Þjóðviljinn - 02.08.1980, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 02.08.1980, Blaðsíða 9
Helgin 2.-3. ágúst 1980 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 9 Vigdis Finnbogadóttir flytur ávarp sitt er hún haföi undirritaö eiöstaf inn og heitiö þvi aö halda stjórnarskrá lýöveldisins I hvivetna. Ljósm: gel. Ávarp forseta íslands við embættistökuna „Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki niiitna” Góðir samtlðarmenn, Við stöndum á þessari stundu á þeim timamótum, að nýr forseti íslands tekur við embætti. Sem einstaklingi verður mér fyrst fyrir að hugleiða það traust, sem mér hefur verið sýnt með kjöri minu til mikils virðingarembættis I islensku sam- félagi, sem hefur verið nefnt samein- ingartákn okkar allra. Ofar öðru rikir þó I huganum — og mun rikja — einlæg ósk um að lýðræðislegur háttur þjóðar okkar á þessu kjöri og allri stjórnskipan okkar megi verða landinu og okkur öllum til gæfu, I skiptum okkar hvers við annað og við aðrar þjóðir. Við þekkjum það öll af eigin raun, að á timamótum verður hugsunin fleygari en ella. Við hugsum til fortiðarinnar og lát- um okkur dreyma um framtiðina, þvi „þangað er vonunum vorkunnarlaust, sem vegina minningin lagði”. En raunar er lif okkar á hverri stund ofið af minning- um og draumum, og draumarnir eru gull- þræðirnir i vefnum. An þeirra yrði ekki unað við lifið frá degi til dags, hvorki gleði þess né sorgir. „Vér erum þelið sem draumar spinnast úr”. Við erum oft á það minnt, að það er íslensk tunga, sem öðru fremur gerir okk- ur að Islendingum. Tungan geymir sjóð minninganna, hún ljær okkur orðin um vonir okkar og drauma. Hún er hið raun- verulega sameiningartákn okkar og sam- einingarafl. En Islensk tunga gerir okkur ekki bara að tslendingum, hún gerir okk- ur að mönnum. Hún gerir okkur að heims- þegnum, sem ber skylda til að leggja sem mestan skerf til stöðugra framfara mannsandans. Þetta hlutskipti höfum við þegið i arf frá gengnum kynslóöum til þessa dags. Það hefur löngum verið talið að skerfur okkar til menningarsamfélags þjóðanna hafi fyrst og síðast verið fornar bók- menntir okkar og sá viðfeðmi skáldskap- ur og þjóðlifslýsingar, sem þær hafa aö geyma og ekki hafa varðveist með öðrum þjóðum. Þá vilja oft gleymast margvis- legir gimsteinar orðsins, sem frá öld til aldar hefur geislað af á Islandi. Og þá vill lika gleymast að með hverri kynslóð voru uppi menn á Islandi, sem gerðu menn- ingarstrauma úr viðri veröld að sinum og færðu þjóð sinni að gjöf. Þeir bjuggu nýj- um hugmyndum stakk islenskra orða og léðu þeim þar með nýjan svip af landinu, sem við byggjum, og þeim lifskjörum, sem það býr okkur. Þvi hver þjóð tileink- ar sér hugmyndir á sinn veg, og á þar með ný viðhorf við sömu lifshugsjón að gefa öðrum eins og heimsþegnum ber. Orðin eru kastalar okkar íslendinga. 1 fámenni og fátækt týndum við aldrei manndómi okkar. Við gleymdum aldrei að setja I orð — hinn eina varanlega efni- við sem við eigum — allan hag okkar og alla hugsun. Einmitt þess vegna hefur okkur reynst svo létt verk að skapa okkur fjölskrúðuga nútimamenningu. Menning hverrar þjóðar er harpa með þúsund strengjum. Okkarmenning,sem lengi var fábreytt, á nú hljóma hörpunnar allrar: rika myndlist, heillandi tónlist og leiklist og mikla skáldlist ekki siður en hug- myndarika verkmenningu. En hvað höfum við að segja okkur sjálf- um um mannlega veikleika okkar, sem við neitum af nokkru stolti að bera á torg? Við lifum á erfiðum timum, vist er um það, og verðum að gera okkur ljósa þá ábyrgð, sem við hljótum að axla i samtið- inni til að búa i haginn fyrir framtiðina. Niðjar okkar, sem nú lifum manndómsár okkar, eiga tilkali til að við séum þeim til fyrirmyndar, án þess að við heftum þá i okkar viðjar. Sú kynslóð, sem er að kveðja, á tilkall til að vita, að við höfum veitt athygli stórbrotnu framlagi hennar til aukinna lifsgæða i harðbýlu landi. En erfiðleikarnir eru til að takast á við þá af hugprýði, raunsæi og sigurvissu. Hefðu fyrri tima menn ekki staðið af sér erfið- leika liðandistundar, stæðum við ekki hér i dag, frjáls til orðs og æðis. Frelsinu fylgir, að hver og einn verður að lifa við sannleik sinnar samtiðar og taka afstöðu til hans hverju sinni. í marg- brotnu mannlifi, þar sem engar tvær manneskjur eru eins, er sannleikur þjóð- lifsins sibreytilegur, þvi enginn hefur höndlað allan sannleika mannlegrar hugsunar. Við framgöngum i trú og skoð- un, og á þeim vegi er dýpsta gryfjan sú vanahugsun, sem tekur gagnrýnislaust viðteknum hugsunarhætti. Listir og vis- indi hafa aldrei unað viðteknum hug- myndum, heldur leitað þrotlaust að nýj- um leiðum. Hvoru tveggja eigum við að þakka látlausa endurnýjun og ótalin skref fram á við. Við tslendingar erum fámenn þjóð, og orðið flýgur hratt frá manni til manns. Þvi er okkur leikur einn að vekja hvert annað til gagnrýnnar umhugsunar um vandamál liðandi stundar. Það er ekki ráðamanna einna að leysa þau, heldur okkar sjálfra, hvers og eins. En allt frelsi, jafnt frelsi þjóða sem ein- staklinga, krefst aga. Agi hvers ein- staklings, i hugsun og hátterni, getur aldrei leitt til annars en farsældar allrar þjóðarinnar. Við megum aldrei ganga svo lengi á sjóði, hvorki andlega né verald- lega, að ekkert sé lengur eftir til að gefa. Við höfum þegið góðar gjafir, frá fyrri kynslóðum og öðrum þjóðum. Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki minna. Við göngum nú Islendingar, i fjórða sinn i sögu lýðveldisins, til samstarfs við nýjan forseta Islands. Forsetar okkar hafa til þessa dags verið farsælir i sam- skiptum sinum við þjóðina. Við geymum i minni viturleg orð þeirra, sem oft hafa orðið fleyg, og þökkum þeim fyrir að hafa rutt ungu lýðveldi brautina með mann- kostum sinum og viðmóti. Við minnumst með þakklæti herra Sveins Björnssonar og konu hans frú Georginu Björnsson og herra Ásgeirs Ásgeirssonar og konu hans frú Dóru Þórhallsdóttur. Fráfarandi for- seta Islands dr. Kristjáni Eldjárn og frú Halldóru Ingólfsdóttur vil ég fyrir hönd Islendinga þakka fyrir að hafa áfram gert garöinn kunnan og virtan sem fyrirrenn- arar þeirra, og fyrir það vinarþel sem ætið héfur af þeim stafað hvar sem þau hafa farið. Það er gott að vita af þeim meðal okkar með svo sómarikan feril sem raun ber vitni. Þeim munu ávallt fylgja óskir um heillarika daga. Að lokum vildi ég minnast þess manns, sem allir íslendingar muna og þekkja eins og náinn ættmann og fyrstur naut þess heiðurs að vera nefndur forseti af þjóð sinni, Jóns Sigurðssonar. I byrjun þessa ágústmánaðar, i einhverri mestu veður- sæld sem komið hefur yfir Island, minn- umst við að Hrafnseyri við Arnarfjörð hundrað ára ártlðar hans. Lif hans og starf fyrir land og þjóð verða okkur alla daga hugstæð fyrir þann skerf sem hann lagði til sjálfstæðis okkar og frelsis. Þó er ennþá betra til þess að vita, að Jón Sig- urðsson var góður Islendingur af þvi að hann var mikill maður. Grafskrift hans vildi ég, að allir Islendingar gerðu að ein- kunnarorðum sinum, hvar sem þeir eru staddir: að vera ávallt sómi Islands, sverð þess og skjöldur.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.