Þjóðviljinn - 19.11.1986, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 19.11.1986, Blaðsíða 4
LEIÐARI Niðunifið í Kvosinni Á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar hefur það nú gerst, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur knúið í gegn samþykki við stórkostlegt niðurrif á sögufrægustu húsum borgarinnar í Kvosinni. Þetta er gert undir því yfirskini að menn séu að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Kvosina, elsta hluta Reykjavíkur. Hvílík vinnubrögð. Hví- lík menningarleysa. Það er óhætt að taka undir með Guðrúnu Ágústsdóttur, borgarfulltrúa, sem í Þjóðviljan- um lét hafa eftir sér að samþykkt Kvosarskipu- lagsfns í skipulagsnefnd höfuðborgarinnar væri sannkallað menningarsögulegt áfall. Og það er vísast við hæfi að óska Sjálfstæðisflokknum hjartanlega til hamingju með að hafa skráð sig inn í borgarsöguna sem þann flokk, sem hélt upp á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar með því að leyfa niðurrif á elstu og sögufrægustu húsum staðarins. Það veit hvað það á að gera sér til frægðar, þetta lið. Sem dæmi um eyðingarstefnuna sem felst í hinu nýsamþykkta Kvosarskipulagi má nefna, að gjörvöll húsaröðin frá Nýja Bíói í Lækjargötu að bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti var dæmd til niðurrifs. í þessari húsaröð er meðal annars Austurstræti 22, þriðja elsta hús borgarinnar, með öfluga sögu að baki. Niðurrif á því húsi er óverjandi, jafnt frá fagurfræðilegum sem menningarsögulegum sjónarmiðum. Það er bókstaflega óskiljanlegt. Höfundar niðurrifsins drógu að vísu örlítið í land. Vegna mikilla mótmæla við hugmyndum um niðurrif húsaraðarinnar fyrrnefndu breyttu þeir á síðustu stundu tillögunni að Kvosarskipu- laginu þannig að forhliðar Austurstrætis 22 og Lækjargötu fá að standa, en stórhýsi verði hins vegar byggð fyrir aftan. Ýmsum kann að þykja þetta áfangasigur. Það breytir hins vegar litlu. Leiktjöld í hollívúddstíl geta aldrei orðið tenging við söguna sem þarna gerðist. Slysið sem felst í niðurrifinu út um alla Kvos er jafn geigvænlegt sem áður. Það er fróðlegt að kanna misræmið í annars vegar yfirlýstum markmiðum höfunda Kvosar- tillögunnar og hins vegar tillögunum sjálfum. Þannig er lagt til að nýbyggingar taki sérstakt mið af „sérkennum og hlutföllum núverandi byggðar". En samhliða er svo lagt til að rifin séu einmitt þau hús, sem gefa núverandi byggð sterkast svipmót og ríkust sérkenni. Höfundar staðhæfa einnig að þeir hafi lagt „ríka áherslu á að halda þeim húsum, er hafa menningarsögulegt gildi...“ Hvernig er hægt að samrýma þetta niðurrifi eða misþyrmingu á húsi á borð við Austurstræti 22? Kvosarskipulagið sem nú er búið að sam- þykkja mun leiða til niðurrifs nærfellt 30 af elstu húsum borgarinnar. Og það hljóta að teljast fordæmanleg vinnubrögð að við samþykkt skipulagsins er ekkert mið tekið af því mati sem Árbæjarsafn hefur lagt á varðveislugildi sumra þessara húsa. Það er líka vert að draga athygli manna að því, að með hinu nýja skipulagi er gert ráð fyrir stórauknu byggingarmagni í Kvosinni og þaraf- leiðandi miklu meiri umferðaráþján í miðborg- inni. Afleiðingin verður sú, að lagt verður í breikkun gatna. Umferðaræðar munu skera Höfnina, Tjörnina og austurhluta Lækjargötu snyrtilega frá Kvosinni. Fríkirkjuvegur og Sól- eyjargata verða breikkaðar svo nauðsynlegt verður að fórna sneiðum af Hljómskálagarðin- um og Tjörninni, perlu Reykjavíkur, á altari stór- aukinnar umferðar. Það nær engri átt. Þó vissulega megi vera sammála ýmsum markmiðum Kvosarskipulagsins og taka undir vissajákvæða viðleitni sem kemurfram íhenni, þá hljóta Reykvíkingar að berjast gegn því órök- studda niðurrifi sem verður afleiðingin af fram- kvæmd skipulagsins. í því felst einfaldlega atlaga að sögu og menningu Reykjavíkur sem borgarbúar í nútíð og framtíð hljóta að líta á sem ófyrirgefanleg mistök. -ÖS KUPPT OG SKORIÐ I hvað fara peningar? Það var í fjölmiðladálkum Morgunblaðsins á dögunum ver- ið að hrósa Sambandi íslenskra samvinnufélaga fyrir að hafa stutt beina sjónvarpsútsendingu frá keppni um titilinn Ungfrú Heimur í London. Betur að það væri háð en ekki lof - blátt áfram vegna þess, að landsmenn allir hefðu auðveld- lega komist af án þess hrútleiðin- lega auglýsingasjónarspils sem alþjóðleg fegurðarsamkeppni er. Miklu meiri ástæða reyndar til að þakka það, eins og Morgun- blaðið gerir í leiðara sínum í gær, að fjögur fyrirtæki lögðu fram fjárhagslegan stuðning til að þjóðin gæti séð í sjónvarpi II Tro- vatore í flutningi íslensku óper- unnar á sunnudagskvöldið var (Almennar trygginaar.Eimskip, Flugleiðir og Sól). Stjórnendum íslenskra fyrir- tækja hefur löngum verið annað betur lagið en að hjálpa upp á menninguna með fjárframlögum - og þegar það gerist er rétt að taka vel eftir því. Ráðstefna um óperuflutning í leiðara Morgunblaðsins, sem hér er til vitnað, er að vonum lok- ið lofsorði á óperusýninguna og flutning hennar um sjónvarp. ís- lenska óperan sem á fimm ára af- mæli innan tíðar, minnti á sig með mjög eftirminnilegum hætti. Um leið erum við minnt á það, að þótt íslensk þjóð hafi árum sam- an staðið í miklu stríði (með les- endabréfum í blöðum ofl.) gegn „aríugauli" í ríkisútvarpinu, þá hefur hún tekið þetta listform í sátt. Sýnir það vaxandi áhuga, eins og dæmin sanna og gerir okkar bestu söngvara að þjóð- hetjum. En eins og oft var bent á, á ráðstefnu um óperuflutning á ís- landi í nútíð og framtíð, þá er þessi ástríka sambúð fólks við óp- eruna mjög á skjön við þær að- stæður sem óperuflutningi er bú- inn hér á landi. Söngvarar eru einir um það meðal sviðslista- manna að njóta einskis atvinnu- öryggis. Operuflutningur er aukageta hjá þeim. Og mikil óvissa fram- undan - Þjóðleikhúsið í kröggum miklum og getur hvort sem er ekki ráðist í nema eina óperu á ári (sum ár hefur óperuflutningur fallið niður, m.a. vegna fjár- skorts). íslenska óperan hefur getað greitt um 70% af rekstrar- kostnaði sínum með eigin tekj- um, ríkisframlagið hefur verið 20% og tapið þá um tíu prósent „afþessum sökum hefur fyrirtæk- ið smám saman safnað skuldum sem smám saman draga úr þrótti óperunnar“ segir í skýrslu frá óp- erumönnum, sem lögð var fram á ráðstefnunni um helgina. Því er það ekki nema eðlilegt, að tvær meginkröfur komu fram á ráðstefnunni: Önnur er sú að söngvarar verði fastráðnir (þótt ekki hefðu menn komið sér sam- an um það í hvaða formi það helst ætti að vera). Hin er sú að mótuð verði stefna í óperumálum - sem gerir ráð fyrir verulegri þátttöku ríkisvaldsins - bæði að því er varðar fjármál og svo vissa samhæfingu á starfi íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins, sem flestir vilja telja æskilega (þótt komið hafi fram, að menn eru enn ekki á eitt sáttir um það í hvaða formi slík samvinna ætti helst að vera). Morgunblaðið víkur að þessu líka í leiðaranum. Leiðarinn segir um ráðstefnuna: „Eins og við var að búast snerust umrœður þar að verulegu leyti um hlut ríkisins íþví að skapa óperustarfi fjárhags- legan grundvöll. “ Og hvað segir blaðsrisinn um það? Hann vísar málinu frá sér með svotöldum orðum: „Þegar um þessi mál er rœtt má hitt aldrei gleymast að til að mynda, íslenska óperan er eins- takt dœmi um það, að frumkvœði einstaklinganna skiptir sköpum á listasviðinu eins og oftast endra- nœr. Það eru ekki opinberir aðilar sem vinna listgrein á borð við þann sem við kynntumst á sunnu- dagskvöldið. “ Skoðum þetta ögn betur. í fyrsta lagi er það „opinber aðili“, það er að segja Ríkisút- varpið sem flytur óperuna um land allt. í annan stað - hvað þýðir það að „opinberir aðilar“ geti ekki unnið listsigra? Hlýtur óperusýn- ing í Þjóðleikhúsinu að verða lakari en sýning í Gamla bíói, vegna þess að leikhúsið við Hverfisgötuna er ríkisfyrirtæki? Vitanlega var framtak þeirra sem stóðu að stofnun fslensku óperunnar lofsvert. Þar voru fyrst og fremst á ferð listamenn- irnir sjálfir, sem fannst rétt og nauðsynlegt að fara út fyrir þann ramma sem óperuflutningi var settur í Þjóðleikhúsinu (meðal annars vegna þess að skammsýnir stjórnmálamenn halda þeirri stofnun í svelti). Þeim hefur tek- ist að reka óperuna með þeim hætti, að eigin tekjur nema 70% kostnaðar, eins og fyrr sagði, og mundi það þykja mikið afrek hvar sem væri í heiminum. En það hefur líka komið fram að það dugir ekki til - ríkisstyrkurinn er '20%, eins og er vantar 10%, skuldir safnast upp. „Nú er svo komið að áframhaldandi starf- semi verður ekki tryggð nema koma fjárhag óperunnar í betra horf' segir í þeirri skýrslu sem áður var vitnað til. Sverrir Hermannsson mennta- málaráðherra vék að þessum málum á óperuráðstefnunni. Hann sagði að menn ættu að vera bjartsýnir og „nógir væru andskotans peningarnir“. En rétt eins og Morgunblaðið vfsaði hann því frá sér, að þeir væru til- tækir til óperustarfsemi. Ráðherrann átti ekki einu sinni það svar, sem Morgunblaðið virðist bjóða upp á - að vísa á fyrirtækin í landinu. Og mundi það svar duga í reynd? Spyr sá sem ekki veit.. ÁB þlÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Utgefandl: Útgáfufélag Þjóðviljans. Rit8tjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphóðins1 son. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Kristín Olafs- dóttir, Magnús H. Gíslason, Möröur Ámason, ólafur Gíslason. Sigurður A. Friðþjófsson, Valþór Hlöðversson, Vilborg Davíðsdóttir Vfðir Sigurðsson (íþróttir), Ingvi Kjartansson (Akureyri) Handrita- og prófarkalesarar: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar. LJÓ8myndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson. Útllt8tolknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrifstofustjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson. Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson, Olga Clausen, Guðmunda Kristinsdóttir. Símvarsla: Katrín Anna Lund, Sigríður Kristjánsdóttir. Húsmóðlr: Ólöf Húnfjörð. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Afgreiðslustjóri: Hörður Oddfríðarson. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pótursdóttir. Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, Ólafur Björnsson. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning:<Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í tausasölu: 50 kr. Helgarblöð: 55 kr. Áskriftarverð á mónuði: 500 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Mlövlkudagur 19. nóvember 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.