Þjóðviljinn - 07.11.1986, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 07.11.1986, Blaðsíða 14
MINNING Framh. af bls. 13 hljóðlát og dálítið í ætt við þenn- an tón sem mér hefur orðið svona tíðrætt um. Af því dreg ég þá náttúrlegu ályktun að nú sé tregi Kristjáns djúpur. Léttvæg orð mín synda vitaskuld ósköp klaufalega á yfirborðinu en samt vil ég biðja þau fyrir einlægar samúðarkveðjur frá mér og mín- um til Kristjáns og hinna sem nærri standa. Þorgeir Þorgeirsson Kristín Anna Þórarinsdóttir var löngu landskunn leikkona, þegar hún fluttist hingað að Laugarvatni með fjölskyldu sinni árið 1967, en þá var eiginmaður hennar, Kristján Árnason, orð- inn fastur kennari við mennta- skólann. Hér átti hún fast heimili til 1975 og dvaldist hér raunar oft eftir það um lengri eða skemmri tíma. Hér verður engin tilraun gerð til að rekja æviatriði hennar og listferil, aðeins fest á blað fá- ein kveðju- og þakkarorð fyrir þátt hennar í sögu skólans - og ógleymanleg persónuleg kynni. Enda þótt Kristín Anna hefði stórt heimili að annast var brátt leitað til hennar um aðstoð við leiklistarstarf í skólanum, bæði með leikstjórn og kennslu í fram- sögn. Og þar er skemmst af að segja, að fyrir atbeina hennar mótaðist sú venja að setja árlega upp leiksýningu, sem stæði a.m.k. jafnfætis öðrum sýningum áhugafólks. Þetta hefur tekist síðan, þó að nemendur skólans hafi lengst af ekki verið fleiri en 160-200. Ýmsir ágætir leikstjórar aðrir hafa starfað hér hin síðari ár, en fullyrða má að sú alúð og sá metnaður, sem Kristín Anna lagði í leikstjórn sína fyrstu árin, hefur lyft þessum þætti skólalífs- ins og félagslífi nemenda svo að varanlegt hefur orðið. Ekki þarf að hafa fleiri orð um hvers virði það er skólastofnun að fá að njóta hæfileika listamanna með slíkum hætti. - Þess er einnig að minnast að Kristín Anna bar slíka persónu að nærvera hennar setti um margt sérstæðan - en máski ólýsanlegan - menningarsvip á skólann, eins og listgyðjan sjálf væri með einhverjum hætti nær en ella. Við fyrstu kynni bar Kristín Anna með sér glæsilega siðfágun og göfugmannlega reisn; nánari kynni leiddu í ljós hliðstæða mannkosti. Hún var fágætlega nærfærin og næm á tilfinningar annarra; listamannslund hennar var viðkvæm og stórbrotin í senn. Milli heimila okkar voru marg- vísleg kynni, enda börn okkar á svipuðum aldri. ÖIl þau sam- skipti eru mér og fjölskyldu minni dýrmæt og ljúf í minningu. Eftirlifandi eiginmanni Krist- ínar önnu, bömum hennar, Eyjólfi Kjalari, Öldu, Árna og Þórarni, öldruðum föður hennar og ástvinum öllum sendum við Rannveig innilegar samúðar- kveðjur. Kristinn Kristmundsson Kristín Anna Þórarinsdóttir lést á Borgarspítalanum aðfara- nótt 2. nóvember síðastliðinn eftir erfitt og strangt sjúkdóms- stríð, sem hún háði með þeim ó- bilandi kjarki, sem hetjum einum er gefinn. Eg fylgdist með sjúkdómsbar- áttu Önnu Stínu, en undir því nafni gekk hún meðal vina og vandamanna, frá því að fyrstu sjúkdómseinkennin gerðu vart við sig í lok janúar mánaðar síð- astliðinn. í fyrstu afar sakleysis- leg einkenni, sem ágerðust jafnt og þétt eftir því sem á veturinn leið. Hugur minn reikar til sunnu- dagsins 11. maí síðast liðinn. Anna Stína hafði legið inni á sjúkrahúsi til ítarlegrar rann- sóknar, en fékk að fara heim til fjölskyldu sinnar um helgina og átti að koma aftur á sjúkrahúsið áðurgreindan dag. Glampandi vorsólin skein frá alheiðum himni, en vegna ríkj- andi norðanáttar, sem varað hafði um skeið, var kuldanepja, þar sem ekki naut skjóls, og vor- gróður lá í dróma vegna vorkuld- ans. Anna Stína hringdi í mig árla þessa vormorguns. „Ég vissi, að þú værir vöknuð,“ sagði hún, „en ég er búin að liggja vakandi frá því fyrir klukkan sex í morgun, ég er víst farin að aðlagast spítalalíf- inu.“ Við töluðum saman drjúg- langa stund, en síðan sagði hún: „Gerður, ég er hærdd. í kvöld fer ég aftur á spítalann, og á morgun fæ ég úrskurð frá sjúk- dómsrannsóknunum öllum.“ Næsta dag fór ég til hennar á spítalann, en þegar ég kom inn á sjúkrastofuna, þar sem Anna Stína hafði legið, var rúmið henn- ar autt. „Hún var flutt á aðra stofu í morgun," sögðu konurn- ar, sem höfðu legið á stofu með henni. Þar sem ég stóð inni í sjúkrastofunni og horfði á autt sjúkrarúmið, hríslaðist um mig vonleysis kuldahrollur, miklu kaldari en norðannæðingurinn úti. Ég gekk hljóðum skrefum að nýja sjúkrabeðinum hennar Önnu Stínu, sem nú var á einbýli. Eiginmaður hennar sat hjá henni, en stóð upp og sagði „Ég ætla að leyfa ykkur að vera einum um stund.“ Við tókumst þétt í hendur án þess að talast við, en síðan rauf hún dauðans kyrrðina og sagði: „Það er krabbamein, eins og mig grunaði, ég á aðeins örstutt líf fyrir höndum. Að vísu ætla læknarnir að reyna bæði lyfja- og geislameðferð, en bata- horfur eru hverfandi litlar. “ Það var áhrifaríkt að sjá og fylgjast með viðbrögðum fjöl- skyldu Önnu Stínu við þessum válegu tíðindum. Allt var gert, sem í mannlegu valdi stóð til þess að létta henni sjúkdómsbyrðina, sem ágerðist með ógnarhraða. Bæði Kristján, eiginmaður henn- ar, og börnin, Eyjólfur Kjalar, Alda, Árni og Þórarinn, svo og fjölskyldan öll veittu henni ómælda umönnun og styrk, og sjálf tók hún örlögum sínum af slíku æðruleysi og hetjulund, sem aldrei gleymist þeim, sem með fylgdust. Sína síðustu krafta not- aði hún til þess að fegra og dytta að heimilinu þeirra að Grundar- stíg 12, enda lagði Anna Stína alla tíð metnað sinn í að halda heimilinu fallegu og hlýlegu, og þar skipuðu bækur, blóm, ljós og listaverk öndvegi. Og svo kom sumarið með marga yndislega og fagra sólar- daga. Ánna Stína unni sól og sumri, hún var í eðli sínu sannkallað sólskinsbam, og hvert sinn er af henni bráði, keyrði Kristján hana út í sólskinið, og veitti það henni mikla gleði. í eðli sínu var hún náttúrubarn, sem unni gróðri og fegurð lands- ins. Við fórum saman í nokkrar ferðir inn á íslensk öræfi, og hafði hún orð á því, að sér opnaðist nýr, fagur og áður óþekktur heimur. Á síðastliðnu sumri komst hún nokkrum sinnum í heimsókn í sumarbústað okkar hjóna, sem stendur við sjávarsíð- una á Vatnsleysuströnd, og gladdist hún innilega yfir blóm- unum og trjáplöntunum, sem við vorum að rækta, en bað alltaf um að verða keyrð alveg niður að sjónum til þess að heyra sjávar- niðinn og anda að sér fersku sjáv- arloftinu. Anna Stína var falleg kona, fínleg og framganga hennar öll var fáguð, hlýleg og aðlaðandi. Hún var ákaflega listhneigð og unni allri fegurð, jafnt fegurð himinsins og náttúrunnar allrar, sem fegurð tóna, lita, forma og bókmennta. Af öllum listum var leiklistin henni hugfólgnust, enda þjóðkunn leikkona og upplesari og í allra fremstu röð íslenskra Ijóðalesara. Hún hafði ákaflega þýða og hljómfagra rödd, og sitt daglega málfar vandaði hún svo, að athygli vakti. Vegna óvenju fjölþættrar lífsreynslu Önnu Stínu var hún vinum sínum skilningsrík, nær- gætin og sannur vinur í gleði og sorg. Hún þekkti lífið frá öllum hliðum þess flestum öðrum betur og átti því afar auðvelt með að setja sig í annarra spor, uppörva og hugga, samgleðjast, skilja og fyrirgefa. Þegar ég kynntist Önnu Stínu fyrst, hafði hún fyrir fáum árum gifst Kristjáni Arnasyni, kennara við Háskóla íslands og Mennta- skólann að Laugarvatni, og áttu þau silfurbrúðkaup í september síðastliðnum. Þau hjónin áttu óvenju mörg sameiginleg áhugamál, sem ásamt einlægri væntumþykju tengdu þau saman órjúfandi tryggðaböndum. Meiri kærleik og umönnun en Kristján sýndi Önnu Stínu í hennar þungbæru veikindum er ekki hægt að hugsa sér. Og þegar að endalokum dró, vék hann vart frá sjúkrabeði hennar, hvorki dag né nótt. Og svo var einnig um börnin og fjöl- skylduna alla. Á Borgarspítalanum á deild A- 6 naut Anna Stína hinnar fullkomnustu hjúkrunar og kær- leiksríkrar umönnunar hjúkrun- arliðs deildarinnar, sem ég veit, að fjölskyldan og vinahópurinn er mjög þakklát fyrir. Við Egill færum hér hugheilar þakkir fyrir áratuga vináttu við Önnu Stínu og Kristján og þeirra fjölskyldu, fyrst að Laugarvatni og síðan hér í Reykjavík. Við sendum öllum aðstand- endum okkar dýpstu samúðar- kveðjur. Guð blessi minningu Kristínar Önnur Þórarinsdóttur. Gerður H. Jóhannsdóttir Okkur setur hljóða þegar ást- vinir hverfa á braut. Svo var um mig þegar ég heyrði andlátsfregn Önnu Stínu. En í þeirri þögn var söngur. Fyrsta minning mín um önnu Stínu, flutningur hennar á Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Þung er sú þögn í landi álfar ugga um sinn hag, þá horfið er af heiminum brott það Ijúflingslag. Lindin spyr vindinn: - Hví syngur hann ekki í dag? Er ég var sextán ára unglingur, var ég í sumarvinnu í frystihúsi norður á Akureyri. Klæddur slopp og stígvélum mokaði ég fiski á færibönd í þrettán tíma á dag og beið þess að óendanlegur dagurinn liði. Að vinnudegi lokn- um fór ég úr stígvélunum og hvíldi fætuma í heitu vatni, setti hljómplötuna með Sóleyjar- kvæði á fóninn og hlustaði á plötuna frá upphafi til enda, fyrr lauk ekki fótabaðinu. Þetta varð athöfti sem var endurtekin dag- lega sumarið á enda. Ég heillaðist af fínlegum og næmum flutningi Önnu Stínu á ljóðunum. Fáa hef ég síðan heyrt snerta jafn fagur- lega strengi ljóðhörpunnar sem hún. Af hrifnæmi unglingsins lærði ég vitaskuld fljótlega ljóðin utanað - og dagarnir við færi- bandið urðu léttbærir. Ég þurfti ekki annað en að láta hugann reika lítillega og rödd Önnu Stínu hljómaði í huga mér. Mig gmnaði allra síst þá, að sextán ámm síðar ættum við eftir að standa saman á sviðinu og leika hvort sína hlið sömu mann- eskjunnar. Ég nánast í sömu múnderingu og í frystihúsinu forðum. En nú var Anna Stína þögul. Hún kenndi mér þar og sýndi, að góður leikari getur sagt átakamikla sögu án þess að segja orð. í tæpa tvo klukkutíma stans- laust sagði hún okkur lífshlaup konu, þannig að engan lét ósnort- inn. Það er vandasamur leikur sem hún hafði fullkomlega á valdi sínu. Þetta var auðvitað Ella, síð- asta hlutverk hennar á sviði. Það var mín gæfa að fá að kynnast svo náið hæfileikum hennar og ást á leiklistinni. Tak- markalausri fórnfýsi fyrir þá list sem var Iíf hennar. Jafnvel þó sjúkdómurinn, sem nú hefur dregið hana til dauða, gengi miskunnarlaust á krafta hennar, þá barðist hún á móti, svo fáa grunaði hversu stór leiksigur var í rauninni unninn á bak við grímu persónunnar. Nú er aðeins þögnin eftir og minning um óviðjafnanlegan listamann sem ómar í þögninni. Ég votta eftirlifandi eigin- manni hennar og börnum mína dýpstu samúð. Viðar Eggertsson Kveðja frá Leikfélagi Reykjavíkur Kristín - Anna Þórarinsdóttir leikkona er látin fyrir aldur fram eftir langa og erfiða sjúkdóms- legu. Hún var ein af athyglisverð- ustu leikkonum landsins, þótt ekki léki hún mikið hin síðari ár. Hún kom ung til starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur, tæplega tvítug að aldri og kom fyrst fram í hlutverki í gamanleiknum Frænku Charleys. Hún lék síðan svo til samfellt með félaginu í ein fimmtán ár, oft veigamikil og kröfuhörð hlutverk, en atvik höguðu því svo, að þá flutti hún út á land og það var ekki fyrr en nú á síðustu árum sem hún lék á ný hér á höfuðborgarsvæðinu. Leikferill Kristínar Önnu hjá LR spannar árabilið 1954-67, blómaskeið sitt átti hún um og uþp úr 1960. Hún var í þeim fá- menna hópi, sem fastráðinn var hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þeg- ar því var breytt í atvinnuleikhús árið 1963. Meðal hlutverka, sem hún fór með má nefna: Ödu í Nóa, írínu í Þrem systrum, Lauru í Glerdýrunum, Guðrúnu Ægis í Deleríum búbónis, ungu eigin- konuna í Ástarhringnum, Colub- inu í Tveggja þjónn að ógleymdri sjálfi Júlíu sem hún lék með glæs- ibrag í sviðsetningu írska leikstjórarns Thomasar Mac- Anna á 400 ára ártíð Shakespear- es 1964. Kristín Anna fluttist síðan út á land, þar sem hún starfaði mikið að leikstjórn með áhugaleikfé- lögum, lengst af á Laugarvatni og var hún ómetanleg hvatning og leiðtogi listelskum mennta- skólanemendum sem og öðrum staðarbúum. Kristín Anna lék á sínum tíma töluvert í útvarp og las oft upp ljóð enda meðal okkar albestu flytjenda á bundið mál. Hún lék einnig lítilsháttar í Þjóðleikhús- inu, síðast í norska leikritinu Fimm konur og var það hennar „come-back“ á höfuðborgar- svæðinu. Síðustu árin gafst okkur svo aftur kostur á að njóta listar hennar í sýningu Alþýðu- leikhússins á Bitrum tárum Petru von Kant og nú síðast í vor túlk- aði hún með ógleymanlegum hætti eymd, niðurlægingu og ein- semd móðurinnar þöglu í sýningu Egg-leikhússins á leikritinu Ellu. Kristín Anna var sérstök kona. í minningunni lifir leikur hennar sem eitthvað hreint, tært og ó- spillt. í rödd hennar og framsetn- ingu var kátína og tregi oft sam- fléttað á sérkennilegan hátt. Yfir Önnu Stínu hvíldi iðulega þetta undarlega, dulúðuga og óskil- greinanlega, sem skilur á milli af- burðaleikara og góðs leikara. Það var óralöng leið milli geisl- andi æskufjörsins í Júlíu hennar forðum og nístandi vesældómsins í Ellu en báðar þessar persónur eru meðal þeirra sjaldgæfu gim- steina, sem við áhorfendur mun- um varðveita í minningunni - lengi, lengi. Að hafa veitt okkur þá gleði og ánægju, snortið okkur trega og harmi: hæfileikinn sá er náðargjöf. Þá náðargjöf hafði Kristín Anna hlotið og kunni að rækta. Blessuð sé minning henn- ar. SB frn 9 Þræðslumiðstoð IÐNAÐARINS Byggingamenn Námskeiö um loftræstar útveggjaklæðningar verður haldið 17.-19. nóv. Upplýsingar og innritun í símum 687440 og 687000. MðÐVIUINN blaðið sem vitnað erí 4Í 44V 14 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Föstudagur 7. nóvember 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.