Þjóðviljinn - 13.04.1986, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 13.04.1986, Blaðsíða 4
AF SJONARHÓLI Ólafur Haukur Símonarson, rithöfundun Af menningarumrœðu og fimm flöskum af rússneskum vodka „Vissulega eru þessir djöflar ekki á sjó...aö afla þess sem skríllinn í landi eyöir og sóar, en þeir gera manni lífið þó bærilegt í landlegum!" SANDGERÐI 1963 Það er búið að landa 15 tonn- um af fiski og spúla lestina og dekkið og það er myljandi rok. Það verður ekki róið í nótt, segir kallinn og dregur upp þrjár vodkaflöskur í lúgarnum og lyft- ist þá heldur brúnin á mann- skapnum. Þvoið ykkur fyrst helvítin ykk- ar, segir karlinn sjálfur grútskít- ugur og hlammar sér niður við þríhyrnt borðið og enginn hlýðir þessari skipun, heldur teygja menn sig hver í sína könnu á bit- anum. Og karlinn hellir í ótæpi- lega. Kabyssan er rauðglóandi og malar notalega og báturinn nudd- ar sér utaní bryggjustólpana eins- og hross að klóra sér. Ég er fimmtán ára gamall og verða að fara að ósk karlsins að láta mér blandið nægja, enda hefi ég meiri áhuga á því en áfengingu. Það er talað um fískerí nokkra stund, raktar hlálegar sögur af formönnum og vélstórum á öðr- um fleytum; þá er komið að póli- tíkinni. Ég sperri mín fimmtán ára gömlu eyru; hér er ekki töluð nein tæpitunga. Og ég fæ að vita (ekki í fyrsta skipti) að það búa tvær þjóðir í þessu landi, helvítin í landi sem aldrei gera ærlegt handtak, og sjómennirnir sem afla verðmætanna. Það geysar borgarastyrjöld: annarsvegar landkrabbarnir, hinsvegar sjó- mennirnir. Og það hallar á sjó- mennina og því er allt á leið til andskotans. Svo er Alþingi og hyskið sem þar rolast sent norður og niður og á eftir því nokkur stykki ráðuneyti, fyrst Sjávarút- vegsráðuneytið og í kjölfar þess fiskifræðingastóðið alltsaman, og síðan bankastjórar, og þá koll af kolli uns verulega er tekið að fækka stjórum og öðrum valds- mönnum á höfuðborgarsvæðinu. Þriðja vodkaflaskan ' er af- meyjuð. Já, ekki má gleyma þessum djöflum sem riðlast á þjóðfé- laginu og þykjast vera listamenn, segir kokkurinn (flóttamaður frá Akureyri), þessu atómskálda- pakki sem aldrei hefur komið saman óbrjálaðri stöku, hvaðþá meir. Og eru nú listamenn úr hinum ýmsu greinum flegnir lifandi eða slegnir af á meðan þriðja vodka- flaskan er tæmd. Allt þetta þykir mér, fimmtán ára strákfjanda, afar skemmti- legt, en af einhverri dularfullri ástæðu er ég mönnunum við . <•> ðið ekki sammála, hvorki um eitt né neitt. En mér er skítsama. Ogþað er hitasvækja í lúgarnum, táfyfa og mikil nálægð við dauðann, sem enginn nefnir nokkru sinni. Kallfjandinn, lumar hann ekki á tveimur flöskum til viðbótar! Það er ekki á hann logið, harðari en stálnagli og þurrkuntulegri en ráðuneytisstjóri fyrir utan hafn- argarða, en meyr og mjúkur eins- og folaldakjöt uppvið bryggju og allra aumingja hjálparhella í landi. Nú er komið að yfirnáttúr- legum sögum. Það er vélstjóra- dýrið sem sér um þann dagskrár- lið. Hann er sjór af draugasögum og eyrun á mér lengjast og halda áfram að lengjast. Fylgjur, fyrir- boðar, ógæfutákn, sjó- og vatna- skrímsl, munurinn á sjódraug og landdraug, yfirnáttúrlegir hæfi- leikar, afdrifaríkar draumfarir. (Síðar gerði ég mér Ijóst að mannhelvítið var þrautlesinn í ís- lenskum þjóðsögum, en færði þær notalega í stílinn, tengdi þær verstöðvum, skipum og for- mönnum, sem við jafnvel þekkt- um af orðspori. Og hann sagði vel frá. Kalt vatn gusaðist milli skinns og hörunds!!) Skál drengir! Karlinn færir okkur beina leið inní síldarævint- ýrið mitt. Það er hans ævisaga að stórum hluta. Á silfurfati færir hann okkur í skýrri og hnitmið- aðri útgáfu merkan kafla úr atvinnusögu þjóðarinnar. Eyrun blakta á þessum unglin^i; hér er komin skemmtilegasta fslands- saga sem hann hefur heyrt. Kokkurinn skorar á stýrimann- inn að taka fáein lög. Stýri dregur lúinn gítar útúr kojunni, stillir hann með stórum höndum sínum og styrkir sig á gúlsopa af vodka áður en hann tekur að flytja syrpu af ljóðum eftir Halldór Laxness, Davíð Stefánsson, Stein Steinarr og Jóhannes úr Kötlum, við lög eftir þekkt eða óþekkt tónskáld. Þetta lag er eftir þig, segir kokkurinn. Þegiðu ormurinn þinn, hvæsir stýrimaðurinn. Það vill einnig til að kokkurinn kann Davíð Stefánsson utan- bókar, og nú fylgir verulega fjöl- breytt Davíðsdagskrá, sem endar með einsöng kafteinsins (Dala- kofinn). Nu þarf ég unglingsskjátan að monta mig og fer með þessar fáu línur sem ég kann úr Tímanum og vatninu. Og það er einsog hellt sé olíu á eld, menn ryðja útúr sér ljóðmælum meðan kálað er end- anlega fjórðu flöskunni og sú fimmta opnuð. Á þeirri fimmtu koma til um- ræðu eftirgreindir aðilar og efnis- flokkar þeint tengdir: Helgi Pét- „Og eru nú listamenn úr hinumýmsu greinumflegnir lifandi eða slegnirafmeðan þriðja vodkaflaskan er tœmd.“ urs (Nýall), Helgi Hjörvar (lestur og andi Islendingasagna), Kiljan (snilligáfa), Páll Pétursson (mis- skilin séní), Gunnlaugur Sche- ving (okkar maður), Kjarval (ís- lensk náttúra í myndlist og geð- veiki), Guðmundur Jónsson (Hann skal svo syngja mig í gröfina sá fjandi!) Niðurstaða skipstjórans sam- þykkt af öllum viðstöddum, þó ekki án umræðu: ísland þarfnast snillinga!! Rökstuðningur kallsins: Hvað værum við án snillinga? Róðrar- stöð útí hafsauga sem gæti sokkið til helvítis án þess að nokkur tæki eftir því! Frekari rökstuðningur: Vissu- lega eru þessir djöflar ekki á sjó (kallað frammí: Kjarval var á skútu, Þórbergur líka) að afla þess sem skríllinn í landi eyðir og sóar, en þeir gera manni lífið þó bærilegt í landiegum! Enn frekari rökstuðningur (kokkurinn): Ég mundi ekki nenna að lifa nema af því ég sá, þegar ég var strákur á Akureyri, að Davíð Stefánsson lét sig hafa það að lifa, þótt hann sæi engan tilgang í því, nema til að yrkja fáein ljóð. Vélstjórinn: Ég hef lifað í von- inni um það alla ævi að fá að sjá draug. Stýrimaður: Ég ætla að læra al- mennilega á hljóðfæri í næsta lífi. Ég vil að börn læri á hljóðfæri! Háseti: Kiljan er mesta skáld í heimi. Það kemst enginn í hálf- kvisti við hann. Annar háseti: (lemurí borðið). Við eigum fullt af skáldum sem geta bakað tjallann, eða að minnsta kosti dani! Fyrsti háseti: Hafiði lesið Steinar Sigurjónsson, Ástar- sögu? Mikið djöfull er það skemmtileg bók! Kallinn: Jæja, haldið nú kjafti strákar mínir og farið að sofa í hausinn á ykkur. Við þurfum að steina niður tvær trossur í fyrra- málið. Umræðum lokið og listrænum flutningi tónlistar og talaðs máls. Fimmtán ára bólugrafinn ung- lingur fer úr saltstokknum galla- buxum og veltir sér inní kojuna. Hann starir uppí neðra borðið á þilfarinu, sem er þrjátíu senti- metra frá nefi hans, og hugsar: Ég er ekki að segja þessum tudd- um að ég ætla að verða skáld. En ef ég skrifa einhverntíma eitthvað, þá ætla ég að hafa það þannig, að þeir nenni að lesa það. Frá Grunnskóla Garðabæjar VORSKÓLI Innritun sex ára barna þ.e. barna sem eru fædd á árinu 1980 fer fram í Flataskóla s. 42656 og Hofsstaðaskóla s. 41103 vikuna 14.-18. apríl kl. 10-15. Skólahverfi Hofsstaðaskóla er norðan Vífils- staðavegar og austan Bæjarbrautar. Önnur hverfi ásamt Hnoðraholti eru í Flataskóla. Það er mjög áríðandi að foreldrar láti innrita börnin á þessum tilgreinda tíma, eigi þau að stunda for- skólanám næsta vetur. ERTU AÐ FLYTJA í GARÐABÆ? Innritun skólaskyldra barna og unglinga sem flytja í Garðabæ fyrir næsta vetur fer fram í skól- unum vikuna 14.-18. apríl. Það er mjög áríðandi vegna nauðsynlegrar skipulagningar og undirbúningsvinnu að öll börn og unglingar, sem svo er ástatt um, verði skráð á ofangreindum tíma. Nemendur sem fara í 6.-9. bekk næsta vetur eru innritaðir í Garðaskóla s. 44466 og í 3.-5. bekk í Flataskóla. Nemendur í forskóla, 1. og 2. bekk skiptast eftir skólahverfum milli Hofsstaðaskóla og Flata- skóla. Þeir sem hyggjast flytja úr bænum fyrir upphaf næsta skólaárs tilkynni það vinsamlegast á skrif- stofur skólanna. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Skólaf ulltrúi

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.