Þjóðviljinn - 12.05.1985, Page 10
LADA
Sputnik
Nýjasta
framleiðslan í
Togliatti
Lada Sputnik heitir nýjasta fram-
leiðsla Volga-verksmiðjanna:
Þægilegur lítill 5 manna fjölskyld-
ubfll með straumlínuformi í lík-
ingu við marga vinsælustu jap-
önsku og evrópsku smábílana.
Bfll þessi er enn ekki kominn í
framleiðslu, verið er að gera síð-
ustu endurbæturnar á prufuein-
tökunum, en blaðamanni Þjóð-
viljans veittust þau forréttindi að
vera fyrstur erlendra blaða-
manna til að prufuaka þessu stolti
Lada-verksmiðjanna. Og ég get
staðfest að bíll þessi er hinn þægi-
legasti og stenst í því sambandi
samanburð við minn eigin bíl,
sem er svipaðrar stærðar að gerð-
inni Daihatsu. Hins vegar er bíll
þessi sterkbyggðari en japönsku
bílarnir, enda gerður til þess að
standast hina ' grófu rússnesku
vegi. Það ætti að vera tvímæla-
laus kostur hér á landi, og eiga
þessir bflar vafalaust eftir að
njóta verðskuldaðra vinsælda hér
á landi.
Blaðamaður Þjóðviljans prufuekur nýjustu gerðinni af Lada fyrstur erlendra blaðamanna. Blll þessi er væntanlegur á markað innan skamms.
verkalýðsfélaginu, og æðsta
stjórn þess, verkamannaráðið, er
• skipað 64 fulltrúum hinna ýmsu
deilda og framleiðslugreina
innan verksmiðjunnar. Síðan eru
46 undirnefndir og 330 undir-
deildir innan félagsins og 4700
starfsmannaklúbbar um einstaka
minni vinnustaði. Innan okkar
stéttarfélags eru um 36.000 fé-
lagar sem gegna forystuhlutverk-
um í félagsmálum. Meðal þeirra
verkefna sem stéttarfélagið hefur
með höndum er þróun og skipu-
lagning vinnu og framleiðslu,
umsjón með öryggi á vinnustaðn-
um og eftirlit með vinnuum-
hverfi, eftirlit með launagreiðslu-
kerfi, skipulagning frítíma, eftir-
lit með byggingu og útdeilingu á
íbúðarhúsnæði, þjónustumið-
stöðvum o.fl., umsjón með fé-
lags- og menningarlífi starfsfólks-
ins, skipulagning heilsugæslu, í-
þrótta- og tómstundaaðstöðu
o.s.frv.
Fœribönd
Hver ákvarðar hraðann á færi-
böndunum í þessari verksmiðju?
spurði ég, en það er hraðinn á
færiböndunum sem ákvarðar
vinnuálag fólksins.
Hraðinn á færiböndunum er
vísindalega ákvarðaður af sér-
fræðingum á sviði sálarfræði og
læknisfræði. Hann er ekki sá sami
allan daginn, heldur tekur hann
mið af eðlilegum vinnuhraða
mannsins. Okkar starfsfólk er
ekki eins og kreist sítróna eftir
vinnudaginn. Hraðinn á böndun-
um er minni fyrst á morgnana, en
eykst á einni klst. upp í hámark.
Eftir V/i klukkustund er stutt
vinnuhlé og þá hægir bandið á sér
áður en það stoppar. Sama gerist
fyrir vinnulok. Hámarkshraðinn
á samsetningarbandinu er 4,75 m
á mínútu.
Hraðinn á færiböndunum í
hliðstæðum verksmiðjum á Vest-
urlöndum er víða þrefaldur á við
það sem hér tíðkast, sagði fulltrúi
verkalýðsfélagsins.
Til þess að forðast vöðvabólg-
ur og aðra atvinnusjúkdóma er
stafa af einhæfni í starfi eru höfð
vikuleg skipti á verkefnum hvers
og eins, þar sem því verður við
komið. Menn fá greiddan auka-
bónus eftir fjölhæfni, og þeir sem
«• geta unnið öll störf á sínu vinnu-
svæði fá 16% kaupálag. Um
24.000 starfsmenn eru þannig
hækkaðir í bónus á ári hverju.
Ef ég kem sem nýliði, hvaða
möguleika hef ég til að vinna mig
upp í bónus og starfi?
Nýliðar byrja á samsetningar-
beltinu fyrstu 3-4 árin, en fá síðan
möguleika til að þjálfa sig í störf-
um sem krefjast meiri hæfni.
Málefni kvenna
Innan verkamannaráðsins er
sérstök nefnd sem sér um málefni
kvenna, vinnuaðstöðu þeirra, ör-
yggismál, heilsugæslu og barna-
gæslu. Fulltrúi kvenna á þessum
fundi sagði mér að konur hefðu
jafna möguleika og menn að
hækka sig í stöðu, en þær ynnu þó
ekki þau störf sem krefðust
mestrar líkamlegrar áreynslu.
Konur virtust mér í meirihluta á
samsetningarbeltunum, án þess
að ég gæti þó merkt skýra verka-
skiptingu á staðnum eftir kynj-
um.
Meðallaun yfir alla verksmiðj-
una voru sögð 176 rúblur á mán-
uði. Við það bætist reyndar sér-
stakur aukabónus fyrir gæði og
afköst, sem skiptist jafnt, greiðist
í árslok og nemur 80% af mánað-
arlaunum. Hámarkslaun var mér
sagt að næmu um 350 rúblum á
mánuði, en auk þess njóta starfs-
menn ýmissa fríðinda.
í íbúðarhverfinu voru mér
sýndar blokkir sem voru fyrir það
unga starfsfólk í verksmiðjunni,
sem ekki hefði stofnað fjöl-
skyldu. Þarna eru 9 m2 herbergi
fyrir tvo starfsmenn, en tvö slík
herbergi deila með sér baðher-
bergi og eldhúsi. Fyrir þetta eru
greiddar 6 rúblur (300 kr.) á mán-
uði. Þegar þetta fólk giftir sig og
vill fá íbúð sækir það um slíkt til
stéttarfélagsins og þarf þá að bíða
úthlutunar. Vilji menn flytja á
milli staða í Sovétríkjunum þurfa
þeir einnig að sækja um húsnæði,
geti þeir ekki fundið einhvern
sem vill skipta við þá á íbúð.
Fyrirbyggjandi
heilsugœsla
Það var ekki bara verksmiðj-
an, sem ég fékk að sjá í Togliatti.
Meðal annars var mér sýnt allsér-
stakt heilsuhæli í eigu verksmiðj-
unnar. Það rúmaði 1100 gesti og
sérhæfði sig í fyrirbyggjandi
heilsugæslu með náttúrulegum
aðferðum. Gestir þeir sem þang-
að koma stunda vinnu sína samh-
liða meðferð. Þeir gista þó á hæ-
linu til þess að njóta hvíldar með-
an á meðferð stendur. Þarna er
fólk sett í hvers konar böð, nudd,
fæðukúra, innöndun gufumett-
aðra hollefna osfrv. Allar vistar-
verur voru þar hinar vistlegustu
og veggir skreyttir fögrum lista-
verkum.
Vísindalegt
uppeldi
Barnaheimili í eigu verksmiðj-
unnar sá ég einnig. Það var eitt af
mörgum slíkum, var fyrir 400
krakka og þar voru 170 starfs-
menn. Fjöldi starfsmanna skýrist
meðal annars af því að gert er ráð
fyrir því að börn sem eru þriggja
til sjö ára dvelji á stofnuninni all-
an sólarhringinn, á meðan börn
sem eru 11/2-3 ára eru sótt um
eftirmiðdaginn.
Þegar ég spurði forstöðukon-
una hvort krakkarnir fengju að
ráða, eða hvort þau vildu ekki
heldur vera hjá foreldrum sínum,
þá sagði hún að auðvitað gæti
ekkert komið í stað foreldraást-
arinnar, en hins vegar væri
reynslan sú að ömmurnar og af-
arnir ofdekruðu börnin. Hún
sagði að foreldrum væri að sjálf-
sögðu frjálst að taka börnin þegar
þau vildu, en að jafnaði hefðu
þau 190 börn yfir nóttina á þessu
heimili. Vel virtist búið að börn-
um þarna efnislega, meðal ann-
ars höfðu þau sundlaug, en um-
hverfi allt var með slíkri reglu og
þrifnaði, að það minnti meira á
sjúkrastofnun en heimili við
fyrstu kynni. Forstöðukonan
sagði mér að í þessu hverfi borg-
arinnar væru 90 slíkar stofnanir
með rými fyrir um 33.000 börn og
um 7000 manna starfslið. For-
stöðukonan sagði okkur að stofn-
anir þessar ynnu eftir vísinda-
legum aðferðum, sem mótaðar
væru af menntamálaráðuneyt-
inu, og væru uppeldislegu mark-
miðin fimmþætt: Að þroska
skilning barnanna fyrir vinnunni,
að innræta þeim réttan siðferðis-
þroska, fagurfræðilega skynjun,
líkamiega þjálfun og andlega.
Þegar ég kvaddi þessa stofnun
var það mér efst í huga að ég
mundi nauðugur skilja dóttur
mína þar eftir næturlangt.
íþróttir
Þriðja stofnunin sem ég
skoðaði utan verksmiðjunnar var
íþróttahöll, þar sem um 3000
ungmenni stunduðu hvers kyns
íþróttir daglega. Þarna var fryst-
ur völlur fyrir ísknattleik með
áhorfendapöllum fyrir nokkrar
þúsundir, fimleikasalir, þar sem
æfður var ballett jafnt sem hnefa-
leikar, karate og hvers kyns akró-
baktík í reipum og á rám. Mest
voru þetta börn og unglingar á
aldrinum 6-14 ára og mátti segja
að öll þessi stóra bygging hafi
iðað af þróttmiklu lífi, þar sem
krakkarnir sýndu oft á tíðum
undramikla leikni. Fullorðnir
hafa frekar aðgang að þessari að-
stöðu síðdegis og á kvöldin, var
mér tjáð.
Torglaus borg
Ég dvaldi heilan dag í Tog-
liatti, fór víða og sá undramargt,
enda var heimsóknin vel skipu-
lögð af hálfu gestgjafanna. Bær-
inn sjálfur er byggður í þrennu
lagi með fallegum furuskógi sem
umlykur hvern bæjarhluta. Iðn-
aðarsvæðið er afmarkað frá íbúð-
arsvæðum, sem einkenndust af
mikilli einhæfni í byggingarstíl,
þar sem nánast öll borgin er ný.
Ibúðahverfin eru mynduð af
kassalaga 8-9 hæða blokkum með
opnum svæðum á milli. Fátt virt-
ist um verslanir eða aðra þjón-
ustu þegar ekið var um þessi
íbúðahverfi og erfitt að finna
raunverulegan miðbæ eins og
venja er í stærri borgum. Auðvit-
að er erfitt að mynda sér skoðun á
svo stuttri ferð, en ég fékk það á
tilfinninguna að íbúar staðarins
væru bundnir sínum vinnustað
með þeim hætti að erfitt væri að
komast út fyrir hann. „Verka-
lýðsfélagið sé fyrir þörfum þínum
frá vöggu til grafar,“ sagði fulltrúi
verkalýðsfélaganna í Volga-
verksmiðjunni. Það þýðir líka að
það skammtar þér þarfirnar.
Hvort sem það varðar húsnæði,
sumarfrí þitt eða tómstundir,
menningarlíf eða heilsugæslu, þá
leitar þú til stéttarfélagsins og
lætur skrá þig á biðlista. Margt er
þar gert til fyrirmyndar, en ein-
hæfni þessarar tilveru hefur til-
hneigingu til að drepa niður það
sjálfsprottna frumkvæði og þá
fjölbreytni sem aldrei getur þrif-
ist eftir skipulögðum biðlistum og
skrifræðislegri útdeilingu lífsgæð-
anna. Ofskipulagningin getur
orðið að sjúkdómi.
Útrýming
eigingirninnar
Ég viðraði þessi viðhorf mín
við einn yfirmann fréttastofunnar
Novosti, þegar ég kom til Mos-
kvu.
Að sjálfsögðu andmælti hann
þessum viðhorfum mínum. Þú
skilur kannski ekki, sagði hann,
að hið sósíalíska kerfi sem við
búum við útrýmir hinni félags-
legu eigingirni. Þessu fólki er það
eðlilegast að vinna saman að sín-
um málum, bæði í starfi og leik.
En vilji einhver draga sig inn í
sína skel og vera einn, þá bannar
honum það enginn. Sósíalisminn
felst í því að við leysum mál okkar
í sameiningu méð hagsmuni
heildarinnar í fyrirrúmi. Það er
misskilningur að þetta hindri að
manneskjan geti þróast á ein-
staklingsbundinn hátt, út frá sín-
um eigin forsendum. Vilji t.d.
einhverjir leggja stund á tónlist
eða myndlist í frístundum sínum
fær hann einstaklingsbundna
kennslu. Sama á við í íþróttum
eða öðrum menningarlegum við-
fangsefnum.
Ofskipulagning
sem sjúkdómur
Ég held að ofskipulagningin sé
meginsjúkdómur hins sovéska
kerfis. Það er í rauninni furðulegt
að koma í 600 þúsund manna
borg, þar sem ekki virðist rúm
fyrir handverksmenn, sem selja
varning sinn, blómasölukonur
eða fisksala á torgi. Gallerí, þar
sem listamenn sýna verk sín eða
leikhús þar sem áhugamenn færa
upp leiksýningar. Allt þetta sem
litar tilveruna og gerir borg að
borg. Auðvitað sá ég ekki nema
brot af þessari stóru borg á yfir-
reið minni. En þegar við komum
á hótelið sem við gistum á og var í
eigu Volga-verksmiðjanna
spurði ég gestgjafa mína hvar
miðbærinn væri. Hann er hér, var
svarið. Fyrir framan hótelið var
stórt torg, en það var autt. Engin
listaverk, engar verslanir, engin
veitingahús nema barinn og
veitingasalurinn á hótelinu. Við
torgið var líka biðstöð fyrir stræt-
isvagna, og ég sá fólk ganga um
torgið að morgni og kvöldi til og
frá vinnu. Þrátt fyrir alla um-
hyggju og góðan vilja verkalýðs-
félagsins og skipuleggjenda þess-
arar iðnaðarmiðstöðvar gaf þetta
götulíf manni tilfinningu fyrir
sárri fátækt, sem var ekki af efnis-
legum toga, heldur sprottin af
þeirri andlegu fátækt sem virðist
vera skilgetið afkvæmi alls skrif-
ræðis og ofskipulagningar, hvort
sem hún er unnin í nafni sósíal-
isma eða annarra hugsjóna.
10 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 12. maí 1985