Þjóðviljinn - 07.04.1984, Blaðsíða 25

Þjóðviljinn - 07.04.1984, Blaðsíða 25
Gulli þaktan, sólu fegri sal veit ég standa á Gimli, þar skulu góðir menn og réttlátir njóta yndis um alla eilífð. Svo segir í síðasta erindi Völu- spár. Þessi orð komu mér í hug er ég heyrði lát Unnar Þórarinsdóttur frænku minnar. Hún var rétt lið- lega sjötug er hún lést eftir stranga baráttu við vágest þessarar aldar, krabbameinið. Er ég hitti hana á miðvetri síðast fannst mér hún samt varla deginum eldri en fyrir 38 árum er ég man hana fyrst, dökka á brún og brá með hinn sérkennilega augnalit móðurættar sinnar, græn- brúnan og geislandi, kvika í fasi og ævinlega brosandi. Henni fylgdi einhver sérstök reisn, þannig að tekið var eftir henni og hún laðaði að sér fólk hreint eins og blóm sem býflugur sækja í vegna hunangs. Alltaf var kæti og hlátur þar sem hún var því frásagnargáfur hafði hún afbragðsgóðar og gat verið geysi fyndin þegar hún vildi það við hafa. Hjarta hafði Unnur stórt og allan vanda vildi hún leysa, en ef þú vildir grennslast nánar um mann- eskjuna sjálfa á bak við brosið þá gat það reynst býsna erfitt því hún var ákaflega dul í skapi og sagði fáum af sjálfri sér, annað einkenni sem hún bar sterkt úr móðurætt sinni. Unnur Þórarinsdóttir fæddist í Bergskoti á Vatnsleysuströnd 15. 9. 1913. Þriðja barn Þórarins Ein- arssonar bónda þar og síðar í Höfða og Guðrúnar Þorvaldsdótt- ur konu hans. Að þeim stóðu sterk- ir stofnar af Mýrum og úr Borgar- firði en þau hjón voru þremenning- ar að skyldleika. Börn þeirra voru: Þorvaldur lögfræðingur sem lést 1975, Margrét húsfreyja í Knarr- arnesi á Vatnsleysuströnd, Anna fyrrum kaupkona í Reykjavík, Unnur sem hér er kvödd og Asta húsfreyja á Bergstöðum á Vatns- leysuströnd. Fimm fósturbörn áttu þau Þórarinn og Guðrún: Sigurð, bifreiðastjóra í Njarðvík, Huldu er lést 1981, Gunnþórunni húsfreyju í Reykjavík, Elísabetu húsfreyju í Reykjavík og Kristjönu húsfreyju í Garðabæ. Allt mannkosta- og myndarfólk. Þröngt mun stundum hafa verið um þessa stóru fjölskyldu í litlu baðstofunni í Höfða og flatsæng ekki óþekkt fyrirbæri á þeim bæ því gestagangur var mikill. Húsbænd- urnir voru gæða- og gáfufólk og all- ir voru ætíð velkomnir meðan hús- rúm leyfði. Kæti og léttleiki ein- kenndi heimilið og man ég eftir því sem krakki hvað stundum var ó- skaplega gaman að vera lítill í þeim hópi sérstaklega á tyllidögum þeg- ar gestir voru margir. Þá var tjald- að úti á túni og allir fóru í leiki, sumarnóttin entist varla til. Systkinin stríddu hvort öðru oft ómælt og stóð Þorvaldur þar oft framarlega í flokki við að glettast við Unni því hún átti til að þjóta upp í bræði við athugasemdir hans um hárgreiðslur og vaxtarlag, aldrei ristu þessar glettur djúpt og var þetta bara eins og hagl á vor- degi, allir voru jafn sáttir eftir sem áður. Unnur fór ung að heiman og kvæntist 1938 Aðalsteini Jóhanns- syni og hófu þau búskap í Keflavík og síðar 'að Fellsaxarkoti. Þau eignuðust tvær dætur saman Gunnþórunni og Jóhönnu Þór- kötlu. Aðalsteinn lést langt um aldur fram og voru þá litlu dæturn- ar kornungar. Erfitt mun þá hafa verið fyrir fæti hjá frænku minni en ekki mun hún hafa möglað þá fremur en síðar þó hjartanu blæddi. Nokkru síðar réðst hún sem ráðskona upp í Borgarnes og hafði með sér dæturnar litlu, ráðn- ingin var til manns sem bjó þar með öldruðum foreldrum sínum. Sá var Einar Sigmundsson. Gæfuspor mikil voru það því þau settu saman bú og eignuðust tvær mannvæn- legar dætur, Herdísi og Þóru Sig- ríði. Unnur annaðist tengdafor- eldra sína þannig að aðdáanlegt var og dvöldu þau á heimili þeirra Ein- ars. Sigmundur þar til hann lést en Herdís fótbrotnaði háöldruð kona og þá orðin algjörlega blind svo ekki var fært annað en hún færi á Helgin 7.-8. aprfl 1984 ÞJÓÐVlLjINN - SÍÐA 25 rnmi^mmmmmmmmMmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm^mmmmmmmmmmmmmm , Minning Unnur Þórarinsdóttir Borgarnesi F.15.9.1913 - D.28.3.1984 sjúkrahús þar sem hún lést á 104. aldursári. Þá er komið að heimilinu á Borg- arbraut í Borgarnesi og það er líka efni í sögu útaf fyrir sig. Húsið þeirra stóð í þjóðbraut, allir sem komu í Borgarnes fóru þar um og margir voru þeir sem áttu vini að sækja þar sem Einar og Unnur voru, þannig að sjálfsagt þótti að koma við. Húsfreyjan dreif sig út á tröppur til að fagna gestum og hún kunni það svo sannarlega flestum betur. „Blessuð elskurnar mínar og velkomin öllsömul, drífið ykkur í bæinn, eruð þið nokkuð búin að borða? Svo verðið þið auðvitað í nótt, iss, við búum bara flatsæng“ eða „Mikið var ég heppin að þið komuð, ég fékk nefnilega nýjan lax í dag“. Hvað skildu það eiginlega vera margir sem minnast þessarar hlýju kveðju hennar Unnar?, þeir eru örugglega margir. Og ekki dró bóndi hennar úr með sínu hæga og ljúfa viðmóti, lífinu var þannig lif- að í þessu húsi að ekki verður lært af bókum, öllum var jafn vel tekið háum sem lágum, allir sem þar komu fengu þá tilfinningu að beðið hefði verið komu þeirra með óþreyju og þeir væru úr helju heimtir. Einni frænku okkar of- bauð svo gestagangurinn eitt árið að hún færði það í tal við Unni hvort heimilið „yrði bara ekki gjaldþrota með þessu lagi“. Unnur hló svo mikið að það sauð í henni þegar hún sagði okkur frá þessu löngu síðar. Eg vék að því hér að framan að frænka hefði verið ákaflega dul á alla hluti er hana sjálfa vörðuðu og alla hennar hagi, jafnvel orðið dá- lítið snefsin ef henni þótti að sér gengið. Hún gat verið býsna stíf á meiningunni ef hún tók það í sig, en fáar konur hef ég þekkt henni betri og blíðari ef á bjátaði. Mærð var henni ekki að skapi og ekki skal hún viðhöfð hér í þessum línum. Unnar Þórarinsdóttur verður lengi minnst þegar vinir hittast og kátt er í bæ, hlegið verður að gömlu sög- unum af Ströndinni og sérkenni- legum kvistum í lífstrénu sem hún gat svo meistaralega sett í form án þess að særa nokkurn. Ég þakka samfylgdina sem ég fékk að njóta með henni frá barnæsku minni og langar til að gera orð Steins Steinars að mínum í lokin. Á horfna tímans horfi ég endurskin, ég heyri ennþá glaða þýða róminn, frá hreinni sál með hárra vona ris. St. St. Innilegar samúðarkveðjur fylgja þessum línum til eiginmanns, dætra og fjölskyldunnar allrar. Veri Unnur Þórarinsdóttir Guði falin. Þórunn Jónsdóttir. í dag verður til foldar borin í Borgarnesi fóstursystir mín, Unn- ur Þórarinsdóttir. Hún lést í sjúkrahúsi Akraness eftir stutta legu. Vissulega kemur það okkur oftast á óvart, er skyldmenni falla frá, og eins finnst okkur það alltaf gerast allt of fljótt, og þannig var það nú með hana Unni. Nú þegar æðsta kallið kom, þó að 70 ár væru liðin frá fæðingu hennar, þá fannst mér hún eiga svo mikið eftir, áður en hún kveddi þessa jarðartilveru. Að hryggjast og gleðjast hér um fáa daga að heilsast og kveðjast það er lífsins saga. Unnur fæddist í Bergskoti á Vatnsleysuströnd, 15. september 1913, eitt af fimm börnum hjón- anna Guðrúnar Þorvaldsdóttur, ættaðari frá Álftartungukoti á Mýrum, og Þórarins Einarssonar, ættaðs frá Stóra -Nýjabæ í Krísu- vík. Þau Guðrún og Þórarinn bjuggu lengst af í Höfða á Vatns- leysuströnd. Þau eignuðust eins og fyrr segir fimm börn, einn son og fjórar dætur. Þorvaldur lögfræð- ingur, sonur þeirra andaðist 1975. Auk sinna eigin barna ólu þau upp fimm fósturbörn, einn fósturson og fjórar fósturdætur, ein þeirra fóst- urdætra er látin, Hulda, hún lést 1981, og er Unnur nú þriðja af systkina og fóstursystkinahópnum, sem horfin er af sjónarsviðinu. Þeim sem fæddir eru og uppaldir í gróðursælum sveitum, þykir Vatnsleysuströndin ekki búsældar- leg. Nær eingöngu varð að treysta á sjóinn, og það sem hann gaf. Dugnaður og útsjónarsemi hús- bænda sat í fyrirrúmi. Sagt er að ströndin hafi átt ágæta formenn, og var faðir Unnar einn af þeim, happafenginn og dugandi sjómað- ur í hvívetna. Þó að auður væri ei mikill, og innanstokksmunir fáir, ríkti ánægjan og gleðin flestar stundir. Endurminningar æskudaga glatast aldrei. Þegar sæl við saman undum við bernskuleiki, þá var gaman og glatt á hjalla, og ekki lét Unnur sitt eftir liggja, því | glaðværð og hressilegt viðmót var hennar auðkenni. Unnur ólst upp við slíkar aðstæður, að ekki varð hún aðnjótandi mikillar menntunar, annarrar en hinnar hefðbundnu barnaskólagöngu. Þess í stað vistaðist hún á góðum heimilum, og lærði það sem varð henni að vegarnesti í lífinu. Árið 1937 stofnar Unnur sitt heimili í Keflavík, með unnusta sínum Aðalsteini Jóhannssyni, ætt- uðum frá Litlu-Fellsöxl í Skilmann-! ahreppi. Bjuggu þau 3 ár í Keflavík og eignuðust þar dóttur, sem skírð var Gunnþórunn, í höfuð á móð- urforeldrum Unnar. Ekki hafa i ungu hjónin unað hag sínum í Kefl- avík, hugurinn stefndi heim á æsk- uslóðir Aðalsteins, þrá hans til heimahaganna, fjallsins, Akra- fjalls, og það að vera þar heima sem hvar fegurst er sólarlag. Hófu þau búskap í Fellsaxlarkoti, sem stóð í túnjaðri foreldra Aðalsteins. Þar í litla húsinu þeirra fæddist þeim önnur dóttir sem skírð var eftir föðurforeldrum, og nefnd Jó- hanna Þórkatla. Þarna í Fellsaxlarkoti bjuggu þau fjögur ánægð með sitt. Mikið var um gest- akomur til þeirra í kotið, nokkrir áttu þar sumardvöl um lengri eða skemmri tíma, og var húsmóður- hlutverkið lífsfylling Unnar, og það að vera með og njóta samvistar með vinum og ættingjum var henn- ar gleði. Það var svo í desember 1944, í þann mund er hátíð ljóssins er að ganga í garð, að snögglega syrtir í litla kotinu. Aðalsteinn hús- bóndi hennar veikist og er fluttur til Reykjavíkur fársjúkur, og andað ist hann þar tveim dögum fyrir jól. Svo lengi sem ég lifi gleymi ég ekki þeim jólum. Nú stóð Unnur á vegamótum með tvær litlar telpur, ung ekkja, aðeins 31 árs. En hún beygði sig ekki undan, heldur stóð sterk eftir, þó að í þá daga væri ekki um að ræða opinbera aðstoð til handa þeim sem fyrir áföllum sem þessum urðu. En með guðshjálp og góðra manna aðstoð komst Unnur yfir þetta erfiða skeið. Eftir að Unnur flutti úr Skil- mannahreppi, bjó hún hjá foreldr- um sínum á Vatnsleysuströndinni. Réði hún sig í vist tíma og tíma, en aldrei svo langt í burtu að hún þyrfti að sjá af dætrum sínum lengi í einu. Hennar heitasta ósk á þess- um tíma var sú að geta tekið dætur sínar til sín aftur, og átt með þeim heimili, og þessa ósk fékk hún upp- fyllta. Örlögin höguðu því þannig til að hún kynntist eftirlifandi manni sínum Einari Sigmundssyni frá Krossnesi á Mýrum, og gekk hann dætrum hennar í föðurstað, og er ekki ofmælt að segja að fáir hefðu skilað því hlutverki betur. Unnur og Einar hófu búskap í Borgarnesi árið 1947, og eignuðust þau tvær dætur, þær Herdísi og Þóru Sigríði. Nú voru dæturnar orðnar fjórar, og voru þær þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ömmu sína og afa heima hjá sér, þar er foreldrar Einars þau Herdís Ein- arsdóttir, og Sigmundur Sveins- son, bjuggu hjá þeim, þau létust í hárri elli. Allar fluttu dætur Unnar að heiman og stofnuðu sín heimili, Gunnþórunn, búsett á Akranesi, Jóhanna búsett í Reykjavík, Her- dís búsett á Mallorka, og Þóra Sig- ríður búsett í Borgarnesi. Það sem hér á undan er skrifað er skrifað af frænsku og fóstursyst- ur Unnar, en í framhaldi af því vildi ég, mágur hennar, þakka henni samfylgdina og þá vináttu sem hún- hefur gefið mér og fjölskyldu minni, hún mun geymast meðal okkar. Það var ekki að skapi Unnar að lofsyngja kosti sína, en samt er ekki hægt að láta þess ógetið að hún var lífsglöð og skemmtileg kona. Ófeimin var hún að láta skoðanir sínar í ljós, og var hún alveg ómissandi í heitum umræð- um. Þá naut sín málsnilli hennar. Hún myndaði sér ákveðnar skoð- anir um menn og málefni, og vari enginn tækifærissinni í þeim efnum frekar en öðrum sem hún hafði; tekið afstöðu til á annað borð. Þá gat enginn þokað henni frá sannfæringu hennar. Hún sagði eitt sinn við mig, sem ég hef oft hugleitt: „Það er engin skömm af því að breyta um skoð- anir á málum“. Þetta gerði Unnur þá af fyllstu sannfæringu. Hún var gædd svo léttri glaðværð að allir komust í sólskinsskap í návist hennar. Unnur og maður hennar Einár Sigmundsson, þessi hug- þekki, bjargtrausti maður sem eng- um bregst hvað sem á dynur, voru bæði með afbrigðum skemmtin, gestrisin, og hjálpfús í alla staði. Og þar sem frændgarður Unnar er fjölmennur, og heimili þeirra í þjóðbraut, hafa margir notið gest- risni þeirra, og átt á heimili þeirra gleði stundir, fleiri en tölu verður á komið, hjá þessum góðu hjónum. Enn og aftur vil ég þakka Unni minni samfylgdina sem spannar yfir u.þ.b. 35 ár. Ég lýk þessum fátæklegu kveðj- uorðum með tilvitnun í hina helgu bók: „Lífið er Kristur, dauðinn er ávinningur". Við hjónin þökkum þeim Unni og Einari þeirra traustu og hlýju vináttu alla tíma, og vottum við Einari, dætrum, og fjölskyldum þeirra, systrum og fósturs- ystkinum, einlæga samúð. Góður guð styrki ykkur í sökn- uði og sorg Elsa og Reynir

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.