Þjóðviljinn - 21.12.1985, Síða 11
MENNING
Leikstjórinn sem þýskur fálkaáhuga-
maður.
Löggulíf
Leikstjóri: Þráinn Bertelsson
Handrit: Þráinn Bcrtelsson og Ari
Kristinsson
Tónlistarumsjón: Guðmundur Ing-
ólfsson og Lárus Grímsson
Hljóðmeistari: Sigurður Snaeberg
Kvikmyndataka, klipping: Ari Krist-
insson
Leikmynd: Hallur Helgason, Árni
Páll, Stefán Hjörlcifsson
Búningar: Dóra Einarsdóttir
Leikarar: Eggert Þorleifsson, Karl
Ágúst Úlfsson, Lilja Þórisdóttir, Flosi
Ólafsson, Sigurður Sigurjónsson,
Guðrún Þ. Stcphensen, Sigurvcig
Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson,
Bríet Héðinsdóttir, Rúrik Haralds-
son, Bjarni Steingrímsson, Jón Júlí-
usson, Jón Gunnarsson og fleiri
Nýtt líf 1985
Nýja bíó.
Með lögum skal land byggja: Karl, Flosi, Eggert.
Bakkabrœður i
Töluvert spunnið í þennan ró-
lynda og þjóstlitla mann, Þráin
Bertelsson; með hægðinni tekst
honum að ryðja sér veg í þeim
ófærum sem hafa hrakið frá sér
ofurhuga og yfirlýsingamenn, og
á hans bláþræði virðist fram-
haldslíf íslenskrar kvikmyndunar
helst hanga á bitru hausti í þeim
bransa.
Þessi filmuvegur Þráins er að
vísu ekki bikaður möl; slitlagið
stundum soldið lítið bundið, - en
það er eðli vega að ná frá einum
stað til annars, og rennisléttir
bútar duga ferðamönnum
skammt sé milli þeirra hraun og
klungur.
Grallaramyndir einsog hin
þrjú líf Þráins eru nefnilega
nauðsynlegur partur af filmugerð
allra landa, og sú niðurlæging
sem þessi listiðnaður er lentur í
hérlendis gerir slíkar myndir
beinlínis lífsnauðsynlegar vegna
þess að þær er hægt að hafa til-
tölulega ódýrar og von til að
verkamennirnir njóti launa
sinna. Og síðan getur runnið fé til
annarra verkefna áhættusamari
einsog raunin hefur orðið á hjá
Þráni um myndina Skammdegi
sem að vísu var ekki vel heppnuð
en þó góð um margt og stórgóð
um sumt.
Samt verður að vara við því að
bakkabræðramyndir einsog
Löggulíf séu litnar sömu augum
og smjörlíkið hans Ragnars í
Smára. Farsamynd getur líka ver-
ið góð kvikmynd, og þótt enginn
búist við meistaralegu listaverki
má ekki slaka á kröfum um gæði;
- þó ekki sé nema vegna þess að
ef menn ekki vanda sig verður
engin reynsla þeim að gagni sem
ætla sér seinna útí önnur ævintýr
og metnaðarfyllri.
Löggulíf lendir í samanburði
við fyrri myndirnar tvær um líf og
störf þeirra Þórs og Danna, og fer
hér þannig útúr þeim burði að
hún er, sem betur fer, betri en
Dalalíf, en ekki eins fersk og
hressileg og fyrsta myndin, Nýtt
líf, kannski vegna þess að Vest-
mannaeyjar eru betri gaman-
leikari en Reykjavík.
Helsti galli á Löggulífi virðist
aldrei þessu vant vera ónógt nost-
ur við handrit. Tæknihliðin sem
var soldið útí hött í Dalalífi er hér
MÖRÐUR
ÁRNASON
komin í ágætt lag, - en það vantar
einhverja samloðun, einhverja
uppfyllingu í það tómarúm sem
myndast milli brandara sem
margir eru vel smellnir; og ég
held mig vita hver sú uppfylling
er.
Sigurður Nordal segir einhver-
staðar í tilefni af þeim Njálufé-
lögum Birni og Kára að þegar
leidd er fram tvennd í bók-
menntum þurfi aðilar tvenndar-
innar nauðsynlega að hafa eitt til
að bera: að vera nógu ólíkir.
löggunni
Þetta gengur upp hjá Birni og
Kára, hjá Kíkóta og Sankó Pasa,
hjá Þorgeiri og Þormóði Kol-
brúnarskáldi, og hjá Gög og
Gokke, en ekki hjá Þór og
Danna. Karl og Eggert eru úr-
valsleikarar og má hafa af þeim
mikið gaman, en það breytist
ekki rnargt þótt Þór væri Danni
og Eggert Karl: þeir hefðu fyrir
þremur myndum síðan átt að
setjast niður með leikstjóranum
og búa sér til persónur. Á milli
þeirra persóna” hefði kannski
myndast spenna og pínu dramat-
ík sem héldi áhorfandanum við
efnið rnilli hláturframköllunarat-
riða.
Að þessu sögðu og afloknu:
það má vera meiri fýludallurinn
sem ekki skemmtir sér ein-
hverntíma í þessari mynd. Þeir
félagar tveir fara víða á kostum,
og samleikarar þeirra bregðast
ekki skyldu sinni: Siggi Sigurjóns
löghlýðni róninn, meinhornið
Bríetar Héðinsdóttur eða Þór-
hallur Sigurðsson í hlutverki karl-
afstyrmisins. Bestur finnst mér
alltaf Flosi. Það er hreint með
ósköpum hvað þeim leikara og
rithöfundi tekst livað eftir annað
að láta menn hlæja að leiðinlegu
fólki.
Svo er bílaleikur sem ég kveið
fyrir að sjá vegna þess ég hélt að
amríkanar væru búnirað afgreiða
þau mál í eitt skipti fyrir öll, en
bílahasarinn var ágætlega lunk-
inn í þessu kunnuglega umhverfi,
og San Fransisco-stælingin við
Austurbæjarskólann hreint
óborganleg.
Fýludallurinn sem áðan var
getið væri vís til að setjast niður
við ritvél og rakka niður kvik-
myndina Löggulíf, og það yrði
sumpart erfitt að svara honum:
já, myndin skilur ekki mikið
eftir; já, sumir brandararnir eru
endurteknir of oft; já, taka og
klipping hefði mátt vera ögn
harðhnjóskulegri, en í þessu
þrasi stöndum við ekki sem vilj-
um hafa íslenskar kvikmyndir,
skemmtum okkur við að
skemmta okkur og höldum með
Þráni Bertelssyni.
ARGUS/SlA
Jóhannes Geir
Ný bók í bókaflokknum
ÍSLENSK MYNDLIST
Jóhannes Geir er tvímælalaust einn þeirra myndlistar-
manna sem vakið hafa hvað mesta athygli á síðari árum
og á nú tryggan sess meðal þeirra útvöldu málara sem
listunnendur fylgjast með af eindregnustum áhuga. í
þessari bók birtast tvær ritgerðir um listamanninn.
Sigurjón Björnsson prófessor, æskufélagi Jóhannesar
Geirs og náinn vinur, ritar einkar skemmtilega um
bernskuslóðir þeirra á Sauðárkróki, listnám o.fl. Aðal-
steinn Ingólfsson listfræðingur fjallar í ritgerð sinni um
sérkenni Jóhannesar Geirs meðal íslenskra listmálara. í
bókinni eru litprentanir 49 málverka eftir Jóhannes Geir
auk teikninga eftir hann og fjölmargra ljósmynda.
LISTASAFN ASÍ LÖGBERG