Þjóðviljinn - 17.07.1987, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 17.07.1987, Blaðsíða 10
MINNING Dr. Selma Jónsdótfir forstöðumaður Listasafns íslands Fædd 22. ágúst 1917 - Dáin 5. júlí 1987 Þegar ég lít yfir farinn veg síö- asta aldarfjórðungs er sem fyrstu skref hans hafi verið stigin í gær, svo langt - og þó svo stutt - síðan kynni og síðar samstarf okkar Selmu hófust. Fyrstu minningar mínar um hana eru frá sameiginlegum kaffitímum í Þjóðminjasafni þeg- ar aðeins unnu þar fimm starfs- menn og Selma var ein í Lista- safninu. Fyrir sautján ára ungling bar hún með sér andblæ frelsis og ævintýris þegar hún af gáska og glettni sveiflaðist í frásögn sinni milli broslegra atvika úr yfirborðs- kenndu opinberu veisluhaldi og borgfirskra skemmtana æskuár- anna. Síðar þegar ég hóf störf í Listasafni íslands kynntist ég öðrum og alvarlegri eiginleikum hennar sem ef til vill lágu ekki eins í augum uppi. Selma var vandvirk og nákvæm svo af bar og trú í hverju sem hún tók sér fyrir hendur og ætlaðist skilyrðislaust til hins sama af þeim sem með henni unnu. í sautján ár var hún eini starfsmað- ur safnsins og hafði því unnið öll þau störf sem síðar deildust á fleiri hendur. Hún hafði mjög ákveðna skoðun á því hvernig verk skyldu unnin. Allt sem frá safninu fór skyldi lýtalaust, bréf á vönduðu og skýru máli, fallega sett upp, snyrtilega brotin og beint frí- merkt. Enda var oft á orði haft að póstur frá Listasafninu þekktist frá öðrum. Er mér enn í fersku minni þegar ég fyrir réttum tutt- ugu árum mátti endurskrifa sama bréfið þrisvar og færa henni til lestrar áður en henni líkaði. Með sama hætti mat hún mikils það sem vel var gert. Hún var starfs- mönnum sínum góður félagi og tók fullt tillit til hugmynda þeirra og tillagna, enda var hún gersam- lega laus við yfirmannahroka. Sömu kröfur gerði hún til ná- kvæmni í fræðimennsku og taldi ekki eftir sér ótal ferðir til út- landa á eigin kostnað til að afla sér fanga og eiga viðræður við kollega, en hún var svo lánsöm að telja meðal vina sinna ýmsa fremstu fræðimenn í miðalda- sögu. Selma var einna fyrst kvenna til að veita stofnun forstöðu á ís- landi og galt þess eflaust, einkum á fyrstu starfsárum sínum, hve karlaveldið var sterkt og rótgróið í íslensku samfélagi. Hún lét sér það þó í léttu rúmi liggja, en átti erfitt með að sætta sig við skiln- ingsleysi ráðamanna í garð Lista- safnsins og vanmat þeirra á gildi góðs listasafns fyrir menningu þjóðar. Gat hún þess stundum að hefði safnið ekki notið velvilja listamanna og gjafmildra einstak- Iinga væri listaverkaeignin svipur hjá sjón og bygging safnhússins enn fjarlægur draumur. Eftir fimmtán ára samfellda baráttu hennar fyrir þessari byggingu munaði ekki nema mánuði að hún sæi þann draum sinn rætast að taka hana í notkun. Selma Jónsdóttir var svip- mikill, glæsilegur og heillandi heimsborgari, stoltur Islendingur en þó fyrst og síðast Borgfirðing- ur. Hún rakti gjarnan ætt sína til Egils Skallagrímssonar og má segja að í Selmu hafi speglast sundurleitir eiginleikar Mýra- mannakyns. Austurlensk ein- kenni í andlitsfalli hafði hún þeg- ið í arf frá Hrafnistumönnum en jafnframt bjart yfirbragð og höfðingsskap Þórólfanna. Hún var stórlát og sjálfstæð gagnvart yfirvaldi sem Kveldúlfur og Egill, sannfæring hennar og hagur List- asafns íslands voru ekki föl fyrir umbun og vegtyllur. í vináttu var hún skapheit og traust sem Egill. í umgengni og viðmóti var hún einlæg og hlý, en jafnframt hrein- skilin og berorð. Á tuttugu ára samstarf okkar Selmu bar aldrei skugga. Hún gaf mér hlutdeild í því litríka ævintýri sem lífið sjálft var henni, þar sem allt gat gerst og ekkert var ómögulegt. Karla Kristjánsdóttir Nokkrum árum fyrir strfð var ég vikastrákur á Ulfsstöðum í Borgarfirði. Sumardag nokkurn riðu þar í hlað frændsystkinin Þorsteinn Björnsson frá Bæ og Selma Jónsdóttir og höfðu stutt- an stans, hafa sjálfsagt verið á leið til frænda sinna að Húsafelli. Þessi heimsókn hefur verið mér minnisstæð æ síðan. Þorsteinn var mikill á velli en ég man undar- lega lítið eftir honum að öðru leyti; aftur á móti man ég vel hversu falleg mér þótti Selma, eins og prinsessa úr ævintýrum. Seinna þegar ég rifjaði þetta upp við hana, mundi hún eftir þessu ferðalagi, sagðist hafa verið um tvítugt. Ekki mun drengstaulann þama á hlaðinu á Úlfsstöðum hafa gmnað að hann og prinsess- an ættu eftir að verða nánir sam- starfsmenn eins og raunin varð á Listasafni íslands. Þegar ég var kosinn í Safnráð safnsins árið 1965 hófust raun- vemleg kynni okkar Selmu. Aðr- ir í safnráði þá voru auk Selmu þeir Þorvaldur Skúlason, Ás- mundur Sveinsson og Gunn- laugur Þórðarson. Safnráð undir stjórn Selmu var ákaflega sam- hent og átti hún eigi lítinn þátt í að svo var. Án hleypidóma en með glöggskyggni fékk hún menn til að vinna saman, safninu til heilla. Selma var vel menntuð í sinni grein eins og rannsóknir hennar og skrif um lýsingar í fornum handritum sýna. Auk þess var hún gædd þeim eiginleika sem ekki er öllum gefinn, að vera fljót að átta sig á gæðum myndverka líðandi stundar samtímans. Hún vissi að framvinda í myndlist er byggð á þekkingu á því sem áður hefur verið gert. Þess vegna vildi hún að safnið yrði fullkomið safn þess besta frá upphafi myndlistar landsins. Ég vil fullyrða að henni hefur tekist það og má kalla það kraftaverk. Eins og andrúmið í litlu sand- skúruðu baðstofunni forðum breyttist vegna heimsóknar Selmu, munu salir listasafnshúss- ins sem hún barðist fyrir í mörg ár að reist yrði, verða vitnisburður um langt og árangursríkt starf og um leið minnisvarði um hana. Jóhannes Jóhannesson Allt frá 1950 hafa Listasafnið og Þjóðminjasafnið verið í nánu sambýli í húsi því sem reist var í minningu um stofnun lýðveldis á íslandi. Mikil og margvísleg sam- skipti urðu því óhjákvæmilega með starfsmönnum þessara stofnana. Öll þessi ár var dr. Selma Jónsdóttir húsráðandi á efri hæðinni, í Listasafni Islands. Sumt fólk bregður stórum svip yfir umhverfi sitt og gæðir það lit og lífi. Svo var um Selmu Jóns- dóttur. Hún bjó yfir persónuleika sem allir hlutu að veita eftirtekt og taka afstöðu til. Þeir sem komast til svonefndra mannvirðinga eða hafa á hendi mannaforráð temja sér stundum ábúðarmikinn embættissvip, há- tíðleik og formfestu. Selmu var ólíkt farið. í návist hennar á vinnustað ríkti jafnan fjör og létt- leiki, glens og gaman, sem gerði daglega önn að leik og skemmtan. Hún var því að von- um hjúasæl og mat líka gott starfsfólk að verðleikum. Selma naut sín ágætlega í mannfagnaði og kunni vel að „vera með tignum mönnum", enda var hún heimsborgari að menntun, mótun og smekk, vandlátur fagurkeri, sem gerði strangar gæðakröfur, jafnt í list og lífi. Þá var hún einstakur höfð- ingi heim að sækja og löngum gestkvæmt og glatt á hjalla á hinu fallega heimili þeirra Sigurðar Péturssonar að Ægissíðu 56. Oft nutu grannar hennar í Þjóðminj- asafni risnu og rausnar á því heimili. Vel má vera að teprulegt fólk og húmorlaust, sem þekkti Selmu lítið, hafi tekið hispurslausa gam- ansemi hennar fyrir léttúð og al- vöruleysi. Kunnugir vissu betur. Enginn skyldi ætla það létt ævi- starf eða áhyggjulausan dans á rósum að bera ábyrgð á Listas- afni íslands hátt á fjórða áratug, stofnun sem hún lagði metnað sinn í að efla, en var - eins og fleiri hliðstæðar - eitt af olnboga- bömum ríkisvaldsins. Ólíkar stefnur og straumar í list sam- tímans hlutu líka að brotna á safninu sem varð því oft og einatt skotspónn óvæginnar og ómak- legrargagnrýni. Glaðlyndi Selmu og bjartsýni léttu henni áreiðan- lega andróðurinn sem starfinu fylgdi á köflum. Og ekki má gleyma því að í fræðaiðkunum sínum átti hún athvarf frá erli embættisins, en um þann merka þátt í lífsstarfi hennar verður ekki fjölyrt hér. Tæplega verður Selmu svo minnst að ekki sé getið um ætt- rækni hennar og átthagatryggð, fomar dyggðir sem verka víst hjákátlega á sumt nútímafólk er hirðir lítt um rætur sínar í fortíð- inni. Bæði í föður- og móðurkyn stóðu að Selmu traustir stofnar gildra borgfirskra bænda, þar á meðal ættir þær sem kenndar em við Deildartungu og Húsafell. Hún var fimmti maður í beinan karllegg frá hinum rammeflda galdraklerki Snorra Björnssyni á Húsafelli. Selma fór ekki í launkofa með að hún var stolt af uppmna sínum og þótti gott að ræða um ættmenn sína og átt- haga. Henni var ljúft að minnast bernsku sinnar og æsku í Borgar- nesi þar sem hún naut allsnægta og hins besta atlætis í föðurgarði. Það umhverfi var í huga hennar umleikið töfrabirtu og bar hvergi skugga á. Fyrir allmörgum árum byggði Selma sér veglegan sumarbústað á hlýlegum stað í landi Bæjar, þar sem Bjöm afi hennar hafði búið rausnarbúi. Þar undi hún sér vel að sumrinu þegar tóm gafst til og naut þar aðstoðar góðra granna, Jakobs Jónssonar á Varmalæk og fjölskyldu hans, sem hún mat mikils. Sumarbústaðinn seldi hún á síðast liðnu ári og keypti þá íbúð á Akureyri sem hún mun hafa hugsað sér sem fræðasetur sitt að loknum embættisferli - þótt það færi á annan veg. Fráfall Selmu Jónsdóttur skilur eftir tóm í hugum allra sem þekktu hana og umgengu, og verður hennar lengi minnst með söknuði. Halldór J. Jónsson Fáum árum eftir að ég kom heim frá Kaupmannahöfn og hafði fengið vinnu hjá Handrit- astofnun íslands, sem þá var í húsmennsku í Landsbókasafni ís- lands, var það einn dag að kona ein fasmikii snaraðist inn í hand- ritasal og var töluvert niðri fyrir. Þar var komin Selma Jónsdóttir, forstöðumaður Listasafns ís- lands, og erindið var að biðja mig að líta á mynd í Flateyjarbók. Við drógum fram ljósprentaða útgáfu Munksgaards af handritinu og þar bendir Selma mér á stóran upphafsstaf á baksíðu þriðja blaðs, þar sem hefst þátturinn „Hversu Noregur byggðist“. Stafurinn er stórt N, og inni í hon- um mynd af manni í skósíðum klæðum, sem líklega situr við skrifpúlt, og er opin bók á púlt- inu. „Og hvað stendur á bók- inni?“ spyr Selma; „er þetta þama ekki Jón?“ Jú, reyndar sýndist mér að þarna stæði nafnið Jón og líklega einnig Hákonar- son. Áratugum síðar hef ég aftur litið á þessa mynd í sjálfu handrit- inu og fæ ekki betur séð en að á bókinni sem myndin er af standi: „Jón Hákonarson á mig“. En þannig var Selma Jónsdóttir. Hún hafði einstaka hæfileika til að reka augun í það sem enginn hafði séð áður og engum hafði dottið í hug að gæti verið neitt merkilegt. Um áratugi og aldir hafa menn flett lögbókinni frá Skarði, AM 350 fol., að vísu oft- ast við athuganir á texta, rithönd og málfari, en einnig til að skoða lýsingamar í þessu fallega hand- riti, þar sem kalla má að hver blaðsíða sé listaverk. En það þurfti Selmu Jónsdóttur til að sjá að í þessu handriti er gjafara- mynd í stómm upphafsstaf, F, á forsíðu annars blaðs, þar sem hefst þingfararbálkur. Á þessari mynd er heilög þrenning: drott- inn allsherjar sem situr á sínum veldisstóli, Kristur á krossinum, sem ber í mynd drottins, og hei- lagur andi í dúfulíki yfir höfði drottins. En utan við stafinn krýpur leikmaður og réttir bók inn í myndreitinn til heilagrar þrenningar. Þetta táknar það, að Skarðsbók hafi verið gefin eða ætluð til þess að gefa hana hei- lagri þrenningu eða öllu heldur kirkju sem hefur verið helguð heilagri þrenningu. Um þetta birti Selma grein í Árbók hins ís- lenzka fomleifafélags 1964. Meginviðfangsefni Selmu Jónsdóttur var íslensk miðalda- list. Árið 1959 kom út bók henn- ar, „Býzönzk dómsdagsmynd í Flatatungu", sem hún varði til doktorsprófs við Háskóla íslands 1960.1 þeirri bók sýndi hún fram á að útskurður á svonefndum Flatatungufjölum, sem em varð- veittar í Þjóðminjasafni, sé leifar af dómsdagsmynd. Þar naut hún þess, eins og raunar í öllum síðari rannsóknum sínum, að hún hafði af mikilli elju kynnt sér evrópska miðaldalist. Hún var óþreytandi að ferðast og leita uppi í söfnum, bæði í Evrópu og Ameríku, það sem hún þurfti að sjá, bæði hluti og handrit, til að fá samanburð við það sem hún var að fást við af íslenskri miðaldalist. Einnig var hún ófeimin við að leita eftir að- stoð sérfræðinga utanlands og innan og samvinnu við þá til að leysa verkefni sem hún var að fást við. Hún átti orðið mikið safn af Ijósmyndum af íslenskum handri- tum, og einhvemveginn tókst henni að útvega fé til að kaupa þessar myndir. Þar kom til sá hæfileiki hennar að vekja áhuga manna á því sem hún var að gera og fá menn til að skilja, að þetta þurfti að gera. Árangur rannsókna sinna hefur hún birt í bókum og greinum í tímaritum. Helstu rit hennar, önnur en þau sem þegar hafa verið nefnd, eru „Saga Maríumyndar“ 1964 og „Lýsingar í Stjómarhandriti“ 1971, en margt átti hún þó eftir ósagt. Það háði henni alla tíð að hún átti ekki auðvelt með að koma vitneskju sinni fyrir í rituðu máli, og raunar þurfti hún að beita sjálfa sig hörðu til að sitja við ritstörf. Samt sem áður verð- ur hennar minnst sem brautryðj- anda í rannsóknum á íslenskri miðaldalist. Við sem störfum í Árnastofnun kveðjum hana með þakklæti fyrir þann skerf sem hún hefur lagt til rannsókna á ís- lenskri bókagerð fyrri alda. Ólafur Halldórsson Minningargjafir um dr. Selmu Jónsdóttur Þeim sem vildu minnast dr. Selmu er að ósk pölskyldu hennar vinsamlega bent á Listasafn Islands. Minningarspjöld fást á skrifstofu safnsins og í bókaverslun Snæbjarnar, Hafnarstræti 4. Listasafn íslands 10 SfÐA - ÞJÓÐVILJINN Föstudagur 17. júlí 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.