Þjóðviljinn - 02.02.1984, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 02.02.1984, Blaðsíða 4
4 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Fimmtudagur 2. febrúar 1984 DJOÐVIUINN Málgagn sósíalisma, verkalýðs- hreyfingar og þjóðfrelsis Útgefandi: Útgáfufélag Þjóöviljans. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Ritstjórar: Árni Bergmann, Einar Karl Haraldsson. Umsjónarmaður Sunnudagsblaðs: Guðjón Friðriksson. Auglýsingastjóri: Sigríður H. Sigurbjörnsdóttir. Afgreiðslustjóri: Baldur Jónasson. Afgreiðsia: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Blaðamenn: Auður Styrkársdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Helgi ólafsson, Lúðvik Geirsson, Magnús H. .Gíslason, Ólafur Gíslason, óskar Guðmundsson, Sigurdór Sigurdórsson, Valþór Hlöðversson. íþróttafróttaritari: Víðir Sigurðsson. Utlit og hönnun: Guðjón Sveinbjörnsson, Þröstur Haraldsson. Ljósmyndir: Einar Karlsson, Magnús Bergmann. Handrita- og prófarkalestur: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar. Auglýsingar: Áslaug Jóhannesdóttir, Ólafur Þ. Jónsson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Jóhannes Harðarson. Símavarsia: Sigríður Kristjánsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir. Húsmóðir: Bergljót Guðjónsdóttir. Bílstjóri: Ólöf Sigurðardóttir. innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, Ólafur Björnsson. Pökkun: Anney B. Sveinsdóttir, Halla Pálsdóttir, Karen Jónsdóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla og auglýsingar: Síðumúla 6, Reykjavík, sími 81333. Umbrot og setning: Prent. Prentun: Blaðaprent hf. Möguleikar eða martróð Atvinnuleysi fer vaxandi í flestum iðnríkjum heims og lætur nærri að 10% vinnufærra manna gangi atvinnulausir að jafnaði ef litið er á iðnríki Vesturlanda sem heild. í kokkabókum hagspekinga, sem trúir eru kapítalískum hefðum, heitir það svo að hér sé um tíma- bundna kreppu að ræða, nauðsynlega aðlögun til þess að nýtt hagvaxtartímabil geti runnið upp og skapað öllum vinnu. Margir hafa orðið tii þess að benda á veilurnar í þessari röksemdafærslu, en engu að síður býr hún að baki stjórnarathafna íhaldsstjórna í mörgum iðnríkjanna. Sú efnahagskreppa sem víðast er ríkjandi mun ýta undir tæknilega nýsköpun í iðnaði sem gerir það kleift að framleiða meira magn af vöru en áður með minna vinnuafli, og með sífellt minna fjármagni en áður. Áður voru það fjárfestingar sem skiluðu sér í fjölgun starfa á vinnumarkaði. Nú leiða fjárfestingar í vélmennum til þess að fyrir hvert nýtt starf sem verður til er hægt að leggja niður fimm í málmiðnaði. Ágæti fjárfestinga, sem áður var mælt í þeirri upphæð sem það kostaði að skapa nýtt starf, er nú skoðað í ljósi þess hvað það kostar í fjárfestingu að leggja niður eitt starf. Afleiðing- in er sú að opinber stuðningur við fjárfestingar einka- aðila leiðir ekki til aukinnar atvinnu heldur til vaxandi atvinnuleysis. I skýrslu sem bandaríski forstjórinn Peter F. Drucker hefur tekið saman kemur fram að störfum í bandarísk- um iðnaði muni fækka um 10-15 milljónir fram að aldamótum, og samsvarandi fækkun starfa muni eiga sér stað í þjónustugeiranum. Það þýðir að hlutur starfs- manna í iðnaði af vinnufæru fólki mun falla úr 21% í minna en 10%. í Ijósi þessa er því spáð að 20-30% af þeim störfum sem gegnt er í dag muni niður lögð um áramót. Ekkert bendir til annars en að þessar niðurstöður eigi einnig við um Vestur-Evrópu og Japan og þar megi miðað við hófsemi í spám um framleiðniaukningu gera ráð fyrir að eftirspurn eftir vinnuafli minnki um 20-30% á þessu tímabili. Hinsvegar er því haldið að okkur í tíma og ótíma að iðnaður muni taka við öllum vinnufærum höndum. Verði lögmál samkeppni og markaðar látin ráða för verður þjóðfélagsþróunin í átt við það sem sjá má að nokkru í Japan eða Mexíkó. Þriðjungur þjóðanna mun einoka heilsdagsstörf sem krefjast menntunar og færni. Atvinnuleysið mun ekki aðeins ná til 30-40% vinnu- færra manna, heldur til helmingi stærri hluta, því að fjöldinn snauði mun lifa á vinnusnöpum, stund og stund, nokkrar vikur eða mánuði á ári, án stöðu í þjóðfélaginu, án stuðnings verkalýðsfélaga, og fá fyrir takmarkaða vinnu lágt kaup. Sú úrvalssveit sem hafa mun vinnuna með höndum verður vel skipulögð og mun í raun mynda samstöðu með atvinnurekendum um að halda vinnuleysingjunum niðri. Þeir sem draga upp framtíðarmyndir af þessu tagi benda á að staða mála sé orðin svipuð því sem hér var lýst í Japan og Mexíkó og stórborgum eins og New York, Detroit og Caracas. Fær lýðræðisþjóðfélag stað- ist við aðstæður sem þessar? Tæpast. Hlýtur ekki að verða að tryggja lýðræði og jafnan rétt allra með því að skipta vinnunni niður á milli allra vinnufærra? Hver verða viðfangsefni fólks ef svo yrði gert og vinnan yrði ekki lengur kjarni vökulífsins? Hvað þarf að gera til þess að ekki verði stefnt hraðbyri í átt til nýrra kúgunar- þjóðfélaga? Þarna er mörgum spurningum ósvarað og flestar þeirra eru enn í útjaðri stjórnmálaumræðu. Hættan er sú að þeir sem vinnu hafa hugsi eingöngu um sinn hag í nánustu framtíð og sívaxandi hópur vinnu- leysingja eigi sér enga málsvara. Pólitískt máttleysi at- vinnuleysingjanna kann að leiða til þess að þeir mögu- leikar sem eru á því að létta oki vinnunnar af mannkyninu breytist í martröð. klippt Dagur um Isfilm Fjölmiðlarisinn nýi, ísfilmh.f., hefur ekki vakið sérlega mikla hrifningu utan Morgunblaðsins og DV. Það er til dæmis mjög eftirtektarvert hve lítið hrifnir ýmsir samvinnumenn eru af því að SÍS skuli í þessu nýja fyrirtæki ganga í eina sæng með „fjölmiðl- unarfyrirtækjum þeim sem tengdust eru Sjálfstæðisflokkn- um“ eins og komist er að orði í leiðara í helgarblaði Dags á Ak- ureyri. Leiðarahöfundur tekur eins og vonlegt er lítið mark á hjali tals- manna hinnar nýju fjölmiðlasam- steypu um að þeir hafi allan hug- ann við uppbyggilega og ópólit- íska fræðslu og skemmtun. Leiðarahöfundur vekur athygli á því, að tilkoma sjónvarps hafi haft neikvæð áhrif á viðgang Sjálfstæðisflokksins, sjónvarpið hafi haft meiri áhrif á kjósendur en allir aðrir fjölmiðlar - og þar með dregið mjög úr því forskoti sem Sjálfstæðismenn annars höfðu í áróðri með mikilli út- breiðslu Morgunblaðsins. Leið- árahöfundur metur svo stöðuna að hin nýja samsteypa muni ein- mitt ætla að bæta úr þessum vanda Sjálfstæðismanna með eig- in sjónvarpsrekstri þegar fram líða stundir. Síðan segir: Hvaða sjónarmið? „En hinir ungu og framgjörnu frjálshyggjumenn Sjálfstæðis- flokksins hugsa ekki um frelsi í þessu sambandi sem möguleika hvers einasta þjóðfélagsþegns sem frambærilegt efni hefur til að flytja og koma fram í fjölmiðlum. Þeirra hugsun er á þá leið að fjár- magn og auglýsingasjónarmið kaupahéðna fái óhindrað að ráða því, hvað ber fyrir augu og eyru hins almenna borgara. f ljósi þessara viðhorfa sýnist það fyllilega tímabært að þau félags- og stjórnmálaöfl, sem andstæð eru stefnu Sjálfstæðis- flokksins, hugleiði ráð sitt og að- gerðir í framtíðinni á þessu sviði fjölmiðlunar“. Lokaorðin í þessum leiðara Framsóknarblaðs eru að sjálf- sögðu stíluð á SÍS. Og það eru fleiri sem eru sama sinnis. í við- tali við Alþýðublaðið á dögunum segir Finnur Kristjánsson, vara- formaður stjórnar SÍS, frá for- sendum þess, að hann greiddi ásamt Herði Zohponíassyni at- kvæði á stjórnarfundi hjá SÍS gegn aðild Sambandsins að fjöl- miðlarisanum. Um þetta segir Finnur: „Mín afstaða byggðist einfaldlega á því, að mér fannst þetta vera hópur sem ég hafði ekki áhuga á að virína méð að þessum málum“. Pó ekki væri. Hlutur Davíðs í annan stað hafa borgarfull- trúar minnihlutans (nema Krist- ján Benediktsson) haft uppi gagnrýni á Davíð Oddsson og at- kvæði hans í borgarstjórn fyrir ósvífna tilfærslu á peningum og aðstöðu Reykjavíkurborgar til ísfilm. Sigurður E. Guðmunds- son (Alþ.fl.) hefur látið bóka m.a. eftirfarandi um málið: „Það kemur undarlega fyrir sjónir, að flokkur sem alla tíð hefur haft það fyrir eitt af grund- vallarstefnumálum sínum, að hið opinbera skuli hvergi nærri at- vinnurekstri koma, skuli nú leggja til að borgin gerist aðili að stórfyrirtæki á sviði fjölmiðlunar. Það kemur því meira á óvart sem flokkurinn hefur á síðustu miss- erum lagt áherslu á að síst af öllu ætti hið opinbera að hafa með fjölmiðlun að gera, þegar það hins vegar gerist aðili að stórfyrir- tæki nokkurra útvalinna fjár- sterkustu fyrirtækjanna í þjóðfé- laginu, sem hyggjast með þessum hætti skapa sér yfirburðaaðstöðu á þessu sviði.“ Sigurjón Pétursson (Abl.) og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Kvennalisti) gerðu og bókun um andstöðu sína við þetta fjölmiðla- ævintýri. Þau taka, eins og Sig- urður, fram hve óviðfelldið sé að reynt sé í þessu máli að stilla borgarstjórn upp frammi fyrir orðnum hlut og segja ennfremur um fyrirtækið sjálft: „Stofnun hlutafélagsreksturs með aðild Reykjavíkurborgar til auglýsinga- og myndbandagerðar er vægast sagt einkennileg ráð- stöfun af borgarinnar hálfu. 1. Starfandi eru í borginni mörg fyrirtæki, sem í dag vinna þessi verkefni og hafa til þess mikla reynslu, góðan tækjabúnað og hæfa starfsmenn. Stofnun nýs fyrirtækis myndi því aðeins auka samkeppni á þessu sviði og draga verkefni frá þegar starfandi fyrir- tækjum. Ómögulegt er að sjá hagsmuni Reykjavíkurborgar af slíku. 2. Margir þeir aðilar, sem að þessu hlutafélagi standa, eru fjár- hagslega mjög sterkir. Má þar nefna SÍS, Arvakur, Frjálsa fjöl- miðlun og Almenna bókafélagið. Vandséð er því að þessir aðilar þurfi á aðstoð eða þátttöku borg- arinnar að halda til að hrinda í framkvæmd stofnun þessa hlutafélags." Það er nú svo. Eins og kunnugt er hefur það stundum vafist fyrir mönnum hvar Davíð keypti ölið. Hitt gæti svo komið í ljós eins og í öðru máltæki segir, að ekki er dreginn kapallinn þótt Davíð krúnkist á við Svarthöfða. -áb. Karólína gleymdí ad taka pilluna Feti framar? Menn velta því nú fyrir sér, hverskonar töfraformúla það er sem nýir ráðamenn Tímans ætla að bregða á loft til að stórefla sölu Nútímans sem nú er í undirbún- ingi. Vafasamt má þykja að þeir ætli sér að búa til æsispennandi framsóknarblað, enda er það hægara sagt en gert. Hitt gæti ver- ið, að þeir reyndu að færa sig yfir á DV-markaðinn, og þá getur ekki annað gilt en að ganga lengra en það biað í þeirri blaða- mennsku sem jafnan hefur verið kennd við gulan lit af einhverjum líffræðilegum ástæðum. DV birti í fyrradag lær- dómsríka frétt um að Karólína Mónako-prinsessa hafi gleymt að taka pilluna og sé hún ólétt og búin að gifta sig. Blaðið segir frá þessum tíðindum með nokkuð dramatískum hætti: „Hana dauðlangaði í barn og eftir öllum sólarmerkjum að dæma virðist Stefano ekki nota neinar verjur“. Og svo framvegis. Það er náttúrlega vel hægt að hugsa sér nokkur skref í viðbót út af merkismálum eins og þessari óléttu - en hún er hér nefnd vegna þess að henni skyld eru ótal mál sem helst tryggja „frjálsa fjölmiðlun“ í heiminum nú um stundir. En hitt gæti verið erfið- ara að hugsa sér svipinn á hinum „genetísku“ Framsóknarmönn- um sem hingað til hafa lesið Tím- ann ef þróun yrði mjög í þessa átt. Eins þótt þeir séu áður ýmsu vanir, karlagreyin. -áb.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.