Þjóðviljinn - 12.05.1985, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 12.05.1985, Blaðsíða 8
SUNNUDAGSPISTILL Þegar heimurinn datt í þrennt Um nútímasögu í ritröð AB. Tveir af þeim sem settu svip á tímabilið: Maó í heimsókn hjá Stalín árið 1950. Miklar sveiflur í túlkun á verkum elnmin þessara tveggja minna rækilega á það hve stutt er einatt í ásakanir um hlutdrægni í garð þeirra sem um nýlega viðburði fjalla. Almenna bókafélagið er að leggja út í mikið fyrirtæki, út- gáfu mannkynssögu f fimmtán bindum. Upphaflega er ritið skrifað fyrir Aschehougfor- lagið í Noregi. Fyrst kemur út fjórtánda bindið, en það fjallar um áratugina 1945-1965. Það kallast „Þrír heimshlutar" og Bo Hult hefur skrifað bókina en Lýður Björnsson þýddi. Má vera að erfiðara sé að skrifa um nútímasögu í slíku yfirlitsriti en fyrri tíma. Atburðir eru mjög nálægt, mýgrútur til af heimild- um, mikil hætta á að höfundur og lesandinn þar með drukkni í staðreyndaflóði. Það ber líka nokkuð á því í þessari bók, að reynt er að koma sem víðast við, gefa sem flestum nokkurt pláss. Líklegt að einmitt þetta verði á kostnað sterkari útlína, þar sem farið væri betur í saumana á stór- tíðindum. Til dæmis kafað dýpra í kalda stríðið eða hrun nýlend- uskipulags, svo að stærstu fyrir- bæri tímans séu nefnd. Vinstri og hœgri Af sjálfu leiðir að þegar skrifað er um svo nálæga sögu þá fær höfundurinn ekki frið fyrir kröf- um um óhlutdrægni - eða réttara sagt fyrir ásökunum um hlut- drægni. Hann reynir bersýnilega að gera sitt besta í anda sann- girni. En þegar á heildina er litið þá hafa „hægrimenn" meiri á- •stæðu til þess en „vinstrimenn" að skrifa undir útskýringar hans á málum sem á sínum tíma voru efni í miklar deilur. Ég nefni til dæmis frásögn hans af átökunum um Kongó sem lauk með morði Patrice Lumbumba, af hinni „hvítu byltingu" keisarans í íran, af ýmsum áföngum Víetnam- stríðsins og þannig mætti áfram telja. Saga Bo Huldts er að sönnu í þeim nútímaanda, að hann er ekki bundinn við Evrópu (og kannski Norður-Ameríku) sem nafla heimsins í þeim mæli sem menn áður voru. Hann skilur til dæmis mætavel þýðingu kín- versku byltingarinnar. En það er ekki síst í lýsingunni á atburðum í þriðja heimi, þeim sem hefur ris- ið úr rústum nýlenduveldis, sem lesanda finnst skorta á að höfundi takist í raun að brjótast út úr þeim arfi sem hann ber á herðum og hefur öðru fremur mótað hið „evrópska" sjónarhorn. Allt frá því hann (bls. 225) talar um að nýlenduveldin hafi við upphaf 20. aldar horfið frá „beinu arðráni“ í átt til „föðurlegrar umhyggju“. Formúlur af þessu tagi eru ein- mitt gott dæmi um að viss sannleikskjarni breytist í mjög litaðan dóm um flókin fyrirbæri - vegna óleyfilegrar einföldunar. Sovéska dœmið Sá sem þessar línur skrifar er ekki sagnfræðingur. En bókin er það stutt frá okkur í tíma, að hæg- ur leikur er fyrir hvern og einn áhugamann að bera hana saman við eigin reynslu. Sjálfum mér er t.d. freisting að skoða sérstaklega kaflann um Sovétríkin. Og ein- mitt á þeim vettvangi sem lesar- inn telur sig þekkja best, þar reynist óánægjan með höfundinn mest. Vitanlega er margt satt og rétt í kafla þessum, þó nú væri. En oftar en ekki er sem höfundi hafi mistekist að koma höndum yfir það sem máli skiptir t.d. í því sem varðar einna mestu um sögu Sovétríkjanna á þessum tíma: hið hálfvolga uppgjör Krúsjofs við stalínismann. Ekki bætir það úr skák, að formúlur eru stundum einkennilegar, hvort sem það verður alfarið skrifað á reikning höfundar eða þýðandans. Til dæmis er orðalag allt á frásögn af svonefndu læknasamsæri þannig, að lesandinn mætti ætla að hópur lækna (flestra af gyðingaættum) hafi í raun og veru ætlað að eitra fyrir nokkra helstu ráðamenn So- vétríkjanna! Frásögnin af skipu- lagsbreytingum Krúsjofs (bls. 190) er einnig lítt skiljanleg - en þar segir m.a. að „skipulag ríkis- ins var afnumið á 7da áratugn- um“ - hvorki meira né minna! í þessum kafla - sem og fleirum - eru líka vanhugsaðar tilvísanir í bókmenntir og listir. Mynd af Pasternak fylgir og er talað þar um afdrifarfka bók, en það kem- ur hvergi fram að hér er um dr. Zjivagó að ræða. Og í frægu kvæði Mandelstams um Stalín eru fingur Kremlarbónda orðnir „feitir sem rýtingsskefti" en eru í rauninni „feitir sem ormar“ og einhverra hluta vegna eru „þykkskinnungarnir" í hirð Stal- íns orðnir að fyrirmönnum „með hanafjaðrir". Skrýtnar formúlur Það má reyndar nefna allmörg dæmi um formúlur sem stundum eru í ætt við vafasama blaða- mennskusagnfræði og stundum stafa af því að þýðandinn hefur valið hæpnar leiðir. Hvað þýðir það til dæmis að þýska vikuritið Spiegel sé þekkt fyrir „ósam- ræmdan málflutning"? Eða að Salazar í Portúgal (bls. 162) hafi tekist að „skipuleggja atvinnu- lífið með samstarfssniði, en þó laut það eftirliti ríkisins"? Eða að Evrópumenn hafi litið á Kennedy „fremur sem spámann en Banda- ríkjamann"? Það er líka klaufa- legt að segja að Kúbumenn hafi verið „meðhöndlaðir á stjúp- móðurlegan hátt“ hjá Sámi frænda. Eða að Kínverjar hafi tekið upp „lýðræðislega einkenn- isbúninga" árið 1965. Eða að kalla Sjú Enlæ „höfðingjasinna" eða þá að kalla Kína, „midtens rike“ á norsku, „ríkið milli heimshlutanna“. En semsagt: hér er af stað farið mikið ritsafn og vonandi að að- finnslur við önnur bindi þess verði færri. Frágangur er allur vandaður (þó er þess dæmi að kort sé vitlaust prentað) og myndakosturinn er mikill og glæsilegur. Þessi lesandi hér er að sönnu svo íhaldssamur inn við beinið, að við liggur að hann finni til tortryggni í garð of glæsilegs myndakosts vegna þess, að hann grunar að menn lesi miklu betur þær bækur sem treysta meir á textann sjálfan. Vel getur þó ver- ið að þetta sé misskilningur. Kona Treholts skrifar bók Fjölvi hefur gefið út bókina Góða ferð til Parísar eftir Kari Storækre. Kari er norskur blaðamaður og hún er eigin- kona Arne Treholts. Þess sem hefur nú setið í fangelsi í meira en ár, sakaður um njósnir í þágu Rússa og íraka. Og norskir fjölmiðlar hafa verið að deila um það allar götur síðan, hvort Arne væri stórnjósnari eða tiltölulega lítið peð í hættu- legum leik sem hann hafi álp- ast út í af ofmetnaði einhvers- konar. Og allt þar á milli. Sölumennskan Kari Storækre lýsir því fyrst og fremst í þessari bók hvílíkt reiðarslag handtaka eiginmanns- ins var fyrir hana og son þeirra hjóna. Hún er reið slúðurblöðum sem spinna upp langar frásagnir um hana og fjölskyldu hennar úr svosem engu sem hönd er á fest- andi. Hún talar með fyrirlitningu um að hún sé gerð að tálbeitu til að auka sölu vafasamra blaða. Allt er þetta mjög eðlilegt. Sjálf- sagt að hafa samúð með konu sem lendir sárasaklaus í þeim ósköpum að snyrtilegur vel- gengnisheimur hennar hrynur. En hitt er svo ekki Ijóst hvers vegna hún skrifar þessa bók. Því miður hlýtur sú grunsemd að vakna, að hún hafi litið svo á, að hún ætti miklu fremur en aðrir skilið að njóta nokkurs ábata af máli sem aðrir græddu mikið á þjáningarlaust. Því satt best að segja hefur Kari Storækre ekki úr miklu að spila. Hún veit ekkert um mál Arne Treholts. Hún hafði, að því er í bókinni segir, aldrei áttað sig á því hvað hann var að bralla. Hún kemur af fjöllum. Hún er sár og reið, bæði við Arne Treholt og svo fjölmiðla sem ekki láta hana í friði og bandarísk hjón sem hún hélt að væru einkavinir, en reyndust útsendarar frá banda- rísku alríkislögreglunni og áttu að fylgjast með Treholthjónun- um meðan þau bjuggu í New York. En þar starfaði Arne Tre- Kari Storækre: Aumingja ég sem ekkert vissi eða skildi. holt í sendinefnd lands síns hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta er líka allt og sumt. Kari Storækre ræður ekki yfir merki- legum upplýsingum. Og hún gefst eiginlega upp á því að skilja hvað fyrir Arne Treholt vakti. Hún er líka í mikilli óvissu um það, eins og aðrir, hver sekt hans er. Hver er maðurinn? Lesandinn getur reynt sjálfur að ráða í eyðurnar en hann kemst ekki langt. í bréfum sem Arne smyglar til konu sinnar úr fang- elsinu og vitnað er til í bókinni fer talsvert fyrir þeirri hugmynd hans sjálfs, að hann sé fórnarlamb samsæris. Bandaríska leyniþjón- utan CIA sé að reyna að ná sér niðri á honum fyrir það að hann tók þátt í baráttunni gegn herfor- ingjaklíkunni í Grikklandi og réðist á CIA fyrir að hafa lagt henni lið. En hvorki bókarhöf- undur né lesandi vita, hvað gera skal við slíka kenningu sakborn- ingsins. Einna helst festir lesandinn huga við glefsur úr þessum bréfum þar sem fram kemur, að Arne Treholt er einfari og finnst, að þrátt fyrir starfsframa í norsku utanríkisþjónustunni hafi hann ekki fengið verðug viðfangsefni. Honum finnst hann hafi verið „frímerkjasleikjari" hjá Samein- uðu þjóðunum og í raun starfs- laus í Osló. Hinsvegar hafi hann alltaf langað til að „stjórna sjálfu mínu eigin lífi og vera herra og meistari yfir umhverfi mínu“. Þessar glefsur virðast styrkja þá kenningu að Arne Treholt hafi ekki ætlað að gerst njósnari í venjulegum skilningi, heldur verða með tvísýnum leik meira en smápeð í heimstaflinu. En um leið vísar ýmislegt, sem fram kemur í bókinni, í aðra átt, til annars skilnings á persónunni en þessa. Þorsteinn Thorarensen hefur þýtt bókina og honum hefur ekki tekist að forðast ýmsar þýðing- arsyndir. Látum svo vera. Verst er að rit þetta er tiltölulega hrá blaðamennskubók sem gefur fleiri fyrirheit en við er staðið. Arni Bergmann. 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 12. maí 1985

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.