samantekt.
Fyrsti áfangi vígður
í ágúst 1962
Akureyrarbær með stuðningi
kvenfélagsins Framtíðarinnar
stóð að byggingu Elliheimilis
Akureyrar. Framtíðin gaf strax
eina milljón til byggingarinnar og
síðar ýmsan búnað. Bygginga-
nefnd starfaði undir forsæti
Magnúsar E. Guðjónssonar,
bæjarstjóra. Húsið var byggt af
byggingameisturum bæjarins, en
teiknað af Jóni Geir Ágústssyni,
núverandi byggingafulltrúa
Akureyrarbæjar.
Elliheimilið var vígt 29. ágúst
1962 og varð þar með gjöf bæjar-
ins til sjálfs síns á 100 ára afmæl-
inu. Formlega tók það síðan til
starfa 3. nóvember það sama ár, |
en þá flutti fyrsta vistfólkið inn,
fimm konur og tveir karlar. Ætl-
að var pláss fyrir 28 vistmenn á
heimilinu, en fljótlega var það
meira en fullsetið, því oftast voru
vistmenn 34-36 fyrstu árin.
Fyrsta forstöðukona heimilis-
ins var Ásthildur Þórhallsdóttir,
en Sigríður Jónsdóttir tók við
starfinu árið 1964.
Bæjarstjórn Akureyrar heimil-
aði árið 1969 stjórn Elliheimilis-
ins að hefja viðbyggingu og var
hún tekin í notkun strax árið
eftir. Þessi viðbygging rúmaði 30
vistmenn, en fljótt kom í ljós að
vegna mikillar eftirspurnar þyrfti
fljótlega frekara rými. í mars
1973 sótti stjórn Elliheimilisins
um að hefja byggingu þriðja
áfanga Hlíðar. Um sumarið það
ár hófust framkvæmdir og var
þeim lokið strax árið eftir.
Sigríður Jónsdóttir lét af starfi
forstöðukonu dvalarheimilisins
árið 1977 og tók Jón Kristinsson,
sem stjórnað hafði Skjaldarvík-
urheimilinu frá 1966, við stjórn
beggja heimilanna.
Og áfram var byggt...
Árið 1978 var hafin smíði við-
byggingar við Hlíð, en þar átti að
vera þvottahús á jarðhæð, ásamt
forvinnslu fyrir mötuneyti. Á efri
hæð var borðsalur stækkaður og
komið fyrir borðstofu fyrir starfs-
fólk og bakaríi. Einnig var hafinn
undirbúningur að byggingu
tveggja raðhúsa á lóð Hlíðar.
Áttu að vera sex íbúðir í hvoru.
Þar af voru fjórar hjónaíbúðir og
átta einstaklingsíbúðir. Fram-
kvæmdum við bæði stækkunina
og raðhúsin lauk árið 1980 og var
flutt í raðhúsin sama ár.
Á þessum tíma var farið að
huga að frekari viðbyggingum við
Hlíð. Þá var rými fyrir 190 manns
á Hlíð og í Skjaldarvík, en 240
manns á biðlista. Auk tilfinnan-
legs skorts á vistrýmum vantaði
rými fyrir heilsurækt, félagsstarf
og samkomuhald.
Margar hugmyndir voru rædd-
ar og gekk erfiðlega að fá teikn-
ingar Aðalsteins V. Júlíussonar
að viðbyggingu samþykktar, þar
sem gert var ráð fyrir að í henni
væri meira sameiginlegt rými en
reglur kváðu á um. En á endan-
um fengust lán frá Húsnæðis-
stofnun og Framkvæmdasjóði
aldraðra út á bygginguna og síð-
ari hluta árs 1983 var fyrsti áfang-
inn boðinn út og var samið við
Norðurverk. Haldið var áfram
næsta ár og var þá ætlunin að
steypa allt húsið upp og koma á
það þaki. Vegna fjárskorts varð
þó að skipta þeim áfanga og
draga hluta verksins fram á árið
1985.
Stórbætt aðstaða með
tilkomu Vestur-HIíðar
Á árinu 1986 lét Jón Kristinsson
af störfum sem forstöðumaður
dvalarheimilanna og var Cecil
Haraldsson ráðinn í hans stað.
Síðar það sama ár var nýbygg-
ingin í Vestur-Hlíð loks fokheld.
Við verkinu tók þá byggingarfyr-
irtæki Aðalgeirs Finnssonar, sem
lauk við allar innréttingar í hús-
inu. Fyrstu íbúarnir fluttu svo í
húsið í maí 1988 og var það
smám saman tekið í notkun fram
á byrjun næsta árs. í Vestur-Hlíð
eru íbúðir fyrir 30 manns, ýmist
hjóna eða einstaklingsíbúðir.
Meðalaldur íbúanna er nú tæp 84
ár. í húsinu er einnig aðstaða fyr-
ir dagvistun, setustofur, skrifstof-
ur Öldrunardeildar, sjúkraþjálf-
unaraðstaða og samkomusalur. í
salnum er góð aðstaða fyrir fund-
arhöld, skemmtanir og nám-
skeið. Listaverk á norðurvegg er
eftir Höllu Haraldsdóttur, en
kvenfélagið Framtíðin gaf heim-
ilinu það. Listskreytingarsjóður
ríkisins greiddi þó hluta kostnað-
ar við verkið. Sem forstöðumað-
ur nýja hlutans, sem gengið hefur
undir nafninu Þjónustumiðstöð-
in, var ráðin Anna Guðrún Jóns-
dóttir, hjúkrunarfræðingur.
Cecil Haraldsson lét af störfum
hjá Öldrunarþjónustu Akureyr-
arbæjar árið 1988 og í byrjun árs
1989 tók Bjarni Kristjánsson við
stöðu deildarstjóra Öldrunar-
deildar og gegndi henni út það
ár.
Sá hluti nýbyggingarinnar í
Hlíð sem síðastur komst í notkun
var ætlaður fyrir sjúkraþjálfun og
líkamsrækt ásamt búnings-
aðstöðu. Heitum potti með
vatns- og loftnuddi var komið þar
fyrir á síðasta ári, en kaup á hon-
um voru fjármögnuð af gjafa-
sjóði Hlíðar. Stigi upp í pottinn
var gefinn af kvenfélaginu Fram-
tíðinni. Sjúkraþjálfari var ráðinn
til starfa á þessu ári og hafist
handa við að kaupa sjúkraþjálf-
unartæki. Kaup á tækjunum eru
aðallega fjármögnuð með and-
virði íbúðar við Norðurgötu, sem
Öldrunardeild fékk að gjöf, en
kvenfélagið Framtíðin hefur
einnig styrkt þau tækjakaup. Á
teikningum er áætlað að sund-
laug rísi við suðurgafl nýja
hússins.
Hjúkrunardeild
Á árinu 1985 var hafist handa við
uppbyggingu hjúkrunardeildar
við dvalarheimilið Hlíð. Einnar
hæðar íbúðarálmu, elsta hluta
hússins, var breytt og hún endur-
bætt til að þjóna nýju hlutverki.
Þegar upp var staðið var komin
þarna hjúkrunaraðstaða fyrir 19
manns og hefur deildin gengið
undir nafninu A-gangur.
Árið 1988 var suðurhluti B-
gangs endurnýjaður og fengust
þar hjúkrunarpláss fyrir 14 sjúkl-
inga. Alls eru hjúkr,unarplássin
65 og eru 2 notuð fyrir skamm-
tímavistanir. í slíkri vistun eiga
sjúklingarnir að dvelja 3 vikur í
senn, einstaka í 6 vikur ef brýn
þörf krefur. Starfsmenn Heima-
hjúkrunar ráðstafa þessum
skammtímarýmum.
Eitt herbergi á hjúkrunar-
heimilinu er notað í bráðatilfell-
um fyrir þá íbúa í þjónustumið-
stöð sem veikjast og einnig fyrir
deyjandi sjúklinga. Það herbergi
er alltaf í notkun.
Meðalaldur á hjúkrunarheimil-
inu er rúmlega 84 ár og eru konur
rösklega % hlutar íbúanna.
Inni í húsnæði hjúkrunardeild-
anna eru einnig 15 almenn dval-
arheimilispláss og er þeim dreift
um húsið. Fimm þeirra eru á efri
hæð ofan við eldhúsálmu, en þar
er um að frekar óhentugt hús-
næði að ræða sem þarfnast end-
urbóta.
Eftir að starfseminni í Austur-
Hlíð var breytt á þennan veg var
nafni þess hluta stofnunarinnar
breytt í Hjúkrunarheimilið Hlíð.
Það þjónar eingöngu Akureyri.
Á Hjúkrunarheimilinu starfa
alls 82 í u.þ.b. 60 stöðugildum.
Hjúkrunarforstjóri er Helga
Tryggvadóttir. Læknisþjónustu á
heimilinu er sinnt af þremur
heilsugæslulæknum.
í lokin skal getið formanna
stjórna Hlíðar.
Formaður fyrstu stjórnar Elli-
heimilis Akureyrar var Magnús
E. Guðjónsson. Bragi Sigurjóns-
son tók við árið 1966 og gegndi
formennsku til ársins 1974 þegar
Hreinn Pálsson tók við. Árið
1978 tók Ingólfur Jónsson við
formennsku í stjórn Dvalar-
heimilanna og árið 1982 varð
Svava Aradóttir formaður. Sú
skipulagsbreyting varð árið 1986
að þá var kjörið Öldrunarráð
sem hafa skyldi umsjón með
öidrunarþjónustu og endurskipu-
leggja hana. Formaður þess var
kjörin Áslaug Einarsdóttir. Enn
urðu skipulagsbreytingar á
stjórnun öldrunarmála eftir sveit-
arstjórnarkosningar 1990. Öldr-
unarráð var lagt niður og Félags-
málaráði falið að fara með öldr-
unarmálin auk dagvistunar-,
barnaverndar- og fjölskyldu-
mála. Sigrún Sveinbjörnsdóttir
var kjörin formaður Félagsmála-
ráðs. óþh
Nokkur atriði úr sögu
öldrunarþjónustu á Akureyri
1943 Stefán Jónsson stofnar Skjaldavíkurheimilið.
1962 Elliheimili Akureyrar vígt 29. ágúst. Ásthildur Þórhallsdótt-
ir ráðin forstöðukona.
1963 Sigríður Jónsdóttir tekur við forstöðu.
1965 Stefán Jónsson gefur Akureyrarbæ Skjaldarvík. Jón Þor-
valdsson ráðinn forstöðumaður.
1966 Jón Kristinsson tekur við forstöðu í Skjaldarvík.
1969 Byggt við bæði Elliheimili Akureyrar og Skjaldarvík.
1973 Byrjað á 3. áfanga Hlíðar. Skemmtanir fyrir aldraða hefjast
í Sjallanum.
1974 Heimilisþjónusta og heimahjúkrun sett á laggirnar.
1975 Bygging bústjórabústaðar hefst í Skjaldarvík. Opið hús fyrir
aldraða hefst á Varðborg.
1976 Föndurkennsla hefst í Hlíð. Fyrsta dagsferðin fyrir aldraða.
1977 Heimilin sameinuð undir eina stjórn. Jón Kristinsson tekur
við forstöðu beggja.
1979 Hafin viðbygging við Hlíð fyrir þvottahús og fl. Hafin bygg-
ing raðhúsa á lóð Hlíðar (lokið 1980).
1980 Hafin bygging vélageymslu í Skjaldarvík (lokið 1983).
1983 Bygging Vestur-Hlíðar boðin út.
1985 Byrjað að breyta Austur-Hlíð í hjúkrunardeild. Þjónustu-
hópur aldraðra tekur til starfa.
1986 Vestur-Hlíð fokheld. Dagvistun aldraðra hefst. Öldrunarráð
skipað. Jón Kristinsson lætur af störfum eftir 20 ár. Cecil Haralds-
son tekur við forstöðu.
1987 Skipuð samstarfsnefnd um byggingar íbúða fyrir aldraða.
1988 Fyrstu íbúar flytja í Vestur-Hlíð. Stefnumótun um málefni
aldraðra samþykkt. Cecil Haraldsson lætur af störfum.
1989 Vestur-Hlíð smám saman tekin í notkun. Hverfaskipulag
heimilisþjónustu. Starfsár Bjarna Kristjánssonar.
1990 Björn Þórleifsson ráðinn deildarstjóri öldrunarþjónustu.
1991 Fyrsta sambýli aldraðra tekur til starfa í Bakkahlíð. Félags-
miðstöð aldraðra í Víðilundi tekur til starfa. Húsnæði að Bjargi
keypt fyrir væntanlega þjónustumiðstöð í Glerárhverfi.
1992 Sjúkraþjálfun hefst í Hlíð. Annað hús keypt fyrir sambýli.
Bygging íbúða fyrir aldraða hefst við Lindarsíðu.